Kári skrifar:
Reglan um varanlegt fullveldi fólks og ríkja yfir náttúruauðlindum tók að festast í sessi, sem ný regla í alþjóðarétti, eftir lok seinni heimsstyrjaldar, eða eftir 1945.[i] Ályktanir og ákvarðanir eru formleg tjáning á skoðunum eða vilja innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Margs konar ályktanir um fjölbreytileg efni hafa verið samþykktar af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnunum þeirra frá stofnun árið 1945.[ii]
Almennt er litið svo á að ályktanir og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála þeirra, séu bindandi í samræmi við 25. grein sáttmálans. En fræðimenn greinir á um lagalegt gildi annara ályktana og samþykkta.[iii] Þá er eftirfylgni [enforcement] oft háð sömu annmörkum og margt annað í alþjóðakerfinu.
Árið 1962 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun 1803,[iv] um fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum sínum. Í 1. gr. ályktunarinnar segir: „Rétti fólks og þjóða til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðæfum sínum og auðlindum verður að beita í þágu innlendrar þróunar og velferðar almennings í hlutaðeigandi ríki.“[v]
Nú ber hins vegar svo við að íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir, ólmast við að koma íslensku fullveldi yfir auðlindum, og fullveldinu almennt, undir erlenda stjórn. Til þess hafa þeir m.a. keypt álit, frá misjafnlega vel jarðbundnu fólki, sem segir ekkert að óttast – að bæði sé hægt að gefa frá sér hlut en þó eiga hann áfram. Það má kalla lögfræðilega tvíhyggju. Mótsagnarlögmál rökfræðinnar gildir ekki hjá þeim álitsgjöfum sem þannig tala.
Fullveldisrétturinn
Sumir ráðherrar eru svo óforskammaðir að tala um það í eldhúsdagsumræðum að þjóðin hafi enn fulla stjórn á eigin auðlindum, enda þótt við blasi að sömu ráðherrar stóðu einmitt sjálfir að framsali stjórnunar þeirra úr landi með innleiðingu orkupakka þrjú. Slík er ósvífni og ófyrirleitni þessa fólks. Það lætur enn eins og ákvarðanir þess hafi engin áhrif, beitir sífelldum blekkingum og reynir að afvegaleiða kjósendur. Innleiðing orkupakka þrjú felur í sér afsal fullveldisréttar yfir íslenskum orkuauðlindum, einkum til ACER, orkustofnunar Evrópu, en þar liggur þó mun meira undir. Enn fyrirfinnst fólk sem annað hvort skilur ekki eða vill ekki skilja þetta. Það birtist svo í pontu Alþingis og talar þar eins og álfur út úr hól.
Framganga Vinstri-grænna í aðdraganda og við innleiðingu orkupakkans hlýtur að hafa valdið stuðningsmönnum þess flokks miklum vonbrigðum, enda var hún fyrir neðan allar hellur. Fólk í flokknum er enn við sama heygarðshornið, eins og marka má af umræðum, hefur ekkert lært. Þykist þó á hátíðarstundum vera miklir umhverfissinnar. En virkjanaþrýstingur og vindorkugarðar teljast ekki til umhverfismála í hugum sama fólks.
Frá umhverfisverndarsamtökum heyrðist ekki eitt aukatekið orð um innleiðingu orkupakka þrjú. Það var mjög sláandi og gerði að verkum að engin leið er að taka nokkurt mark á fólki sem aðild á að nefndum samtökum. Í orkupakkamálinu hafði það virkilega tækifæri til þess að láta að sér kveða en kaus að þegja. Hið sama gerðu margir þingmenn auðvitað og áunnu sér ævarandi skömm fyrir ræfildóminn. Undirlægjum Evrópusambandsins, sérstaklega í Samfylkingu og Viðreisn, þykir afar jákvætt að koma sem mestu valdi undir erlend yfirráð og nota hvert tækifæri sem gefst til þess að tala fyrir því. Má kalla slíkt fólk vald- og landsölufólk. Það er einmitt sama fólk og myndi selja ömmu sína [á „frjálsum markaði“] ef „hagstætt tilboð“ bærist.
Í 7. gr. ályktunar Sameinuðu þjóðanna segir: „Brot á rétti fólks og þjóða til fullveldis yfir náttúrulegum auði sínum og auðlindum er andstætt anda og meginreglum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna [UN Charter[vi]] og hindrar þróun alþjóðlegs samstarfs og varðveislu friðar.“[vii]
Þetta er nokkuð sem íslenskir ráðamenn mættu hugleiða áður en þeir ráðast í það verkefni að „bjarga heiminum“. Það að færa yfirstjórn á auðlindum Íslands undir ACER, eða hvaða aðra erlenda stofnun, má skoða sem „Brot á rétti fólks og þjóða til fullveldis yfir náttúrulegum auði sínum og auðlindum…“ og er þannig í andstöðu við anda og meginreglur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Garðurinn heima fyrir er allur í órækt, þar vaða uppi „arfi og njólar“ [undanfarið á sviði raforkumála], á sama tíma og íslenskir ráðamenn brosa í erlendar myndavélar. Þannig er veruleikaskyn þessa fólks og forgangsröðun; engin sjálfstæð hugsun, engin hugmyndafræði, engin stefna, einungis eftiröpun og sýndarmennska. Nýjasti „njólinn“ á markaðnum er dótturfyrirtæki Landsnets sem ætlað er að koma á gervisamkeppni á heildsölumarkaði með rafmagn. Þá glittir í fjárglæframenn að baki hugmyndum um vindorkugarða. „Arfinn og njólarnir“ eru víða í auðlindum og görðum almennings.
Fullveldi yfir náttúruauðlindum hefur oft komið til kasta Alþjóðadómstólsins í Haag. Vert er að lesa vel dóm hans frá 1995, í málinu Portúgal gegn Ástralíu[viii] [East Timor case]. Enda þótt dómstóllinn teldi sig ekki hafa lögsögu [para 35] til þess að taka afstöðu til lagalegra atriða sem snerta varanlegt fullveldi yfir náttúruauðlindum, er dómur hans engu að síður gagnlegt innlegg í umræðuna. Af dóminum má álykta að varanlegt fullveldi yfir náttúruauðlindum geti fallið undir erga omnes reglur[ix] [skyldur] í alþjóðarétti. En svo nefnast sumar mikilvægustu skyldur sem ríki hafa gagnvart öðrum ríkjum.
Þetta tengist auðvitað umræðum um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sem mikilvægri reglu innan alþjóðaréttar. Það er hins vegar umdeilt hvort sá réttur hefur stöðu meðal jus cogens reglna í alþjóðarétti. En það eru reglur þar sem enginn frávik eru leyfð og teljast grundvallarreglur til viðhalds „alþjóðlegri allsherjarreglu“.[x]
Lokaorð
Það er liðin tíð að Íslendingar eigi baráttumenn eins og Jón Sigurðsson sem lagði drög að sjálfstæði Íslands frá Dönum, á nítjándu öld. Ísland varð fullvalda árið 1918 og síðan lýðveldi árið 1944.[xi] Þar með hafði Ísland orðið stöðu fullvalda ríkis meðal annarra fullvalda ríkja.
Undanfarin ár, og jafnvel áratugi, hafa íslenskir stjórnmálamenn gengið í þveröfuga átt og unnið markvisst að því að afmá íslenskt fullveldi og fullveldisrétt. Það gerist í ákveðnum skrefum. Barnalegasta fólkið, t.d. í pírötum, segir það „afturkræft“ sem er ótrúlega grunnhyggnisleg ályktun. Þar virðist gleymast algerlega að margs konar skaði sem orðið hefur er alls ekki afturkræfur heldur varanlegur.
Dæmi um það er braskvæðing raforkunnar sem beinlínis leiðir af orkupökkum ESB. Ef svo illa fer, eins og allt stefnir í, að þjóðin missi endanlega allt forræði og eignarhald á sínum dýrustu gulleggjum, stoðar lítt að segja það „afturkræft“. Skaðinn er þá þegar skeður. En bjálfahátturinn á sér engin takmörk. Ekki þarf að rýna lengi í sumar þingræður til þess að sannfærast um það. Góðar stundir!
ref.
[i] Schrijver, N. 2013. Self-determination of peoples and sovereignty over natural wealth and resources. In: United Nations ed. Realizing the Right to Development. [Online]. United Nations, p. 95. [Accessed 24 September 2022]. Available from: https://www.un-ilibrary.org/content/books/9789210559720
[ii] Are UN resolutions binding? Dag Hammerskjöld Library, [Accessed 24 September 2022]. Available from: https://ask.un.org/faq/15010
[iii] Sjá einnig: Castles, A. C. “Legal Status of UN Resolutions” [1967] AdelLawRw 5; (1967) 3(1) Adelaide Law Review 68. http://classic.austlii.edu.au/au/journals/AdelLawRw/1967/5.pdf
[iv] General Assembly resolution 1803 (XVII) of 14 December 1962, “Permanent sovereignty over natural resources”. https://www.ohchr.org/sites/default/files/resources.pdf
[v] Ibid.
[vi] Sjá: Article 2(1) Charter of the United Nations. https://legal.un.org/repertory/art2.shtml
[vii] Ibid.
[viii] East Timor Case (Portugal v Australia), Merits, Judgment, [1995] ICJ Rep 4.
[ix] Sjá einnig: Law Insider. Erga omnes definition. https://www.lawinsider.com/dictionary/erga-omnes
[x] Sjá t.d.: The Free Dictionary. Jus Cogens. https://legal-dictionary.thefreedictionary.com/Jus+Cogens
[xi] Sjá enn fremur: Sameinað þing: 22. fundur, 63. löggjafarþing. 24.02.1944. 2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918. Framsögumaður Bjarni Benediktsson. https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=63&rnr=4065
(Birtist fyrst á heimasíðu Ögmundar Jónassonar f.v ráðherra 27. september 2022)