Fyrst Brexit…svo Swexit?

Tengsl Sviss og ESB hafa trosnað

Úr leiðara Mbl 31. maí 2021

Sviss hefur óvenjulega stöðu í heiminum og hefur með ýmsu móti tekist að halda sér hlutlausu og friðsælu – og allvel vopnuðu – á meðan nágrannaþjóðirnar hafa borist á banaspjót. Sviss hefur þess vegna verið talið ákjósanlegur vettvangur margvíslegrar alþjóðlegrar samvinnu og samskipta. Nýleg tilkynning um fund Bidens og Pútíns í Sviss ber þessu vitni. Þessi staða Sviss og saga landsins á eflaust sinn þátt í að skýra óvenjulega stöðu þess gagnvart Evrópusambandinu. Staðan er ekki síst óvenjuleg þegar haft er í huga að Sviss er umlukið ríkjum Evrópusambandsins, fyrir utan að vísu stutt landamæri við EFTA-ríkið Liechtenstein, en það ágæta furstadæmi er mjög háð Sviss svo að þau landamæri eru ekki að öllu leyti greinileg. Líkt og Liechtenstein, Noregur og Íslands er Sviss í EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, en ólíkt hinum ríkjunum þremur hafnaði Sviss því á sínum tíma, árið 1992, að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Mjótt var á munum en það dugði til og varð einnig til þess að umsókn um aðild að ESB, sem ríkisstjórn Sviss hafði áður lagt inn, fór ofan í skúffu í Brussel. Þar lá hún lengi vel, eða allt þar til ákveðið var árið 2016 að draga hana til baka. Sú ákvörðun Sviss að draga umsóknina til baka eftir að hún hafði legið afskiptalaus í skúffu í nær aldarfjórðung sýnir vitaskuld að slík umsókn hefur þýðingu, líka sú sem liggur í skúffu. Af þessu mættu íslenskir stjórnmálamenn draga lærdóm. En það er fleira forvitnilegt í samskiptum Sviss og Evrópusambandsins.

Lesa áfram

Frelsum aldraða frá fátækt!

Tryggjum öldruðum mannsæmandi lífskjör í samræmi við nútímann
og frelsi til að bæta hag sinn.

Ingibjörg H. Sverrisdóttir skrifar í Mbl

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Ég býð mig fram til 4. sætis á framboðslista í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer 4. og 5. júní. Þetta geri ég af knýjandi nauðsyn. Mér finnst eins og svo mörgum öðrum að núverandi ríkisstjórn og Alþingi hafi hvorki skilning á aðstæðum eldra fólks né vilja til að bæta þær. Stór hópur eldra fólks í þessu landi er látinn búa við kröpp kjör. Það er sama hvaða gögnum er framvísað og rökum beitt til að benda á óréttlætið, öllum óskum um leiðréttingu hefur verið hafnað. Núverandi kjörtímabili er að ljúka og þrátt fyrir fjölmarga bænarfundi og fundarsetur undanfarin fjögur ár er tímabilinu að ljúka án þess að fráfarandi ríkisstjórn sýni nokkurn vilja til að rétta hlut þess hóps aldraðra sem verst er settur.

Aldraðir í efnahagslegri spennitreyju

Eldra fólk er fjölmennur hópur í samfélaginu. Í upphafi árs 2021 voru tæplega 47 þúsund manns 67 ára og eldri og um 75 þúsund voru 60 ára og eldri. Það búa ekki allir við sömu kjör. Sumir, sérstaklega þeir sem áður voru tekjuháir, hafa það alveg ágætt og þurfa ekki að kvarta. Þorri aldraðra býr hins vegar við kröpp kjör og miklar skerðingar og er verulega ósáttur við sitt hlutskipti. Þetta fólk hefur hörðum höndum skapað þau lífskjör í landinu sem við nú búum við.

Lesa áfram

Kosningabaráttan nálgast

Tveir stjórn­ar­menn í full­veld­is­fé­lag­inu eru í fram­boði í próf­kjöri flokks­ins í Reykja­vík, þau Ingi­björg Sverr­is­dótt­ir og Birg­ir Örn Stein­gríms­son, og Arn­ar Þór Jóns­son héraðsdóm­ari, sem vakið hef­ur mikla at­hygli fyr­ir grein­ar sín­ar hér í blaðinu, í Suðvest­ur­kjör­dæmi. Aðild þeirra þriggja að þing­flokkn­um mundi gjör­breyta stöðunni þar.

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Meðal kjós­enda er und­ir­liggj­andi gremja vegna óaf­greiddra mála.

Nú fer að stytt­ast í að kosn­inga­bar­átt­an hefj­ist af full­um krafti. Í dag hefjast fyrstu próf­kjör Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi og Norðaust­ur­kjör­dæmi og í fram­hald­inu í öðrum kjör­dæm­um. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er bú­inn að kynna fram­boðslista sína í Reykja­vík­ur­kjör­dæmun­um og aðrir flokk­ar eru komn­ir vel á veg.

Það verður ekki annað sagt en að nú­ver­andi stjórn­ar­sam­starf hafi reynzt vel og mörg­um finnst æski­leg­ast að það haldi áfram. Eins og við mátti bú­ast hef­ur þátt­taka VG verið um­deild á vinstri kant­in­um en Katrín Jak­obs­dótt­ir orðið afar vin­sæl sem for­sæt­is­ráðherra, sem skap­ar flokki henn­ar góða víg­stöðu í kosn­ing­un­um.

Inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins er vilji til að þessu sam­starfi verði haldið áfram. Það hjálp­ar hins veg­ar ekki til andstaða inn­an þing­flokks­ins við há­lend­isþjóðgarð og nei­kvæður tónn í garð Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra af því að hún hef­ur aðra af­stöðu til heil­brigðismála en þing­menn­irn­ir í þeim þing­flokki.

Allt á þetta eft­ir að skýr­ast í kosn­inga­bar­átt­unni en óráðlegt fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að ganga út frá því sem vísu að Fram­sókn og VG vilji halda sam­starf­inu áfram.

Lesa áfram

Evrópukratismi

Jónas Elíasson skrifar:

Jónas Elíasson

ESB er afsprengi evrópukratismans. Hann er undarlegt fyrirbrigði, ættaður frá Robert Schuman, sem var mjög þekktur ráðherra í nokkrum þekktum ríkisstjórnum Frakklands 1940 – 1953. Hann fékk þá hugljómun um 1940 að Evrópa skyldi halda frið með því að sameinast um að setja þungaiðnaðinn undir yfirþjóðlega stjórn innan sameiginlegra ytri tollamúra. Eftir heimstyrjöldina voru menn opnari fyrir þessum boðskap og Schuman kom því til leiðar að og Kola- og stálbandalagið var stofnar 1951. Það varð svo að EBE, síðan EB og síðast ESB.

Schuman var reyndar ekki krati í okkar skilningi, hans flokkur var Kristilegir Demókratar. En bæði þeir og sósíaldemókratar tóku boðskapnum fagnandi svo í dag er Evrópubandalagið trúaratriði hjá sósíaldemókrötum allrar Evrópu. Þangað vilja þeir fara og þar vilja þeir bera beinin. Þetta er evrópukratismi.

Lesa áfram

Ferskur vorblær í stjórnmálunum

Bjarni Jónsson skrifar :

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori.  Þetta er mikið fagnaðarefni þeim, sem sakna umræðna og afstöðu til grundvallar stjórnmálanna, einstaklingsfrelsis, hlutverks ríkisins og síðast, en ekki sízt, stöðu Íslands á meðal þjóðanna. 

Bjarni Jónsson

Áhugi á meðal almennings í þessa veru er ekki einsdæmi á Íslandi.  Hann er t.d. ríkur í Noregi, þar sem mikil umræða á sér stað um afstöðu Noregs til Evrópusambandsins (ESB), en eins og gildir um Ísland og Liechtenstein, fara samskipti Noregs við ESB í höfuðdráttum fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í Noregi og á Íslandi eru efasemdir á meðal leikra og lærðra, þ.e. löglærðra og hinna, um það, hvort innleiðing sumra gerða (tilskipana og reglugerða), þar sem framsal ríkisvalds til stofnana ESB á sér stað, brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna eða ekki.  Er deila um réttmæti afgreiðslu 3. orkupakka ESB (OP3) í Stórþinginu nú til úrlausnar í dómskerfi Noregs. 

Lesa áfram

Ingibjörg Sverrisdóttir í framboð í Reykjavík

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Fulveldissinnar og andstæðingar inngöngu Íslands í ESB geta nú glaðst því Ingibjörg Sverrisdóttir hefur gefið kost á sér í 4-5 sæti á framboðslista Sjálfstæðismanna í Reykjavík

Ingi­björg H. Sverr­is­dótt­ir, formaður Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og ná­grenni (FEB), gef­ur kost á sér í 4.-5. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík, fyr­ir kom­andi próf­kjör.

Próf­kjörið fer fram dag­ana 4. og 5. júní næst­kom­andi.

„For­menn stærstu fé­laga eldri borg­ara, inn­an vé­banda Lands­sam­bands­ins, sendu frá sér áskor­un til allra flokka sem sæti eiga á Alþingi í fe­brú­ar­mánuði síðastliðinn. Þar skoruðum við á flokk­ana að tryggja eldra fólki sæti á fram­boðslist­um þeirra enda verða á þessu ári um 75.000 manns á Íslandi, 60 ára og eldri, þar af verða um 45.000 67 ára og eldri. Þessi hóp­ur þarf rödd í sam­fé­lag­inu. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér enda brenn ég fyr­ir hags­mun­um eldri borg­ara,“ seg­ir Ingi­björg og bæt­ir við: „Mál­efni og kjör eldra fólks eiga hug minn all­an og ég mun ekki láta mitt eft­ir liggja í bar­átt­unni fram und­an fyr­ir bætt­um lífs­gæðum eldra fólks,” seg­ir Ingi­björg H. Sverr­is­dótt­ir í til­kynn­ingu.

Frétt í Mbl.is 15. maí 2021

Hið ó­hjá­kvæmi­lega sam­hengi laga og sam­fé­lags

Arnar Þór Jónsson skrifar á VISIR.IS:

Arnar Þór Jónsson

Á síðustu árum hef ég ritað tugi greina í blöð og tímarit um undirstöður laga og réttar, um lýðræði, valdtemprun og nauðsyn þess að valdhafar svari til ábyrgðar, um samhengi réttinda og skyldna, mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar o.m.fl. Framlag mitt má vissulega kallast þátttaka í „samfélagsumræðu“ en hún er þó fyrst og fremst innlegg í lagalega umræðu, því þetta tvennt verður í raun ekki aðgreint. Í skrifum mínum hef ég lagt áherslu á þessa staðreynd, þ.e. að lög og samfélag eru tvær hliðar á sama veruleika. Umræða um lög er því óhjákvæmilega jafnframt umfjöllun um samfélagsmál. Hér sem annars staðar þurfa menn að gæta þess að láta ekki hagsmuni og afflutning leiða sig á villigötur.

Greinar mínar hafa verið ritaðar til áminningar um tiltekna útgangspunkta og meginviðmið sem nauðsynlegt er að almenningur og valdhafar séu vakandi yfir:

  • Okkur ber ávallt að standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins og virða ákvæði hennar eins og þau standa.
  • Stjórnskipun Íslands ber að verja og forðast umbyltingar án vandaðrar umræðu.
  • Standa ber vörð um sjálfstæði Íslands, m.a. með því að virða ákvæði laga og fjölþjóðlegra samninga um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga.
  • Verja ber fullveldi Íslands, þ.e. það meginviðmið að Íslendingar eigi sjálfir síðasta orðið um innihald laga og þar með þann grunn sem dómstólar og framkvæmdavald starfa á.
  • Bæta verður hagsmunagæslu okkar á erlendum vettvangi, ekki síst í sameiginlegu EES nefndinni. Ef við sem þjóð sinnum ekki þessari hagsmunagæslu, þá gerir það enginn.
  • Lög sem gilda eiga á Íslandi skulu eiga sér lýðræðislega rót og vera sett að undangenginni umræðu hér á landi.
  • Innleiðing erlendra reglna má ekki vera hömlulaus.
  • Íslensk lög skulu taka mið af íslenskum aðstæðum.
  • Hagnýting náttúruauðlinda Íslands er ein af grunnstoðum hagsældarinnar og má ekki ganga okkur úr greipum.
  • Framsal ríkisvalds úr landi skal sæta þröngum skilyrðum, ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Í framkvæmd hefur EES samningurinn leitt til meira framsal ríkisvalds til erlendra stofnana en gert var ráð fyrir þegar Ísland gerðist aðili að samningnum 1992.
  • Sem löggjafarþing Íslendinga verður Alþingi að geta breytt eða endurskoðað þau lög sem ætlað er að gilda hérlendis.
  • Ákvarðanir um réttindi og skyldur Íslendinga skulu teknar sem næst vettvangi, ekki í erlendum borgum.
  • Gera ber athugasemdir við að erlendar stofnanir seilist ótilhlýðilega til valda og áhrifa hérlendis án skýrra lagaheimilda.
  • Lög eiga að vera fyrirsjáanleg, skiljanleg og skýr. Lagareglur eiga ekki að vera svo margar og svo flóknar að almennir borgarar sjái ekki út úr augum.
  • Kalla ber fólk til ábyrgðar. Ábyrgð er undirstaða frelsis.
  • Virkja ber þann kraft og þá hæfileika sem búa í hverjum manni, jafnt ungum sem öldnum
  • Ekki má rjúfa tengsl milli almennings og valdhafa.
  • Allt vald ber að tempra, embættisvaldið ekki síst.
  • Borgararnir hafa rétt og skyldu til tjáningar, til að setja fram málefnalega gagnrýni.
  • Í lýðfrjálsu ríki verður almennum borgurum ekki skipað að hlýða umyrðalaust, án andófs, án hugsunar.
Lestu áfram

Endurmat sögunnar tímabært

Vel heppnuð sögufölsun

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Hinum svonefndu menningarþjóðum Evrópu tókst ótrúlega vel að búa til fallega sögu um framferði þeirra víða um heim fyrr á tíð þegar þær voru að koma sér upp því sem kallað var nýlendur. Samkvæmt þeirra frásögn voru þær að brjóta siðmenningunni leið inn í fátæk lönd, sem höfðu ekki komizt í tæri við hana fyrr. Og með þeim rökum var því haldið fram að nýlendutíminn væri glæstasti þáttur í sögu þeirra. Þessi sögutúlkun er enn við lýði þótt reglulega skjóti upp kollinum fréttir sem benda til þess að sú söguskoðun sé á undanhaldi. Raunveruleikinn er sá að hinar evrópsku menningarþjóðir fóru ránshendi um heiminn í krafti vopnavalds og urðu ríkar á því að hagnýta sér auðlindir annarra þjóða. Fiskveiðar Breta undir herskipavernd við Ísland eru glöggt dæmi um það. Fyrrverandi nýlendum Evrópuríkjanna er þetta vel ljóst. Sennilega er framferði Belga í Kongó ljótasta dæmið um þetta. Belgískum hermönnum var gert að koma með líkamshluta af drepnum fórnarlömbum til að sanna að þeir hefðu sinnt skyldum sínum. Belgar eru að byrja að átta sig. Þeir eru farnir að breyta nöfnum á byggingum, götum og torgum sem höfðu verið nefnd eftir hetjum fyrri tíðar.

Lestu meira