Meðalvegurinn vandrataði

“Getur verið að réttarríkið og lýðræðið standi valtari fótum en við höfum leyft okkur að vona?”

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Eftir nokkra daga verður gengið til kosninga þar sem stjórnmálaflokkarnir leggja verk sín og framtíðaráætlanir í dóm kjósenda. Réttur okkar til að kjósa og til að gefa kost á okkur til starfa í þágu samfélagsins hvílir á grunni hugsjóna vestrænnar stjórnskipunar um réttarríki, lýðræði og frjálslyndi, auk sjálfsákvörðunarréttar manna og þjóða. Á tyllidögum er oft vísað til þessara orða, kannski án þess að við gefum inntaki þeirra nægilegan gaum.

Hugsjónin um réttarríki felur í sér að handhafar ríkisvalds séu bundnir af lögum, ekki síður en almennir borgarar. Allir séu jafnir fyrir lögunum og enginn yfir þau hafinn. Lýðræðið skapar ramma utan um stjórnmálin og gerir okkur kleift að velja fólk til forystustarfa. Með stjórnarskrá, mannréttindasáttmálum og almennum lögum er leitast við að verja frelsi og réttindi borgaranna.

Lesa meira

Loftslagsmál

Frumkvæði og markmið í „loftslagsmálum“ eru ekki frá íslenskum stjórnmálamönnum
heldur frá ESB.

Friðrik Daníelsson og Sigurbjörn Svavarsson skrifa í Mbl

Maður gengur nú undir manns hönd hjá stjórnmálaflokkunum að gefa loforð í loftslagsmálum. Mörgu ægir þar saman en aðallega er rætt um aðgerðir til að sporna við notkun eldsneytis vegna þess að það gefur af sér koltvísýring sem sagt er að valdi hlýnun loftslags. Við þetta er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi hefur reynst torvelt að finna vísindalega sannað samband koltvísýrings og loftslags þó vitað sé að hann auki gróðurvöxt og bæti þannig veður staðbundið. Sagt er að koltvísýringur af mannavöldum valdi hlýnun um 1 eða 1,5 gráður á öldinni, sem er ágiskun en ekki vísindaleg niðurstaða. Klifað er á að veðurlag sé hamfarakenndara en ekkert bendir til þess að það sé óvenjulegt. Frumkvæði og markmið í „loftslagsmálum“ eru ekki frá íslenskum stjórnmálamönnum heldur frá ESB.

Sérstaða Íslands

Ísland hefur sérstöðu á heimsvísu, um 85% af frumorkunotkun Íslands eru úr vatnsföllum og jarðvarma en einungis 20% orkunotkunar ESB eru „græn“ orka. Það voru dýrkeypt mistök að láta aðgerðir í loftslagsmálum falla undir ESB, á því var engin þörf samkvæmt þeim loforðum sem Ísland hafði gefið á alþjóðavettvangi. Kyoto- eða Parísarsamkomulagið kalla ekki á að ESB stjórni orkunotkun á Íslandi, Íslendingar geta sjálfir stjórnað henni.

Lesa meira

Frjálshyggja og fullveldi

Ef við stjórnum efnahagsmálunum ekki sjálf, tryggjum ekki fjárhagslegt sjálfstæði okkar og búum ungu fólki ekki störf hér heima, höfum við gefið eftir mikilvægasta þátt fullveldisins.

Ragnar Önundarson skrifar í Mbl

Ragnar Önundarson

Hin svart-hvíta umræða einkennist af því að þeir sem eru ófróðir eru vissir í sinni sök, gallharðir, en þeir sem hafa þekkingu og sjá alla myndina eru hikandi, því fæst mál samfélags eru einföld. Samfylkingin vill aðild að ESB og evru. Viðreisn vill byrja á að tengja krónuna við evru. Sú hugmynd er háð þeim annmarka að jafn auðvelt er að afnema tenginguna og að koma henni á. Það yrði gert næst þegar þjóðin skiptir milli sín meiri tekjum en þjóðartekjurnar leyfa eftir tenginguna. Einhæfni og óstöðugleiki okkar efnahagslífs hindrar að við notum gjaldmiðil sem ekki tekur neitt tillit til þessa. Átökin um tekjuskiptinguna eru viðvarandi, þeim linnir ekki við upptöku evru. Engri athygli er beint að þeirri staðreynd að markaðsbúskapur, þar sem nánast engir virkir markaðir eru, er háður miklum annmörkum. Hinn kosturinn, áætlanabúskapur, var reyndur í stórum hlutum veraldarinnar, með miklum hörmungum fyrir fólk. Við verðum því að greina og takast á við annmarka þá sem smæð okkar samfélags, dreifbýli og fjarlægð frá virkum mörkuðum valda.

Dollar og evra

Dollarinn er frá 1775, jafn gamall Bandaríkjunum og iðnbyltingunni. Þróun atvinnulífsins varð skv. landkostum, með hliðsjón af dollarnum sem gefinni stærð. Þetta hefur staðið í 250 ár og er allt annar og gjörólíkur ferill en þegar evran var tekin upp. Undanfari hennar var nefndur ERM, evrópska myntsamstarfið, kennt við Maastricht, sem hófst árið 1979 og var til aðlögunar að upptöku evru.

Lesa áfram

Fjaðrirnar tíndar af íslensku þjóðþingi

Úr Reykjavíkurbréfi Mbl 12. september 2021

Alþingi Íslendinga

Þrátt fyrir ríka þörf á að hafa bannhelgi yfir fjölmörgum málum hér og erlendis kemur fyrir að menn hristi af sér þöggunarfjötrana og það jafnvel hinir ótrúlegustu menn. Fjölmargir flokkar bjóða fram hér og margt hefur bent til þess að óvenjumargir muni ná mönnum á þing. Lengi hefur dunið á þinginu gagnrýni um að sífellt verði óljósara út á hvað starfsemin þar gangi. Og það er von að þróunin sé í þessa átt, því að Brusselvaldið gengur sífellt lengra í því að líta á heimaþingin sem skrifstofur frekar en þing, og þar séu aðsendir pakkar frá Brussel færðir til bókar.

Hér er tilhneigingin sú að mál frá Brussel fái lagagildi, með skammri skírn, og sífellt lélegri eða engri yfirferð. Færri raunverulegar umræður fara fram og aðeins málamyndayfirferð í þingnefnd. Enda hví skyldu menn fara yfir mál, sem þeir hafa ekkert með að gera hvort að séu samþykkt eða ekki.

Umræðan um orkupakkann var ömurlegt dæmi þessa. Utanríkisráðuneytið gerði uppkast að skýrslu til sjálfs sín þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sjálfur lykilþáttur í því að Alþingi gæti samþykkt EES-samninginn, ótvíræður réttur þess að velja eða hafna sendingum fá Brussel, hefði með einhverjum dularfullum hætti gufað upp! Auðvitað hefur slík skýrsla enga þýðingu aðra en niðurlægingu allra sem að komu og breytir engu öðru en að gefa utanríkisráðherranum tækifæri til að flissa eins og væri hann Kamala Harris og láta undirtyllum ráðuneytið eftir. Þær forherðast í þjónkun sinni við búrókrata í Brussel, og leyna því hvergi að þangað sækja þær lokafyrirmæli sín.

Við sjáum það í þeirri litlu kosningabaráttu, sem þó er, að systurflokkarnir Samfylking og Viðreisn hafa ekkert fram að færa annað en þekkta auðmýkt og undirgefni gagnvart Evrópusambandinu. Ekkert annað er lagt á borð kjósendanna. Og það gerist eftir að Bretar hafa horfið úr sambandinu og allar hrakspár um hrun viðskipta þeirra hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Það gerist eftir hrakför ESB í bólusetningarmálum sem var öll með miklum ólíkindum.

Vörumst afvegaleiðslu og öfugmæli

Arnar Þór Jónsson

“Því er fráleitt að ætla að okkur yrði betur borgið í samfloti með evrulöndum, sem málsvarar Viðreisnar leggja nú kapp á að við tengjumst, þrátt fyrir þá skerðingu sjálfstæðis okkar sem það fæli í sér.”

Leiðarmerki til heimahafnar:

Það hefur verið dýrmæt reynsla að stíga inn á hinn pólitíska vettvang. Þessi reynsla hefur verið holl og góð að því leyti að ég hef kynnst fleira fólki og sjónarmiðum. Frammi fyrir þeim krafti, áræði, hjálpsemi og óeigingirni sem hefur mætt mér á þessari vegferð fyllist ég bjartsýni um framtíð Íslands og fólksins sem hér býr. Um leið verður þó að viðurkennast að ekki er allt til fyrirmyndar. Mér hefur t.d. þótt sérlega leitt hversu ómálefnalegur málflutningur forkólfa Viðreisnar hefur verið. Í Morgunblaðsgrein 28. ágúst sl. varaði ég lesendur við stjórnmálaflokkum sem tala tungum tveim. Upptalningin í þeirri grein hefði mátt vera lengri, sbr. endurtekin greinaskrif fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðið, sem kristalla öfugmælin í stefnu og hugmyndafræði Viðreisnar. Málflutning hans er ástæða til að gera að sérstöku umfjöllunarefni því öfugt við minni spámenn, sem augljóslega vita ekki hvað þeir gera, þá á þessi talsmaður, sem áður var í betri vist, að vita betur og því gæta betur að staðhæfingum sínum.

Með vísun til áðurnefndrar greinar minnar bæti ég af þessu tilefni við, að full ástæða er til að varast stjórnmálaflokka sem:

. tala fjálglega um virkt lýðræði en hafna prófkjöri við val á frambjóðendum sínum
. kenna pólitískan rétttrúnað og kreddur við „frjálslyndi“
. gera heilbrigðan efa og varfærni tortryggileg út frá einhvers konar EES-hreintrúarstefnu . vilja gleyma því að EES-samningnum var ætlað að vera sáttmáli jafnræðis og gagnkvæmni, eins og hvert gott hjónaband á að vera
. stilla klassísku frjálslyndi upp sem öfgahyggju og hallmæla tali um mikilvægi þess að þjóð okkar gæti fullveldis síns og réttarins til að ákveða hlutskipti sitt sem mest sjálf
. láta í það skína að ófrávíkjanleg og gagnrýnislaus hollusta við EES-samninginn jafngildi nýrri tegund frjálslyndis
. telja „hagstjórn“ Íslendinga best borgið með því að fela Seðlabanka ESB öll völd í þeim efnum
. kalla eftir því að íslensk þjóð afsali allri sjálfsábyrgð í hendur ólýðræðislegu, fjölþjóðlegu, miðstýrðu valdi á erlendri grund . halda af þrjósku áfram að ræða um ESB út frá ímynduðum glansmyndum (Pótemkíntjöldum) fremur en staðreyndum sem öllum mega vera sýnilegar
. gera engar athugasemdir við þróun ESB í átt til yfirþjóðlegs sambandsríkis þótt sú þróun byggist ekki á neinum lýðræðislegum grunni

Lesa áfram

Kjósum rétt – gátlisti til ígrundunar

Skýrir valkostir auðvelda hugsandi fólki
að kjósa.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson hrl.

Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnmálanna er að koma á og viðhalda jafnvægi milli ólíkra sjónarmiða, vera vettvangur þar sem menn leysa friðsamlega úr ágreiningsmálum, finna sameiginlegar lausnir, marka farsælustu stefnu o.s.frv. Stjórnmálamenn eru ekki kosnir til að fyrirskipa í smáatriðum hvernig við eigum að tala eða lifa. Rökræður verður að leyfa og landsstjórnin má hvorki verða alræðisöflum að bráð né leysast upp í stjórnleysi.

Þegar þetta er ritað er ég kominn í launalaust leyfi frá dómstörfum til að vinna að því markmiði að komast inn á þing. Ég hef haldið út í þessa vegferð til að starfa markvisst með þeim sem vilja búa þjóðinni farsæla framtíð, verja frjálslyndi gegn stjórnlyndi og lýðræðið gegn alræðisógn. Lífið hefur knúið mig til að viðurkenna að ég hef hef ekki öll svör og að rétt sé að hlusta á aðra með opnum huga. Sú reynsla hefur gert mig að talsmanni klassísks frjálslyndis. Lífið hefur einnig gert mig að hófsömum íhaldsmanni sem virðir reynslu fyrri kynslóða.

Lesa áfram

Leitum sátta um orkumálin

Ragnar Önundarson skrifar um orkumálin í Mbl

Orkubúskapur og stóriðja eru samt stöðugasti þáttur þjóðarbúsins og eiga mikinn þátt í því að álitlegt er að búa og starfa hér á landi.

Ragnar Önundarson

Kosningar eru fram undan, stjórnmálamenn sækjast eftir umboði til að gæta hagsmuna okkar næstu fjögur árin. Regluverk EES er umgjörð evrópsks markaðsbúskapar, sem virðist enn vera sá meðalvegur sem flestir vilja feta. Norðmenn, 17 sinnum fleiri en við, eru leiðandi í því samstarfi, sem við fáum að vera með í sem eins konar „aftanívagn“. Þeir vilja ekki að förinni sé stýrt þaðan.

Hlutfallslegir yfirburðir

Frelsi í viðskiptum og framfarir í flutningatækni hafa gert löndum kleift bæta lífskjör með því að sérhæfa sig kringum svonefnda „hlutfallslega yfirburði“. Hlutfallslegir yfirburðir okkar hafa lengi verið í fiskveiðum, hreinni og ódýrri orku, lítt snortinni náttúru og loks háu menntunarstigi. Sagt er að hér séu 42% af ósnortnum víðernum Evrópu. Við sjáum nú útlendinga kaupa upp dýrmætar náttúruperlur fyrir sig og vini sína og úrræðaleysi ráðamanna við því. Allir voru og eru sammála um að fiskiauðlindin verði að vera háð innlendu eignarhaldi. Sama hlýtur að gilda um orkuna og náttúruna. Þetta eru allt ómetanleg verðmæti sem við viljum halda í fyrir íbúana, þó hagfræðin og EES-reglurnar segi okkur að hagvöxturinn verði mestur með afskiptaleysi. Innan við fimmti hluti orkunnar er nýttur á almennum markaði heimila og fyrirtækja. Við viljum að það gríðarlega afl sem hér hefur verið virkjað verði áfram nýtt hér á landi til atvinnusköpunar og flutt út sem framleiðsluþáttur í útflutningsvörum. Ef orkan verður flutt út „óunnin“ munu störf og ungt fólk fara með. Fjórfrelsið svonefnda er ekki orðin tóm. Reynslan sýnir að markaðsbúskapur og frelsi hámarka velmegun þjóða, þó henni sé ójafnt skipt. Evrópulönd huga að velferð og Norðurlöndin eru í fremstu röð í þeim efnum. Með þessu virðast þau fórna hámörkun hagvaxtarins, en reynast þó alltaf í fremstu röð hvað þjóðartekjur varðar. Hagfræðin virðist vanmeta velferðina.

Lesa áfram

Frá frelsi til helsis?

Almennum borgurum leyfist auðvitað ekki hvað sem er, en
stjórnskipun okkar er ætlað að sjá til þess að valdhöfum leyfist það
ekki heldur.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Hver og einn maður þarf daglega að svara því hvernig lífi hann vill lifa. Á vettvangi stjórnmálanna leitum við sameiginlega að svari við því hvernig samfélag við viljum búa til og verja. Flest það sem dýrmætast er, þ.m.t. mannleg reisn, grundvallast á því að við getum verið frjáls. Í því felst að við getum tekið ábyrgð á okkar eigin frelsi. Það gerum við með því að vinna með öðrum og leita jafnvægis, t.d. með því að nálgast viðfangsefnin með opnum huga, hlusta á aðra, efast um eigin niðurstöður, standa gegn þrúgandi kennivaldi, blindri kreddu og hvers kyns ofríki. Við hljótum að vilja búa í samfélagi sem lýtur ekki ströngum reglum tilbúinnar hugmyndafræði, heldur leyfir fólki að efast og rökræða, krefur ekki alla um undanbragðalausa hlýðni og stjórnast ekki af heraga, heldur treystir borgurunum til að stýra eigin lífi út frá eigin innsæi, reynslu og skynsemi. Góðir stjórnendur virða lexíur mannkynssögunnar og siðferðilegar undirstöður vestrænnar stjórnskipunar- og lagahefðar, þar sem einstaklingurinn fremur en hópur eða heild er grunneining samfélagsins og þar sem lögin leitast við að viðurkenna og vernda dýrmæta sérstöðu hvers manns.

Torkennileg undiralda

Allt þetta rifjast upp daglega á þessum undarlegu tímum þegar stjórnvöld gerast sífellt ágengari gagnvart daglegu lífi borgaranna með vísan til kórónuveirunnar (C19). Gefnar eru út almennar fyrirskipanir, án tillits til einstaklingsbundins heilsufars eða persónulegs ástands hvers og eins. Almenn grímuskylda er eitt dæmi. Annað dæmi er sú ráðagerð að sprauta ungmenni og jafnvel börn, sem eru þó í lítilli hættu vegna C19, með lyfjum sem enn eru á tilraunastigi. Getur verið að læknisfræðin hafi í kófi síðustu missera villst af leið og læknar misst sjónar á því grunnviðmiði að meðferð eigi sér ekki aðeins vísindalega stoð heldur gagnist einstaklingnum sem hún beinist að?

Lesa meira

Íslandsmeistaramótið í sósíalisma?

Samfélag okkar er ekki fullkomið en sú mynd, sem talsmenn sósíalisma úr ýmsum flokkum hafa haldið á lofti, er víðs fjarri raunveruleikanum.

Birgir Ármannsson skrifar í Mbl

Birgir Ármannsson

Baráttan vegna komandi kosninga er rétt að hefjast og ekki fyllilega komið fram hvaða málefni það verða, sem mesta athygli munu fá af hálfu flokkanna. Sumt er þó farið að skýrast, meðal annars það að allnokkrir flokkar og frambjóðendur á vinstri vængnum virðast telja það vænlegt til árangurs að staðsetja sig sem lengst til vinstri og kenna sig jafnvel við ómengaðan sósíalisma.

Málflutningur frá miðri síðustu öld

Að hluta til birtist þessi vinstri sveifla í stefnumálum viðkomandi flokka, en þó enn frekar í upphrópunum og orðavali, sem oft á tíðum ber meiri keim af stjórnmálaumræðu frá miðri síðustu öld heldur en þeim áherslum sem ríkjandi hafa verið í stjórnmálaumræðu á Vesturlöndum síðustu 30 árin eða svo. Málflutningurinn snýst um stéttabaráttu, öreiga og auðkýfinga, ofurríka fámenna yfirstétt sem mergsýgur snauða alþýðuna, andúð á atvinnurekstri í einkaeigu og ofurtrú á ríkislausnum og opinberum rekstri. Birtingarmyndirnar eru mismunandi en undirtónninn sá sami; til að bjarga almenningi úr heljargreipum kapítalismans þarf að umbreyta samfélaginu í anda sósíalískrar hugmyndafræði. Virðist þá litlu skipta, að allar tilraunir til að byggja þjóðskipulag á þeim grunni hafa endað með skelfingu. Flokkurinn, sem fremstur fer í þessum málflutningi, kennir sig feimnislaust við sósíalisma en fleiri leita á sömu mið. Sérstaklega hefur hraðferð Samfylkingarinnar til vinstri vakið athygli en augljóst er að sá flokkur lítur á Sósíalistaflokkinn sem harðvítugan samkeppnisaðila. Vinstri græn vilja svo auðvitað minna á sig í þessu sambandi og mun það sjálfsagt færast í aukana eftir því sem nær dregur kosningum.

Lesa meira

Hugmyndafræði öfundar og átaka

Barátta um jöfn tækifæri safnar ryki í skúffum vinstrimanna. Nú skal koma böndum á framtaksmanninn sem hefur verið drifkraftur bættra lífskjara.

Óli Björn Kárason skrifar í Mbl

Óli Björn Kárason

Baráttan um hylli kjósenda er margbreytileg en ekki síbreytileg – aðeins aðferðirnar breytast í takt við tæknina. Hvernig og með hvaða hætti stjórnmálamenn og -flokkar nálgast kjósendur gefur oft betri skilning á þeirri hugmyndafræði sem byggt er á (sé hún á annað borð til staðar), en klassískar skilgreiningar um vinstri og hægri, sósíalisma og frjálshyggju, róttækni og íhaldssemi, þjóðernishyggju og alþjóðahyggju, lýðræði og alræði, markaðshyggju og áætlunarbúskap. Allir sem sækjast eftir stuðningi kjósenda gefa ákveðin loforð. Á meðan einn heitir því að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til heilbrigðismála, er annar sem leggur áherslu á skipulag heilbrigðiskerfisins og nauðsyn þess að samhengi sé á milli útgjalda og þjónustu. Svo er það frambjóðandinn sem telur nauðsynlegt að einfalda regluverk og gera framtaksmönnum auðveldara að láta hendur standa fram úr ermum. Á móti honum stendur sá sem segir það almannahagsmuni að byggja upp sterkt eftirlits- og leyfiskerfi, enda sé atvinnurekendum ekki treystandi. Í hugum margra er þetta allt í samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á vinstri og hægri.

Árangur tortryggður

Átakalínur stjórnmálanna eru ekki alltaf svona hreinar, enda hentar það ekki öllum. Tækifærissinninn hefur ekki sérstakan áhuga á því að skilgreina hlutverk ríkisins eða marka stefnu í skattamálum eða atvinnumálum. Hann stingur aðeins puttanum uppi í sig, tekur hann út og setur út í loftið til að átta sig á því hvaðan vindar blása. Bróðir hans, lukkuriddarinn, skynjar tækifærin og nýtir sér þau. Og þá eru þau vopn notuð sem hentar hverju sinni. Lukkuriddarinn gerir sér góðar vonir um að geta gert út á ríkissjóð, enda búið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana að stórum hluta. (Ríkisvæðing stjórnmálaflokka myndar efnahagslegan hvata fyrir pólitíska ævintýramenn). Tækifærissinninn og lukkuriddarinn leggja meira upp úr orðskrúði og umbúðum en innihaldi.

Lesa áfram