Byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi

Eftir Óla Björn Kárason

“Sem sagt: Ríkisvæðing heilbrigðisþjónustunnar er í fullum gangi. Sjálfstæðir læknar eru settir út í kuldann en verst er að almenningur ber kostnaðinn.”

Óli Björn Kárason

Hægt en örugglega er að verða til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þannig er grafið undan sáttmálanum um að tryggja öllum jafnan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Drög að reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands er dæmi um hvernig jarðvegurinn er undirbúinn. Réttindi sjúkratryggðra eru lögð til hliðar og aukin ríkisvæðing boðuð. Afleiðingin verður þvert á yfirlýst markmið: Kostnaður mun aukast og þjónustan verður verri. Kerfi biðlista festist enn betur í sessi.

Þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðilækna byggist á gömlum grunni sem reistur var árið 1909 þegar fyrsta sjúkrasamlagið var stofnað. Samningur Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna tók gildi í byrjun árs 2014 en hann rann út árið 2018. Frá þeim tíma hafa samningar ekki tekist og sjálfsagt á hér við hið fornkveðna, að sjaldan veldur einn þegar tveir deila. Sjúkratryggðir – við öll – hljóta að gera þá kröfu jafnt til heilbrigðisyfirvalda og sérfræðilækna að margra ára þrasi verði lokið með samningum. Hafi aðilar ekki burði til að ná samningum virðist skynsamlegt að leggja deiluna fyrir sérstakan gerðardóm.

Þrátt fyrir samningsleysið hefur réttur sjúklinga til endurgreiðslu verið tryggður með reglugerð. Þessu ætla yfirvöld heilbrigðismála að breyta og í raun svipta ákveðna sjúklinga sjúkratryggingum, sem við öll höfum greitt fyrir með sköttum og gjöldum. Með reglugerðinni verður innleidd mismunun milli fólks eftir því til hvaða sérfræðinga það leitar eftir nauðsynlegri þjónustu. Þeir sem leita til sérfræðinga sem fella sig ekki við einhliða kröfur Sjúkratrygginga verða sviptir sjúkratryggingum – réttinum til endurgreiðslu hluta kostnaðar.

Hagsmunir „kerfisins“

Hér ráða því ekki þarfir og réttindi hinna sjúkratryggðu. Hagsmunir sjúkratryggðra eru lagðir til hliðar til að þjóna hagsmunum „kerfisins“. Í frétt sem birtist á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að Sjúkratryggingum hafi verið falið að „greina hvaða verk sérgreinalækna skuli verða tilvísunarskyld til framtíðar“. Og til að taka af öll tvímæli um að hverju er stefnt segir orðrétt:

„Stofnuninni er einnig falið að gera tillögu til ráðherra um hvaða verk á gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands skuli fella brott með það fyrir augum að þjónustan skuli fremur veitt innan opinberra stofnana.“

Sem sagt: Ríkisvæðing heilbrigðisþjónustunnar er í fullum gangi. Sjálfstæðir læknar eru settir út í kuldann en verst er að það verður almenningur sem ber kostnaðinn. Valfrelsi í heilbrigðisþjónustu er skert.

Stjórn Læknafélags Íslands hefur ítrekað lýst áhyggjum af stöðu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Án samninga sé raunveruleg hætta á að tvöfalt heilbrigðiskerfi þróist.

Sú stefna sem birtist í reglugerðardrögunum verður til þess að þeir sem ekki hafa fjárhagslega burði til að nýta þjónustu sérfræðilækna neyðast til að leita á náðir opinberra sjúkrahúsa og annarra ríkisrekinna heilbrigðisstofnana. Það er hins vegar útilokað að opinberar heilbrigðisstofnanir geti tekið við skjólstæðingum sérfræðilækna – næg eru verkefnin fyrir. Lausn „kerfisins“ verður að búa til nýja biðlista, lengja þá sem fyrir eru og jafnvel búa til biðlista eftir að komast á biðlista. Hvaða hagsmunum er verið að þjóna? Heilbrigðisþjónustan versnar, kostnaðurinn eykst og lífsgæði landsmanna verða lakari.

Fyrirheit án innihalds

Sárast er að horfa upp á hvernig skipulega er verið að leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum. Almenningur verður að sætta sig við þjónustu innan ríkisrekins tryggingakerfis á sama tíma og efnafólk fær skjóta og góða þjónustu sjálfstætt starfandi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Fyrirheitið um að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag verður án innihalds. Ég óttast að þá bresti ýmislegt annað í íslenskri þjóðarsál.

Tregða heilbrigðisyfirvalda til að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu og vinna að samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og sjálfstætt starfandi aðila er óskiljanleg. Dregið er úr valmöguleikum fólks, unnið gegn hagkvæmri nýtingu fjármuna og álag á opinber sjúkrahús er aukið.

Í sjálfheldu

Hægt og bítandi er verið að hneppa heilbrigðisþjónustuna í fjötra fábreytileika og aukinna útgjalda. Við munum eiga stöðugt erfiðara með að fylgja öðrum þjóðum eftir á sviði heilbrigðisvísinda. Samkeppnishæfni okkar við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk, eftir langt sérnám, verður verri.

Ein stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir á komandi árum er að tryggja mönnun heilbrigðiskerfisins – að hæfileikaríkt starfsfólk á öllum sviðum fáist til starfa innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Við erum og verðum í harðri samkeppni við aðrar þjóðir um að laða til okkar ungt fólk með sérfræðiþekkingu, sem er tilbúið til að miðla af þekkingu sinni og þjónusta okkur þegar þess er þörf. Læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, líffræðingar, lyfjafræðingar, sálfræðingar og aðrir sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn eru alþjóðlegt vinnuafl – heimurinn er þeirra vettvangur. Það umhverfi sem er verið að búa heilbrigðisstarfsfólki hér á Íslandi er ekki sérlega aðlaðandi.

Þegar yfirvöld skilja ekki að læknavísindin eru þekkingariðnaður sem nærist á fjölbreytileika, ekki síst í rekstrarformi, er sú hætta raunveruleg að í stað framþróunar verði stöðnun. Ríkisvæðing elur ekki af sér nýsköpun, tryggir ekki lífsnauðsynlega nýliðun, gengur gegn atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna og kannski það sem er verst; dregur úr þjónustu og öryggi sjúklinga.

Er þetta sú framtíðarsýn sem ætlunin er að kynna landsmönnum fyrir komandi alþingiskosningar?

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.