Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl
Stjórnmálaflokkarnir sem urðu til snemma á síðustu öld endurspegluðu það samfélag sem þá var. Samfélagið hefur tekið breytingum og flokkarnir líka en það þýðir ekki að þeir endurspegli samfélagið jafn vel nú og þá. Þvert á móti. Þetta á ekki sízt við um hina hefðbundnu vinstriflokka, VG og Samfylkingu. Þess sjást engin merki að þeir reyni að undirstrika fyrri tengsl við verkalýðshreyfinguna. Samfylkingin sérstaklega virðist sjá um hagsmunagæzlu fyrir háskólaborgara og hefur í leit að frambjóðendum engan áhuga á verkalýðshreyfingunni. Það eru einna helzt Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn sem leggja áherzlu á málefni fyrrverandi skjólstæðinga Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Sjálfstæðisflokkurinn var reyndar orðinn annar öflugasti launþegaflokkur landsins fyrir 60 árum en hefur misst áhugann á þeim kjósendahópi án þess að nokkrar skýringar hafi fengizt á því. Á sama tíma hafa umsvif hagsmunavarða aukizt mjög og þau ná líka til stjórnmálaflokkanna. Þeir vinna nú markvisst innan sumra flokkanna fyrir umbjóðendur sína en sérstaklega þó innan Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar gagnvart ráðamönnum flokksins og hins vegar að einhverju leyti innan flokksins í einstökum hópum þar. Kannski er þessi hagsmunavarzla skýringin á þeim breyttu áherzlum innan Sjálfstæðisflokksins sem nefndar voru hér að framan. Það er líklegt til árangurs þegar heilt hús við Borgartún puðar á hverjum degi. Einn eftirminnilegasti fundur sem greinarhöfundur sat á Viðreisnarárunum var þegar Bjarni heitinn Benediktsson, þá forsætisráðherra, skammaði kaupmenn fyrir kröfur þeirra þegar almenningur var að taka á sig byrðar. Síðan hefur slík ræða ekki verið flutt en það skortir ekki tilefni.
Hagsmunaverðir eru kallaðir „lobbíistar“ á ensku. Það er orðin atvinnugrein sem hefur yfir miklum fjármunum að ráða beggja vegna Atlantshafs. Það getur haft þau áhrif innan stjórnmálaflokks að almannahagsmunir gleymist en hagsmunir þröngra hópa ráði ferð. „Lobbíistarnir“ ráða hins vegar ekki yfir atkvæðum kjósenda. Getur verið að það hafi gleymst. Hagsmunaverðir hafa hvergi heilbrigð áhrif á stjórnmálin en í lýðræðisþjóðfélagi hafa bæði einstaklingar og hópar eða félagasamtök fullan rétt á að berjast fyrir sínum hagsmunum. Hins vegar er það umhugsunarefni að síðustu áratugina fyrir faraldurinn hafði dregið mjög úr félagsstarfi innan flokka. Það þýddi að minna fór fyrir virkum flokksmönnum en ella og þar með aðhaldi sem þeir veittu kjörnum fulltrúum. Heildarmyndin er þá sú að í starfi flokkanna hefur minna gætt almennra flokksmanna en þeim mun meira hagsmunavarðanna. Sem þýðir að lýðræðið hefur verið á undanhaldi.
Það er sennileg skýring á mörgu sem hér hefur gerzt síðustu áratugi þar sem almannahagsmunir hafa verið vanræktir en hlúð að sérhagsmunum. Á sama tíma og krafan hefur verið sú að lýðræði væri aukið og beint lýðræði kæmi til sögunnar. Sumir halda því fram að í sumum flokkanna sé nánast ekkert bakland. Þeir séu ekki annað en nöfnin og þingmennirnir. Sé það rétt er það mikill veikleiki. Á bak við flokk verður að vera pólitísk hreyfing þar sem tekizt er á um menn og málefni. Það er því ekki út í hött að spurt sé á hvaða leið flokkarnir séu. Í raun og veru má segja að þessar lýsingar eigi við þá alla. En – það er þörf á opnum umræðum um þessi vandamál flokkanna. Ef þetta er rétt lýsing á þeim þarf að hrista upp í dauðu flokkskerfi. Það er athyglisvert, að það er sáralítið um það að efnt sé til opinna funda innan flokkanna um álitamál eða deilumál. Það er að sjálfsögðu ekki átt við frá upphafi faraldursins, þegar slík fundahöld hafa verið bönnuð. En reynslan af fjarfundum er góð og þá aðferð hefði verið hægt að nota mun meir en gert hefur verið. Og þá vaknar sú spurning hvort það henti forystumönnum flokkanna vel að geta borið faraldurinn fyrir sig sem skýringu á því að sjálfsagðar umræður fari ekki fram. Í stuttu máli er nokkuð ljóst að stjórnmálaflokkarnir eru ekki að sinna því hlutverki sem snýr að þeim, sem er að standa fyrir umræðum innan sinna vébanda, sem eru þáttur í því að lýðræðið virki. Til viðbótar er svo einn þáttur í starfi hagsmunavarðanna sem flækir þessa mynd. Það á við þegar flokkar eða forystumenn þeirra ráða þá til sín, í eigin þágu. Hver er þá hvað og hver á hvað? Áður tók fólk höndum saman sem var sammála um einhver mál eða einstaklinga. Nú snýst þetta um að kaupa þjónustu og hver er þá sannfæringin á bak við? Í prófkjörum í vor og sumar eiga þessi álitamál örugglega eftir að koma upp. Stjórnmálaflokkar skipta miklu máli í lýðræðislegu samfélagi. Og það er mikilvægt að þeir gæti að sér þegar kemur að vinnubrögðum. Þar kemur ekkert í staðinn fyrir hinn virka flokksmann. Það hættulegasta sem kemur fyrir þingmenn eða ráðherra er að vanrækja tengslin við hina virku flokksmenn. Stundum eru hinir kjörnu fulltrúar ótrúlega fljótir að gleyma. Og þá getur það gerzt að hinir gleymdu minni á sig með óþyrmilegum hætti.