Barátta um jöfn tækifæri safnar ryki í skúffum vinstrimanna. Nú skal koma böndum á framtaksmanninn sem hefur verið drifkraftur bættra lífskjara.
Óli Björn Kárason skrifar í Mbl

Baráttan um hylli kjósenda er margbreytileg en ekki síbreytileg – aðeins aðferðirnar breytast í takt við tæknina. Hvernig og með hvaða hætti stjórnmálamenn og -flokkar nálgast kjósendur gefur oft betri skilning á þeirri hugmyndafræði sem byggt er á (sé hún á annað borð til staðar), en klassískar skilgreiningar um vinstri og hægri, sósíalisma og frjálshyggju, róttækni og íhaldssemi, þjóðernishyggju og alþjóðahyggju, lýðræði og alræði, markaðshyggju og áætlunarbúskap. Allir sem sækjast eftir stuðningi kjósenda gefa ákveðin loforð. Á meðan einn heitir því að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til heilbrigðismála, er annar sem leggur áherslu á skipulag heilbrigðiskerfisins og nauðsyn þess að samhengi sé á milli útgjalda og þjónustu. Svo er það frambjóðandinn sem telur nauðsynlegt að einfalda regluverk og gera framtaksmönnum auðveldara að láta hendur standa fram úr ermum. Á móti honum stendur sá sem segir það almannahagsmuni að byggja upp sterkt eftirlits- og leyfiskerfi, enda sé atvinnurekendum ekki treystandi. Í hugum margra er þetta allt í samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á vinstri og hægri.
Árangur tortryggður
Átakalínur stjórnmálanna eru ekki alltaf svona hreinar, enda hentar það ekki öllum. Tækifærissinninn hefur ekki sérstakan áhuga á því að skilgreina hlutverk ríkisins eða marka stefnu í skattamálum eða atvinnumálum. Hann stingur aðeins puttanum uppi í sig, tekur hann út og setur út í loftið til að átta sig á því hvaðan vindar blása. Bróðir hans, lukkuriddarinn, skynjar tækifærin og nýtir sér þau. Og þá eru þau vopn notuð sem hentar hverju sinni. Lukkuriddarinn gerir sér góðar vonir um að geta gert út á ríkissjóð, enda búið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana að stórum hluta. (Ríkisvæðing stjórnmálaflokka myndar efnahagslegan hvata fyrir pólitíska ævintýramenn). Tækifærissinninn og lukkuriddarinn leggja meira upp úr orðskrúði og umbúðum en innihaldi.
Lesa áfram





