Eigendur og stjórnendur fákeppnisfélaga eru í aðstöðu til sjálftöku arðs og launa. Embættismenn og stjórnmálamenn taka laun m.v. þennan sjálftökuhóp.
Ragnar Önundarson skrifar í Mbl:

Ole Anton Bieltvedt lætur grein mína í Mbl. 3. september sl. „Sveigjanlegt gengi er jafnaðartæki“ verða tilefni greinar í blaðinu hinn 18. september. Hann virðist aðeins hafa lesið fyrri hluta greinar minnar því hann segir: „Sjálftökufólkið sem Ragnar kallar svo er mest verkafólk og aðrir launþegar …“ Í greininni stendur aftur á móti þetta: „Forstjórar fákeppnisfélaganna taka sér hins vegar það sem þeim sýnist í krafti aðstöðu sinnar“ og ennfremur „á meðan kjörnir fulltrúar, þingmenn og ráðherrar, taka þátt í sjálftökunni mun ekkert breytast“. Vegna þessarar fljótfærni fellur stór hluti greinar Oles Antons um sjálfan sig. Hann er stórorður, nefnir gengisfyrirkomulag landsins „svikula hentistefnu siðlausra og skammsýnna stjórnmálamanna“. Voru allar ríkisstjórnir síðustu þrjátíu ára virkilega skipaðar svikulum, siðlausum illmennum? Ég held ekki.
Sjálftökufólkið
Ég hef enga von um að geta komið Ole Anton í skilning um að sveigjanlegt gengi sé skárri kosturinn af tveimur slæmum. Ef einhver skyldi hafa tekið grein hans alvarlega vil ég samt árétta eftirfarandi. Er tímabært að setja gríðarlega harðan aga, á eingöngu starfsfólk gjaldeyrisgreina, með sársauka atvinnumissis yfir höfði sér, meðan langflestir mundu sleppa? Svar sumra þeirra sem búa við afkomuöryggi er já, en ég segi nei. Gera þarf atvinnulífið fjölbreyttara og stöðugra en áður. Orkuvinnsla og stóriðja er stöðugust, við eigum óvirkjaða græna orku, notum hana. Vörumst að þynna gjaldmiðilinn út með prentun peninga. Ef það er gert þarf að draga þá aukningu til baka þegar tilætluðum árangri er náð. Mesti ágalli EES-aðildarinnar fær litla umræðu. Fákeppni er allsráðandi í viðskiptalífinu. Öllum kostnaði er velt yfir á neytendur. Eigendur og stjórnendur fákeppnisfélaga eru í aðstöðu til sjálftöku arðs og launa. Embættismenn og stjórnmálamenn taka laun m.v. þennan sjálftökuhóp. Þetta er sjálftökufólkið. Hinir borga.





