Hugsunarfrelsi, já takk

Þegar hjarðhegðun er beitt til að afmarka hvað telst skynsamlegt, þá er skipulegri hugsun, staðreyndum og rökræðu hent út um gluggann.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið

Arnar Þór Jónsson

Í einfeldni minni hélt ég að sú dómharka, fordæming, þröngsýni og krafa um samræmda hugsun, sem einkennir margt á samfélagsmiðlum, væri aðallega bundin við fólk sem alist hefði upp við þá flatneskju og yfirborðsmennsku sem þar er að finna. Þetta byggði ég á því að samfélagsmiðlar séu magnari fyrir háværustu raddirnar og vettvangur þar sem sannleikurinn er daglega afbakaður. Þessi hugmynd mín var að nokkru leyti leiðrétt 4. ágúst sl. þegar tveir menn á níræðisaldri réðust gegn persónu minni í Fréttablaðinu. Báðir kjósa þeir þar að rangtúlka, af baka og misskilja það sem þó á að vera auðskilið þeim sem hafa opinn huga og beita gagnrýninni hugsun. Umræða um íslenska hagsmuni, ESB o.fl. þarf að byggjast á raunsæi og staðreyndum, ekki draumsýn eða ímyndunum. Í því sem hér fer á eftir ætla ég ekki að elta ólar við ómálefnalega framsetningu þessara manna því greinar þeirra bera vott um að þeir séu inni í bergmálshelli og hafi því ekki aðeins einangrað sig frá samfélaginu í heild, heldur einnig frá raunveruleikanum sem slíkum. Við lifum á tímum þar sem stöðugt er þrengt að frjálsri hugsun.

Frammi fyrir því þarf að leita svara við því hvaða möguleika frjáls umræða og sannleiksleit eigi í umhverfi þar sem krafist er samræmdrar hugsunar allra sem vinna á sama stað, líta eins út, eru af sama kyni, hafa sömu kynhneigð o.s.frv. Pólitísk rétthugsun er ein helsta ógnin við frjálsa hugsun. Rétthugsunin hefur tekið á sig ýmsar myndir í tímans rás, en eitt aðaleinkenni hennar er algjör skortur á skopskyni, bókstafshyggja og eftirlit með því að hvorki ritað né talað mál endurspegli „hugsanaglæpi“, villutrú eða falskenningar. Nú sem fyrr lifum við á tímum sem einkennast af átökum milli einstaklingsfrelsis og forræðishyggju. Ein leiðin til að vekja upp ótta og ýta undir valdboðsstjórn er að benda á einhverja aðsteðjandi ógn. Eitt dæmi um slíkan málflutning eru rök þess efnis að EES samningurinn sé í hættu ef aðildarþjóðir kjósi að beita ákvæðum hans um neitunarvald! Valdboðsstjórn þrífst á ótta og þá er nauðsynlegt að benda á, finna eða framleiða ógn sem vekur nægilega sterk viðbrögð. Valdboðsmenn fá mestan byr ef unnt er að sýna fram á að ógnin sé yfirvofandi og kalli á samstöðu.

Stjórnmálamenn sem nýta sér þessa tækni ofureinfalda flókin viðfangsefni og veita einföld svör við f lóknum vandamálum. Með því að berja niður frumkvæði, efa og sjálfstæða hugsun er reynt að samræma hegðun fólks og berjast gegn einstaklingshyggju með það að markmiði að framkalla menningarlega og pólitíska einsleitni. Í því samhengi getur verið hjálplegt að vísa stöðugt til þess að þegnarnir beri skyldur gagnvart ríkinu og hvetja fólk til að forðast áhættu. Afleiðing slíkrar stefnu birtist í vitsmunalegri stöðnun, sem og skorti á hugmyndafræðilegri fjölbreytni. Í slíku umhverfi búa sannir heimspekingar og frjóir hugsuðir við tortryggni, ógn og jafnvel ofsóknir fyrir að „spilla æskulýðnum“ o.s.frv.

Hagsmunasamtökum, fjölmiðlum, ríkisstofnunum o.f l. má beita til pólitískrar og vitsmunalegrar bælingar. Þetta er t.d. gert með því að ráðast að, hæða og útskúfa fólki sem vogar sér að hugsa út fyrir hinn leyfilega kassa.

Lýðræðið er dagleg frelsisbarátta

Óþarft er að fjölyrða um þann skaða sem framangreind nálgun veldur gagnvart lýðræðislegri umræðu. Þegar hjarðhegðun er beitt til að afmarka hvað telst skynsamlegt, þá er skipulegri hugsun, staðreyndum og rökræðu hent út um gluggann. Í slíku umhverfi verða til hvatar þar sem harðlínunálgun er verðlaunuð, en hinir úthrópaðir sem voga sér að gerast málsvarar klassískra frjálslyndra sjónarmiða, þar á meðal um tjáningarfrelsi, um sakleysi þar til sekt er sönnuð og um réttláta málsmeðferð. Augljóslega skaðar þetta pólitíska umræðu.

Ef menn ímynda sér að auka megi farsæld og almenn lífsgæði með því að ala á tortryggni, öfund og óvild, þá er það villuljós. Það er andlýðræðislegt að standa gegn heilbrigðum skoðanaskiptum með því að ráðast á andmælendur sína, af baka málflutning þeirra, fara með rangfærslur, saka menn um illvilja, geðveiki o.s.frv. Það er heldur ekki heiðarlegt að túlka orð andmælenda sinna á versta veg, t.d. með því leita að tilefni til að móðgast og reiðast. Farsælli leið er að líta á hvert annað sem samverkamenn í frelsisbaráttunni, sem hlýtur að miðast að því að fá að lifa sem frjálsir menn undir stjórn valdhafa sem við sjálf höfum kosið

Arnar Þór Jónsson skipar 5. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi