Staðnaðir flokkar

Þurfa fleiri að hugsa sinn gang?

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Vel skipulagðir stjórnmálaflokkar eru lykilþáttur í lýðræðisríkjum. Með sama hætti er skipulagsleysi á flokkum líklegt til að valda vandræðum í lýðræðislegum stjórnarháttum. Það stefnir í það nú vegna öngþveitis í flokkakerfinu. Annars vegar vegna þess að til hafa orðið nýir flokkar sem standa ekki undir nafni og hins vegar vegna þess að gömlu flokkarnir hafa staðnað. Nýju flokkarnir eru nafnið tómt og á bak við þá eru fámennir hópar fólks. Gömlu flokkarnir eiga sér lengri sögu og sumir þeirra eru með þúsundir og jafnvel tugþúsundir flokksmanna. En þeirra vandamál er stöðnun. Þeim hefur ekki tekizt að laga sig að breyttu samfélagi og eru hræddir við nýjar hugmyndir eða aðrar skoðanir en þær sem eru ríkjandi hverju sinni. Þó má benda á að þær miklu umræður sem urðu um orkupakka þrjú kviknuðu á opnum fundi í Valhöll fyrir troðfullu húsi.

Í raun er beinlínis hlægilegt að fylgjast með viðbrögðum ráðandi afla við öðrum hugmyndum en þeirra eigin. Í hverju er lýðræðið fólgið öðru en frjálsum skoðanaskiptum? Og hvernig stendur á því að nýjum skoðunum er gjarnan mætt með fjandskap, sá sem heldur þeim fram telst þaðan í frá til hinna útskúfuðu eða hótað því að verða gerður flokksrækur? Um síðustu helgi birtist í Kjarnanum viðtal við Guðjón Brjánsson, alþingismann Samfylkingar, þar sem hann segir að hugsanlega þurfi Samfylkingin að hugsa sinn gang og færir ákveðin rök fyrir því. Það mundi kveikja mikið líf í þeim flokki ef efnt yrði til opins fundar í flokknum um þessa spurningu Guðjóns. Líkurnar á því eru ekki miklar, þar sem ráðandi öfl í þeim flokki telja það vafalaust hættulegt fyrir kosningar.

Með sama hætti ætti Sjálfstæðisflokkurinn að efna til opins fundar um hálendisþjóðgarð, sem einhverjir þingmenn þvældust fyrir að yrði samþykktur á þingi. Eitt af því ánægjulegasta sem hefur gerzt í sumar er hvað margt ungt fólk hefur ferðast um óbyggðirnar og á ekki orð til að lýsa hrifningu sinni. Kannski mundi slíkur fundur opna augu einhverra þingmanna fyrir því að andstaða við hálendisþjóðgarð er afturhald af verstu tegund. Líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn efni til slíks fundar eru álíka miklar og að Samfylkingin efni til fundar um athyglisverðar vangaveltur Guðjóns Brjánssonar.

Og raunar má segja það sama um VG. Þegar skoðanakönnunin birtist um andstöðu kjósenda VG við samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn hefði verið eðlilegt að efna til opins fundar í VG um þá könnun. Það var ekki gert. Í öllum þessum þremur tilvikum var ekki efnt til slíkra funda vegna þess að forystusveitir flokkanna hafa talið að það mundi valda þeim vandkvæðum. Það má vel vera, en hvað er að því? Til hvers eru þeir hópar? Þess ber að vísu að geta að á kaldastríðsárunum var það útbreidd skoðun að það skipti máli að flokkarnir sýndu engin veikleikamerki í þeim átökum og það voru skiljanleg rök fyrir því. En nú eru liðnir rúmir þrír áratugir frá lokum þess og ekkert að því að mismunandi skoðanir komi fram innan flokka og þær séu ræddar fyrir opnum tjöldum. Þess vegna er ekki hægt að líkja núverandi viðhorfum við annað en stöðnun.

Skortur á frjálsum og opnum umræðum innan flokka veldur því að nýjar hugmyndir koma ekki fram innan þeirra og þar með ekki frá hinum almenna flokksmanni. Stjórnvöld byggja því á hugmyndum frá litlum hópi þingmanna svo og embættismönnum og hagsmunaaðilum. Allir sjá hve óheilbrigt það er. Lýðræðið virkar ekki vegna þess að flokkarnir virka ekki. Ábyrgð þeirra sem hana bera er því mikil. Þeir eru að þvælast fyrir því að lýðræðið virki. Sennilega er það ekki ásetningur heldur hugsunarleysi. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að völd embættismanna eru allt of mikil og gárungarnir tala um E-flokkinn sem áhrifamesta stjórnmálaflokkinn.

Og nú að undanförnu er talað um að hagsmunaöflin stjórni landinu en ekki kjörnir fulltrúar. Þessu verður að breyta og sú breyting verður að byrja í flokkunum sjálfum. Forystusveitir þeirra þurfa að hafa frumkvæðið. Vandinn er hins vegar sá að yfirleitt er flokkunum stjórnað af litlum klíkum sem hugsa mest um sjálfar sig. Ef það kemur í ljós að klíkuveldið kemur í veg fyrir þá lýðræðislegu byltingu sem þarf að verða í flokkunum er ekki um annað að ræða en að almennir flokksmenn beiti því valdi sem þeir hafa en nota sjaldan. Ef það gerðist færu margir máttarstólpar að nötra og hefðu ástæðu til. Í stuttu máli þarf að verða hér lýðræðisbylting. Fámennið er ein af ástæðunum fyrir því að svo er komið. En svo eru alltaf einhverjir sem notfæra sér fámennið eins og rækilega sást í hruninu. Og það má vel vera að það sem hér hefur verið rakið sé ástæðan fyrir fjölgun flokka, að þeir sem stofna nýja flokka hafi hreinlega gefist upp á ástandinu innan gömlu flokkanna. Kannski þurfa fleiri flokkar að hugsa sinn gang en Samfylkingin. Getur það verið?

Höfundur er f.v. ritstjóri