Verðmæti verður að verja af viti

Fjölbreytni í þingflokki sjálfstæðismanna er Sjálfstæðisflokki sem þjóðarflokki nauðsyn til að endurspegla viðhorf landsmanna með viðhlítandi hætti.

Bjarni Jónsson skrifar í Mbl.

Bjarni Jónsson

Fullveldi þjóðar, lýðræði og einstaklingsfrelsi eru verðmæti sem í askana verða látin. Það sýnir sagan hvarvetna. Allt er þetta vandmeðfarið og útþynning á þessum gildum varasöm, því að hún varðar leiðina til glötunar þeirra. Arnar Þór Jónsson dómari hefur með skilmerkilegum hætti vakið máls á því að viðhorfsbreytingar er þörf hérlendis á meðal embættismanna og þingmanna í átt til enn vandaðri rýni á tilskipunum og reglugerðum ESB m.t.t. til íslenskrar stjórnskipunar áður en þær fara fyrir sameiginlega afgreiðslunefnd ESB og EFTA. Þaðan berast „gerðirnar“ síðan þjóðþingunum til lögfestingar. Nú hefur borið vel í veiði, því að Arnar Þór hefur gefið kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum) í 2.-3. sæti D-listans í alþingiskosningunum haustið 2021.

Breytt Evrópusamband
Á árunum 1990-1992, þegar ESB og EFTA sömdu sín á milli um Evrópska efnahagssvæðið, EES, hafði Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar ESB 1985-1995, fengið aðildarlöndin til að samþykkja sáttmála um innri markað ESB og gekk hann í gildi 1. janúar 1993. Þar skyldi fjórfrelsið ríkja, þ.e. frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns. Sáttmálinn kveður á um viðamikið regluverk, sem ásamt tollum torveldar aðgengi þeirra sem utan við standa nema með sérstökum fríverslunarsamningi. EES-samningurinn var aðallega gerður til að hleypa EFTA-ríkjunum inn á innri markaðinn gegn upptöku regluverksins sem um hann gildir. Það verður sífellt umfangsmeira, og þegar Efnahagsbandalag Evrópu breyttist í Evrópusamband árið 1993 tók eðli þess að breytast með nýjum sáttmálum og eftir Lissabonsáttmálann 2009 er leynt og ljóst stefnt að sambandsríki Evrópu.

Útganga Breta 2020 varð hnekkir fyrir þessa hugmyndafræði og Bretar höfnuðu jafnframt aðild að EES. Svisslendingar, sem stunda mikil viðskipti við ESB-ríkin en eru varir um fullveldi sitt, höfnuðu aðild að EES og að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þeir hafa notið aðgangs að innri markaðinum með fjölda (120) tvíhliða samninga. ESB hefur horn í síðu þessa fyrirkomulags og vill að löggjöf Sviss þróist „sjálfvirkt“ í samræmi við löggjöf ESB, eins og í hinum EFTA-ríkjunum. Svisslendingar sætta sig ekki við þessa afskiptasemi af eigin löggjöf og hafa slitið samningaviðræðum um fyrirkomulag viðskiptasambands við ESB. Carl I. Baudenbacher, fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn, hefur tjáð þá skoðun sína á þessu að stjórnvöld í Bern og Brussel hafi reynt að þoka Sviss bakdyramegin inn í ESB en vanmetið andstöðuna við slíkt á meðal þjóðarinnar. Almenningur vilji samvinnu á sviði efnahagslífs en ekki stjórnmálalegan samruna. Þegar fólk hafi fundið að reynt hafi verið að ýta landinu svo þétt upp að ESB að ekki yrði aftur snúið hafi það spyrnt við fótum.

Gerjun í EFTA
Samband Sviss við ESB er sem sagt í uppnámi og í Noregi ræða stjórnmálamenn um að draga Noreg út úr ACER-orkustofnun ESB og þar með afturkalla innleiðingu Orkupakka 3 (OP3), sem er fordæmalaust, eða til vara að hafna OP4 eftir Stórþingskosningarnar í haust. Stjórnarskipti verða þar í haust, ef marka má skoðanakannanir, og stærsta verkalýðsfélag Noregs hefur ályktað í þessa veru. Þar með er talið stutt í sinnaskipti stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Verkamannaflokksins. Á Íslandi ríkti djúpstæður ágreiningur um það árið 2019 hvort réttlætanlegt væri að innleiða OP3, þótt sameiginleg nefnd EFTA og ESB hefði fallist á það árið áður. Lögfræðiálit greindi á um lögmæti OP3 m.t.t. stjórnarskrár Íslands, og í Noregi er mál rekið fyrir dómstólum um lögmæti þeirrar ákvörðunar Stórþingsins að krefjast aðeins einfalds meirihluta í máli, sem samkvæmt norsku stjórnarskránni útheimtir aukinn meirihluta að mati nokkurra lagaprófessora o.fl.

Gagnrýni
Arnar Þór Jónsson hefur á Íslandi leitt gagnrýni á það sem virðist færibandaafgreiðsla stjórnsýslu og þings á „gerðum“ ESB. Hann hefur bent á að fyrirkomulagið sé í mótsögn við grundvöll lýðræðisins, sem er sá að löggjafinn sé valinn af fólkinu sem á að hlíta lögunum. Nú koma veigamiklir lagabálkar sem snerta hvern landsmann frá embættismönnum í Brussel, sem ekkert tillit taka til aðstæðna hérlendis. Þetta fyrirkomulag ásamt því ákvæði EESsamningsins að ESB-réttur skuli hér njóta forgangs umfram landsrétt, vegur að grunnstoðum lýðveldisins. Það er brýnt að fjölga alþingismönnum sem hafa kunnáttu, getu og vilja til að verja fullveldi landsins og stjórnarskrá með sterkustu fáanlegu rökum í samskiptunum við yfirþjóðlegt vald. Viðamikil mál mun reka á fjörur þingsins á næsta kjörtímabili og nægir að nefna OP4.

Orð Arnars Þórs:
„Ef menn vilja veikja þær stoðir sjálfstæðis, sem persónufrelsið, stjórnarskráin, almenn lög og aðild Íslands að alþjóðasáttmálum hvíla á, er lágmarkskrafa, að slíkt fari fram fyrir opnum tjöldum, en ekki í bakherbergjum. Meðan við viljum vera sjálfstæð þjóð verðum við að axla ábyrgð á eigin hagsmunum, tilveru okkar og frelsi.“

Höfundur er verkfræðingur á eftirlaunum.
bjarnijons1949@gmail.com