Leitum sátta um orkumálin

Ragnar Önundarson skrifar um orkumálin í Mbl

Orkubúskapur og stóriðja eru samt stöðugasti þáttur þjóðarbúsins og eiga mikinn þátt í því að álitlegt er að búa og starfa hér á landi.

Ragnar Önundarson

Kosningar eru fram undan, stjórnmálamenn sækjast eftir umboði til að gæta hagsmuna okkar næstu fjögur árin. Regluverk EES er umgjörð evrópsks markaðsbúskapar, sem virðist enn vera sá meðalvegur sem flestir vilja feta. Norðmenn, 17 sinnum fleiri en við, eru leiðandi í því samstarfi, sem við fáum að vera með í sem eins konar „aftanívagn“. Þeir vilja ekki að förinni sé stýrt þaðan.

Hlutfallslegir yfirburðir

Frelsi í viðskiptum og framfarir í flutningatækni hafa gert löndum kleift bæta lífskjör með því að sérhæfa sig kringum svonefnda „hlutfallslega yfirburði“. Hlutfallslegir yfirburðir okkar hafa lengi verið í fiskveiðum, hreinni og ódýrri orku, lítt snortinni náttúru og loks háu menntunarstigi. Sagt er að hér séu 42% af ósnortnum víðernum Evrópu. Við sjáum nú útlendinga kaupa upp dýrmætar náttúruperlur fyrir sig og vini sína og úrræðaleysi ráðamanna við því. Allir voru og eru sammála um að fiskiauðlindin verði að vera háð innlendu eignarhaldi. Sama hlýtur að gilda um orkuna og náttúruna. Þetta eru allt ómetanleg verðmæti sem við viljum halda í fyrir íbúana, þó hagfræðin og EES-reglurnar segi okkur að hagvöxturinn verði mestur með afskiptaleysi. Innan við fimmti hluti orkunnar er nýttur á almennum markaði heimila og fyrirtækja. Við viljum að það gríðarlega afl sem hér hefur verið virkjað verði áfram nýtt hér á landi til atvinnusköpunar og flutt út sem framleiðsluþáttur í útflutningsvörum. Ef orkan verður flutt út „óunnin“ munu störf og ungt fólk fara með. Fjórfrelsið svonefnda er ekki orðin tóm. Reynslan sýnir að markaðsbúskapur og frelsi hámarka velmegun þjóða, þó henni sé ójafnt skipt. Evrópulönd huga að velferð og Norðurlöndin eru í fremstu röð í þeim efnum. Með þessu virðast þau fórna hámörkun hagvaxtarins, en reynast þó alltaf í fremstu röð hvað þjóðartekjur varðar. Hagfræðin virðist vanmeta velferðina.

Virkjanir og stóriðja

Efnahagslíf okkar er og verður óstöðugt. Breytingar og sveiflur hafa lengi verið miklar í lífríkinu. Landkostir munu breytast í hlýnandi veðráttu, við vitum ekki hvernig, en varla aðeins okkur í hag. Ferðaþjónustan varð á fáum árum mesta gjaldeyrislind þjóðarinnar. Orkubúskapur og stóriðja eru samt stöðugasti þáttur þjóðarbúsins og eiga mikinn þátt í því að álitlegt er að búa og starfa hér á landi. Evrópureglur kveða á um að ríkjum beri að greiða fyrir tengingu raforkukerfa milli landa og að opinberum orkufyrirtækjum beri að taka markaðsverð fyrir orku. Ef sæstrengur verður lagður til landsins gerist þetta. Fyrir meira en hálfri öld hófum við að virkja stórt og umfram þarfir heimamarkaðarins. Stór verkefni voru gerð framkvæmanleg með því að tengja tekjur af stóriðju með langtímasamningum við kostnað og fjármögnun virkjana. Í hálfa öld höfum við haft fullvissu um að þjóðin muni njóta ódýrrar, hreinnar raforku, þegar stóriðjan hefur greitt virkjanirnar niður. Þessi fyrirheit voru margítrekuð. Fyrir nokkrum árum tók Landsvirkjun að segja okkur að nú mætti vænta uppskeru. Fram kom hugmynd um „þjóðarsjóð“ í stíl við norska olíusjóðinn. Tveir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa því miður orðað að selja Landsvirkjun að hluta. Einkavæðing, sæstrengur, vindorkugarðar og markaðsverð eru orð sem dynja á fólki. Orkupakkarnir eru vörður á vegferð sem við ráðum engu um. Engin samstaða er um að við göngum úr EES þó vegferð ESB í orkumálum henti okkur ekki. Finna verður leið sem gerir okkur kleift að efna gömlu fyrirheitin, en halda áfram þessu evrópska samstarfi á meðan það er okkur hagfellt. Það þýðir að við búum svo um hnútana að við getum lifað með orkupökkunum og jafnvel sæstreng.

Sjálfsþurftarbúskapur

Samrekstur í eigu notenda getur samræmst EES-reglum. Bóndi getur virkjað bæjarlækinn til eigin nota, fleiri bændur geta virkjað saman o.s.frv. Þjóðin hefur síðustu 50 árin virkjað mikið og verði eignarhaldið milliliðalaust hjá notendum í stað ríkissjóðs fellur reksturinn utan Evrópureglna. Sú leið sem ég sé er að skilja fimmtung orkuframleiðslunnar, eldri niðurgreiddar virkjanir, ekki aðeins allar þær sem gerðar voru fyrir almennan markað heimila og smáfyrirtækja heldur líka stórar niðurgreiddar virkjanir, frá rekstri þeirra sem yngri eru og þjóna orkufrekum iðnaði. Einhvers konar félagsform sameignar yrði valið eða skapað, það er úrvinnsluatriði. Nýja félagið yrði til fyrir eigendur sína og mundi afhenda þeim rafmagn á framleiðslukostnaðarverði um land allt, með hæfilegri álagningu vegna viðhalds og endurnýjunar. LV yrði eftir þetta með yngri, skuldsettar virkjanir. Þetta yrði að gera með vitund og samþykki lánveitenda LV. Þannig yrði tryggt að heimilin niðurgreiddu ekki orku til stóriðju og að þau njóti lágs orkuverðs, eins og ítrekað hefur verið lofað. Þetta er kjarni málsins. Markmiðið hlýtur að vera að standa við margítrekuð fyrirheit um að almenningur muni njóta lágs orkuverðs. Síðar gæti þetta sameignarfélag notenda leyst fleiri skuldlausar virkjanir til sín, eftir því sem almennur heimamarkaður kallar á.

Þrasað til eilífðarnóns?

Umræðan um orkupakkana var Sjálfstæðisflokknum afar erfið. Reynslulitlir forystumenn flokksins töluðu fyrst gegn innleiðingu þeirra og sáu enga sáttaleið. Þeir hröktust loks til að samþykkja orkupakkann úrræðalausir. Fólk vill ekki gefa frá sér neinn þeirra fáu, mikilvægu kosta sem vega upp á móti kostnaðarsamri búsetu hér við ysta haf. Orkan, náttúran og störf fyrir unga fólkið eru ómetanleg verðmæti sem við eigum að ríghalda í, rétt eins og fiskiauðlindina. Rökin eru nákvæmlega þau sömu. Fólk vill bæði gulltryggja áframhaldandi, sameiginlegt eignarhald á orkuauðlindinni, sem er ein verðmætasta og stöðugasta eign íbúa landsins og að íbúunum verði tryggð ódýr raforka. Fólkið vill ekki að LV verði einkavædd og það vill líka að hin hreina, græna orka verði nýtt hér á landi. Hugmyndir um að raforkunni verði snúið í vetni hér á landi, sem er nánast vinnuaflslaus ferill, og flutt þannig óunnin utan, eru óvitaskapur. Sorglegt er að heyra ráðherra orkumála daðra við það. Fjölmörg atriði þarf að ræða í tengslum við orkumálin. Það sem þarf hins vegar ekki að gera er að þrasa til eilífðarnóns. Það er komið nóg.

Höfundur er viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri.