ESB – umsókn? Enn og aftur?

Leiðari Mbl. föstudaginn 23. september 2022:

Systurflokkarnir vilja kíkja aftur í pakkann sem allir
vita hvað er í…eða hvers vegna gengu Svíar og Finnar í NATO?

Svíar sóttu um aðild að NATO


Þingmenn systurflokkanna hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar „um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið“ og fengu hana rædda í þaula á þriðjudag. Forsendur flutningsmannanna fyrir því að taka aftur upp viðræður við Evrópusambandið um aðild eru þær sömu og þær voru þegar málið sigldi eftirminnilega í strand fyrir um áratug, fyrir utan að nú telja þeir að stríðið í Úkraínu gefi þeim færi á að vinna fleiri á sitt band. Það er eitthvað alveg sérstaklega lítið geðfellt við það að reyna að nota yfirgang Pútíns og ógæfu Úkraínumanna til að endurvekja þetta vonlausa mál, en það er engu að síður gert og þarf ef til vill ekki að koma á óvart enda hefur flest verið reynt fyrir þennan vonda málstað. Þannig er beinlínis fullyrt í greinargerð með tillögunni að óhætt sé að segja að „vatnaskil hafi orðið í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu“. Vísað er til þess að Danir hafi samþykkt að falla frá fyrirvörum um að taka fullan þátt í varnarmálasamstarfi ESB og að Finnar og Svíar hafi sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu vegna innrásarinnar. Þetta er fjarstæðukenndur málflutningur og öfugsnúinn, því að sú staðreynd að Finnar og Svíar sækja um aðild að NATO vegna aukinnar

hættu frá Rússlandi felur í sér að það er NATO en ekki ESB sem vegur eitthvað þegar kemur að vörnum aðildarríkjanna, enda eru bæði Finnar og Svíar aðilar að Evrópusambandinu. Evrópusambandið hefur ekkert með varnarmál að gera eins og kom berlega í ljós í fyrrgreindum umræðum á Alþingi þegar Birgir Ármannsson spurði einn þingmann Viðreisnar út í þetta atriði. Hann benti á að Evrópusambandið býður ekki upp á annað en umræður um varnarmál en bætir engu við þær varnir sem NATO býður upp á og hann fékk ekkert gagnlegt svar við spurningu um þessi efni frá þingmanninum. Ástæðan er auðvitað sú að tal um nauðsyn aðildar að ESB vegna varnarmála er blekking. Óli Björn Kárason benti á í þessum umræðum, líkt og hann gerði einnig í grein hér í blaðinu í fyrradag, að varanlegar undanþágur frá reglum Evrópusambandsins eru ekki í boði fyrir þau ríki sem gerast aðilar. Um þetta var upplýst þegar viðræður vinstri stjórnarinnar við ESB stóðu yfir fyrir rúmum áratug og þeir sem til þekkja bentu raunar á það áður en út í viðræðurnar var anað. Þá var því engu að síður haldið fram af áköfum stuðningsmönnum aðildar hér á landi að það væri samt hægt að fá undanþágur og að það yrði að láta á það reyna.

Óli Björn rifjaði upp ummæli stækkunarstjóra ESB, Stefans Füle, sem talaði mjög skýrt um það á blaðamannafundi í júlí 2010, við upphaf viðræðnanna um aðild Íslands, að engar varanlegar undanþágur væru í boði. Engu að síður var haldið áfram þá á þeirri forsendu að þrátt fyrir þetta væri hægt að semja um varanlegar undanþágur. Auðvitað kom svo í ljós að Füle var ekki að skrökva þessu, viðræðurnar runnu út í sandinn og voru slegnar af til að reyna að koma í veg fyrir að vinstri flokkunum yrði refsað í alþingiskosningunum 2013. Það tókst ekki og þeir fengu skell sem þeir hafa ekki náð sér af síðan.

Ríkisstjórn Steingríms J. (og eftir atvikum Jóhönnu) kynnir ESB-umsóknina

Þrátt fyrir þetta halda Samfylkingin og Viðreisn, með aðstoð Pírata, áfram að reyna að sannfæra fólk um að hægt sé að fá eitthvað annað út úr aðild að Evrópusambandinu en aðild að Evrópusambandinu. Það sé hægt að fá sér sæti við borðið í Brussel og velja bara bestu bitana en sleppa þeim óætu. Nýr þingmaður Viðreisnar talaði til að mynda um nauðhyggju í þessu sambandi þegar hann gagnrýndi þá sem bentu á þessar staðreyndir og reyndi að halda því fram að það mætti ekki gefa sér fyrirfram að aðild að ESB fæli í sér að taka upp allt regluverk sambandsins. Þeir sem að tillögunni standa þykjast aðeins vilja leyfa almenningi að kjósa um það hvort sækja eigi um aðild og svo komi í ljós hvað sé í pakkanum, hvort það sé allt Evrópusambandið eða bara bestu bitarnir. En með þessum málflutningi eru tillöguflytjendur að reyna að blekkja almenning og halda atkvæðagreiðslu á röngum forsendum. Þeir vilja eyða næstu mánuðum og misserum í pólitískt karp um aðild að Evrópusambandinu eins og þing og þjóð hafi ekkert annað að gera. Þeir segjast vilja fá úr málinu skorið, en vilja gleyma því að það fékkst úr málinu skorið fyrir rúmum áratug þegar vinstri stjórnin gafst upp á málinu. Og það hefur fengist úr því skorið í öllum kosningum síðan þegar stuðningsflokkum Evrópusambandsaðildar hefur ítrekað verið hafnað og jafnvel verið við það að detta út af þingi. Það er enginn áhugi á aðild að Evrópusambandinu hér á landi enda væri aðild gegn hagsmunum Íslendinga. Og það nöturlega er að þetta vita tillöguflytjendur og þess vegna gera þeir ekki tillögu um að Ísland gangi í sambandið heldur að kíkt verði í pakkann eina ferðina enn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *