Uppruninn og sjálfstæðisstefnan

Hornsteinn íslensks samfélags er lýðveldið okkar sem við endurreistum á þessum allra helgasta degi Íslendinga þann 17. júní 1944.

Viðar Guðjohnsen skrifar í Mbl

Viðar Guðjohnsen

Þegar Íslands fyrsti faðir nam hér land var eyjan okkar mannlaus og af engum að taka nema hinni miklu móður. Ekkert stjórnvald og engin landslög. Landnámsmennirnir þurftu því engum að svara. Einungis hyggjuvitinu og fornum venjum. Í heimahögum hafði orðið stjórnarbylting undir forystu Haraldar hárfagra. Hollustan við sjálfstæðið og sjálfsvirðinguna fleytti hinum útsjónarsömu forfeðrum okkar yfir hafið kalda með hjálp Njarðar. Sannir sjálfstæðismenn voru þeir allir. Um hálfri öld síðar, þegar Alþingi var stofnað, varð Ísland formlega að ríki. Þá hafði heil kynslóð, hin fyrsta íslenska kynslóð, vaxið úr grasi. Á kjördag árið 1953 gerði Sjálfstæðisflokkurinn þessum mikilvæga uppruna okkar skil í fallegum hvatningarorðum. Segir í þeim meðal annars: „Sem faðir þjóðarinnar reisti hann hér bú í óbyggðu landi, er hann hafði flúið ættland sitt undan ofríki, kúgun og gaf þjóð sinni í vöggugjöf trú á mátt og helgi frelsisins. Frelsisþrá sína, framtak og djörfung tók þjóðin hans að erfðum.“ Á þessum grunni var Ísland okkar reist og það er hægt að færa gild rök fyrir því að stjórnarform þjóðveldisins, hins fyrsta íslenska lýðveldis, hafi vegna þessa verið mótað á lítt ræddum en þó mikilvægum grunni lýðræðis og laga.

Lesa áfram

Til þjónustu

Allt stendur og fellur með því að okkur takist sem samfélagi, foreldrum og vinum, að vinna að réttu og heilnæmu marki.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl:

Arnar Þór Jónsson

Í dag lýkur prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Kjósendum gefst tækifæri til að nýta lýðræðislegan rétt sinn og velja fólk til að skipa sigurstranglegan framboðslista í alþingiskosningunum nk. haust. Með framboði mínu vil ég vekja athygli á nauðsyn þess að Íslendingar virki það lýðræðislega afl sem í þeim býr og gerist virkari þátttakendur í lýðræðislegri umræðu. Með því móti styrkist hin nauðsynlega gagnvirkni lýðræðis og löggjafar. Ein helsta áskorun Alþingis og íslenskra stjórnmála nú er að snúa af braut valdaframsals, þannig að íslenskir kjósendur og kjörnir fulltrúar þeirra á Alþingi ráði þeim lögum sem hér gilda. Doði og andvaraleysi má ekki verða til þess að staða Íslands veikist í bráð og lengd. Láti menn sig dreyma um einhvers konar sjálfvirkt stjórnarfar, þar sem lög og réttur verða til sjálfkrafa og umræðulaust, jafnvel með póstsendingum að utan, verða menn að gera sér grein fyrir því gjaldi sem slíkt þátttöku- og gagnrýnisleysi hefur í för með sér. Hér stöndum við frammi fyrir alvarlegum álitaefnum: Hvernig fer fyrir þjóð sem fær litlu eða engu ráðið um hvernig málum hennar er stjórnað? Hvers vegna ætti slík þjóð að sýna stjórnmálum og lýðræði nokkurn áhuga? Hvernig getur þjóð, sem ekki stjórnar eigin málum, tryggt það að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart henni? Og hvernig getur þjóð í þeirri stöðu tryggt að lögin taki jafnt til allra og að menn séu ekki sviptir mannréttindum ef þau réttindi eru talin ógna hagsmunum ráðandi afla? Hvernig getur valdalaus þjóð varið hagsmuni sína, tilveru og réttindi?

Lesa áfram

Hvað kveikir í kosningabaráttunni?

Alþingi hefur brugðizt þjóðinni í þrjátíu ár

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl:

Silfur RÚV fyrir tveimur vikum með formönnum þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi var tíðindalaust framan af en vaknaði til lífsins þegar skæruliðadeild Samherja kom til umræðu. Þá var hægt að sjá fyrir sér hvert yrði mesta deilumál kosninganna. Það mat breyttist svo snögglega þegar fréttir bárust af því að fyrirtækið hefði beðist afsökunar á framgöngu skæruliðanna. Eftir þá afsökunarbeiðni getur málið tæpast orðið hitamál í kosningum. Ef það hins vegar gerðist að héraðssaksóknari birti niðurstöður á rannsókn sinni á málum Samherja fyrir kosningar gæti málið komist á dagskrá aftur. Ef það gerðist er líklegt að það yrði erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, einfaldlega vegna þess að það er sterk tilhneiging til að gera hann ábyrgan fyrir hugsanlegum misgjörðum atvinnulífsins. Annað mál sem er að koma upp um þessar mundir er samstarf Dana og Bandaríkjanna um njósnir um bandalagsþjóðir og leiðtoga þeirra. Það er heldur ólíklegt að þær njósnir hafi náð til Íslands og íslenzkra stjórnmálamanna. Til hvers? Þeir skipta nákvæmlega engu máli í hinni stóru mynd. Öðru máli gegnir um kalda stríðið. Þá þótti okkur öllum sjálfsagt mín megin í því að finna út með öllum ráðum hvað kommarnir væru að gera, eins og við kölluðum andstæðinga okkar í kalda stríðinu Fyrir nokkrum árum fékk eiginkona mín, sem nú er látin, bréf frá opinberum aðilum þess efnis að síminn á heimili foreldra hennar hefði verið hleraður. Faðir hennar, Finnbogi Rútur Valdimarsson, sem var þingmaður fyrir Sósíalistaflokkinn og síðar Alþýðubandalagið, þóttist reyndar vita það. Þeir töluðu töluvert saman í síma, hann og Ólafur Thors, og þegar klikk heyrðist í símanum sagði Ólafur: jæja nú eru þeir byrjaðir að hlera. Meira leyndarmál var þetta nú ekki þeirra í milli.

Lesa áfram

Arnar Þór í forystusveit

Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti.

Eygló Egilsdóttir skrifar í Mbl

Eygló Egilsdóttir

Um komandi helgi mun sjálfstæðisfólk ganga til prófkjörs í Suðvesturkjördæmi og velja fólk í forsvar til alþingiskosninga. Þar býður sig fram í 2.-3. sæti Arnar Þór Jónsson. Það má segja að hann sé nýr á vettvangi stjórnmála, en þó kemur framboð hans þeim ekki alfarið á óvart sem þekkja til hans. Undanfarin misseri hefur Arnar látið til sín taka í pólitískri umræðu, svo eftir hefur verið tekið. En hann hefur skrifað greinar og komið fram opinberlega til að fjalla um mál er varða réttindi allra Íslendinga, mál sem eru allt í senn: stór, flókin og umdeild. Málefni eins og þriðja orkupakkann og frelsi og réttindi fólks. Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti. Að mínu mati er það einmitt slíkt fólk sem þarf að velja til forystu nú. Fólk sem þorir að tjá sig umbúðalaust, fólk sem getur hlustað á mótrök og tekið heiðarlega afstöðu í erfiðum málum, þó sú afstaða sé ekki endilega vinsæl akkúrat í dag, en rétt til lengri tíma.

Lesa áfram

Dómari með erindi – Arnar Þór á þing

Áherslur Arnars Þórs snúa að einstaklingsfrelsi, eflingu þingræðis og sátt milli ólíkra stétta.

Már Másson skrifar í Mbl

Már Másson

Mér þóttu það góð tíðindi þegar Arnar Þór Jónsson héraðsdómari tilkynnti þátttöku sína í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi. Ég hef þekkt manninn í tæp 40 ár og veit fyrir vikið að Arnar er í senn réttsýnn og málefnalegur og óragur að fjalla um ýmis mikilvæg þjóðfélagsmál. Áherslur Arnars Þórs snúa að einstaklingsfrelsi, eflingu þingræðis og sátt milli ólíkra stétta og eru í raun rauði þráðurinn í grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins.

Frelsi með ábyrgð
Arnar Þór hefur í ótalmörgum greinum fjallað um frelsi einstaklingsins og mikilvægi þess að skapa hvata til þess að virkja kraftinn sem býr í einkaframtakinu. Hann hefur bent á mikilvægi þess að embættismenn og opinberar stofnanir séu ekki þröskuldur í nýsköpun og atvinnurekstri. Þeirra hlutverk sé miklu fremur að skapa skýra ramma og tryggja fyrirsjáanleika fremur en þvælast fyrir og beinlínis draga úr hvötum til nýsköpunar og atvinnurekstrar.

Lesa áfram

Verðmæti verður að verja af viti

Fjölbreytni í þingflokki sjálfstæðismanna er Sjálfstæðisflokki sem þjóðarflokki nauðsyn til að endurspegla viðhorf landsmanna með viðhlítandi hætti.

Bjarni Jónsson skrifar í Mbl.

Bjarni Jónsson

Fullveldi þjóðar, lýðræði og einstaklingsfrelsi eru verðmæti sem í askana verða látin. Það sýnir sagan hvarvetna. Allt er þetta vandmeðfarið og útþynning á þessum gildum varasöm, því að hún varðar leiðina til glötunar þeirra. Arnar Þór Jónsson dómari hefur með skilmerkilegum hætti vakið máls á því að viðhorfsbreytingar er þörf hérlendis á meðal embættismanna og þingmanna í átt til enn vandaðri rýni á tilskipunum og reglugerðum ESB m.t.t. til íslenskrar stjórnskipunar áður en þær fara fyrir sameiginlega afgreiðslunefnd ESB og EFTA. Þaðan berast „gerðirnar“ síðan þjóðþingunum til lögfestingar. Nú hefur borið vel í veiði, því að Arnar Þór hefur gefið kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum) í 2.-3. sæti D-listans í alþingiskosningunum haustið 2021.

Breytt Evrópusamband
Á árunum 1990-1992, þegar ESB og EFTA sömdu sín á milli um Evrópska efnahagssvæðið, EES, hafði Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar ESB 1985-1995, fengið aðildarlöndin til að samþykkja sáttmála um innri markað ESB og gekk hann í gildi 1. janúar 1993. Þar skyldi fjórfrelsið ríkja, þ.e. frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns. Sáttmálinn kveður á um viðamikið regluverk, sem ásamt tollum torveldar aðgengi þeirra sem utan við standa nema með sérstökum fríverslunarsamningi. EES-samningurinn var aðallega gerður til að hleypa EFTA-ríkjunum inn á innri markaðinn gegn upptöku regluverksins sem um hann gildir. Það verður sífellt umfangsmeira, og þegar Efnahagsbandalag Evrópu breyttist í Evrópusamband árið 1993 tók eðli þess að breytast með nýjum sáttmálum og eftir Lissabonsáttmálann 2009 er leynt og ljóst stefnt að sambandsríki Evrópu.

Lesa áfram

Enginn verði út undan

Þegar horft er til þeirrar velsældar sem gæði okkar góða lands geta verið grunnur að, ef rétt er að málum staðið, er mér efst í huga að við tökum höndum saman um að tryggja að þar fái allir að njóta – enginn verði útundan.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Nái ég kjöri í öruggt sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi mun ég á Alþingi beita mér fyrir að flokkurinn sýni í öllu starfi sínu að honum er ljóst mikilvægi allra stétta þjóðfélagsins. Vilji vinna að sátt og samstarfi þeirra í milli, enda er fátt mikilvægara fyrir farsæld þjóðarinnar. Sjálfstæðisfólk þarf í viðleitni sinni til að efla hag þjóðarinnar að standa með grundvallarstefnumálum sínum, verja traustar undirstöður sígildrar frjálslyndrar íhaldsstefnu sem kristallast í upprunalegum gildum Sjálfstæðisflokksins. Þau eiga jafn vel við í dag sem áður. Besta leiðin til þess er að efla sjálfstæða, siðræna og gagnrýna hugsun, sem því miður hefur mætt vaxandi mótbyr hér á landi og víðar um heim.

Traust menntun styrkir tjáningarfrelsið
Ég mun leggja áherslu á menntamál nái ég kjöri. Sá málaflokkur hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægari en nú. Leggja þarf aukna áherslu á menntun uppvaxandi kynslóðar, einkum grunnfögin lestur, reikning og skrift, um leið og sækja þarf í fræðslunni styrk í hinn trausta menningararf þjóðarinnar með því að tryggja staðgóða þekkingu á honum, landi og sögu. Verknám fái aukið vægi í skólakerfinu, sem einnig ber að laga jafnóðum að hinni hröðu framþróun í hverskonar tækni og vísindum. Vinna ber markvisst að því að hver og einn geti notið sem best hæfileika sinna, látið til sín taka í þjóðfélaginu á þann hátt sem hugur hans og geta helst standa til. Styrkja ber tjáningarfrelsið með öllum ráðum og tryggja að stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé (fjölmiðlar, háskólar o.fl.) gæti hlutleysis.

Lesa áfram

Skert full­veldi – lakari lífs­kjör

Sigurður Þórðarson skrifar:

Sigurður Þórðarson

Allt frá tímum Gamla sáttmála hefur barátta Íslendinga snúist um aukið frjálsræði í verslun. Þessa sögu þekkja margir Íslendingar enda hafa verið skrifaðar um hana margar bækur og doktorsritgerðir. Í apríl sl. voru liðin 166 ár síðan Íslendingar fengu verslunarfrelsi og um leið leyfi til að eiga viðskipti við aðra en Dani. Óumdeilt er að enginn einn atburður hafði meiri áhrif á þróunina frá örbirgð til bjargálna.

Inn í þessa sögu tvinnast þjóðarátak við stofnun Eimskips og samvinnufélaga, sem ásamt ýmsu öðru rufu verslunar einangrun þjóðarinnar. Skömmu eftir lýðveldis tökuna 1944 sögðu Íslendingar upp Flesksölusamningnum illræmda frá árinu 1901 (milli Dana og Breta), með það í huga að færa út fiskveiðilögsöguna. Þetta var gert árið 1952 þegar landhelgin var færð úr þremur í fjórar sjómílur.

Lesa áfram