Sögulegar áskoranir og fölsk stefnumál – Evrópa á krossgötum

Eftir Mateusz Morawiecki

Mbl 22. ágúst 2022

Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands

Rússland vill breyta Evrópu í þá mynd sem það hefur þekkt vel undanfarnar aldir, þ.e.a.s. í samstillt stórveldi með sameiginlega skilgreint áhrifasvið.

Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir sem neituðu að taka eftir því að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimír Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli. Endurkoma hinnar rússnesku alræðishyggju ætti ekki að koma okkur á óvart. Rússland hefur jafnt og þétt verið að endurbyggja stöðu sína undanfarin tuttugu ár. Á því tímabili kusu Vesturlönd að taka sér landstjórnmálalegan lúr í stað þess að vera árvökul og skynsöm. Þau kusu að líta framhjá sívaxandi vandamáli í stað þess að standa gegn því fyrr. Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess að hún var ekki nægilega samþætt heldur vegna þess að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár.

Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann. Sú staðreynd að rödd Póllands hafi verið hunsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag.

Áframhald af greininni

Er lýðræðið dautt?

Arnar Þór Jónsson skrifar minningargrein í Mbl:

Til minningar um lýðræðið

“Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður.”

Arnar Þór Jónsson

Þótt ekkert fæðingarvottorð sé til er almennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borgríkinu Aþenu. Á æskuskeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírugir menn komu á einræði með múgæsingarstarfi, ógn og ofbeldi. Eftir það sat lýðræðið lengi í öskustó annars stjórnarfars. Minningin um sólbjarta daga málfrelsis og sjálfstæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafnvel þótt þessi minning hafi orðið óljós á myrkustu köflum þessara fyrstu alda var það þó kannski einmitt óljós endurómurinn sem hélt lífi í glóðunum þegar útlitið var sem dekkst. Þrátt fyrir vanþroska og mótlæti braust andi lýðræðisins stundum eftirminnilega í gegn. Til þeirrar sögu má nefna stofnun Alþingis árið 930, Magna Carta (1215) o.fl. Á þessum grunni holdgerðist lýðræðisandinn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þáttaskil. Lýðræðið fann rætur sínar og styrktist með hverri raun.

Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýrmæta þjálfun hvað varðar bæði úthald og styrk. Á þessum mótunarárum naut lýðræðið leiðsagnar úrvals kennara. Við leiðarlok ber að minnast sérstaklega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Ritgerð um ríkisvald, sem reyndist lýðræðinu traust handbók í átökum og eftirmálum bandaríska frelsisstríðsins (1765-1791) og frönsku byltingarinnar (1789).

Ekki verður skilið við þetta tímabil án þess að minnast á Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776), þar sem þrír grundvallarþræðir lýðræðisins, uppruni, markmið og tilgangur, eru glæsilega fléttaðir saman:

1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar.
2) Megintilgangur með öllu stjórnarfari er að verja þessi réttindi.
3) Ef ríkið reynir að synja mönnum um þennan rétt er fólki heimilt að gera uppreisn og koma á fót nýrri stjórn.

Saman mynda þessir þrír þræðir erfðamengi lýðræðisins, anda þess og sál, sem síðar má vonandi vekja til nýs lífs. Á blómaskeiði sínu átti lýðræðið glæstar stundir og fóstraði margt það besta sem mönnum hefur tekist að leiða fram, með því að virkja sköpunarkraft, samtakamátt o.fl. Stofnun íslenska lýðveldisins 1944 var mjög í þessum anda, hugdjörf ákvörðun fámennrar en stórhuga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægilega ginnkeypt fyrir hvers kyns skrumi. Í alþjóðlegu samhengi leiddu veikleikar lýðræðisins til þess að það féll ítrekað fyrir varasömum mönnum, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórnar, þar sem járnkrumla hertist um æðakerfi þjóðlífsins þar til ekkert varð eftir annað en stirðnuð skel og líflaus leikmynd þar sem andlausir leikarar þuldu upp sömu setningarnar í mismunandi útgáfum. Stjórnmálin urðu dauf og líflaus, ekkert kom lengur á óvart. Hver einasta lína var skrifuð af ósýnilegum baktjaldamönnum og óttinn knúði alla til að vanda framburð og látbragð í hvívetna, því sérhvert frávik frá textanum gat varðað atvinnumissi og brottrekstri af sviðinu. Í þessu umhverfi entust þeir lengst í stjórnmálum sem nutu sviðsljóssins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eigin brjósti, en sýndu hæfni í að endurtaka hugsanir annarra af einlægum sannfæringarkrafti.

Þegar þátttaka í stjórnmálum var ekki lengur þjónustuhlutverk, heldur starfsferill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurninga, voru reiðubúnir að kynda undir óvild manna í garð samborgara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýndist skorta undirgefni og hikuðu ekki við að framfylgja fyrirskipunum með valdbeitingu. Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður. Niðurlægingin var svo mikil og svikin svo sárgrætileg að enginn vildi viðurkenna að þetta væru dauðamörk. Enginn nema börn og stöku eldri borgarar höfðu einlægni til að spyrja:

„Til hvers að taka þátt í pólitík ef þú ætlar ekki að segja það sem þér sjálfum finnst?“

Ef marka má sögu lýðræðisins mun ekkert breytast fyrr en menn rísa upp gegn ofríkisöflunum og hafna andleysinu í þeim tilgangi að verja líf sitt og frelsi til gagnrýninnar hugsunar, málfrelsi sitt og frelsi til athafna, samvinnu, uppbyggingar og friðar. Aðeins þannig getur lýðræðið vaknað til nýs lífs.

Hafa Íslendingar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sofandi á draumþingum og hlusta hálfsofandi á léleg handrit leiklesin á öllum sviðum einkalífs og þjóðlífs?

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.
arnarthor@griffon.is

Mogginn kýlir formann xD kaldan í Orkupakkamálinu

Forysta xD nýkjörin

Úr leiðara MBL 20. febrúar 2022:

Orkukreppa Evrópu – Orkukreppa Evrópu setur orkupakka á rétt ljós

“Formaður Sjálfstæðisflokksins gladdi flest flokkssystkini sín stórlega þegar hann lýsti því yfir, úr ræðustól Alþingis, sem óskiljanlegu rugli, ætluðu menn sér að samþykkja orkupakkamálið.
Flokksmenn voru alls hugar fegnir, og uggðu því ekki að sér fyrir vikið, þegar ekkert reyndist að marka gleðiefnið.
Þetta er eitt af þeim stjórnmálalegu undrum sem ekki hafa verið útskýrð. En það er þó ekki brýnast heldur hitt að snúa af þessari ólánsbraut og lagfæra það sem skemmt var í fullkomnu heimildarleysi af óheilu undirmálsliði.”

Ekki er úr vegi að rifja upp ályktun 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2018 en landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð af um tólfhundruð fulltrúum.

Í ályktun Atvinnuveganefndar segir orðrétt: “

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.

Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu

Marta Guðjónsdóttir skrifar í Mbl

„Borgaryfirvöld vita að þau eru víða að framkvæma þéttingaráform sem borgarbúar myndu hafna“

Marta Guðjónsdóttir

Á miðvikudaginn var ákváðu borgaryfirvöld að falla frá þeim skipulagsáformum í Bústaða- og Fossvogshverfi að láta reisa þar sautján, nýjar íbúðablokkir meðfram sunnanverðum Bústaðaveginum. Þetta undanhald borgaryfirvalda kom eins og sólskinsblettur í heiði og því full ástæða til að óska íbúum til hamingju með þennan varnarsigur. Þess má geta að margir þessara íbúa eru orðnir langþreyttir á því að börn þeirra þurfi að sækja grunnskóla og leikskóla í önnur hverfi vegna langvarandi vanrækslu á viðhaldi Fossvogsskóla og leikskólans Kvistaborgar. Þessir íbúar áttu því ekki von á að borgaryfirvöld bættu gráu ofan á svart með því að kynna þeim fyrirhugaða innrás þéttingaröfga í hverfi þeirra með fyrrnefndum skipulagsáformum.

Mótmæli íbúanna

Þéttingaráformin vöktu hörð viðbrögð og mikil mótmæli, sem m.a. komu fram á fjölmennum íbúafundi í Réttarholtsskóla hinn 8. desember sl. Þar bentu íbúarnir borgarstjóra góðfúslega á að þessar öfgar myndu þrengja mjög að byggðinni sem fyrir er, stuðla að óheyrilegu umferðar og umhverfisraski á framkvæmdatímanum, byrgja fyrir útsýni, lengja skugga og fækka sólarstundum, útrýma gróðri og grænum svæðum meðfram Bústaðavegi, fækka bílastæðum nýrra og eldri íbúa, auka slysahættu við Bústaðaveg, fjölga íbúum án þess að bæta þjónustustig íbúanna, draga úr verðgildi eldri fasteigna og verða auk þess í ósamræmi við yfirbragð og sérkenni hinnar eldri byggðar. Öllu átti til að kosta til að ná fram slagorði borgarstjórans um þéttingu byggðar!

Continue reading “Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu”

Á bak við grímu gervifrjálslyndis býr grimmdarstjórn

Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun
hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Kórónuveiran (C19) hefur leitt stjórnmálaumræðuna inn á óheillavænlega braut. Þeir sem eru hvað hræddastir við veiruna nota óttann til að réttlæta stóryrði og óþol í garð þeirra sem hafa aðrar skoðanir. Óyfirveguð og þröngsýn orðræða fælir almenning frá því að tjá sjálfstæða afstöðu. Í slíku umhverfi skapast forsendur fyrir ógnarstjórn. Veruleikinn er þá teiknaður upp sem svarthvítur og fólk dregið í dilka réttlátra og ranglátra, góðra og vondra, upplýstra og fáfróðra o.s.frv. Með þessu er vegið að ýmsu því sem telja má dýrmætast, s.s. gagnrýninni hugsun, frjálsri og lýðræðislegri umræðu og jafnræði allra manna fyrir lögunum. Ekki vil ég gera lítið úr því að menn séu kappsamir, en ákafinn má ekki umbreytast í óþol, einstrengingshátt, þröngsýni og hroka. Slíkt hugarfar gerir menn herskáa, fyllir þá vandlætingu og leiðir til ofstækis. Því miður hrannast óveðursskýin nú upp á vettvangi stjórnmála, lagasetningar og lagaframkvæmdar. Eins og hendi sé veifað eru vestræn lýðræðisríki að taka upp annars konar stjórnarfar, þar sem ókjörnum embættismönnum er falið það vald að skammta borgaralegt frelsi úr hnefa að fyrirmynd harðstjórnarríkja. Þetta er réttlætt með því að frelsinu beri að fórna í skiptum fyrir heilsu og öryggi. Frammi fyrir því ómælda efnahagslega, heilsufarslega, sálræna, pólitíska, lýðræðislega og lagalega tjóni sem þetta stjórnarfar hefur þegar valdið (og mun fyrirsjáanlega halda áfram að valda) virðist stöðugt skýrara að við erum á rangri braut, sem brýnt er að snúið verði af hið fyrsta, áður en öllu verður stefnt í voða.

Skrefið frá stjórnlyndri „framfarastefnu“ til ofríkis er stutt

Sú mynd sem hér er að birtast sýnir breikkandi gjá milli þeirra sem aðhyllast frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og lýðræði annars vegar og hins vegar þeirra sem kjósa vald, hlýðni og stjórnlyndi.

Lesa meira

Áleitnar spurningar

Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021

Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.

Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.

Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“

Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild

Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?

“Mjög langur vegur er frá því að allar ákvarðanir um mikilvæg mál innan ESB kalli á einróma samþykki. Það á til að mynda ekki við um sjávarútvegsmál.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Telja má nánast á fingrum annarrar handar þá málaflokka þar sem enn er krafizt einróma samþykkis ríkja Evrópusambandsins við ákvarðanatöku í ráðherraráði þess. Með hverjum nýjum sáttmála sambandsins í gegnum tíðina hefur einróma samþykki verið afnumið í sífellt fleiri málaflokkum. Með gildistöku Lissabonsáttmálans 2009, sem í dag er grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins, var það gert í um 40 málaflokkum á einu bretti. Þannig heyrir krafan um einróma samþykki innan sambandsins í raun til undantekninga í dag. Ég vakti athygli á þessu í grein í Morgunblaðinu 24. september þar sem ég benti einnig á þá staðreynd að íbúafjöldi ríkja Evrópusambandsins réði mestu um möguleika þeirra til þess að hafa áhrif þegar ákvarðanir væru teknar í ráðherraráðinu og þá einkum þeirra fámennustu. Stærstu ríkin væru hins vegar í algerri lykil- og yfirburðastöðu í þeim efnum vegna fjölmennis. Ég fór enn fremur ítarlega yfir fyrirkomulag Evrópusambandsins í þessum efnum en upplýsingar um það eru til dæmis ágætlega aðgengilegar á vefsíðum sambandsins. Hvet ég lesendur, sem það hafa ekki þegar gert og áhuga hafa, til þess að kynna sér þá samantekt mína.

Fyrri fullyrðing ekki endurtekin

Mér barst nokkru síðar svargrein sem raunar gerði lítið annað en að undirstrika það sem ég hafði bent á í grein minni. Þá einkum og sér í lagi þá staðreynd að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins í ráðherraráði þess eigi aðeins við um fáeina málaflokka. Þannig voru til að mynda einungis tekin dæmi um einróma samþykki tengd þeim fáu málaflokkum þar sem slíks er enn krafizt í ráðinu og síðan fullyrt á þeim grunni, líkt og í fyrri grein höfundar, að engin ákvörðun um mikilvæg mál væri tekin án samþykkis allra ríkja sambandsins.

Continue reading “Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?”

Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.

Lesa meira

Horfum fram á veginn

Einar S. Hálfdánarson skrifar í Mbl

Minnkun þjóðarframleiðslu mun færa lífskjörin annað, þ.m.t. góða heilbrigðisþjónustu.
Hægt er að viðhalda lífskjörunum og vernda umhverfið um leið.

Einar S. Hálfdánarson

Verður það hlutskipti barna okkar og barnabarna að lifa við versnandi lífskjör næstu áratugina? Frambjóðendur Samfylkingar og sumir aðrir boðuðu mikinn samdrátt í neyslu til að ná miklu meiri árangri en kveðið er á um í sameiginlegum markmiðum Evrópuríkja gagnvart Parísarsamningnum. Ég tel unnt að gera miklu betur hvað varðar loftslagsmál og mengun án þess að fórna lífskjörunum. Mjög hallar á Evrópuríkin í Parísarsamningnum en aðrir hafa frítt spil án fullnægjandi skýringa. Og Ísland á ekki að taka þátt í að færa framleiðslu úr landi til að líta betur út á blaði. Sameinuðu þjóðirnar hafa enda varað við slíkri sýndarmennsku. Evrópa hamast meðan aðrir auka losun af miklu kappi. En þannig er staðan nú einu sinni og við hana verður að lifa.

Þróunarhjálp til hjálpar gegn mengun

Með því að samþætta annars vegar loftslagsmál og mengunarvarnir og hins vegar þróunarhjálp getum við gert heiminum miklu meira gagn en með því að einblína á losun á Íslandi.

Lesa meira