Frá frelsi til helsis?

Almennum borgurum leyfist auðvitað ekki hvað sem er, en
stjórnskipun okkar er ætlað að sjá til þess að valdhöfum leyfist það
ekki heldur.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Hver og einn maður þarf daglega að svara því hvernig lífi hann vill lifa. Á vettvangi stjórnmálanna leitum við sameiginlega að svari við því hvernig samfélag við viljum búa til og verja. Flest það sem dýrmætast er, þ.m.t. mannleg reisn, grundvallast á því að við getum verið frjáls. Í því felst að við getum tekið ábyrgð á okkar eigin frelsi. Það gerum við með því að vinna með öðrum og leita jafnvægis, t.d. með því að nálgast viðfangsefnin með opnum huga, hlusta á aðra, efast um eigin niðurstöður, standa gegn þrúgandi kennivaldi, blindri kreddu og hvers kyns ofríki. Við hljótum að vilja búa í samfélagi sem lýtur ekki ströngum reglum tilbúinnar hugmyndafræði, heldur leyfir fólki að efast og rökræða, krefur ekki alla um undanbragðalausa hlýðni og stjórnast ekki af heraga, heldur treystir borgurunum til að stýra eigin lífi út frá eigin innsæi, reynslu og skynsemi. Góðir stjórnendur virða lexíur mannkynssögunnar og siðferðilegar undirstöður vestrænnar stjórnskipunar- og lagahefðar, þar sem einstaklingurinn fremur en hópur eða heild er grunneining samfélagsins og þar sem lögin leitast við að viðurkenna og vernda dýrmæta sérstöðu hvers manns.

Torkennileg undiralda

Allt þetta rifjast upp daglega á þessum undarlegu tímum þegar stjórnvöld gerast sífellt ágengari gagnvart daglegu lífi borgaranna með vísan til kórónuveirunnar (C19). Gefnar eru út almennar fyrirskipanir, án tillits til einstaklingsbundins heilsufars eða persónulegs ástands hvers og eins. Almenn grímuskylda er eitt dæmi. Annað dæmi er sú ráðagerð að sprauta ungmenni og jafnvel börn, sem eru þó í lítilli hættu vegna C19, með lyfjum sem enn eru á tilraunastigi. Getur verið að læknisfræðin hafi í kófi síðustu missera villst af leið og læknar misst sjónar á því grunnviðmiði að meðferð eigi sér ekki aðeins vísindalega stoð heldur gagnist einstaklingnum sem hún beinist að?

Í leit að svörum vakna fleiri spurningar: Getur verið að hér sé að eiga sér stað einhvers konar siðferðileg, siðfræðileg, menningarleg og pólitísk grundvallarbreyting í átt frá vestrænum gildum um sjálfsforræði, sjálfsábyrgð, frjálslyndi og lýðræði í átt til forsjárhyggju, vantrausts, stjórnlyndis og fámennisstjórnar? Er hugsanlegt að við séum nú að verða vitni að lagalegri og lögfræðilegri umpólun þar sem grunneining laga og samfélags er ekki lengur einstaklingurinn heldur samfélagið sem heild? Frammi fyrir slíkum möguleika er rétt að við öll, þó ekki síst embættismenn og æðstu ráðamenn þjóðarinnar, gerum okkur ljóst hvílíka ógn og valdbeitingu slík umbreyting myndi kalla yfir borgarana. Í sögulegu ljósi má segja að sú leið sé skýrlega vörðuð, allt frá kröfum um fylgispekt við nýja siði (í nafni heildarinnar eða samfélagsins), til þöggunar, eftirlits, ritskoðunar, frelsissviptingar, líkamsmeiðinga, kúgunar, harðstjórnar og alræðis.

Hlýddu!

Í þessu ljósi er heldur ónotalegt að sjá raðir grímuklædds fólks (þar á meðal marga í tískufatnaði með áletruninni „OBEY“) lúta mótbárulaust fyrirskipunum stjórnvalda um ferðir sínar og lífsmáta. Hvað gæti skýrt það að fólk samþykki svo greiðlega stórfelldar skerðingar á borgaralegum réttindum og að stjórnvöld umgangist okkur eins og börn? Er það vegna þess að við treystum því að allar aðgerðir stjórnvalda séu okkur til hagsbóta? Höfum við borið þær hagsbætur saman við fórnirnar sem verið er að færa? Er almenn grímuskylda studd traustum vísindalegum rökum? Höfum við borið saman dánarlíkur ungs fólks vegna C19 annars vegar og áhættu af nýju bóluefnunum? Samþykkjum við að börnin okkar verði sprautuð með þessum nýju efnum án tillits til nýjustu upplýsinga um tíðni andláta og alvarlegra aukaverkana?

Heggur sá sem hlífa skyldi

Af hverju taka læknar, lyfjafræðingar og aðrir fræðimenn ekki virkari þátt í umræðu um þessi mál? Vísbendingar eru um að vísindaleg umræða eigi nú undir högg að sækja. Fram hefur komið að ýmsir kennimenn vísindanna (þ.m.t. ritstjórar alþjóðlegra fagtímarita) gangi í verki gegn hinni vísindalegu aðferð, m.a. með því að banna efasemdir um viðteknar kenningar, birta ekki niðurstöður manna sem eru með aðrar tilgátur og með því að hindra að aðrir vísindamenn (og almenningur) fái samanburðarupplýsingar. Hvað stýrir þessari þróun? Er það ótti? Göfugur tilgangur? Áróður fjölmiðla eða villandi upplýsingar? Án þess að gera lítið úr hættunni af C19 þurfum við samt að beita rökhugsun og yfirveguðu hagsmunamati í leit að yfirsýn og réttri leið. Treystum við okkar eigin dómgreind eða viljum við afhenda sérfræðingum öll völd? Ég hef varað við síðari valkostinum því stjórn landsins má ekki ráðast af þröngu sjónarhorni sérvalins hóps. Í anda stjórnarskrárinnar verðum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að vinna saman og finna lausnir á grundvelli meðalhófs. Í því felst m.a. að enginn einn hópur má fara með of mikil völd og að öllu valdi verði að setja mörk. Það á við um kennivald vísindamanna ekki síður en annað vald. Í því samhengi er rétt að minna á að hin vísindalega aðferð byggist nú sem fyrr á heilbrigðum efa og gagnrýnni hugsun. C19 verður ekki kveðin niður úr því sem komið er og við þurfum að finna einhverja leið til að lifa með veirunni til frambúðar. Ætlum við að gera það með því að ofurselja okkur valdi sem kemur að ofan? Eða viljum við fá að taka sjálfstæðar ákvarðanir, taka ábyrgð á eigin heilsu og annarra … og njóta frelsis í samræmi við það? Hér er ástæða til að minna á að lýðræðisleg stjórnskipun hvílir á þeim grunni að ríkisvaldið stafi frá kjósendum og að stjórnvöld starfi í umboði almennings. Í þessu felst nánar að stjórnvöld eiga að þjóna almenningi, en ekki öfugt.

Höfum við ekkert lært?

Sérfræðingaveldi, tækniveldi og klerkastjórnir hafa ekki gefið sérstaklega góða raun í tímans rás. Slíkar stjórnir hafa staðið í vegi fyrir aðgengi almennings að upplýsingum og byggt völd sín á því að vera nauðsynlegir tengiliðir við hið æðsta vald. Einokun upplýsinga og valdið sem af slíku leiðir hefur verið misnotað of oft til þess að við ofurseljum okkur slíku stjórnarfari á ný. Nútíminn færir okkur endurtekin stef úr mannkynssögunni. Þaðan lærum við að varast skilaboð eins og þau að of miklar upplýsingar geti verið hættulegar. Söguleg dæmi benda til þess að full ástæða sé til að gæta sín á þeim sem vilja takmarka og stýra upplýsingaflæði. Við ættum því að hafa allan vara á þegar okkur er sagt að best sé að afhenda ákvörðunarvald um stórt og smátt til útvalinnar valdastéttar. Slíkt er ekki raunhæfur valkostur í lýðræðissamfélagi, því frjálst aðgengi að upplýsingum er forsenda frjálsrar hugsunar, skoðanamyndunar og tjáningar. Til skamms tíma getur e.t.v. virst hentugt að berja niður efasemdaraddir, einangra þá sem ekki vilja lúta kennivaldinu og jafnvel svipta þá borgaralegum réttindum. Sagan sýnir að slíkt er þó skammgóður vermir, því án aðhalds, gagnrýni og heilbrigðs efa fer lýðræðislegt stjórnarfar út af sporinu. Þegar valdhafar efast ekki lengur um réttmæti eigin skoðana verður ógnarstjórn að raunhæfum möguleika, því hvers vegna ættu stjórnendur að umbera tafs, hik og efasemdir fáfróðs almúgans?

Lokaorð

Vestræn stjórnskipun er ekki fullkomin, en hún er dýrmæt því hún hefur mótast í straumi tímans á grunni dýrkeyptra mistaka og blóðugra ófara. Almennum borgurum leyfist auðvitað ekki hvað sem er, en stjórnskipun okkar er ætlað að sjá til þess að valdhöfum leyfist það ekki heldur. Þeir sem telja sig hafa fundið öll svör – og þeir sem vilja afhenda slíku fólki öll völd – mega gjarnan vera minntir á að sígandi lukka er best í þessu sem öðru.

Höfundur skipar 5. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.