Sjálfstæði jafngildir ekki einangrun

Óskandi væri að umræða um stjórnmál, lagasetningu og lagaframkvæmd færðist inn á svið raunveruleikans

Arnar Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Núverandi og fyrrverandi formenn Viðreisnar skrifa greinar í Morgunblaðið 12. apríl sl. þar sem þau lýsa sýn sinni á alþjóðamálin og stöðu Íslands, auk þess að vísa bæði beint og óbeint til fyrri skrifa minna. Svo er að sjá sem þau vilji bæði vera málsvarar „frjálslyndis“ og „alþjóðasamvinnu“ og bæði vilja að Ísland gerist fullgildur aðili að ESB. Bæði hafa viljað gefa sig út fyrir að vera „nútímaleg“, væntanlega andstætt þeim sem eru „íhaldssamir“. Lausn þeirra á lýðræðisvanda Íslendinga gagnvart ESB er sú að Ísland gerist þar aðildarríki. Formaður Viðreisnar og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins gerir talsmönnum fullveldis Íslands upp „öfgaviðhorf“. Þegar horft er á þróun mála sl. áratugi á vettvangi ESB og sívaxandi þunga regluverks þess í íslenskum rétti blasir alls ekki við að ofangreindur málflutningur standist mælikvarða um „nútímaleg“ viðhorf, né heldur efnisleg viðmið frjálslyndis, lýðræðis eða alþjóðasamvinnu. Þétt regluverk, sérfræðingastjórn og skortur á lýðræði eru ekki einkenni frjálslynds stjórnarfars. Þungur straumur erlendra reglna, sem samdar eru af fulltrúum annarra þjóða án viðunandi temprunar af Íslands hálfu, er ekki merki um alþjóðlega „samvinnu“.

Áskoranir nútímans hafa vakið milljónir manna til vitundar um það að bóluefnaklúður, höft á samningsfrelsi þjóða og ólýðræðislegir stjórnarhættir verða ekki réttlætt með innantómum tilvísunum til þess að við þurfum að vera „nútímaleg“. Getur verið að eftir bráðum 30 ár af þessu fyrirkomulagi hafi „úreldingarstimpillinn“ mögulega snúist í höndum þeirra sem vilja kalla stjórnarhætti ESB „nútímalega“ og fullveldið „gamaldags“. Getur verið að talsmenn ESB séu þá orðnir fulltrúar gamaldags íhalds en að málsvarar sjálfstjórnar, lýðræðis og valddreifingar séu orðnir „nútímalegri“ og „framsæknari“ en fulltrúar „gamla stjórnskipulagsins“ (fr. ancien régime)? Í stað ásýndar, hégóma og skrums um gervifrjálslyndi, gervilýðræði og gervisamvinnu væri óskandi að umræða um stjórn mál, lagasetningu og lagaframkvæmd færðist inn á svið raunveruleikans. Tillaga um aðild að ESB verður að byggjast á raunsæi og staðreyndum, ekki skrúðmælgi og ímyndunum. Í því samhengi er nærtækt að kynna sér umræðu um hugsanlega aðild sjálfstæðs Skotlands að ESB (þ.e. ef Skotar myndu segja skilið við breska ríkið). Skotar eru um 5,5 milljónir, rúmlega 1% heildaríbúafjölda aðildarríkja ESB (477,7 milljónir manna). Skotum er morgunljóst að þeir yrðu í flokki smáríkja innan ESB og fengju færri en 1% þingmanna á Evrópuþinginu. Reglur ESB gera ekki ráð fyrir að aðildarríki hafi eitt atkvæði hvert, heldur fer atkvæðafjöldinn eftir íbúafjölda hvers ríkis fyrir sig. Af þessu leiðir að Þýskaland (83 milljónir íbúa) og Frakkland (67 milljónir) taka í framkvæmd flestar ákvarðanir sem máli skipta. Áhrif þessara tveggja ríkja eru í reynd miklu meiri þar sem þau fjármagna ESB að stærstum hluta. Ef fyrir liggur að Skotland með sínar 5,5 milljónir manna yrði í farþegahlutverki í ESB, hvert yrði þá hlutverk örríkisins Íslands við háborð ákvarðanatöku í Brussel?

Höfundur er héraðsdómari.