Hugmyndafræði öfundar og átaka

Barátta um jöfn tækifæri safnar ryki í skúffum vinstrimanna. Nú skal koma böndum á framtaksmanninn sem hefur verið drifkraftur bættra lífskjara.

Óli Björn Kárason skrifar í Mbl

Óli Björn Kárason

Baráttan um hylli kjósenda er margbreytileg en ekki síbreytileg – aðeins aðferðirnar breytast í takt við tæknina. Hvernig og með hvaða hætti stjórnmálamenn og -flokkar nálgast kjósendur gefur oft betri skilning á þeirri hugmyndafræði sem byggt er á (sé hún á annað borð til staðar), en klassískar skilgreiningar um vinstri og hægri, sósíalisma og frjálshyggju, róttækni og íhaldssemi, þjóðernishyggju og alþjóðahyggju, lýðræði og alræði, markaðshyggju og áætlunarbúskap. Allir sem sækjast eftir stuðningi kjósenda gefa ákveðin loforð. Á meðan einn heitir því að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til heilbrigðismála, er annar sem leggur áherslu á skipulag heilbrigðiskerfisins og nauðsyn þess að samhengi sé á milli útgjalda og þjónustu. Svo er það frambjóðandinn sem telur nauðsynlegt að einfalda regluverk og gera framtaksmönnum auðveldara að láta hendur standa fram úr ermum. Á móti honum stendur sá sem segir það almannahagsmuni að byggja upp sterkt eftirlits- og leyfiskerfi, enda sé atvinnurekendum ekki treystandi. Í hugum margra er þetta allt í samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á vinstri og hægri.

Árangur tortryggður

Átakalínur stjórnmálanna eru ekki alltaf svona hreinar, enda hentar það ekki öllum. Tækifærissinninn hefur ekki sérstakan áhuga á því að skilgreina hlutverk ríkisins eða marka stefnu í skattamálum eða atvinnumálum. Hann stingur aðeins puttanum uppi í sig, tekur hann út og setur út í loftið til að átta sig á því hvaðan vindar blása. Bróðir hans, lukkuriddarinn, skynjar tækifærin og nýtir sér þau. Og þá eru þau vopn notuð sem hentar hverju sinni. Lukkuriddarinn gerir sér góðar vonir um að geta gert út á ríkissjóð, enda búið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana að stórum hluta. (Ríkisvæðing stjórnmálaflokka myndar efnahagslegan hvata fyrir pólitíska ævintýramenn). Tækifærissinninn og lukkuriddarinn leggja meira upp úr orðskrúði og umbúðum en innihaldi.

Í tilraunum til að afla sér lýðhyllis nota þeir þau vopn sem henta hverju sinni. Og svo er auðvitað stjórnmálamaðurinn sem nálgast flest verkefni líkt og verkfræðingur. Hann mun aldrei ryðja nýjar brautir. Margir stjórnmálamenn eru sannfærðir um að hægt sé að ná verulegum árangri með því að ýta undir öfund og tortryggni meðal almennings. Raunar byggir hugmyndafræði sumra þeirra hreinlega á öfund, sundurþykkju og átökum þar sem nágrönnum er att saman, stétt gegn stétt, landsbyggð gegn höfuðborg. Þetta er hugmyndafræði sem rekur fleyg milli þeirra sem yngri eru og þeirra eldri, milli launafólks og atvinnurekenda. Í stað þess að samfagna þegar einhverjum gengur vel, er árangurinn gerður tortryggilegur og alið á öfund í garð framtaksmannsins. Með þeim hætti er stöðugt reynt að reka rýting í þjóðarsálina, sem hefur sótt styrk í frelsi einstaklingsins og samvinnu fólks.

Gamlar skotgrafir

Kannski er það ekki tilviljun að Samfylkingin spili æ meira á öfundargenin enda komin í harða samkeppni við Sósíalistaflokkinn. Hvort sem Sósíalistaflokkurinn hefur erindi sem erfiði í komandi kosningum, er ljóst að fámennum en háværum hópi fólks hefur tekist að toga margan vinstri manninn niður í gamaldags skotgrafir stéttabaráttu og þjóðfélagsátaka. Að þessu leyti hefur Sósíalistaflokkurinn þegar náð töluverðum árangri. Vinstri menn hafa fært sig lengra til vinstri, nær aukinni ríkishyggju. Þannig mun þjóðfélag frjálsra einstaklinga sem eru fjárhagslega sjálfstæðir eiga í vök að verjast. Og stjórnmálabaráttan fer að snúast í æ meira mæli um hvernig eigi að skipta þjóðarkökunni en ekki um leiðir til að stækka kökuna. Hlutfallsleg stærð kökusneiðarinnar skiptir meira máli en stærð kökunnar og umsvif ríkisins verða mælikvarði á velferð og réttlæti. Aukin umsvif ríkis eru ekki aðeins æskileg heldur markmið í sjálfu sér. Barátta um jöfn tækifæri safnar ryki í skúffum vinstri manna. Nú skal koma böndum á framtaksmanninn – frumkvöðulinn sem hefur verið drifkraftur framfara og bættra lífskjara.

Að gefa einstaklingum tækifæri til að njóta eigin dugnaðar og útsjónarsemi gengur gegn lífsviðhorfum sósíalista um jöfnuð. Í draumaríkinu ríkir jöfnuður, jafnt í biðröðum sem annars staðar. Og framtakssemi einstaklinga lamast og farvegur fyrir nýja hugsun og nýjar aðgerðir hverfur. Jöfnuðurinn verður því alltaf niður á við, en ekki upp. Í kapphlaupi við Sósíalistaflokkinn um lýðhylli freistast æ fleiri vinstri menn og Samfylkingar sérstaklega að tileinka sér þá lífsspeki að sæl sé sameiginleg eymd. Er nema furða að rótgrónir kratar hafi áhyggjur af þróuninni.

Í febrúar síðastliðnum taldi Finnur Torfi Stefánsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins (sem gekk inn í Samfylkinguna), nauðsynlegt að birta ádrepu í Kjarnanum og sagði meðal annars: „Þótt jafnaðarmenn leggi megináherslu á hlutverk ríkisins í því að skapa mannsæmandi lífskjör fyrir fólk eru þeir jafnframt baráttumenn fyrir frjálsum markaði og að einkaframtak geti blómstrað hjá þeim sem það vilja. Nú á dögum hefur slíkt verið gert nánast ómögulegt með boðum og bönnum, leyfum, gjöldum og alls kyns fargani sem drepur framtak manna í dróma. Báknið burt segja jafnaðarmenn.“ Sjónarmið krata eiga erfitt uppdráttar meðal íslenskra vinstri manna og áhyggjur Finns Torfa eru skiljanlegar. Kapphlaupið milli Samfylkingar og Sósíalistaflokksins hefur gert krata landlausa í íslenskum stjórnmálum. Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.