Grínistar í Dómarafélagi Íslands

Skal þaggað niður í dómurum?

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar í Mbl

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.

Það hefur vakið athygli á undanförnum misserum að Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur oftsinnis skrifað blaðagreinar um viðhorf sín til hinnar lagalegu aðferðar sem og stundum um önnur þjóðfélagsmál sem til meðferðar hafa verið í þjóðfélaginu. Að baki greinum Arnars hefur ávallt legið djúp hugsun og málefnalegur heiðarleiki. Að þeim hefur verið mikill fengur fyrir almenning. Nú berast þau tíðindi að Arnar hafi sagt sig úr Dómarafélagi Íslands „vegna ágreinings um tjáningarfrelsi dómara og efni siðareglna félagsins“. Gegnum þetta má lesa að aðrir félagsmenn í DÍ hafi amast við skrifum Arnars og vilji meina dómurum að tjá sig um þjóðfélagsmálin. Þetta eru kostuleg tíðindi. Auðvitað njóta dómarar allra sömu mannréttinda og aðrir borgarar, þ.m.t. tjáningarfrelsis. Hafi þeir skoðanir á málefnum sem deilum valda í þjóðfélaginu, t.d. um innfluttar reglur um orkupakka, er auðvitað heppilegt að þeir tjái þær opinberlega. Vitneskja um slíkar skoðanir getur síðan valdið því að dómari sem tjáir sig geri sig vanhæfan til að sitja í dómi í máli þar sem kann að verða tekist á um málefnið sem um ræðir. Öllu réttlæti er þá fullnægt með því að málsaðilar geta gert kröfu um að dómarinn víki sæti ef á þetta reynir. Þeir hafa nefnilega fengið að vita um skoðanir dómarans í tíma. Nú skulu menn ekki telja eitt augnablik að starfandi dómarar í landinu hafi ekki skoðanir á margvíslegum ágreiningsefnum sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma. Þær hafa þeir allir og oft getur verið mikill tilfinningahiti í sálum þeirra, þó að þeir hafi aldrei tjáð sig opinberlega um slíkar skoðanir sínar.

Flestir þeirra hika ekki við að taka sæti sem dómarar í málum þar sem reynir á slík ágreiningsefni. Þetta finnst þeim í lagi, þar sem enginn veit um þessar skoðanir. Hið sama gildir þegar þeir eiga beinna hagsmuna að gæta sem enginn veit um, eins og dæmin sanna. Þeir ganga svo margir í dómsstörf blygðunarlaust í þágu þeirra viðhorfa sem þeir aðhyllast eða hagsmuna sem þeir eiga. Væri nú ekki betra að þeir hefðu kunngjört opinberlega um slík atriði sín, svo að aðilar dómsmálanna geti þá krafist þess að þeir víki sæti ef þeim þykir tilefni til? Muna menn til dæmis eftir upplýsingunum sem komu fram fyrir nokkrum árum, um að fjöldi dómara hefði átt fjárhagsmuna að gæta sem fóru forgörðum við bankahrunið 2008? Þeir hikuðu samt ekki við að taka sæti sem dómarar í málum, þar sem menn voru sóttir til saka fyrir að hafa valdið hruninu og þar með tapi þeirra. Um þetta vissi enginn fyrr en löngu eftir að dómar voru gengnir.

Nú eru að koma slag í slag óskir frá Strassburg um upplýsingar um fjárhagsmuni dómara sem svona stóð á um. Er þetta ekki dásamlegt? Svo sitja þessir sömu dómarar á fundum í DÍ og amast við því að aðrir dómarar komi fram af þeim heilindum sem þeir sjálfir forsmáðu. Má ég frekar biðja um grandvaran og hugsandi mann eins og Arnar Þór Jónsson í dómarasæti. Þess skal getið að siðareglur dómaranna voru settar á aðalfundi í nóvember 2017. Þar er m.a. að finna reglu sem mælir fyrir um háttsemi dómara sem látið hafa af störfum. Það eina sem vantaði í regluna var nafn mitt. Ég var samt ekki félagi í þessu félagi eftir að ég lét af störfum sem hæstaréttardómari á árinu 2012. Það eru miklir grínistar sem sækja aðalfundi Dómarafélags Íslands til að setja dómurum siðareglur. Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson » Flestir þeirra hika ekki við að taka sæti sem dómarar í málum þar sem reynir á slík ágreiningsefni. Þetta finnst þeim í lagi, þar sem enginn veit um þessar skoðanir.

Höfundur er fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands.