Tengsl Sviss og ESB hafa trosnað
Úr leiðara Mbl 31. maí 2021
Sviss hefur óvenjulega stöðu í heiminum og hefur með ýmsu móti tekist að halda sér hlutlausu og friðsælu – og allvel vopnuðu – á meðan nágrannaþjóðirnar hafa borist á banaspjót. Sviss hefur þess vegna verið talið ákjósanlegur vettvangur margvíslegrar alþjóðlegrar samvinnu og samskipta. Nýleg tilkynning um fund Bidens og Pútíns í Sviss ber þessu vitni. Þessi staða Sviss og saga landsins á eflaust sinn þátt í að skýra óvenjulega stöðu þess gagnvart Evrópusambandinu. Staðan er ekki síst óvenjuleg þegar haft er í huga að Sviss er umlukið ríkjum Evrópusambandsins, fyrir utan að vísu stutt landamæri við EFTA-ríkið Liechtenstein, en það ágæta furstadæmi er mjög háð Sviss svo að þau landamæri eru ekki að öllu leyti greinileg. Líkt og Liechtenstein, Noregur og Íslands er Sviss í EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, en ólíkt hinum ríkjunum þremur hafnaði Sviss því á sínum tíma, árið 1992, að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Mjótt var á munum en það dugði til og varð einnig til þess að umsókn um aðild að ESB, sem ríkisstjórn Sviss hafði áður lagt inn, fór ofan í skúffu í Brussel. Þar lá hún lengi vel, eða allt þar til ákveðið var árið 2016 að draga hana til baka. Sú ákvörðun Sviss að draga umsóknina til baka eftir að hún hafði legið afskiptalaus í skúffu í nær aldarfjórðung sýnir vitaskuld að slík umsókn hefur þýðingu, líka sú sem liggur í skúffu. Af þessu mættu íslenskir stjórnmálamenn draga lærdóm. En það er fleira forvitnilegt í samskiptum Sviss og Evrópusambandsins.
Lesa áfram