“Íslensku dómstólarnir, sem áður vísuðu ýmsum mikilvægustu málum sínum til EFTA-dómstólsins og framfylgdu úrskurðum hans af samviskusemi, hafa nánast hætt að vísa málum til Lúxemborgar, að því er virðist af því að þeir gera sér grein fyrir því sem nú er
upp á teningnum.“
Carl Baudenbacher skrifar í Mbl
Hinn 30. júní 2021 gaf EFTA-dómstóllinn út tvö ráðgefandi álit í málum sem tengdust hinu svonefnda norska velferðarhneyksli („NAV“ hneykslið). Álitin vörðuðu mann sem dæmdur hafði verið í héraðsdómi í Ósló til fimm mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa dvalist í Danmörku og á Spáni meðan hann þáði atvinnuleysisbætur, og svo mann sem hafði þurft að endurgreiða fé eftir að hafa dvalið utanlands. Síðara málinu var vísað til EFTA-dómstólsins af norska almannatryggingadómstólnum. Í fyrri velferðarmálum, sem snerust um flutning sjúkrabóta og endurhæfingarlífeyris úr landi, hafði EFTA-dómstóllinn talið í maí 2021 að grundvallarreglur EES-samningsins um frjálsa för fólks giltu um þessi atriði. Í álitunum tveimur frá 30. júní 2021 taldi EFTA-dómstóllinn hins vegar að svo væri ekki í tilviki atvinnuleysisbóta. Í þeim málum giltu einungis lög um almannatryggingar, þ.e. afleidd EES-löggjöf. Var norska ríkið sýknað af ólögmætu athæfi í þessum málum.
Þar sem málatilbúnaður Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kom ekki til umfjöllunar hjá EFTA-dómstólnum er engu gegnsæi fyrir að fara. Ríkislögmaður Noregs lýsti ánægju sinni með niðurstöðuna. Virtur prófessor í þjóðarétti, Mads Andenas, gagnrýndi hins vegar úrskurðina og taldi að þeir fengju ekki staðist. Þessir tveir úrskurðir marka nýjasta lágpunktinn í þróun sem hófst snemma árs 2018, þegar Páll Hreinsson varð forseti EFTA-dómstólsins. Frá þeim tíma hefur EFTA-dómstóllinn tekið óhóflega vinsamlega afstöðu gagnvart norska ríkinu á kostnað borgara og fyrirtækja.