Kosningabaráttan nálgast

Tveir stjórn­ar­menn í full­veld­is­fé­lag­inu eru í fram­boði í próf­kjöri flokks­ins í Reykja­vík, þau Ingi­björg Sverr­is­dótt­ir og Birg­ir Örn Stein­gríms­son, og Arn­ar Þór Jóns­son héraðsdóm­ari, sem vakið hef­ur mikla at­hygli fyr­ir grein­ar sín­ar hér í blaðinu, í Suðvest­ur­kjör­dæmi. Aðild þeirra þriggja að þing­flokkn­um mundi gjör­breyta stöðunni þar.

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Meðal kjós­enda er und­ir­liggj­andi gremja vegna óaf­greiddra mála.

Nú fer að stytt­ast í að kosn­inga­bar­átt­an hefj­ist af full­um krafti. Í dag hefjast fyrstu próf­kjör Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi og Norðaust­ur­kjör­dæmi og í fram­hald­inu í öðrum kjör­dæm­um. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er bú­inn að kynna fram­boðslista sína í Reykja­vík­ur­kjör­dæmun­um og aðrir flokk­ar eru komn­ir vel á veg.

Það verður ekki annað sagt en að nú­ver­andi stjórn­ar­sam­starf hafi reynzt vel og mörg­um finnst æski­leg­ast að það haldi áfram. Eins og við mátti bú­ast hef­ur þátt­taka VG verið um­deild á vinstri kant­in­um en Katrín Jak­obs­dótt­ir orðið afar vin­sæl sem for­sæt­is­ráðherra, sem skap­ar flokki henn­ar góða víg­stöðu í kosn­ing­un­um.

Inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins er vilji til að þessu sam­starfi verði haldið áfram. Það hjálp­ar hins veg­ar ekki til andstaða inn­an þing­flokks­ins við há­lend­isþjóðgarð og nei­kvæður tónn í garð Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra af því að hún hef­ur aðra af­stöðu til heil­brigðismála en þing­menn­irn­ir í þeim þing­flokki.

Allt á þetta eft­ir að skýr­ast í kosn­inga­bar­átt­unni en óráðlegt fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að ganga út frá því sem vísu að Fram­sókn og VG vilji halda sam­starf­inu áfram.

Svo er annað sem get­ur haft áhrif á kjós­end­ur. Meðal þeirra er und­ir­liggj­andi gremja vegna þess hvernig nýt­ingu auðlind­ar­inn­ar í haf­inu er háttað. Þótt ábyrgðin á því sé á vinstri kant­in­um, þar sem það var vinstri­stjórn sem gaf framsalið frjálst án annarra aðgerða, er Sjálf­stæðis­flokkn­um kennt um þótt hann hafi haft for­ystu um að taka upp auðlinda­gjald.

Verði ekk­ert að gert mun þessi djúp­stæða gremja brjót­ast fram.

Það eru meiri lík­ur en minni á að þessi reiði meðal kjós­enda finni sér ein­hvern far­veg í kosn­inga­bar­átt­unni. Hvernig það ger­ist get­ur byggzt á öðrum umræðum, sem tengj­ast nýt­ingu auðlind­anna.

Geri rík­is­stjórn­in al­vöru úr því að hefja sölu á hlut í Íslands­banka get­ur það haft áhrif á kosn­inga­bar­átt­una. Það má vel vera að þær frétt­ir hafi ekki borizt inn fyr­ir veggi Alþing­is en veru­leik­inn er sá að fólk treyst­ir stjórn­mála­mönn­um ekki fyr­ir sölu bank­anna eft­ir það sem á und­an er gengið. Banka­sala svo skömmu fyr­ir kosn­ing­ar get­ur því haft ör­laga­rík­ar af­leiðing­ar.

Fleiri mál þvæl­ast fyr­ir kjós­end­um. Eitt þeirra er sú skoðun Ásgeirs Jóns­son­ar seðlabanka­stjóra að Íslandi sé í raun stjórnað af hags­muna­sam­tök­um. Að al­menn­um borg­ur­um sæk­ir sá grun­ur að of mikið sé til í þessu hjá seðlabanka­stjóra. Þeir sjá sjálf­ir hver hátt­semi hags­muna­sam­tak­anna er. Þeir sjá um­svif hags­muna­varðanna og sjá þá koma sér fyr­ir inn­an flokk­anna. Allt eru þetta vís­bend­ing­ar um að seðlabanka­stjóri hafi rétt fyr­ir sér. Það þýðir ekki fyr­ir flokk­ana að reyna að þegja þetta mál í hel.

Loks er enn eitt mál sem vefst fyr­ir mörg­um kjós­end­um, m.a. inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins, raun­ar svo mjög að stór hóp­ur sjálf­stæðismanna stofnaði sér­stakt fé­lag, sem nefn­ist Fé­lag sjálf­stæðismanna um full­veld­is­mál, af þeim sök­um, en það er tregða Alþing­is til að segja nei við til­skip­un­um frá ESB sem við höf­um full­an rétt til skv. EES-samn­ingn­um.

Ein af­leiðing þess er sú að það er óhugs­andi að selja raf­orku til Evr­ópu þótt við vild­um, vegna þess að þá vær­um við sjálf­krafa orðin hluti af orku­kerfi ESB vegna þess að Alþingi nýtti sér ekki rétt sinn til að segja nei við orkupakka 3. Það væri sam­bæri­legt við það að við hefðum hleypt Evr­ópu­ríkj­un­um inn í fisk­veiðilög­sögu okk­ar en það mundi ger­ast næði stefna Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar um inn­göngu í ESB fram að ganga.

Tveir stjórn­ar­menn í full­veld­is­fé­lag­inu eru í fram­boði í próf­kjöri flokks­ins í Reykja­vík, þau Ingi­björg Sverr­is­dótt­ir og Birg­ir Örn Stein­gríms­son, og Arn­ar Þór Jóns­son héraðsdóm­ari, sem vakið hef­ur mikla at­hygli fyr­ir grein­ar sín­ar hér í blaðinu, í Suðvest­ur­kjör­dæmi. Aðild þeirra þriggja að þing­flokkn­um mundi gjör­breyta stöðunni þar.

Um­sókn Íslands um aðild að ESB hef­ur aldrei verið dreg­in form­lega til baka. Hún ligg­ur í skúffu í Brus­sel. Það eru of mörg stór mál óút­kljáð vegna þess að þeir flokk­ar sem á annað borð vilja klára þau skv. stefnu þeirra virðast ekki treysta sér til þess. Verði þetta hik viðvar­andi mun það hafa af­leiðing­ar, hverj­ar sem þær verða.

Hér hafa verið nefnd nokk­ur mál sem flest­ir flokk­arn­ir vilja forðast að ræða. Svo eru önn­ur stór mál sem eru að ná í gegn og víðtæk samstaða er um. Það eru ekki sízt þær rót­tæku um­bæt­ur í mál­efn­um barna sem Ásmund­ur Ein­ar Daðason fé­lags- og barna­málaráðherra hef­ur verið að vinna að allt kjör­tíma­bilið. Þar er um að ræða ein­hverj­ar mestu breyt­ing­ar á vel­ferðar­kerf­inu frá því að því var komið á á fjórða ára­tug síðustu ald­ar. Það mál skýr­ir senni­lega að í síðustu könn­un um vin­sæld­ir ráðherra var Ásmund­ur Ein­ar í öðru sæti næst á eft­ir Katrínu Jak­obs­dótt­ur. Og með sama hætti er það mál lík­legt til að duga hon­um vel í kosn­inga­bar­átt­unni í Reykja­vík.

Kosn­inga­bar­átt­an sjálf og frammistaða ein­stakra fram­bjóðenda mun hafa mik­il áhrif á það hvaða stefnu kosn­inga­bar­átt­an tek­ur. Það hjálp­ar stjórn­ar­flokk­un­um að al­mennt talað er rík­is­stjórn­in vel liðin og eng­inn stjórn­ar­and­stöðuflokk­anna er að ná sér­stakri at­hygli. En Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, hef­ur sýnt hvað hægt er að gera á einni kvöld­stund í sjón­varps­sal.

Yf­ir­bragð Alþing­is hef­ur breytzt á síðustu 60 árum eða svo. Það er ekki jafn mikið um sterka per­sónu­leika á þingi nú og þá og það mót­ar þingið og umræður.

Styrm­ir Gunn­ars­son styrm­ir@styrm­ir.is

Höf­und­ur: Styrm­ir Gunn­ars­son styrm­ir@styrm­ir.is