Tveir stjórnarmenn í fullveldisfélaginu eru í framboði í prófkjöri flokksins í Reykjavík, þau Ingibjörg Sverrisdóttir og Birgir Örn Steingrímsson, og Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sem vakið hefur mikla athygli fyrir greinar sínar hér í blaðinu, í Suðvesturkjördæmi. Aðild þeirra þriggja að þingflokknum mundi gjörbreyta stöðunni þar.
Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl
Meðal kjósenda er undirliggjandi gremja vegna óafgreiddra mála.
Nú fer að styttast í að kosningabaráttan hefjist af fullum krafti. Í dag hefjast fyrstu prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi og í framhaldinu í öðrum kjördæmum. Framsóknarflokkurinn er búinn að kynna framboðslista sína í Reykjavíkurkjördæmunum og aðrir flokkar eru komnir vel á veg.
Það verður ekki annað sagt en að núverandi stjórnarsamstarf hafi reynzt vel og mörgum finnst æskilegast að það haldi áfram. Eins og við mátti búast hefur þátttaka VG verið umdeild á vinstri kantinum en Katrín Jakobsdóttir orðið afar vinsæl sem forsætisráðherra, sem skapar flokki hennar góða vígstöðu í kosningunum.
Innan Sjálfstæðisflokksins er vilji til að þessu samstarfi verði haldið áfram. Það hjálpar hins vegar ekki til andstaða innan þingflokksins við hálendisþjóðgarð og neikvæður tónn í garð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra af því að hún hefur aðra afstöðu til heilbrigðismála en þingmennirnir í þeim þingflokki.
Allt á þetta eftir að skýrast í kosningabaráttunni en óráðlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ganga út frá því sem vísu að Framsókn og VG vilji halda samstarfinu áfram.
Svo er annað sem getur haft áhrif á kjósendur. Meðal þeirra er undirliggjandi gremja vegna þess hvernig nýtingu auðlindarinnar í hafinu er háttað. Þótt ábyrgðin á því sé á vinstri kantinum, þar sem það var vinstristjórn sem gaf framsalið frjálst án annarra aðgerða, er Sjálfstæðisflokknum kennt um þótt hann hafi haft forystu um að taka upp auðlindagjald.
Verði ekkert að gert mun þessi djúpstæða gremja brjótast fram.
Það eru meiri líkur en minni á að þessi reiði meðal kjósenda finni sér einhvern farveg í kosningabaráttunni. Hvernig það gerist getur byggzt á öðrum umræðum, sem tengjast nýtingu auðlindanna.
Geri ríkisstjórnin alvöru úr því að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka getur það haft áhrif á kosningabaráttuna. Það má vel vera að þær fréttir hafi ekki borizt inn fyrir veggi Alþingis en veruleikinn er sá að fólk treystir stjórnmálamönnum ekki fyrir sölu bankanna eftir það sem á undan er gengið. Bankasala svo skömmu fyrir kosningar getur því haft örlagaríkar afleiðingar.
Fleiri mál þvælast fyrir kjósendum. Eitt þeirra er sú skoðun Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að Íslandi sé í raun stjórnað af hagsmunasamtökum. Að almennum borgurum sækir sá grunur að of mikið sé til í þessu hjá seðlabankastjóra. Þeir sjá sjálfir hver háttsemi hagsmunasamtakanna er. Þeir sjá umsvif hagsmunavarðanna og sjá þá koma sér fyrir innan flokkanna. Allt eru þetta vísbendingar um að seðlabankastjóri hafi rétt fyrir sér. Það þýðir ekki fyrir flokkana að reyna að þegja þetta mál í hel.
Loks er enn eitt mál sem vefst fyrir mörgum kjósendum, m.a. innan Sjálfstæðisflokksins, raunar svo mjög að stór hópur sjálfstæðismanna stofnaði sérstakt félag, sem nefnist Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál, af þeim sökum, en það er tregða Alþingis til að segja nei við tilskipunum frá ESB sem við höfum fullan rétt til skv. EES-samningnum.
Ein afleiðing þess er sú að það er óhugsandi að selja raforku til Evrópu þótt við vildum, vegna þess að þá værum við sjálfkrafa orðin hluti af orkukerfi ESB vegna þess að Alþingi nýtti sér ekki rétt sinn til að segja nei við orkupakka 3. Það væri sambærilegt við það að við hefðum hleypt Evrópuríkjunum inn í fiskveiðilögsögu okkar en það mundi gerast næði stefna Samfylkingar og Viðreisnar um inngöngu í ESB fram að ganga.
Tveir stjórnarmenn í fullveldisfélaginu eru í framboði í prófkjöri flokksins í Reykjavík, þau Ingibjörg Sverrisdóttir og Birgir Örn Steingrímsson, og Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sem vakið hefur mikla athygli fyrir greinar sínar hér í blaðinu, í Suðvesturkjördæmi. Aðild þeirra þriggja að þingflokknum mundi gjörbreyta stöðunni þar.
Umsókn Íslands um aðild að ESB hefur aldrei verið dregin formlega til baka. Hún liggur í skúffu í Brussel. Það eru of mörg stór mál óútkljáð vegna þess að þeir flokkar sem á annað borð vilja klára þau skv. stefnu þeirra virðast ekki treysta sér til þess. Verði þetta hik viðvarandi mun það hafa afleiðingar, hverjar sem þær verða.
Hér hafa verið nefnd nokkur mál sem flestir flokkarnir vilja forðast að ræða. Svo eru önnur stór mál sem eru að ná í gegn og víðtæk samstaða er um. Það eru ekki sízt þær róttæku umbætur í málefnum barna sem Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hefur verið að vinna að allt kjörtímabilið. Þar er um að ræða einhverjar mestu breytingar á velferðarkerfinu frá því að því var komið á á fjórða áratug síðustu aldar. Það mál skýrir sennilega að í síðustu könnun um vinsældir ráðherra var Ásmundur Einar í öðru sæti næst á eftir Katrínu Jakobsdóttur. Og með sama hætti er það mál líklegt til að duga honum vel í kosningabaráttunni í Reykjavík.
Kosningabaráttan sjálf og frammistaða einstakra frambjóðenda mun hafa mikil áhrif á það hvaða stefnu kosningabaráttan tekur. Það hjálpar stjórnarflokkunum að almennt talað er ríkisstjórnin vel liðin og enginn stjórnarandstöðuflokkanna er að ná sérstakri athygli. En Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur sýnt hvað hægt er að gera á einni kvöldstund í sjónvarpssal.
Yfirbragð Alþingis hefur breytzt á síðustu 60 árum eða svo. Það er ekki jafn mikið um sterka persónuleika á þingi nú og þá og það mótar þingið og umræður.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is
Höfundur: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is