Bjarni Jónsson skrifar
Persónukjör:

Talsverð spurn hefur verið eftir því hérlendis, að kjósendur fengju í hendurnar raunhæfa möguleika á því að velja, hverjir setjast á þing fyrir stjórnmálaflokkana. Þessi þörf kemur aðallega fram hjá kjósendum, sem búa við hlutfallskosningar, eins og t.d. Íslendingar og Þjóðverjar, en þýzku kosningareglurnar veita kjósendum þar möguleika á að kjósa bæði flokk og einstakling á þing. Hérlendis hafa sumir stjórnmálaflokkanna komið til móts við kjósendur að þessu leyti með því að halda prófkjör, í seinni tíð bundin við þátttöku eigin flokksmanna. Sjálfstæðisflokkurinn gengur fram með skýrustum hætti allra flokkanna á þessu vori vegna Alþingiskosninganna haustið 2021, því að hann býður flokksmönnum sínum að velja frambjóðendur í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi landsins. Þar með valdeflast flokksmenn, og þeir verða lýðræðislega virkari en þeir, sem ekki njóta þessara réttinda. Ætla má, að kjósendum falli þessi lýðræðislega aðferð betur í geð en óskýr aðferðarfræði „flokkseigenda“ fyrir luktum dyrum.
Lýðræðið:
Arnar Þór Jónsson, dómari, (AÞJ), hefur manna ötullegast gengið fram á undanförnum árum við að sýna okkur fram á útþynningu lýðræðisins á Íslandi vegna minnkandi áhrifa kjörinna fulltrúa almennings á mótun laganna. Þetta stafar sumpart af lagafrumvörpum, sem í auknum mæli berast þingmönnum misvönduð frá ráðuneytunum, en verstur er þó flaumur tilskipana og reglugerða, sem stafar frá embættismönnum Evrópusambandsins, ESB, og samþykktar hafa verið af EFTA-ríkjunum þremur (EFTA-Fríverzlunarsamtök Evrópu), sem sæti eiga með fulltrúum ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni (EES-Evrópska efnahagssvæði ESB og EFTA utan Svisslands).
Alþingi samþykkti EES-samninginn 1993, og hann gekk í gildi 1. janúar 1994. Þar með tók s.k. fjórfrelsi Innri markaðar ESB með öllu sínu viðamikla regluverki gildi á Íslandi, þ.e. frjálst flæði vöru (þó ekki með algeru tollfrelsi fiskafurða), þjónustu, fólks og fjármagns. Viðsemjandi EFTA-landanna, sem þá voru fleiri en nú, var í raun Efnahagsbandalag Evrópu (European Economic Community), en arftakinn, Evrópusambandið (European Union) hefur fengið sitt stjórnarskrárígildi (Lissabon-sáttmálann), aukin völd frá aðildarlöndunum og margar nýjar stofnanir undir stjórn Framkvæmdastjórnarinnar. Um er að ræða ríkjasamband, sem virðist stefna á að verða Sambandsríki.
Framkvæmdastjórn ESB ákveður, hvað af lagasetningum og reglum ESB, sem hún metur, að varði samræmingu ríkjanna, svo að Innri markaðurinn virki hnökralaust, hún leggur fyrir EFTA. EFTA-ríkin móta síðan sameiginlega afstöðu, og ef þau telja sig ekki geta orðið við ósk ESB um innleiðingu, þá fer málið ekki fyrir Sameiginlegu EES-nefndina til afgreiðslu. Fáein dæmi eru um það vegna andstöðu norskra stjórnvalda og Stórþingsins.





