Kundera og mikilvægi fáfengileikans

Þorsteinn Siglaugsson skrifar í Mbl

Þorsteinn Siglaugsson

“Þetta er alræði almenningsálitsins, alræði umburðarleysisins þar sem sérhvert frávik, brandari, illkvittnisleg athugasemd, ögrandi fullyrðing verður að ófyrirgefanlegum glæp. Þar sem einstaklingseinkennin, efinn og hugsunin, sem þrátt fyrir allt áttu sér athvarf í andófsritum, neðanjarðarleikhúsum, bröndurunum um yfirvöldin á tímum Stalínismans hljóta að láta endanlega undan, í samfélögum sem eru að sögn hin frjálsustu og lýðræðislegustu í sögunni en einkennast æ meir af dauðhreinsun á grunni andlegra lýðheilsusjónarmiða.”

Vestræn menning nútímans grundvallast á ákvörðunarvaldi hins hugsandi einstaklings sem efast, og á listsköpun sem endurspeglar einstaklingseinkenni hans.“ Milan Kundera, 1984. Sinfonietta tékkneska tónskáldsins Leos Janáceks leikur stórt hlutverk í lykilverki japanska rithöfundarins Harukis Murakamis, 1Q84. Þetta er verkið sem önnur aðalpersóna bókarinnar, líkamsræktarþjálfarinn Aomame, sem stundar morð á kynferðisbrotamönnum í tómstundum, hlustar á í leigubíl á hraðbraut í Tókýó rétt áður en hún klifrar niður stiga frá hraðbrautinni og lendir í undarlegum heimi 1Q84 þar sem tvö tungl skína á himni og rök og skynsemi hopa fyrir dulúð og furðuverum. Og verkið tengir hana og hina aðalpersónuna, Tengo Kawana; hvort um sig heillast þau af Janácek í hinum djúpa einmanaleika sem umlykur þau allt frá barnæsku og fram undir sögulok. Að sögn Murakamis voru það furðulegheit verksins sem ollu því að það varð lykilþáttur í skáldsögunni. Þetta er versta hugsanlega tónlistin sem hægt er að hlusta á í umferðarteppu sagði Murakami í viðtali árið 2011. Fimmtán trompetar hamast fyrir aftan hljómsveitina í hávaðasömu og dramatísku verki, sem fellur fullkomlega að súrrealískum söguheiminum. „Ég gæti ekki ímyndað mér neitt verk sem félli betur að þessari sögu,“ segir hann. Janácek samdi verkið á efri árum eins og Milan Kundera gerir grein fyrir í ritgerðasafninu Svikin við erfðaskrárnar sem út kom árið 1993, en á íslensku á síðasta ári, í þýðingu Friðriks Rafnssonar, hins ötula þýðanda og vinar Kunderas, sem eins og lesendum er væntanlega kunnugt féll nýlega frá, á 95. aldursári. Janácek var íhaldssamur lengst framan af, segir Kundera, en á efri árum varð hann sannkallaður framúrstefnumaður, módernisti. Og um síðir öðlaðist hann viðurkenningu, eða fremur, eins og Kundera segir, umbáru menn hann. Líkt og fleiri var hann ekki spámaður í eigin föðurlandi. Janácek var nánast óþekktur í Japan þegar skáldsaga Murakamis kom út, en í kjölfar þess öðluðust verk hans vinsældir. Þannig tengist heimurinn gegnum listina, á óútreiknanlegan og ófyrirsjáanlegan hátt. Og þannig tengjast tveir gjörólíkir rithöfundar, annar í öruggu og einsleitu samfélagi Japans, hinn í hinni ótryggu Mið-Evrópu þar sem þjóðir samlagast, blandast, hverfa og verða aftur til í sífellu.

Milan Kundera

Dr. Arnór Hannibalsson heitinn leiðbeindi mér þegar ég skrifaði BA-ritgerð í heimspeki á sínum tíma. Ég var óviss um hvert viðfangsefnið ætti að vera og byrjaði því á að heimsækja Arnór á skrifstofu hans í aðalbyggingu háskólans, þar sem bókahillur náðu til lofts á öllum veggjum og bókastaflar voru við það að falla saman á skrifborðinu og um gólfið allt. Við ræddum saman drjúga stund. Svo stakk Arnór hendinni inn í einn staflann og dró út einhver blöð, og svo í annan stafla og dró út önnur. „Lestu þetta,“ sagði hann, „svo tölum við saman.“ Blöðin voru tvær ritgerðir, önnur eftir Kundera og hin eftir rússneska skáldið Jósef Brodskí. Ritgerð Kunderas hafði birst í breska bókmenntatímaritinu Granta árið 1984 og þar færði hann rök fyrir því að Rússland væri andstæða evrópskrar menningar. Ritgerð Brodskís birtist í New York Times Review of Books og þar færði hann rök gegn skoðun Kunderas. Á endanum varð þetta kveikjan að ritgerð um hugmyndafræðilegar andstæður austurs og vesturs og hvernig þær mætti skýra á grunni frumspeki Immanúels Kants (sem góðu heilli gekk raunar af frumspekinni dauðri og verður seint fullþakkað).

Höfundarferli Kunderas má í stuttu máli lýsa þannig (ég viðurkenni að þetta er ofureinföldun) að í verkum sínum fjalli hann um sífellt minna og minna. Fyrstu verk hans fjalla um lífið í Tékkóslóvakíu undir ægivaldi stalínismans, um vorið í Prag og ógnarveturinn sem fylgdi, um magnaðar persónur og grimmileg örlög. Síðasta skáldsaga hans fjallar um fáeina aldraða iðjuleysingja sem ráfa um stræti Parísarborgar, blaðra um fáfengilega hluti og horfa á stelpur. Og þetta er líklega eitt fullkomnasta verk hans, La fête de l’insignificance, Hátíð fáfengileikans í þýðingu Friðriks. Enda tæpast hægt að hugsa sér mikilvægara viðfangsefni en að horfa á stelpur þegar menn eru komnir á þann aldur að vera þeim alveg hættulausir. Janácek var ekki spámaður í eigin föðurlandi, segir Kundera. Verk hans féllu ekki að tíðarandanum. Ópera hans, Jenufa, fékkst ekki flutt í Prag fyrr en seint og síðar meir og þá eftir að tónlistin hafði verið ritskoðuð, rómantíseruð, afbökuð til að falla að tíðarandanum; framúrstefnu Janáceks varð að laga að íhaldssömum smekk smáborgaranna. Og þá náði hún vinsældum, og tónskáldið átti í raun aldrei neitt val. En Sinfonietta Janáceks var aldrei afbökuð. Í 1Q84 er það hún sem í framúrstefnulegum furðuleik sínum tengir aðalsöguhetjurnar og veitir þeim von um að komast á endanum burt úr dystópískum söguheiminum sem ofurseldur er dyntóttum og dularfullum öflum – heimi sem vísar óbeint í spásögn Orwells, þótt tengslin séu óljós og óræð – og aftur til hversdagsleikans, til ársins 1984. 1984 Orwells er léleg skáldsaga, segir Kundera í áttunda hluta Svikanna við erfðaskrárnar. Hún er tilraun til að færa pólitík í búning skáldsögu og slíkar tilraunir misheppnast. En auk þess eru áhrif hennar slæm, segir Kundera, því hún þynnir raunveruleikann „út í hráa pólitík“. Lífið er þynnt út í pólitík og pólitíkin út í áróður og verður þannig „hluti af hugsunarhætti alræðisins, hugsunarhætti áróðursins, þrátt fyrir góðan ásetning“. Kundera ber 1984 saman við Réttarhöldin eftir Franz Kafka. Meðan Winston Smith í 1984 reynir af veikum mætti að andæfa kerfinu sem umlykur hann meðtekur K. vald dómstólsins, sem er til aðeins vegna þess að hann hefur vald, og mikilvægi réttarhaldanna, sem snúast ekki um tiltekið afbrot, heldur um persónu og tilverurétt hans sjálfs. Í söguheimi Réttarhaldanna er yfirlýsing um grun um leið sakfelling, og viðfangsefni hins sakfellda verður það að leita réttlætingar á sakfellingunni.

Franz Kafka

Um leið og við meðtökum og normalíserum fjarstæðuna (fjarstæða er í eðli sínu ávallt andstæða veruleikans) höfum við um leið gefist upp fyrir henni. Þetta er lykillinn að alræðinu; það er ekki kerfi utan og ofan við okkur sjálf, við búum það til; það grundvallast á afstöðu og heimssýn okkar sjálfra. Og meginforsenda þess er að veruleikinn er rúinn hinu skáldlega. Kundera, sem hraktist í útlegð frá heimalandi sínu árið 1975, segir frá því í Svikunum við erfðaskrárnar hvernig landar hans töluðu, skömmu eftir fall kommúnismans í Tékkóslóvakíu, um „fjörutíu árin hræðilegu“, fólk sem þó lifði og starfaði í heimalandi sínu allan þennan tíma, fór til vinnu, í frí, átti vini og varð ástfangið. „Ástæðan fyrir því að þeir tala allir um fjörutíu hryllileg ár er sú að þeir eru búnir að orwella eigin æviminningar,“ segir hann. Þeir hafa umbreytt lífi sínu í glataðan tíma, og um leið falsað eigin minningar. Þeir hafa þynnt líf sitt út; ekkert er eftir nema pólitík. Til samanburðar nefnir Kundera það sem hann kallar „glugga“ í Réttarhöldum Kafka, til dæmis þegar K. tekur eftir „ungri, veiklulegri stúlku sem fyllir brúsa í rólegheitum“ þegar hann er á leið til réttarhaldanna. Glugga sem vísa út að „heimi þar sem persónurnar halda, jafnvel á erfiðum augnablikum lífs síns, ákvarðanafrelsi sem veldur því að líf þeirra er skemmtilega óútreiknanlegt og þar af leiðandi ljóðrænt“.

Hvað sem líður óbeit Kunderas á kúgun og ofbeldi stalínismans, og reynslu hans sjálfs sem fórnarlambs hans, neitar hann að smætta líf þeirra sem lifðu undir honum niður í ekkert nema kúgun og ofbeldi. Jafnvel í hinum hræðilegustu aðstæðum getur mannsandinn lifað, jafnvel þar getur skáldskapurinn lifað. „Vestræn menning nútímans grundvallast á ákvörðunarvaldi hins hugsandi einstaklings sem efast,“ sagði Kundera árið 1984. Það er á þessu ákvörðunarvaldi sem öll listsköpun hvílir. Og hvar er þetta ákvörðunarvald nú? Dómstóllinn sem dæmir aðeins vegna þess að hann getur það; réttarhöldin sem aðeins hafa dómara og sakborning en ekkert afbrot; þetta eru einkenni hins sanna alræðis, þar sem sérhver maður gengur sjálfviljugur undir ok sektarinnar og líf hans verður að glæpaferli – engu öðru. Þetta er alræði almenningsálitsins, alræði umburðarleysisins þar sem sérhvert frávik, brandari, illkvittnisleg athugasemd, ögrandi fullyrðing verður að ófyrirgefanlegum glæp. Þar sem einstaklingseinkennin, efinn og hugsunin, sem þrátt fyrir allt áttu sér athvarf í andófsritum, neðanjarðarleikhúsum, bröndurunum um yfirvöldin á tímum Stalínismans hljóta að láta endanlega undan, í samfélögum sem eru að sögn hin frjálsustu og lýðræðislegustu í sögunni en einkennast æ meir af dauðhreinsun á grunni andlegra lýðheilsusjónarmiða.

Greinin sem birt var upphaflega í Mbl 24.07.2023 er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar, sem er formaður Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi.
https://tsiglaugsson.blog.is/blog/tsiglaugsson/
https://www.facebook.com/thor.sig.714