„Ég kýs að fylgja hjartanu“
Arnar Þór Jónsson gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi
Ég tel að mér sé skylt sem frjálsum einstaklingi að verja samviskufrelsi mitt og tjáningarfrelsi,“ segir Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en greint var frá því á dögunum að hann hefði sagt sig úr Dómarafélagi Íslands á síðasta ári. Arnar Þór hefur vakið athygli fyrir greinar sem hann hefur skrifað samhliða dómarastörfum sínum en hann segir að þeim hafi verið svarað með annaðhvort þögn eða þöggunartilburðum. Arnar Þór hefur því eftir nokkra íhugun ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í júní.
Mótandi námsdvöl vestanhafs
Arnar Þór Jónsson fæddist 2. maí 1971 og er því nýorðinn fimmtugur. Hann segir að hann hafi alist upp á heimili þar sem öll blöðin voru keypt, jafnt Þjóðviljinn sem Morgunblaðið, og hann hafi því ávallt fylgst vel með umræðunni. Ein helsta reynslan sem ýtti Arnari á braut lögfræðinnar var þó dvöl hans sem skiptinemi á menntaskólaárum í Bandaríkjunum, en þar kynntist hann m.a. þeirri hugsun sem liggur að baki vestrænni stjórnskipun. „Við lásum mikið um bandarísku stjórnarskrána og tilurð hennar, við lásum Kommúnistaávarpið, vorum í Biblíulestri og lásum Makbeð, Bjólfskviðu o.fl. Þetta var ótrúlega mótandi tími og ég fékk þar mikinn áhuga á pólitískum og lagalegum undirstöðum samfélagsins,“ segir Arnar Þór, en miðaldabókmenntir og saga hafa einnig verið mikil áhugamál hans, og segir hann þann grunn hafa nýst sér mjög vel. Eftir laganám starfaði hann fyrst sem dómarafulltrúi í Héraðsdómi Reykjaness og síðan í dómsmálaráðuneytinu, áður en hann varð aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands. „Það var mjög lærdómsríkur tími, ég starfaði þar með fólki sem ég leit mikið upp til og ber hlýhug til,“ segir Arnar Þór, en hann var fyrst settur héraðsdómari 2004-2005. Þaðan fór hann í bankakerfið. „Ég sá það fljótt að það hentaði mér ekki,“ segir Arnar Þór og ákvað hann þá um haustið 2005 að fara út í lögmennsku. Sem lögmaður rak hann lengst af lögmannsstofu ásamt Ragnari Aðalsteinssyni og fleirum.
Arnar Þór söðlaði svo um og gerðist fræðimaður og kennari við Háskólann í Reykjavík árið 2011. „Þetta var ekki gáfulegt í fjárhagslegu tilliti, að fara úr lögmennsku í fræðistörf, en ég leit svo á að þetta væri tækifæri sem gæfist einu sinni á ævinni,“ segir Arnar Þór en hann segir það hafa verið mjög gefandi starf og í raun mikil forréttindi að kenna lögfræði á háskólastigi. Arnar Þór fékk dósentsmat árið 2018, en sama ár sótti hann um stöðu í Héraðsdómi Reykjavíkur. „Ég leit svo á að ég væri að snúa heim eftir viðveru í lögmennsku og fræðistörfum,“ segir Arnar Þór.
Tjáningarfrelsið minna
Þegar þangað var komið segist Arnar Þór hafa viljað halda áfram að skrifa og taka þátt í lögfræðilegri umræðu. Dómarar geta ekki síður en aðrir hvatt til íhugunar og vandaðra vinnubragða þegar kemur að lagasetningu og lagaframkvæmd.
„Ég hef sagt að meðan við viljum ekki að mál okkar séu dæmd af tölvum eða gervigreind, meðan við viljum að dómarar séu af holdi og blóði, þá hljóti það að fylgja með að dómarar séu þátttakendur í mannlegu samfélagi og séu í tengslum við það sem er að gerast. Þeir mega ekki loka sig af í fílabeinsturni. Mín tjáning hefur að mestu leyti snúið að almennum undirstöðum lýðræðislegs og frjáls samfélags. Ég tel að það séu merki á lofti um að verið sé að grafa undan þeim stoðum nú á tímum. Ég lít því á greinar mínar sem fræðslu og innlegg í almenna umræðu, því lögfræði er snar þáttur í menningu okkar.“ Hann segist ekki telja að sú tjáning sín hafi verið pólitísks eðlis, heldur hafi hann einfaldlega bent á ákveðinn ramma sem hann vilji verja, ramma frjálslynds lýðræðis í klassískum skilningi. „Áhyggjur mínar snúa að því að það sé verið að þrengja þann ramma með stjórnlyndum sjónarmiðum, sem á sama tíma þrengja að borgaralegum réttindum, tjáningarfrelsi og samviskufrelsi.“
Sneitt að fullveldinu
Arnar Þór segir að hann hafi ekki talið sig geta skorast undan því að tjá sig um þriðja orkupakka ESB. „Ég tel reyndar að það mál sé, hvernig sem á það er litið, hvort sem það er lagalega, stjórnskipulega eða lýðræðislega, mjög sérstaks eðlis. Ég taldi og tel ennþá að það hefði verið ábyrgðarlaust af mér að sitja hjá og taka ekki þátt í umræðunni.“ Hann rifjar upp að kveikjan að því hafi verið ýmiss konar afflutningur um orkupakkann, innleiðingu hans og réttaráhrif, sem og fullyrðingar um að hann stæðist þau skilyrði um fullveldisframsal, sem lögð höfðu verið til grundvallar aðildinni að EES á sínum tíma.
Arnar Þór segir að sér virðist sem hagsmunagæsla Íslands hafi verið í molum þegar kom að orkupakkamálinu. „Það var enginn í markinu þegar málið fór fyrir sameiginlegu EESnefndina og boltinn lak inn.“ Íslendingar verði að standa vaktina betur. „Þá virðist mér að stjórnmálamennirnir hafi talið sig hafa þyngri skyldum að gegna gagnvart erlendum kollegum sínum og mögulega erlendum stofnunum en kjósendum sínum.“ Arnar Þór segir þetta mál hafa vakið sig til umhugsunar um stöðuna. „Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB var augljóslega ekki í lagi, og því meira sem ég hef skoðað þetta sýnist mér blasa við að framsal á íslensku ríkisvaldi hafi gengið allt of langt,“ segir Arnar Þór. Hann segir ákveðna þöggun ríkja um það ástand. „Ég tel að Ísland standi frammi fyrir mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu sem nokkurt vestrænt lýðræðisríki hefur glímt við frá stríðslokum. Við erum komin í samstarf þar sem okkur er veittur aðgangur að ákveðnum markaði gegn þeim skiptum að erlendir aðilar setji okkur lög og taki ákvarðanir fyrir almenning og fyrirtæki hér í sívaxandi mæli. Og þegar það er svo komið, að erlendir aðilar eru jafnvel farnir að seilast í ítök yfir náttúruauðlindum okkar, verða Íslendingar að fara að vakna af þyrnirósarsvefni og taka til ýtrustu varna,“ segir Arnar Þór. „Við núverandi ástand verður ekki unað.“
Jákvæð viðbrögð frá almenningi
Arnar Þór segir að ekki hafi staðið á jákvæðum viðbrögðum frá almenningi, svo að segja þvert á alla flokka, við skrif sín. Öðru máli hafi hins vegar gegnt um kollega sína, en þar gæti töluverðrar feimni við að tjá sig. Arnar Þór segir dómara að öllu jöfnu vilja forðast að standa í ágreiningi. Hann hafi því hvorki upplifað mikla andstöðu né stuðning frá kollegum sínum vegna skrifa sinna. Eftir nokkra umræðu um skrif Arnars Þórs, þá ákvað hann að segja sig úr Dómarafélagi Íslands á vormánuðum síðasta árs, en sú ákvörðun átti sér nokkurn aðdraganda. Arnar Þór nefnir þar meðal annars lokaðan félagsfund í október 2019, sem hann vildi að væri haldinn fyrir opnum tjöldum, en þar var tjáning dómara rædd. Arnar Þór segir að þar hafi spjótum verið beint að sér. „Ég tel að við sem dómarar höfum borgaralegar og lýðræðislegar skyldur gagnvart lögunum og réttarríkinu. Ef einhverjir aðrir innan þessa félags vilja segja mér hvaða skoðanir ég eigi að hafa á lýðræðislegri rót laganna, og hvernig við best verjum réttarríkið eða á túlkun á hlutverki dómara, þá andmæli ég því að það sé til einhver ein samræmd leið eða lína.“
Fengið mikla hvatningu
Arnar Þór segir því aðspurður að hann hafi íhugað í nokkurn tíma hver sín næstu skref ættu að vera. „Hvar er kröftum mínum best varið? Ég verð að spyrja mig, því að okkur er öllum skammtaður takmarkaður tími hér á jörð, og því hef ég verið að íhuga þetta síðustu daga og vikur,“ segir Arnar Þór um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. „Ég hef fengið hvatningu til þess frá mörgum, og ekki síst minni góðu eiginkonu,“ segir Arnar Þór. Hann hyggst bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi ef slíkt verður haldið. Arnar Þór leggur það alfarið í hendur kjósenda í hvaða sæti þeir vilja setja hann, en að markmið hans sé þó skýrt; að komast inn á þing. „Ég tel mig eiga þar erindi og geta gert þar gagn og þá er það kjósenda að ákveða hvort þeir vilji veita mér brautargengi.“ Arnar Þór segir að staða Íslands bæði inn á við og út á við sé sér mjög hugleikin, og að hann vilji halda uppi sterkum vörnum fyrir hið klassíska frjálslyndi og þá stjórnskipun sem hér hafi verið byggt á. Þá sé menntakerfið sér hugleikið. „Við Íslendingar berum ein ábyrgð á framtíð okkar. Við eigum gríðarlegra hagsmuna að gæta í að kalla ungt fólk til starfa þar sem hæfileikar þess nýtast sem best, og til þess þarf að gera talsverðar umbætur í menntamálum.“ Hann segir að drengir eigi undir högg að sækja í grunnskólakerfinu, og að mikið áhyggjuefni sé þegar stór hluti grunnskólanemenda útskrifist illa læs. „Íslensk lög eiga að vera sett með íslenska hagsmuni að leiðarljósi. Þá vil ég verja tjáningarfrelsið og leiða umræðu um mikilvægi þess að við nýtum styrkleika okkar, treystum hvert öðru og byggjum þannig upp gott samfélag.“