Sjálfstæðisflokkurinn– Sjálfstæðisstefnan

Því miður hefur grunnstefnu flokksins ekki verið haldið nægilega á lofti undanfarna tvo Áratugi.

Gísli Ragnarsson skrifar í Mbl:

Gísli Ragnarsson

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929. Þeir menn sem stóðu að stofnun hans vildu beita sér fyrir umbótum í þessu hrjóstruga landi og leysa landkosti þess úr læðingi með rafvæðingu sveita og ýmsum öðrum verklegum framförum. Megináhersla var lögð á frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðernisvitund manna en ekki síður á frjálst framtak, frjálsa verslun og frelsi einstaklinganna. Í stefnuskránni var jafnframt lögð áhersla á að tryggja afkomu þeirra, sem áttu undir högg að sækja í lífinu. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt, þegar skilyrði væru til þess skv. sambandslögunum. Hins vegar sagði, í stefnuyfirlýsingunni frá 1929, að flokkurinn ætlaði: „Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ Þegar litið er til framangreindra stefnumiða og hugsjóna þeirra manna, sem stofnuðu flokkinn, er ljóst að menn hafa ekki lengi þurft að leita viðeigandi nafns fyrir hann. Annars vegar stefnir hann að fullu sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart öðrum eins fljótt og frekast var kostur og hins vegar er gert ráð fyrir að meginstefið í innanlandsstefnunni verði bundið við hlut einstaklingsins. Tryggja á sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga og þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi. Jafnframt á að gæta þess, að enginn komist á vonarvöl, þótt hann hitti fyrir sér ofjarl í sjúkdómum eða fátækt. Slíkum aðilum á að hjálpa til sjálfshjálpar og er það í anda þess hugarfars samhjálpar, sem verið hefur samofið þjóðareðlinu frá öndverðu.

Lesa áfram…


Nafnið Sjálfstæðisflokkur hefur því ekki aðeins verið yfirskrift heldur alla tíð í senn heitstrenging og lýsing á stefnu flokksins í hnotskurn. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir flokkar, sem til voru í íslensku stjórnmálalífi á stofnári Sjálfstæðisflokksins, sóttu allir að meira eða minna leyti hugsjónir sínar og baráttumál til „móðurflokka“ eða stjórnmálakenninga erlendis. Sjálfstæðisflokkurinn sker sig úr í þessu. Tildrög hans og skírskotun til séríslenskra aðstæðna verða til þess, að hann fær óvenjulegan sess í íslensku flokkakerfi. Hann vísar á bug þeim tilburðum sem aðrir flokkar hafa haft til þess að greina þjóðina í stéttir, sem ota megi hverri gegn annarri. Félagshyggjuflokkarnir hafa jafnan haft uppi vígorð um hina eilífu stéttabaráttu, en svar Sjálfstæðisflokksins fékkst í kjörorðinu: „Stétt með stétt“. Sjálfstæðisflokknum var ljóst, að fámennri þjóð gat ekki verið til góðs, að stéttirnar bárust á banaspjótum. Því miður hefur grunnstefnu flokksins ekki verið haldið nægilega á lofti undanfarna tvo áratugi. Fólk með aðra sýn hefur reynt að leiða flokkinn í öfuga átt og klofið flokkinn þegar það tókst ekki. Þann 1. desember 2019 komu saman 80 sjálfstæðismenn í Valhöll og stofnuðu Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, var kosinn formaður hins nýja félags með öllum greiddum atkvæðum. Tilgangur félagsins er að efla samhug sjálfstæðismanna um fullveldið með því að halda til haga og verja, með fræðslu og upplýsingu, grunngildi flokksins um frjálsa og fullvalda þjóð. Það er von mín að allt það góða fólk sem trúir á grunngildi Sjálfstæðisflokksins, en hefur ekki getað stutt flokkinn undanfarið af ýmsum ástæðum, vinni nú saman að því að koma flokknum aftur á rétta leið. Nafnið Sjálfstæðisflokkur er ekki aðeins yfirskrift eða grín, eins og nöfn sumra flokka, heldur í senn heitstrenging og lýsing á stefnu flokksins í hnotskurn.

Sjálfstæð þjóð og sjálfstætt fólk.

Höfundur er fyrrverandi skólameistari
gisli.ragnarsson@decode.is