Sverð á sal Alþingis

Loftur skrifar:

Viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ritar ágæta grein um sjálfstæði Íslands í orkumálum í Mbl. þ. 29. október 2022. Þar segir hún m.a.: „Sú staðreynd að raforkukerfi landsins er ekki tengt raforkukerfi Evrópu kemur sér sérstaklega vel í því árferði sem nú ríkir og bregður ljósi á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði í orkumálum. Það sjáum við til dæmis með því að líta á þróun raforkuverðs á hinum Norðurlöndunum sem hefur hækkað mikið…“

„Ísland hefur alla möguleika á að ná fullu sjálfstæði í orkumálum með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku til þess að standa undir rafvæðingu í samgöngum í lofti, láði og legi. Þrátt fyrir allt það frábæra samstarf í alþjóðamálum, sem við tölum þátt í, er það gæfuspor fyrir þjóðina að vera ekki í Evrópusambandinu.“

Svo mörg voru þau orð. Ráðherrann dregur einnig upp myndlíkingu þar sem sverð Damóklesar hangir yfir ESB m.a. vegna skorts á gasi frá Rússlandi. Svokölluð „gaslýsing“ (e.gaslighting) er reyndar algeng í viðtölum ráðherra við almúgann. Þeir svara stundum spurningum með lærðum frösum: „Þú verður að kynna þér málið!“ eða: „Þú hefur ekki lesið alla skýrsluna!“ o.s.frv. Spurning vaknar hvort ráðherrann hafi lesið alla söguna um hirðmanninn Damókles sem lofsöng hamingju Díonýsíosar konungs vegna auðs hans og valda. Konungur gerði hirðmanninn að eins konar umskiptingi þar sem þeir skiptu um hlutverk en á móti hengdi konungurinn sverð hans fyrir ofan hásætið og festi með einu hrosshári.

Slíkir umskiptingar eru algengir á Alþingi Íslendinga þar sem ráðamenn lofa og prísa EES-samninginn og sjálfstæði og fullveldi Íslands í skálaræðum á kvöldin en á daginn vinna þeir sleitulaust að því framselja yfirráðin yfir auðlindum landsins til ESB með grófri misnotkun á EES-samningnum og brjóta með því stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Mun ráðherrann t.d. samþykkja innleiðingu fjórða orkupakka ESB í íslensk lög eins og þann þriðja?

EES-samningurinn er orðinn að sverði Demóklesar sem nú hangir yfir ræðustóli Alþingis á þunnu hrosshári, líklega úr hálfdauðri blóðmeri.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *