Þriðji orkupakki ESB er nú fyrir hæstarétti Noregs

Ekki að undra þótt utanríkisráðherra Íslands vilji flýta innleiðingu Bókunar 35 við EES-samninginn sem framselur endanlega löggjafarvald Alþingis til ESB.

Þann 5. september s.l. hófst meðferð ACER-málsins við hæstarétt Noregs. Samtök andstæðinga Evrópusambandsins í Noregi „Nei TIL EU“ hafa stefnt norska ríkinu vegna þess að Stórþingið samþykkti þriðja orkupakka ESB án þess að fara eftir kröfum stjórnarskrárinnar til afsals á fullveldi Noregs til yfirþjóðlegs valds.

ACER mótmælt við Stórþingið í Osló

Stórþingið nýtti ekki sérákvæði stjórnarskrárinnar um afsal fullveldis, kafla 115. Skv. þeirri grein þarf aukinn meirihluta, þriggja fjórðu hluta atkvæða til stórþingið geti tekið slíka afdrifaríka ákvörðun. Í 115. lið stjórnarskrárinnar er þess einnig krafist að minnst tveir þriðju hlutar þingmanna séu viðstaddir í þingsal á meðan á meðferð málsins stendur, sem var alls ekki raunin.

Samtökin Nei til ESB telja að afsal fullveldis Noregs til Orkustofnunar ESB, ACER í gegnum EES-eftirlitsstofnunina ESA og Orkueftirlitsstofnunina (RME) sé mjög ámælisverð og brjóti algjörlega í bága við norsku stjórnarskrána.

ACER hefur umtalsverð völd á orkusviðinu sem mögulega getur haft mikil áhrif raforkuverð í Noregi með alvarlegum afleiðingum. Þetta hefur aftur mikla þýðingu fyrir norskt samfélag, bæði iðnað og heimili. Málið er því litið mjög alvarlegum augum í Noregi.

Hvers konar völd hefur ACER orkustofnun ESB?

Þriðji orkupakki ESB inniheldur sérstaka reglugerð um ACER sem veitir ACER bindandi ákvarðanatökuvald m.a. í aðildarríkjum EES-samningsins. ACER fylgist með og framfylgir reglum ESB í Noregi (og á Íslandi) í gegnum ESA og Orkueftirlitið (RME), sem er algjörlega óháð norskum (og íslenskum) yfirvöldum. ACER tekur ákvarðanir sem ESA verður síðan að samþykkja og RME innleiðir í Noregi (og á Íslandi). Það getur til dæmis verið um ræða ákvarðanir sem varða Statnett í Noregi og Landsvirkjun á Íslandi.

Völd ACER eru gífurleg

Höfuðstöðvar ACER í Ljubljana í Slóveníu (þar sem kolefniskvótapeningar Íslands kosta einangrun húsa) sjá til þess að farið sé eftir reglum Orkubandalags ESB og getur stofnunin tekið bindandi ákvarðanir í fjölda mála er varða rekstur orkumarkaðarins í ESB t.d. um að raforku sé beint þangað þar sem verðið er hæst o.fl. Í október 2022 ákvað ACER til dæmis að Svenska Kraftnät gæti ekki takmarkað orkuútflutning til Finnlands og Danmerkur eins og Svíar vildu. Völd ACER eru því mjög mikil.

Hvað gerist ef Nei við ESB vinnur málið í hæstarétti Noregs?

Þá kemur í ljós að stjórnarskráin var brotin með ákvörðun Stórþingsins. Ákvörðun Stórþingsins verður ekki ógild í grundvallaratriðum, en ríkisstjórn og Stórþing verða að „hreinsa til“ vegna stjórnarskrárbrotsins. Eðlileg verður sú, að þær breytingar sem gerðar voru á norskum lögum og reglum vegna þriðja orkupakkans verði dregnar til baka.

Leggja má fram innleiðingu þriðja orkupakkans til endurskoðunar samkvæmt 115. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e.a.s. með kröfu um þriggja fjórðu hluta atkvæða. Það verður áreiðanlega ekki slíkur meirihluti á Stórþinginu. Þá mun heldur ekki koma til greina að kynna til sögunnar fjórða orkupakka ESB.

EES-skuldbindingar varðandi þriðja orkupakkann hverfa ekki af sjálfu sér. Samninga er þörf við ESB, ásamt við Ísland og Liechtenstein (EFTA löndin í EES). Enginn uppsagnarréttur er í EES-samningnum en með samkomulagi við ESB í EES-nefndinni er hægt að taka reglugerðir út úr EES. Nauðsyn Norðmanna til að uppfylla stjórnarskrárbundin skilyrði er mikils virði fyrir ESB í slíkum samningaviðræðum.

Niðurstaða Hæstaréttar mun algjörlega breyta því hvernig farið verður með EES-mál um fullveldisafsal í framtíðinni. Slíkur dómur mun leiða í ljós að það eru skýr takmörk fyrir því sem nefnt er „lágmarksinngrip“ og setja þarf leiðbeiningar um hvar þau mörk eru nákvæmlega. Það er löngu orðið tímabært að Stórþingsið geti ekki stöðugt nagað stærri og stærri bita úr fullveldi Noregs með því að beita einföldum meirihluta á Stórþinginu. Þetta mun hafa áhrif á EES-mál á öllum sviðum. Á sviði orkumála mun sú niðurstaða einnig að þýða að fjórði orkupakki ESB verður ekki innleiddur í Noregi.

Ekki að undra þótt utanríkisráðherra Íslands vilji nú flýta innleiðingu Bókunar 35!


ref.
Verdens gang
Nei til EU

Forgangsreglan og bókun 35 gengur í berhögg við stjórnarskrána og er fullveldisafsal

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari segir forgangsreglu ESB og bókun 35 ganga í berhögg við stjórnarskrá Ísland og vera fullveldisafsal. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra lagði málið fyrir Alþingi og bíður afgreiðslu þar.

Jón Steinar Gunnlaugsson

Innleiðing 3. orkupakka ESB í íslensk lög eyðilagði Sjálfstæðisflokkinn. Hvað eftir annað hefur landsfundur flokksins ályktað gegn aðild að ESB og framsali fullveldis Íslands í orkumálum til ESB. Það er því ljóst að forysta flokksins gengur þvert á vilja meirihluta sjálfstæðismanna í landinu. Hvers vegna?  Hverra hagsmuna er verið að gæta?

Jón Steinar hefur haldið því fram að það sem gerst hafi nú, er að sett hafi verið fram frumvarp um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem ætlunin sé að setja inn nýtt lagaákvæði. Lagaákvæðið felur í sér að „ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiði skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum sé ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skuli hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað“.

Alþingi hefur enga heimild til að framselja vald til erlendra stofnana

Jón Steinar segir þetta einfaldlega ekki ganga upp og Alþingi hafi enga heimild til þess að setja slíkt í lög. Ísland sé fullvalda ríki og í því felist eins og segir í 2. gr. stjórnarskrárinnar að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið og það sé enginn afsláttur gefin á því. Aðspurður um hvað muni gerast verði frumvarpið samþykkt á Alþingi segir Jón að þá muni reyna á það fyrir dómstólum hvort lögin standist ákvæði stjórnarskrárinnar.

„Dómstólar dæma eftir réttarheimildum og ef það er rétt sem ég segi, að þetta ákvæði framselji fullveldi umfram heimildir, þá er ljóst að dómstólar muni ekki dæma eftir slíkum ákvæðum þar sem erlendar reglur eru teknar fram yfir það sem Alþingi ályktar um“ segir Jón.

Lagaákvæði frumvarpsins gengur mun lengra

Jón Steinar segir að Alþingi hafi auðvitað heimild til þess að setja ný lög en þarna sé það ekki gert heldur sé verið að vísa til annarra reglna sem koma erlendis frá og talað um að þær eigi að hafa eitthvað lagagildi hér á landi sem ekki standist að mati Jóns Steinars, með því lagaákvæði sem frumvarpið inniheldur sé verið að ganga enn lengra segir Jón.

Eru Íslendingar algjörar rolur gagnvart ESB?

„þetta er einfalt, því fullveldisrétturinn kveður á um að það sé Alþingi sem eigi að setja reglur um refsiverða háttsemi og þess háttar en megi ekki framselja það vald til erlendra stofnana eins og þarna er verið að ráðgera að sé gert“

Jón Steinar segir ljóst af hverju það standi til að setja þetta lagaákvæði inn í lögin.

„Það er verið að setja þetta inn í íslensk lög til þess að geta tekið evrópskar reglur fram yfir íslenskar lagareglur. Ef það er bara verið að segja, að það felist í þessu yngri lög gagnvart eldri lögum þá þarf ekkert þetta ákvæði vegna þess að ef Alþingi setur ný lög með öðru efni, heldur en eldri lagareglur þá gilda alltaf þær nýju. Það er því augljóst að það er verið að gera þetta til þess að koma til móts við ESB og samhæfa íslenskar reglur við evrópskar reglur án þess að það sé heimilt“

Löggjafinn tali skýrt

Hann segir aðspurður um hvort með þessu sé verið að lauma Íslandi inn í Evrópusambandið segir Jón Steinar að það líti út fyrir að svo sé. Hann segir að ef menn ætli sér að breyta hér lögum, í þeim tilgangi að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. eigi menn að gera það þá hreint og beint en ekki fara eins og kettir með það í kringum heitann graut, það sé mjög mikilvægt að löggjafinn tali skýrt og dulbúi ekki hlutina eins og möguleiki sé á að verið sé að gera með þessu. Löggjafinn eigi að tala skýrt.

Reynir á forseta Íslands ef frumvarpið verður að lögum

Setning Alþingis

Jón Steinar segir aðspurður að verði frumvarpið samþykkt þá muni reyna á forseta Íslands í málinu. Jón bendir á að ef lögin verði að veruleika muni forsetinn þurfa að lesa þau yfir ásamt sínu aðstoðarfólki og meta hvort þau standist stjórnarskrá og geri þau það ekki beri honum að neita að staðfesta þau.

„Auðvitað á hann að neita að skrifa undir lögin ef hann er búinn að kanna með sínu aðstoðarfólki og sérfræðingum og komast að því að þau standist ekki, þá á hann auðvitað að neita að skrifa undir þau“.

Innleiðing 3. orkupakka ESB eyðilagði Sjálfstæðisflokkinn.
Bókun 35 grefur hann endanlega.

Heimild:

Birt með góðfúslegu leyfi frá Útvarpi Sögu
Hér má hlusta á viðtalið við Jón Steinar í heild sinni

Sérstakt félag sjálfstæðismanna um fullveldismál – Til hvers?

Þegar stjórnmálaflokkur fer ekki eftir grundvallarstefnu sinni þá starfar hann í umboðsleysi. Fólkið sem kaus flokkinn er flokkurinn og það má krefjast þess að þeir sem hyggjast stjórna í umboðsleysi verði settir af.

Forsaga

Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) var stofnað undir forystu Styrmis Gunnarssonar þann 1. desember 2019. Kveikjan að stofnun félagsins var sú að stuttu áður höfðuallir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (að einum undanskildum) samþykkt innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Hvers vegna samþykkti þingflokkur Sjálfstæðismanna á Alþingi framsal á yfirstjórn orkuauðlinda Íslands til ESB? Skýringuna er a.m.k. ekki að finna í ályktunum landsfundar flokksins því á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16. – 18. mars 2018 segir eftirfarandi í ályktun atvinnuveganefndar í kaflanum um iðnaðar- og orkumál:

“Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.”

Samkvæmt lögum flokksins er landsfundur „æðsta vald í málefnum flokksins. Hann markar heildarstefnu flokksins í landsmálum og setur reglur um skipulag hans.”

Því er enn ósvarað, hvers vegna þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykktu innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslensk lög. Það er flestum Sjálfstæðismönnum með öllu óskiljanlegt enda hefur ríkt sátt um skipan íslenskra orkumála, svo sem að orkuverin séu í eigu Íslendinga eða að arðurinn fari til almennings og fyrirtækja í gegnum lágt orkuverð.

Hvaða hagsmunir lágu þar að baki? Er ekki lengur hægt að treysta forystu flokksins til að framfylgja stefnu hans? Hvað kom eiginlega fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Samband forystunnar við flokksmenn hefur rofnað

Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna er líklega einn versti gjörningur á síðari tímum gegn lýðræðinu. Flokkarnir hafa ekki lengur sömu þörf fyrir flokksmenn sína og sambandið við hinn almenna flokksmann hefur rofnað. Þetta er einkum áberandi í Sjálfstæðisflokknum sem áður gat státað af langöflugasta flokksstarfinu einkum vegna  fjölmennra hverfafélaga í Reykjavík og félögum Sjálfstæðismanna um allt land. Engin alvöru pólitísk umræða fer lengur fram í flokknum og félagsstarfsemi er með minnsta móti. Sem dæmi voru allar stjórnmálaumræður hnepptar í Gleipnisfjötra á síðasta landsfundi. Vandamál Sjálfstæðisflokksins er ekki síst sá, að forustumennirnir eru ekki í nægjanlega góðum tengslum við flokksmenn. Hér á árum áður þá fóru þingmenn um landið þegar Alþingi var ekki að störfum og töluðu við flokksmenn og héldu héraðsmót. Nú fara þér í golf og laxveiðar og eru lítt til viðræðu fyrr en þing kemur saman á nýjan leik. Fylgi flokksins hefur því dalað svo um munar í skoðanakönnunum. Hvað veldur?

Hvers vegna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?  

Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að heilla til sín kjósendur í næstu Alþingiskosningum? Hvaða baráttumál flokksins verða sett á oddinn? Af hverju getur Sjálfstæðisflokkurinn státað af langri setu í þriggja flokka ríkisstjórn? Hvernig hefur flokkurinn staðið sig í fullveldismálum og samskiptum við ESB? Hefur hann sett hagsmuni þjóðarinnar framar öðrum hagsmunum? Hefur hann sinnt hagsmunum hins almenna kjósanda?

Syndalistinn

Syndalisti forystu Sjálfstæðisflokksins er orðinn æði langur og lengist stöðugt:

  1. Á síðasta landsfundi var gerð alvarleg aðför að lýðræðinu í flokknum framsögumaður málefnanefndar mælti gegn tillögum meirihluta nefndarinnar, sem voru síðan felldar vegna þess að Sjálfstæðisfólk mátti ekki taka skynsamlega afstöðu í málefnum hælisleitenda. Flokksmenn hafa algjörlega misst tiltrúna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, hafi hún einhver verið fyrir. 
  2. Flokkurinn hefur hefur staðið fyrir því að ákvarðanir um  landamæragæslu er komnar í hendur erlendra aðila vegna aðildar Íslands að Schengen. 
  3. Sú ákvörðun að leggja skyndilega fram frumvarp til að innleiða bókun 35 við EES-samninginn og ætla að samþykkja hana án umræðu er gróf aðför að fullveldi Íslands á flestum sviðum. Hvaða Sjálfstæðismanni dettur í hug að framselja löggjafarvald Alþingis til ESB? 
  4. Fullveldisframsalið varðandi orkumál var augljóst þegar þriðji orkupakki ESB var samþykktur af Sjálfstæðisflokknum. 
  5. Persónuverndarlög ESB, sem voru innleidd af Alþingi, eru þegar farin að setja hömlur á tjáningarfrelsi Íslendinga t.d. þegar erlendar vefsíður eru farnar að loka á Ísland í síauknu mæli. ESB er farið að beita sektum á íslensk fyrirtæki vegna laganna sem eiga í raun mun betur við milljónaþjóðir en fámennt samfélag.
  6. Óheftar innleiðingar á regluverki ESB eru að setja verulega íþyngjandi kröfur á lítil íslensk fyrirtæki og hefur einnig valdið því að eftirlitsstofnanir ríkisins hafa bólgnað út með sífellt auknum kostnaði.
  7. Aðför að málfrelsinu er gerð með haturslögum ESB, sem m.a. mun hafa enn frekari lokanir á vefsíðum í för með sér og setja verulegar skorður á tjáningarfrelsið í andstöðu við stjórnarskrá Íslands.
  8. Flokkurinn hefur einnig brugðist algerlega í hagsmunagæslu vegna mengunarkvóta ESB sem mun leggjast þungt á samfélagið innan nokkurra ára og hefur ESB ekki tekið í mál að endurskoða hann þótt hann sé bersýnilega mjög ósanngjarn gagnvart Íslandi. Á Íslandi er nánast öll raforkuframleiðsla græn og kynding húsa með hitaveitu. Engin viðurkenning hefur verið veitt fyrir þessa staðreynd og talað er eins og að framtak okkar til umhverfismála sé slæmt.
  9. Ríkisútgjöld hafa stóraukist og skattar og álögur hafa hækkað. Tryggingagjaldið er enn mikill dragbítur á fyrirtæki og stofnun nýrra fyrirtækja. Ríkisstarfsmönnum fjölgar stöðugt. Vinnandi mönnum er hegnt fyrir dugnað með því að skerða örorku- og ellilífeyri sem er í algjörri andstöðu við sjálfstæðisstefnuna. Í staðinn styðja þingmenn við glórulaus gæluverkefni vinstri manna svo sem Borgarlínu og óheftan innflutning hælisleitenda
  10. Ekkert samráð er haft um afdrifaríkar ákvarðanir í ýmsum málum t.d. viðskiptabann á Rússa, vopnasendingar á klasasprengjum til Úkraínu, brottrekstur sendiherra Rússa, lokun sendiráðs Íslands í Moskvu o.fl. Hvort skipta eigi um þjóð í landinu og gera ensku að opinberu máli hér á landi.
  11. Voru sjálfstæðismenn einhvern tímann spurðir að því hvort þeir vildu að það yrði stefna Sjálfstæðisflokksins að ráðast að skoðana- og tjáningarfrelsinu? 

Lokaorð

Þegar stjórnmálaflokkur fer ekki eftir grundvallarstefnu sinni þá starfar hann í umboðsleysi. Fólkið sem kaus flokkinn er flokkurinn og það má krefjast þess að þeir sem hyggjast stjórna í umboðsleysi verði settir af. Eins og mál standa nú er einungis tímaspursmál hvenær hinn almenni kjósandi Sjálfstæðisflokksins yfirgefur sinn gamla flokk því núverandi forysta hans virðir hvorki grunngildi eða stefnuskrá hans og þverbrýtur endurtekið stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Varla hefur flokkurinn efni á enn einum klofningnum en kjörfylgi hans hefur aldrei verið lægra.

Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál var stofnað af sjálfstæðismönnum sem allir höfðu
lengi starfað með flokknum og gegnt trúnaðarstöðum fyrir hann. Markmið félagsins er að
endurreisa flokkinn, ásýnd hans og hlutverk í íslenskum stjórnmálum og ná aftur fyrri reisn og bæta orðspor hans. Allir þeir sem aðhyllast stefnu og grunngildi flokksins eru hvattir til að ganga í Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál.

Stjórn félags sjálfstæðismanna um fullveldismál

Hægt er að skrá sig í félagið á fullveldisfelag@gmail.com

Áleitnar spurningar um orkupakka

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl:

Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni. Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.

Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum

Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda. Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi. Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.

Áframhald af greininni

Sverð á sal Alþingis

Loftur skrifar:

Viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ritar ágæta grein um sjálfstæði Íslands í orkumálum í Mbl. þ. 29. október 2022. Þar segir hún m.a.: „Sú staðreynd að raforkukerfi landsins er ekki tengt raforkukerfi Evrópu kemur sér sérstaklega vel í því árferði sem nú ríkir og bregður ljósi á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði í orkumálum. Það sjáum við til dæmis með því að líta á þróun raforkuverðs á hinum Norðurlöndunum sem hefur hækkað mikið…“

„Ísland hefur alla möguleika á að ná fullu sjálfstæði í orkumálum með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku til þess að standa undir rafvæðingu í samgöngum í lofti, láði og legi. Þrátt fyrir allt það frábæra samstarf í alþjóðamálum, sem við tölum þátt í, er það gæfuspor fyrir þjóðina að vera ekki í Evrópusambandinu.“

Svo mörg voru þau orð. Ráðherrann dregur einnig upp myndlíkingu þar sem sverð Damóklesar hangir yfir ESB m.a. vegna skorts á gasi frá Rússlandi. Svokölluð „gaslýsing“ (e.gaslighting) er reyndar algeng í viðtölum ráðherra við almúgann. Þeir svara stundum spurningum með lærðum frösum: „Þú verður að kynna þér málið!“ eða: „Þú hefur ekki lesið alla skýrsluna!“ o.s.frv. Spurning vaknar hvort ráðherrann hafi lesið alla söguna um hirðmanninn Damókles sem lofsöng hamingju Díonýsíosar konungs vegna auðs hans og valda. Konungur gerði hirðmanninn að eins konar umskiptingi þar sem þeir skiptu um hlutverk en á móti hengdi konungurinn sverð hans fyrir ofan hásætið og festi með einu hrosshári.

Slíkir umskiptingar eru algengir á Alþingi Íslendinga þar sem ráðamenn lofa og prísa EES-samninginn og sjálfstæði og fullveldi Íslands í skálaræðum á kvöldin en á daginn vinna þeir sleitulaust að því framselja yfirráðin yfir auðlindum landsins til ESB með grófri misnotkun á EES-samningnum og brjóta með því stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Mun ráðherrann t.d. samþykkja innleiðingu fjórða orkupakka ESB í íslensk lög eins og þann þriðja?

EES-samningurinn er orðinn að sverði Demóklesar sem nú hangir yfir ræðustóli Alþingis á þunnu hrosshári, líklega úr hálfdauðri blóðmeri.

Hvers vegna skiptir sjálfstæði máli fyrir ríki og þjóðir?

Kári skrifar:

Áfram Ísland!

– Fullveldi –

Sagan geymir mörg dæmi af átökum um landamæri, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Hægt er að fjalla um þessi mál út frá heimspeki, félagsfræði eða lögfræði eða jafnvel blöndu af þessu þrennu [þverfagleg umfjöllun]. Við stjórnun ríkja virðist tvennt koma til álita: að stjórnun þeirra sé á innlendum forsendum, og þau undir innlendri stjórn, [i] eða að stjórnunin sé á erlendum forsendum og ríkin lúti erlendri stjórn. Þetta má þrengja niður í eina spurningu: hverjir ráða?

Þessi mál hafa bæði „macro-vídd“ [ríki meðal ríkja] og „micro-vídd“ [þegnar ríkja]. Þegar rætt er um sjálfstæði ríkja (macro) er átt við rétt þeirra gagnvart öðrum ríkjum [stöðu í „alþjóðasamfélagi“]. En viðfangsefnið hlýtur einnig að snúast um stöðu þegnanna innan hvers ríkis (micro). Flestir líta svo á að einstaklingar eigi að njóta sjálfstæðis og geta tekið ákvarðanir sem þá sjálfa varða miklu. Það má kalla „einstaklingsbundið fullveldi“.

Fólk getur t.a.m. stundum valið um „trúleysi“ eða að rækta ákveðna trú [trúfrelsi], að leggja deilumál sín fyrir dómstóla, hvar það vill búa [eða flytja til annars ríkis] o.s.frv. Með öðrum orðum, fólk hefur þá, að minnsta kosti að nafninu til, mannréttindi [margir njóta þó engra mannréttinda].

Eðlilegt þykir að fólk beiti þessum réttindum sjálft enda ganga þekktar kenningar [náttúruréttur] í heimspeki út frá því að fólk fæðist með ákveðin réttindi sem ekki verði af því tekin. Greinarhöfundur þekkir engin dæmi þess að fólk vilji framselja mannréttindi sín til annarra og fela þeim, fyrir sína hönd, að ákveða trúarafstöðu, búsetu eða hvað annað. Flestir vilja ráða sínum málum sjálfir. En þegar kemur að ríkjum og stjórnun þeirra er hins vegar allt annað uppi á teningnum. Þá vilja sumir afsala sér innlendu valdi og fela erlendum stjórnvöldum, t.d. innan Evrópusambandsins, að stjórna eigin málum. Í því felst vissulega ákveðin þversögn.

Fullveldi ríkja og einstaklinga tvinnast saman. Ákvarðanir sem t.a.m. eru teknar innan Evrópusambandsins hafa síðan víðtæk áhrif á borgara ríkjanna sem í hlut eiga og kunna jafnvel að ógna mannréttindum borgaranna. Þar má t.d. nefna takmarkanir á tjáningarfrelsi [ritskoðun] og hvernig sífellt er reynt að stimpla skoðanir þeirra sem ekki fylgja valdinu sem „hatursorðræðu“ og „upplýsingaóreiðu“. Raunverulega óreiðan er hins vegar af völdum fólksins sem þannig talar. Dæmi um það er að miklu leyti sjálfsköpuð orkukreppa í Evrópu. Þar er mikil óreiða, mynduð af „óreiðufólki“ innan Evrópusambandsins [sérstaklega í framkvæmdastjórninni]. Rökrétt framhald af tali „óreiðufólksins“ um „hatursorðræðu“ væri að stofna sérstakan dómstól um „réttar“ og „rangar“ skoðanir sem áður yrðu útfærðar í reglugerðum og tilskipunum. Slíkur dómstóll yrði banabiti lýðræðisins sem þó er orðið mjög laskað fyrir. Tjáningarfrelsi, án ritskoðunar, er meginforsenda lýðræðis.

Áframhald af greininni

Ísland og Sjálfstæðisflokkurinn

Gísli Ragnarsson skrifar í Mbl

Sjálfstæði smáþjóðar er ekki sjálfsagt. Það þarf stöðugt að vera
á verði og gæta þess að ekkert sé gert sem stuðlar að valdaafsali.

Gísli Ragnarsson

Ljóðið hennar Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind), Hver á sér fegra föðurland, er okkur Íslendingum kært. Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð. Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð. Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð en lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf? Við heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ, hún uni grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf. Ó, Ísland, fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð. Hver dagur líti dáð á ný, hver draumur rætist verkum í, svo verði Íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð. Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð. Okkur sem erum fædd um miðja síðustu öld var kennt að elska Ísland og vinna því allt til heilla. Sjálfstæðishugsjónin í ljóði Huldu: „Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð“ var og er grundvallarhugsjón okkar. Í kosningum 1956 fylgdi ég ömmu og afa á kjörstað í Miðbæjarskólanum. Ég var stoppaður af við innganginn af lögreglumanni sem brosandi bað mig um að setja fálkann, merki Sjálfstæðisflokksins, aftan við kragann svo hann sæist ekki meðan ég væri inni á kjörstaðnum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 42,4% atkvæða í þessum kosningum og var Ragnhildur Helgadóttir yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri, 26 ára. Það var eitthvað svo sjálfsagt í mínum augum að styðja Sjálfstæðisflokkinn. Hans helsta stefnumál var að Íslands byggð yrði aldrei öðrum þjóðum háð. Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn að fá rúm 20% í kosningum. Í borgarstjórnarakosningunum 1990 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 60,4% atkvæða. Hvað veldur? Ég er viss um að sjálfstæðishugsjónin er flestum Íslendingum hugleikin. Að Íslands ástkær byggð verði ei öðrum þjóðum háð. Háværar raddir eru því miður uppi sem dásama erlend áhrif á Íslandi. Fólk sem vill að Ísland verði öðrum þjóðum háð. Þetta er ekkert nýtt. Það hafa alltaf verið til menn á Íslandi sem sjá tækifæri í að færa vald úr landi. Fyrst til Noregs, Danmerkur og nú til Brussel. Því miður er áróðri þeirra ekki svarað af nægilegri sannfæringu. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki andmælt slíkum áróðri á nægilega sannfærandi hátt.

Áframhald af greininni

AFSAL Á STJÓRNUN AUÐLINDA OG AUÐLINDUNUM SJÁLFUM – Orkupakkar ESB

Kári skrifar:

Nei við ACER!

Reglan um varanlegt fullveldi fólks og ríkja yfir náttúruauðlindum tók að festast í sessi, sem ný regla í alþjóðarétti, eftir lok seinni heimsstyrjaldar, eða eftir 1945.[i] Ályktanir og ákvarðanir eru formleg tjáning á skoðunum eða vilja innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Margs konar ályktanir um fjölbreytileg efni hafa verið samþykktar af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnunum þeirra frá stofnun árið 1945.[ii]

Almennt er litið svo á að ályktanir og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála þeirra, séu bindandi í samræmi við 25. grein sáttmálans. En fræðimenn greinir á um lagalegt gildi annara ályktana og samþykkta.[iii] Þá er eftirfylgni [enforcement] oft háð sömu annmörkum og margt annað í alþjóðakerfinu.

Árið 1962 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun 1803,[iv] um fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum sínum. Í 1. gr. ályktunarinnar segir: „Rétti fólks og þjóða til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðæfum sínum og auðlindum verður að beita í þágu innlendrar þróunar og velferðar almennings í hlutaðeigandi ríki.“[v]

Nú ber hins vegar svo við að íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir, ólmast við að koma íslensku fullveldi yfir auðlindum, og fullveldinu almennt, undir erlenda stjórn. Til þess hafa þeir m.a. keypt álit, frá misjafnlega vel jarðbundnu fólki, sem segir ekkert að óttast – að bæði sé hægt að gefa frá sér hlut en þó eiga hann áfram. Það má kalla lögfræðilega tvíhyggju. Mótsagnarlögmál rökfræðinnar gildir ekki hjá þeim álitsgjöfum sem þannig tala.

Fullveldisrétturinn

Sumir ráðherrar eru svo óforskammaðir að tala um það í eldhúsdagsumræðum að þjóðin hafi enn fulla stjórn á eigin auðlindum, enda þótt við blasi að sömu ráðherrar stóðu einmitt sjálfir að framsali stjórnunar þeirra úr landi með innleiðingu orkupakka þrjú. Slík er ósvífni og ófyrirleitni þessa fólks. Það lætur enn eins og ákvarðanir þess hafi engin áhrif, beitir sífelldum blekkingum og reynir að afvegaleiða kjósendur. Innleiðing orkupakka þrjú felur í sér afsal fullveldisréttar yfir íslenskum orkuauðlindum, einkum til ACER, orkustofnunar Evrópu, en þar liggur þó mun meira undir. Enn fyrirfinnst fólk sem annað hvort skilur ekki eða vill ekki skilja þetta. Það birtist svo í pontu Alþingis og talar þar eins og álfur út úr hól.

Áframhald af greininni

Höldum í heiðri fullveldi okkar í orkumálum Íslands. Hugsum sjálfstætt!

Elinóra Inga Sigurðardóttir:

Umsögn til Alþingis um 777. mál, þingsályktunartillaga, 149. löggjafarþings: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (25. apríl 2019)

„Játast aldrei undan því sem vér vitum að er réttur í þessu landi og réttur þessa lands:
Það er sjálfstæði.“

Halldór Laxness, 1. desember 1955 (ref.1)

Ágæti alþingismaður
Í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins stendur Alþingi Íslendinga frammi fyrir þeirri erfiðu
ákvörðun hvort afsala skuli yfirráðum landsmanna yfir einni helstu auðlind landsins, orkuauðlindinni og þeirri afurð sem er henni nátengd, raforkunni til erlends ríkjasambands.

Elinóra Inga Sigurðardóttir

Í ljósi 100 ára afmæli fullveldis Íslands er þetta illskiljanlegur harmleikur. Hvað rekur ráðamenn þjóðarinnar til að fremja slíkt spellvirki? Ljóst er, að vissir stjórnmálaflokkar hafa lengi barist fyrir innlimum Íslands í Evrópusambandið (ESB), sem er ríkjasamband 28 aðildarlanda, sem telja yfir 300 milljón manna. Þingmenn þessara flokka hafa róið að því öllum árum að innlima Ísland í ESB með öllum þeim fórnum sem því myndi fylgja. Það er því skiljanlegt út frá þeirra sjónarhorni að þeim þyki sjálfsagt að taka þátt í þeim fórnardansi, sem afsalar okkur yfirráðum yfir orkuauðlindinni, sem og öðrum auðlindum svo sem fiskimiðunum. ESB er ekki alþjóðleg stofnun og hefur ekkert með alþjóðasamvinnu að gera, eins og stundum er haldið ranglega fram.

Hitt er hins vegar algjörlega óskiljanlegt, hvers vegna það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú hafa frumkvæðið að slíku framsali. Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 undir merkjum nýs flokks, Sjálfstæðisflokksins, var kveðið á um tvö meginatriði sem flokkurinn skildi hafa að leiðarljósi. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt þegar skilyrði væru til þess samkvæmt sambandslögunum. Hins vegar sagði að flokkurinn ætlaði:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.”

Áframhald af greininni

Alþingi Íslendinga átti ekki að samþykkja 3. orkupakka ESB!

„For years many people remained at home, unaffected, continuing to do what they had always done. Then … bombs and mines suddenly exploded everywhere, buildings collapsed, and the streets were full of rubble, soldiers, and refugees. Soon, no one was left who could pretend it wasn’t happening …“
Natalia Ginzburg í Family Lexicon

Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór Jónsson lögmaður, f.v. héraðsdómari og núverandi 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritar á Facebook síðu sína þ. 11. september 2022:

,,Af hverju tala þau við mig eins og ég sé kjáni?” hugsaði ég sem barn þegar fullorðið fólk vék sér undan að svara viðkvæmum spurningum. Öllum er ljóst að við eyðum ekki vanda með því að eyða talinu. Nú er ég orðinn of fullorðinn til að láta tala við mig sem barn. Þetta rifjast upp þegar ég les ummæli sérfræðinga / embættismanna / stjórnmálamanna um orkumál og hugsanleg áhrif sæstrengs á raforkuverð á Íslandi. Börn geta skilið hvaða áhrif slík tenging mun hafa á raforkuverð innanlands. Öllum má sömuleiðis vera morgunljóst að ákvörðunarvald um slíkan streng hvílir ekki lengur aðeins í höndum Íslendinga. Enn vill fólk þó afneita því að þetta séu afleiðingar þess að Alþingi samþykkti innleiðingu þriðja orkupakka ESB árið 2019. Þverpólitísk samstaða skapaðist, utan Alþingis, um að forða Íslendingum frá því að festa sig að óþörfu í þessum orkupakkasnörum. Á það var ekki hlustað. Stórpólitískt mál um þjóðarhagsmuni var skrumskælt sem flokkspólitískt smámál. Þetta minnisblað svarar ekki öllum spurningum, en það er púsl í heildarmyndina sem margir vilja enn ekki sjá. Ég hef ekki birt þetta áður hér á FB, en því miður er full ástæða til að vekja athygli á innihaldi þess. Við getum ekki lokað augum og eyrum fyrir þeim vanda sem blasir nú við nágrannaþjóðum okkar. Varla viljum við fara sömu leið, eða hvað?

Með þessari færslu sinni birtir hann í fyrsta sinn eftirfarandi minnisblað sitt vegna fundar í utanríkismálanefnd Alþingis hinn 16. ágúst 2019 um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES- samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál:

Minnisblað þetta er ritað eftir móttöku fundarboðs utanríkismálanefndar 14. ágúst 2019, þar sem undirritaður er boðaður á fund nefndarinnar 16. ágúst 2019. Í fundarboðinu kemur fram að á fundinum verði til umfjöllunar „tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál.

Um leið og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða við þingmenn um hinn svonefnda þriðja orkupakka ESB (O3) skal tekið fram að ég rita þessar línur að eigin frumkvæði, án utanaðkomandi þrýstings eða fyrirmæla og án þess að hafa þegið nokkra greiðslu fyrir þessi skrif né heldur fyrir framlag mitt til almennrar umræðu um málefnið sem hér um ræðir.

Áframhald af greininni