Utanríkismál of lítið rædd

Áhugaleysi á Alþingi

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Frá 1951 til loka kalda stríðsins voru utanríkis- og varnarmál kjarninn í öllum pólitískum umræðum hér á landi. Nú eru þau varla nefnd. Þótt kalda stríðinu sé lokið er það veruleiki að norðurslóðir hafa öðlast nýja þýðingu eins og sjá má af því að tvö stórveldi, Kína og Rússland, sækjast stíft eftir auknum áhrifum í þessum heimshluta. Augljóst er að sú ásókn hefur áhrif á stöðu Íslands. Samt er lítið um umræður um utanríkismál á Alþingi. Það verður að breytast og við hæfi að sú breyting hefjist í aðdraganda þingkosninga. Staðan í alþjóðamálum er sú, að nýtt kalt stríð er að brjótast út á milli Bandaríkjanna og Kína. Fyrr í þessari viku voru bandarískir embættismenn í Kína. Þar var þeim sagt að uppgangur Kína yrði ekki stöðvaður og það er áreiðanlega mikið til í því, bæði vegna þess að Kínverjar eru langfjölmennasta þjóð í heimi og það er fyrirsjáanlegt að fyrir lok þessa áratugar verði þeir orðnir mesta efnahagsveldi heims. Auk þess sögðu Kínverjar að Bandaríkjamenn væru að gera úr þeim, Kínverjum, ímyndaðan óvin.

En það er ekki allt sem sýnist. Kína er einræðisríki sem er undir stjórn Kommúnistaflokksins. Fjölmennasta þjóð heims býr ekki við frelsi. Það hefur afleiðingar. Á nánast hverjum einasta degi eru smáuppreisnir víðs vegar um landið. Ekkert hræðir ráðamenn í Peking meir en að þær sameinist í eina stóra og ryðji hinum 100 ára gamla kommúnistaflokki til hliðar. Þeir eins og aðrir muna hrun Sovétríkjanna. Kínverjar sækjast nú eftir áhrifum á norðurslóðum. Sú ásókn hefur fyrst og fremst snúið að Grænlandi. Hér á Íslandi hefur óvenjuleg virkni kínverska sendiráðsins í fjölmiðlum vakið athygli. Kínverjar hafa líka látið að sér kveða í Færeyjum. Rússar hafa í mörg ár unnið markvisst að því að styrkja stöðu sína á norðurslóðum. Þeir eiga land að þessu hafsvæði og í ljósi þess ekki óeðlilegt að þeir séu athafnasamir í þessum heimshluta. En það sem kalla má árásargirni þeirra annars staðar vekur áhyggjur og þá er átt við Úkraínu. Þessi árásargirni birtist líka í tali Pútíns eins og sjá mátti á ræðu sem hann flutti fyrir nokkrum dögum og hótunum sem hann hafði þar uppi. Í ljósi þessa er barnaskapur að halda að það verði allt með friði og spekt á norðurslóðum á næstu árum og áratugum.

Við eigum samleið með nokkrum öðrum þjóðum í þessum efnum. Þar ber fyrst að nefna Norðmenn, sem eiga landamæri að Rússlandi og hafa fundið fyrir því með ýmsum hætti áratugum saman. Þá ber að nefna Skota og svo nágranna okkar Færeyinga og Grænlendinga. Kanada á líka hagsmuna að gæta. Það er eðlilegt og sjálfsagt að við höldum uppi reglulegum viðræðum um þessi mál við þessa nágranna okkar. Slíkar reglulegar viðræður eigum við líka að eiga við Bandaríkin, nánasta bandamann okkar í áratugi. Þeir eru eina þjóðin sem hefur bolmagn til að standa gegn ásókn Kínverja og Rússa. Jafnframt er eðlilegt að þessi mál komi til umræðu á Alþingi á hverju ári. Við eigum viðskipti við bæði Rússa og Kínverja og seinni árin hefur gætt tilhneigingar til að láta þau ráða ferðinni í samskiptum við þessi tvö ríki. Það má aldrei verða. Þessi ríki mundu fylgja slíkri undanlátssemi eftir með meiri kröfum og þar með gera tilraun til að gera Ísland að eins konar leppríki sínu. Framtíðarhagsmunir þjóðarinnar verða að vera í fyrirrúmi.

Auk norðurslóðamála eru það samskiptin við ESB í tengslum við EES-samninginn sem krefjast umræðu. Það er alveg á hreinu að samkvæmt þeim samningi höfum við heimild til að hafna tilskipunum frá ESB. Það hefur maðurinn sem gerði þann samning, Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra, margoft sagt. Samt hefur það aldrei verið gert. Það er óskiljanlegt. Aðild að ESB er ekki lengur á dagskrá í okkar samfélagi en aðildarumsóknin hefur ekki verið dregin formlega til baka. Það er löngu kominn tími til að það verði gert og stjórnarflokkarnir verða að svara því í kosningabaráttunni af hverju það hefur ekki verið gert. Eins skrýtið og það nú er eru það tiltölulega fáir einstaklingar í hverjum flokki sem láta sig utanríkismál einhverju varða. Þannig var það líka í kalda stríðinu. En veruleikinn er sá að þær hættur sem varða norðurslóðir geta verið meiri hér í norðurhöfum en þá voru á ferð. Nú eins og þá láta flestir þingmenn sig utanríkismál litlu varða og hafa lítinn sem engan áhuga á þeim. En í grunninn snúast þau um sjálfstæði þjóðarinnar.

Tveir flokkar eiga þá hugsjón helzta að gera Ísland að litlum hreppum í ESB. Sú hugsjón nýtur ekki stuðnings meðal þjóðarinnar. Umræður á Alþingi um utanríkismál þjóna þeim tilgangi að halda þjóðinni upplýstri um þau mál hverju sinni. Utanríkisþjónusta okkar lifir í einangraðri veröld og hefur alltaf gert. Aðrar þjóðir sýna starfsmönnum hennar kurteisi en taka varla eftir hvað þeir segja, ef þeir þá segja eitthvað. Þetta er hlutskipti allra smáþjóða. En það er skylda allra flokka að fjalla um utanríkismál í kosningabaráttunni og raunar sjálfsögð kurteisi við kjósendur.

Höfundur er f.v. ritstjóri