Fjölmiðlafrumvarpið – Bréf til Alþingis

Birgir Örn Steingrímsson hefur ritað eftirfarandi bréf til allra alþingismanna og ráðherra

Reykjavík, 14. apríl 2021

Birgir Örn Steingrímsson

Varðandi frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 vegna fyrirhugaðrar innleiðingar í landsrétt á tilskipun 2018/1808/ESB, frá 14. nóvember 2018, sem breytir tilskipun 2010/13/EB um hljóð- og myndmiðlun.

Menntamálaráðherra íhugar að leggja fram ofangreint frumvarp þar sem m.a. verður gerð krafa um að a.m.k 30% af öllu efni sem sýnt er á streymisveitum eins og t.d. Netflix og Disney+ verði „evrópskt“.  Þetta á að vera gert að kröfu ESB og fellur undir Evróputilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu.  Þegar haft er í huga að Evrópubúar eru tæplega 7% mannkyns og framleiða sennilega svipað hlutfall myndefnis má leiða líkum að því að um 80% af framleiddu efni, sem frumvarpið nær yfir, lokast fyrir áhorfendur á Íslandi eða erfiðara verður að nálgast það. 

Þessi tilskipun er sérstaklega beint að bandarískum streymisveitum enda eru þær stærstar, en tilskipunin mun óhjákvæmilega hafa áhrif á aðrar streymisveitur, sem ætla að starfa innan ESB. Tryggja á forgang „evrópsks“ efnis.  Eins og staðan er í dag fellur myndefni framleitt í Bretlandi undir skilgreiningu sem „evrópskt“, en ekki er víst að svo verði í framtíðinni eftir BREXIT.  Ef svo færi gæti einnig orðið um verulega skerðingu á framboði af bresku efni hjá þeim streymisveitum sem falla undir þessa evróputilskipun.

Samkvæmt frumvarpinu er fjölmiðlanefnd gert að fylgjast með áhorfi landsmanna m.a. til að tryggja að a.m.k. 30% af efni sem er í boði hér sé í raun „evrópskt“.  Skýrslur eiga að vera sendar reglulega til eftirlitsstofnunar EFTA, sem á m.a. að meta hvort framboð sé nægilegt af „evrópsku“ efni.  Ef svo er ekki, geta evrópsk yfirvöld gripið til aðgerða gegn viðkomandi streymisfyrirtæki og krafist þess að lokað verði fyrir þjónustu fyrirtækisins á Íslandi.

Þetta frumvarp hringir mörgum viðvörunarbjöllum og nokkuð ljóst að það stenst engan veginn stjórnaskrá Íslands, en Í 73. grein hennar stendur m.a:  

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningafrelsi má ALDREI Í LÖG LEIÐA“. 

Með frumvarpinu er gerð hörð atlaga að tjáningafrelsi landsmanna.  Innleiða á ógeðfellda ritskoðun sem yrði á forræði ESB, sem myndi ákveða hvaða efni væri nægilega „evrópskt“ samkvæmt einhverjum viðmiðunum og því við hæfi fyrir Íslendinga að horfa á.  Næsta skrefið gæti orðið að settar verða hömlur á framboð bóka á netinu.  Ef ESB ákvæði að fella niðurhal bóka undir þessa evróputilskipun og  metið yrði svo að takmarka þyrfti framboð bóka sem væru ekki „evrópskar“.  þá gæti orðið erfitt fyrir íbúa landsins, sem kaupa bækur af Amazon, að hala niður bókmenntaverkum eftir t.d. Ernest Hemingway, Mark Twain eða John Steinbeck.  Þessir tveir miðlar, myndmál og ritamál, eru algerlega sambærilegir í nútímasamfélagi og hvortveggja mikilvægur hluti tjáningarfrelsis.  Ef stjórnvöld hefja ritskoðun og takmarkanir á aðgengi borgaranna að myndmáli, er stutt í  næsta skrefið.  Sporin hræða og vegferðin sem ESB er að hefja með þessu eftirliti og takmörkunum á framboði myndefnis veit enginn hvert leiðir. Ísland á ekki að eiga þátt í henni.  

Persónulega er ég áskrifandi að Netflix, Disney+ og Amazon Prime og tel fráleitt að eiga undir evrópskum embættismönnum hvaða efni er í boði fyrir mig og hvað ekki.  Ekki er ósennilegt látið verða reyna á þessi ritskoðunarlög fyrir dómstólum ef það fer óbreytt í gegnum þingið. 

Ég legg traust mitt á að þingið felli ofangreint frumvarp menntamálaráðherra ef það kemur fram, enda ber þingmanni að fara eftir og virða stjórnarskrá landsins og hafa ávallt hagsmuni landsmanna í huga. 

Virðingarfyllst,                                                                                                  

Birgir Örn Steingrímsson