Áherslur Arnars Þórs snúa að einstaklingsfrelsi, eflingu þingræðis og sátt milli ólíkra stétta.
Már Másson skrifar í Mbl
Mér þóttu það góð tíðindi þegar Arnar Þór Jónsson héraðsdómari tilkynnti þátttöku sína í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi. Ég hef þekkt manninn í tæp 40 ár og veit fyrir vikið að Arnar er í senn réttsýnn og málefnalegur og óragur að fjalla um ýmis mikilvæg þjóðfélagsmál. Áherslur Arnars Þórs snúa að einstaklingsfrelsi, eflingu þingræðis og sátt milli ólíkra stétta og eru í raun rauði þráðurinn í grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins.
Frelsi með ábyrgð
Arnar Þór hefur í ótalmörgum greinum fjallað um frelsi einstaklingsins og mikilvægi þess að skapa hvata til þess að virkja kraftinn sem býr í einkaframtakinu. Hann hefur bent á mikilvægi þess að embættismenn og opinberar stofnanir séu ekki þröskuldur í nýsköpun og atvinnurekstri. Þeirra hlutverk sé miklu fremur að skapa skýra ramma og tryggja fyrirsjáanleika fremur en þvælast fyrir og beinlínis draga úr hvötum til nýsköpunar og atvinnurekstrar.
Stétt með stétt
Arnar Þór hefur bent á að Sjálfstæðisflokkurinn er breiðfylking ólíkra einstaklinga víðs vegar að úr samfélaginu sem sameinast um sjálfstæðisstefnuna. Einmitt þess vegna er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn nái aftur vopnum sínum sem leiðandi afl á vinnumarkaði. Stétt með stétt var eitt sinn kjörorð Sjálfstæðisflokksins þar sem áhersla var lögð á að leiða saman hagsmuni atvinnurekenda og hinna vinnandi stétta og tryggja heilbrigt samtal og stöðugleika á vinnumarkaði. Sjálfstæðisflokkurinn er í dag í dauðafæri að styrkja stöðu sína á ný sem slík breiðfylking.
Þingræði ekki skrifræði
Í skrifum sínum og málflutningi hefur Arnar Þór bent á mikilvægi þess að Alþingi fari með pólitískt vald í landinu í stað þess að útvista því gagnrýnislaust til ósýnilegra embættismanna, innlendra og erlendra dómstóla og/eða alþjóðlegra stofnana. Með þessu hefur hann bent á þann lýðræðis- og þingræðishalla sem má rekja til sífellt aukins pólitísks inngrips innlendra og erlendra embættiskerfa sem þjóna óljósum hagsmunum. Þetta ósýnilega vald þarf að tempra og tryggja íslenska hagsmuni í hvívetna. Áherslur Arnars Þórs Jónssonar, skrif hans og málflutningur, hafa ýtt við mörgum sjálfstæðismönnum og vakið þá til umhugsunar um mikilvægi þess að hefja grundvallargildi Sjálfstæðisflokksins aftur til vegs og virðingar. Málflutningur Arnars er þannig ferskur andblær inn í flokkspólitíska umræðu og löngu tímabær. Ég hvet sjálfstæðismenn í Suðvesturkjördæmi til að kynna sér áherslur Arnars Þórs og veita honum brautargengi í komandi prófkjöri.
Höfundur er framkvæmdastjóri.