Áhugaleysi á Alþingi
Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Frá 1951 til loka kalda stríðsins voru utanríkis- og varnarmál kjarninn í öllum pólitískum umræðum hér á landi. Nú eru þau varla nefnd. Þótt kalda stríðinu sé lokið er það veruleiki að norðurslóðir hafa öðlast nýja þýðingu eins og sjá má af því að tvö stórveldi, Kína og Rússland, sækjast stíft eftir auknum áhrifum í þessum heimshluta. Augljóst er að sú ásókn hefur áhrif á stöðu Íslands. Samt er lítið um umræður um utanríkismál á Alþingi. Það verður að breytast og við hæfi að sú breyting hefjist í aðdraganda þingkosninga. Staðan í alþjóðamálum er sú, að nýtt kalt stríð er að brjótast út á milli Bandaríkjanna og Kína. Fyrr í þessari viku voru bandarískir embættismenn í Kína. Þar var þeim sagt að uppgangur Kína yrði ekki stöðvaður og það er áreiðanlega mikið til í því, bæði vegna þess að Kínverjar eru langfjölmennasta þjóð í heimi og það er fyrirsjáanlegt að fyrir lok þessa áratugar verði þeir orðnir mesta efnahagsveldi heims. Auk þess sögðu Kínverjar að Bandaríkjamenn væru að gera úr þeim, Kínverjum, ímyndaðan óvin.







