Forsætisráðherra aðildarríkis ESB rekur vandann réttilega
Úr Staksteinum Mbl. 23. ágúst 2022:
Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands fjallaði um málefni Evrópu og Evrópusambandsins í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í gær. Útgangspunkturinn er Úkraína og margvíslegur lærdómur sem Morawiecki telur að draga megi af innrás Rússa. Hann telur stríðið hafa „afhjúpað sannleikann um Rússland“ Pútíns og heimsvaldastefnu þess. Rússland hafi treyst stöðu sína á síðustu tveimur áratugum en Vesturlönd hafi sýnt sofandahátt. Þá segir Morawiecki að ríki Evrópu hafi ekki hlustað á varnaðarorð Póllands, sem hafi bent á fyrir mörgum árum að Rússar myndu ekki láta staðar numið í Georgíu með innrásinni þangað.
Umhugsunarvert er að forsætisráðherra Póllands telur þetta „einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag. Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis en stjórnmálavenja sýnir fram á að rödd Þýskalands og Frakklands hefur mest áhrif.“ Þetta ástand sem Morawiecki lýsti er hluti af þeim vanda sem kalla má lýðræðishalla Evrópusambandsins og felst meðal annars í því að stóru ríkin, einkum Þýskaland en einnig Frakkland, hafa langmest um ákvarðanir sambandsins að segja. Minni ríkin hafa lítið sem ekkert vægi, þau bíða ákvarðana stóru ríkjanna tveggja sem teknar eru í tveggja manna tali og hittast svo á stærri fundum og stimpla ákvarðanirnar.
Í þessu ljósi er sú umræða sem stundum hefur átt sér stað hér á landi um mikil áhrif smáríkja í besta falli grátbrosleg. Jafnvel ríki á stærð við Pólland hafa sáralítið vægi innan sambandsins, eins og forsætisráðherrann bendir á. Þetta ástand batnar ekki við það að sífellt lengra hefur verið gengið innan Evrópusambandsins í átt að aukinni miðstýringu, það er að segja að valdið er flutt í æ ríkari mæli frá aðildarríkjunum og til Brussel, sem felur einnig í sér aukin völd stóru ríkjanna.
Eitt af því sem forsætisráðherra Póllands hefur áhyggjur af er að nú heyrist „æ oftar að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins. Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni.“ Og forsætisráðherrann bendir einnig á að það, „að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil, tryggir ekki varanlega og samræmda þróun. Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni sem sést til að mynda í umframútflutningi sumra ríkja. Það kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum. Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm.“ Þá segir Morawiecki að skipan Evrópusambandsins verji „okkur ekki nægilega vel að svo stöddu gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja. Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari.“
Forsætisráðherra Póllands er ekki andstæðingur Evrópusambandsins en hann hefur áhyggjur af því hvernig það er að þróast og bendir á ýmis dæmi um hvernig það hafi brugðist og hversu varasamt það sé að eitt ríki sé um of ráðandi um framvinduna. Hann leggur til að í stað þess að halda áfram á braut æ meiri samruna þá verði stigið skref til baka og horfið aftur til grundvallarins í stað þess „að halda áfram að styrkja yfirbyggingu stofnana“. Vaxandi regluverk sem teygir anga sína til æ fleiri þátta þjóðlífsins, aukin stofnanaumgjörð og yfirþjóðlegt vald samhliða þeim miklu áhrifum sem stóru ríkin hafa innan Evrópusambandsins eru orðin akkilesarhæll þess svo ekki þarf að koma á óvart að forsætisráðherra aðildarríkis stígi fram með svo afgerandi gagnrýni á þróunina.
Íslendingar eru svo lánsamir að ekki hefur tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og ekki allar heiðarlegar, að koma landinu alla leið inn í Evrópusambandið. Þess í stað býr Ísland við EES-samninginn sem hefur tryggt viðskiptahagsmuni landsins gagnvart ríkjum ESB. Í gegnum hann hafa Íslendingar þó kynnst nokkru af þeim vanda sem Morawiecki lýsir, því að aukin ásælni þeirra sem mestu ráða í Evrópusambandinu hefur einnig komið fram í því regluverki sem reynt er að þröngva upp á aðildarríki EESsamningsins sem þó eru ekki í ESB. Gegn þessari þróun þarf að standa og þeir sem gæta hagsmuna Íslands gagnvart Evrópusambandinu og samningnum við það mega ekki gleyma þeirri þróun sem á sér stað innan sambandsins og meðal annars er lýst í grein Mateusz Morawieckis forsætisráðherra. Og þeir mega vitaskuld alls ekki gleyma því hverra hagsmuna þeim ber að gæta.