Horfum fram á veginn

Einar S. Hálfdánarson skrifar í Mbl

Minnkun þjóðarframleiðslu mun færa lífskjörin annað, þ.m.t. góða heilbrigðisþjónustu.
Hægt er að viðhalda lífskjörunum og vernda umhverfið um leið.

Einar S. Hálfdánarson

Verður það hlutskipti barna okkar og barnabarna að lifa við versnandi lífskjör næstu áratugina? Frambjóðendur Samfylkingar og sumir aðrir boðuðu mikinn samdrátt í neyslu til að ná miklu meiri árangri en kveðið er á um í sameiginlegum markmiðum Evrópuríkja gagnvart Parísarsamningnum. Ég tel unnt að gera miklu betur hvað varðar loftslagsmál og mengun án þess að fórna lífskjörunum. Mjög hallar á Evrópuríkin í Parísarsamningnum en aðrir hafa frítt spil án fullnægjandi skýringa. Og Ísland á ekki að taka þátt í að færa framleiðslu úr landi til að líta betur út á blaði. Sameinuðu þjóðirnar hafa enda varað við slíkri sýndarmennsku. Evrópa hamast meðan aðrir auka losun af miklu kappi. En þannig er staðan nú einu sinni og við hana verður að lifa.

Þróunarhjálp til hjálpar gegn mengun

Með því að samþætta annars vegar loftslagsmál og mengunarvarnir og hins vegar þróunarhjálp getum við gert heiminum miklu meira gagn en með því að einblína á losun á Íslandi.

Meðal mikilvægustu verkefna umhverfismálanna eru að vernda regnskógana, stöðva plastlosun í hafið, varðveita villt dýr og að nýta endurnýjanlega orkugjafa. Með þróunaraðstoð sem beinist að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa er hægt að ná langtum meiri árangri fyrir sama fé en hér heima. Það sýna dæmin. Það er líka heimsnauðsyn að stöðva eyðingu regnskóganna sem eru heimkynni dýranna og lungu heimsins. Mestöll plastmengun heimshafanna stafar frá þróunarríkjunum sem t.d. losa sorp í ár. Þarna þarf að lyfta grettistaki.

Margir vinstrimenn boða framtíðarfátækt á Íslandi

Boðskapur þeirra sem vilja minnka þjóðarframleiðslu á Íslandi og draga samhliða úr neyslu hefur falskan hljóm. Minnkun framleiðslu hér mun færa hana annað og lífskjörin með, þar með talda góða heilbrigðisþjónustu. Sú leið sem ég bendi á hér að ofan mun halda lífskjörum okkar og framtíðarkynslóða góðum meðan heimsmarkmið um minni mengun og betra líf öðrum til handa nást. Hvers vegna eigum við að fórna lífskjörum okkar að nauðsynjalausu? Eru þjóðir heimsins á þeirri vegferð? Mér sýnist sem betur fer ekki. Þannig ætla Bretar t.a.m. að draga mikið úr losun með orkuskiptum. Þar snýst umræðan ekki um lakari lífskjör til framtíðar. Það er full ástæða til að segja: Bjarta framtíð án meinlætastefnu.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *