Vörumst afvegaleiðslu og öfugmæli

Arnar Þór Jónsson

“Því er fráleitt að ætla að okkur yrði betur borgið í samfloti með evrulöndum, sem málsvarar Viðreisnar leggja nú kapp á að við tengjumst, þrátt fyrir þá skerðingu sjálfstæðis okkar sem það fæli í sér.”

Leiðarmerki til heimahafnar:

Það hefur verið dýrmæt reynsla að stíga inn á hinn pólitíska vettvang. Þessi reynsla hefur verið holl og góð að því leyti að ég hef kynnst fleira fólki og sjónarmiðum. Frammi fyrir þeim krafti, áræði, hjálpsemi og óeigingirni sem hefur mætt mér á þessari vegferð fyllist ég bjartsýni um framtíð Íslands og fólksins sem hér býr. Um leið verður þó að viðurkennast að ekki er allt til fyrirmyndar. Mér hefur t.d. þótt sérlega leitt hversu ómálefnalegur málflutningur forkólfa Viðreisnar hefur verið. Í Morgunblaðsgrein 28. ágúst sl. varaði ég lesendur við stjórnmálaflokkum sem tala tungum tveim. Upptalningin í þeirri grein hefði mátt vera lengri, sbr. endurtekin greinaskrif fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðið, sem kristalla öfugmælin í stefnu og hugmyndafræði Viðreisnar. Málflutning hans er ástæða til að gera að sérstöku umfjöllunarefni því öfugt við minni spámenn, sem augljóslega vita ekki hvað þeir gera, þá á þessi talsmaður, sem áður var í betri vist, að vita betur og því gæta betur að staðhæfingum sínum.

Með vísun til áðurnefndrar greinar minnar bæti ég af þessu tilefni við, að full ástæða er til að varast stjórnmálaflokka sem:

. tala fjálglega um virkt lýðræði en hafna prófkjöri við val á frambjóðendum sínum
. kenna pólitískan rétttrúnað og kreddur við „frjálslyndi“
. gera heilbrigðan efa og varfærni tortryggileg út frá einhvers konar EES-hreintrúarstefnu . vilja gleyma því að EES-samningnum var ætlað að vera sáttmáli jafnræðis og gagnkvæmni, eins og hvert gott hjónaband á að vera
. stilla klassísku frjálslyndi upp sem öfgahyggju og hallmæla tali um mikilvægi þess að þjóð okkar gæti fullveldis síns og réttarins til að ákveða hlutskipti sitt sem mest sjálf
. láta í það skína að ófrávíkjanleg og gagnrýnislaus hollusta við EES-samninginn jafngildi nýrri tegund frjálslyndis
. telja „hagstjórn“ Íslendinga best borgið með því að fela Seðlabanka ESB öll völd í þeim efnum
. kalla eftir því að íslensk þjóð afsali allri sjálfsábyrgð í hendur ólýðræðislegu, fjölþjóðlegu, miðstýrðu valdi á erlendri grund . halda af þrjósku áfram að ræða um ESB út frá ímynduðum glansmyndum (Pótemkíntjöldum) fremur en staðreyndum sem öllum mega vera sýnilegar
. gera engar athugasemdir við þróun ESB í átt til yfirþjóðlegs sambandsríkis þótt sú þróun byggist ekki á neinum lýðræðislegum grunni

Lesa áfram

Kjósum rétt – gátlisti til ígrundunar

Skýrir valkostir auðvelda hugsandi fólki
að kjósa.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson hrl.

Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnmálanna er að koma á og viðhalda jafnvægi milli ólíkra sjónarmiða, vera vettvangur þar sem menn leysa friðsamlega úr ágreiningsmálum, finna sameiginlegar lausnir, marka farsælustu stefnu o.s.frv. Stjórnmálamenn eru ekki kosnir til að fyrirskipa í smáatriðum hvernig við eigum að tala eða lifa. Rökræður verður að leyfa og landsstjórnin má hvorki verða alræðisöflum að bráð né leysast upp í stjórnleysi.

Þegar þetta er ritað er ég kominn í launalaust leyfi frá dómstörfum til að vinna að því markmiði að komast inn á þing. Ég hef haldið út í þessa vegferð til að starfa markvisst með þeim sem vilja búa þjóðinni farsæla framtíð, verja frjálslyndi gegn stjórnlyndi og lýðræðið gegn alræðisógn. Lífið hefur knúið mig til að viðurkenna að ég hef hef ekki öll svör og að rétt sé að hlusta á aðra með opnum huga. Sú reynsla hefur gert mig að talsmanni klassísks frjálslyndis. Lífið hefur einnig gert mig að hófsömum íhaldsmanni sem virðir reynslu fyrri kynslóða.

Lesa áfram

Leitum sátta um orkumálin

Ragnar Önundarson skrifar um orkumálin í Mbl

Orkubúskapur og stóriðja eru samt stöðugasti þáttur þjóðarbúsins og eiga mikinn þátt í því að álitlegt er að búa og starfa hér á landi.

Ragnar Önundarson

Kosningar eru fram undan, stjórnmálamenn sækjast eftir umboði til að gæta hagsmuna okkar næstu fjögur árin. Regluverk EES er umgjörð evrópsks markaðsbúskapar, sem virðist enn vera sá meðalvegur sem flestir vilja feta. Norðmenn, 17 sinnum fleiri en við, eru leiðandi í því samstarfi, sem við fáum að vera með í sem eins konar „aftanívagn“. Þeir vilja ekki að förinni sé stýrt þaðan.

Hlutfallslegir yfirburðir

Frelsi í viðskiptum og framfarir í flutningatækni hafa gert löndum kleift bæta lífskjör með því að sérhæfa sig kringum svonefnda „hlutfallslega yfirburði“. Hlutfallslegir yfirburðir okkar hafa lengi verið í fiskveiðum, hreinni og ódýrri orku, lítt snortinni náttúru og loks háu menntunarstigi. Sagt er að hér séu 42% af ósnortnum víðernum Evrópu. Við sjáum nú útlendinga kaupa upp dýrmætar náttúruperlur fyrir sig og vini sína og úrræðaleysi ráðamanna við því. Allir voru og eru sammála um að fiskiauðlindin verði að vera háð innlendu eignarhaldi. Sama hlýtur að gilda um orkuna og náttúruna. Þetta eru allt ómetanleg verðmæti sem við viljum halda í fyrir íbúana, þó hagfræðin og EES-reglurnar segi okkur að hagvöxturinn verði mestur með afskiptaleysi. Innan við fimmti hluti orkunnar er nýttur á almennum markaði heimila og fyrirtækja. Við viljum að það gríðarlega afl sem hér hefur verið virkjað verði áfram nýtt hér á landi til atvinnusköpunar og flutt út sem framleiðsluþáttur í útflutningsvörum. Ef orkan verður flutt út „óunnin“ munu störf og ungt fólk fara með. Fjórfrelsið svonefnda er ekki orðin tóm. Reynslan sýnir að markaðsbúskapur og frelsi hámarka velmegun þjóða, þó henni sé ójafnt skipt. Evrópulönd huga að velferð og Norðurlöndin eru í fremstu röð í þeim efnum. Með þessu virðast þau fórna hámörkun hagvaxtarins, en reynast þó alltaf í fremstu röð hvað þjóðartekjur varðar. Hagfræðin virðist vanmeta velferðina.

Lesa áfram

Frá frelsi til helsis?

Almennum borgurum leyfist auðvitað ekki hvað sem er, en
stjórnskipun okkar er ætlað að sjá til þess að valdhöfum leyfist það
ekki heldur.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Hver og einn maður þarf daglega að svara því hvernig lífi hann vill lifa. Á vettvangi stjórnmálanna leitum við sameiginlega að svari við því hvernig samfélag við viljum búa til og verja. Flest það sem dýrmætast er, þ.m.t. mannleg reisn, grundvallast á því að við getum verið frjáls. Í því felst að við getum tekið ábyrgð á okkar eigin frelsi. Það gerum við með því að vinna með öðrum og leita jafnvægis, t.d. með því að nálgast viðfangsefnin með opnum huga, hlusta á aðra, efast um eigin niðurstöður, standa gegn þrúgandi kennivaldi, blindri kreddu og hvers kyns ofríki. Við hljótum að vilja búa í samfélagi sem lýtur ekki ströngum reglum tilbúinnar hugmyndafræði, heldur leyfir fólki að efast og rökræða, krefur ekki alla um undanbragðalausa hlýðni og stjórnast ekki af heraga, heldur treystir borgurunum til að stýra eigin lífi út frá eigin innsæi, reynslu og skynsemi. Góðir stjórnendur virða lexíur mannkynssögunnar og siðferðilegar undirstöður vestrænnar stjórnskipunar- og lagahefðar, þar sem einstaklingurinn fremur en hópur eða heild er grunneining samfélagsins og þar sem lögin leitast við að viðurkenna og vernda dýrmæta sérstöðu hvers manns.

Torkennileg undiralda

Allt þetta rifjast upp daglega á þessum undarlegu tímum þegar stjórnvöld gerast sífellt ágengari gagnvart daglegu lífi borgaranna með vísan til kórónuveirunnar (C19). Gefnar eru út almennar fyrirskipanir, án tillits til einstaklingsbundins heilsufars eða persónulegs ástands hvers og eins. Almenn grímuskylda er eitt dæmi. Annað dæmi er sú ráðagerð að sprauta ungmenni og jafnvel börn, sem eru þó í lítilli hættu vegna C19, með lyfjum sem enn eru á tilraunastigi. Getur verið að læknisfræðin hafi í kófi síðustu missera villst af leið og læknar misst sjónar á því grunnviðmiði að meðferð eigi sér ekki aðeins vísindalega stoð heldur gagnist einstaklingnum sem hún beinist að?

Lesa meira

Íslandsmeistaramótið í sósíalisma?

Samfélag okkar er ekki fullkomið en sú mynd, sem talsmenn sósíalisma úr ýmsum flokkum hafa haldið á lofti, er víðs fjarri raunveruleikanum.

Birgir Ármannsson skrifar í Mbl

Birgir Ármannsson

Baráttan vegna komandi kosninga er rétt að hefjast og ekki fyllilega komið fram hvaða málefni það verða, sem mesta athygli munu fá af hálfu flokkanna. Sumt er þó farið að skýrast, meðal annars það að allnokkrir flokkar og frambjóðendur á vinstri vængnum virðast telja það vænlegt til árangurs að staðsetja sig sem lengst til vinstri og kenna sig jafnvel við ómengaðan sósíalisma.

Málflutningur frá miðri síðustu öld

Að hluta til birtist þessi vinstri sveifla í stefnumálum viðkomandi flokka, en þó enn frekar í upphrópunum og orðavali, sem oft á tíðum ber meiri keim af stjórnmálaumræðu frá miðri síðustu öld heldur en þeim áherslum sem ríkjandi hafa verið í stjórnmálaumræðu á Vesturlöndum síðustu 30 árin eða svo. Málflutningurinn snýst um stéttabaráttu, öreiga og auðkýfinga, ofurríka fámenna yfirstétt sem mergsýgur snauða alþýðuna, andúð á atvinnurekstri í einkaeigu og ofurtrú á ríkislausnum og opinberum rekstri. Birtingarmyndirnar eru mismunandi en undirtónninn sá sami; til að bjarga almenningi úr heljargreipum kapítalismans þarf að umbreyta samfélaginu í anda sósíalískrar hugmyndafræði. Virðist þá litlu skipta, að allar tilraunir til að byggja þjóðskipulag á þeim grunni hafa endað með skelfingu. Flokkurinn, sem fremstur fer í þessum málflutningi, kennir sig feimnislaust við sósíalisma en fleiri leita á sömu mið. Sérstaklega hefur hraðferð Samfylkingarinnar til vinstri vakið athygli en augljóst er að sá flokkur lítur á Sósíalistaflokkinn sem harðvítugan samkeppnisaðila. Vinstri græn vilja svo auðvitað minna á sig í þessu sambandi og mun það sjálfsagt færast í aukana eftir því sem nær dregur kosningum.

Lesa meira

Hugmyndafræði öfundar og átaka

Barátta um jöfn tækifæri safnar ryki í skúffum vinstrimanna. Nú skal koma böndum á framtaksmanninn sem hefur verið drifkraftur bættra lífskjara.

Óli Björn Kárason skrifar í Mbl

Óli Björn Kárason

Baráttan um hylli kjósenda er margbreytileg en ekki síbreytileg – aðeins aðferðirnar breytast í takt við tæknina. Hvernig og með hvaða hætti stjórnmálamenn og -flokkar nálgast kjósendur gefur oft betri skilning á þeirri hugmyndafræði sem byggt er á (sé hún á annað borð til staðar), en klassískar skilgreiningar um vinstri og hægri, sósíalisma og frjálshyggju, róttækni og íhaldssemi, þjóðernishyggju og alþjóðahyggju, lýðræði og alræði, markaðshyggju og áætlunarbúskap. Allir sem sækjast eftir stuðningi kjósenda gefa ákveðin loforð. Á meðan einn heitir því að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til heilbrigðismála, er annar sem leggur áherslu á skipulag heilbrigðiskerfisins og nauðsyn þess að samhengi sé á milli útgjalda og þjónustu. Svo er það frambjóðandinn sem telur nauðsynlegt að einfalda regluverk og gera framtaksmönnum auðveldara að láta hendur standa fram úr ermum. Á móti honum stendur sá sem segir það almannahagsmuni að byggja upp sterkt eftirlits- og leyfiskerfi, enda sé atvinnurekendum ekki treystandi. Í hugum margra er þetta allt í samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á vinstri og hægri.

Árangur tortryggður

Átakalínur stjórnmálanna eru ekki alltaf svona hreinar, enda hentar það ekki öllum. Tækifærissinninn hefur ekki sérstakan áhuga á því að skilgreina hlutverk ríkisins eða marka stefnu í skattamálum eða atvinnumálum. Hann stingur aðeins puttanum uppi í sig, tekur hann út og setur út í loftið til að átta sig á því hvaðan vindar blása. Bróðir hans, lukkuriddarinn, skynjar tækifærin og nýtir sér þau. Og þá eru þau vopn notuð sem hentar hverju sinni. Lukkuriddarinn gerir sér góðar vonir um að geta gert út á ríkissjóð, enda búið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana að stórum hluta. (Ríkisvæðing stjórnmálaflokka myndar efnahagslegan hvata fyrir pólitíska ævintýramenn). Tækifærissinninn og lukkuriddarinn leggja meira upp úr orðskrúði og umbúðum en innihaldi.

Lesa áfram

Hugsunarfrelsi, já takk

Þegar hjarðhegðun er beitt til að afmarka hvað telst skynsamlegt, þá er skipulegri hugsun, staðreyndum og rökræðu hent út um gluggann.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið

Arnar Þór Jónsson

Í einfeldni minni hélt ég að sú dómharka, fordæming, þröngsýni og krafa um samræmda hugsun, sem einkennir margt á samfélagsmiðlum, væri aðallega bundin við fólk sem alist hefði upp við þá flatneskju og yfirborðsmennsku sem þar er að finna. Þetta byggði ég á því að samfélagsmiðlar séu magnari fyrir háværustu raddirnar og vettvangur þar sem sannleikurinn er daglega afbakaður. Þessi hugmynd mín var að nokkru leyti leiðrétt 4. ágúst sl. þegar tveir menn á níræðisaldri réðust gegn persónu minni í Fréttablaðinu. Báðir kjósa þeir þar að rangtúlka, af baka og misskilja það sem þó á að vera auðskilið þeim sem hafa opinn huga og beita gagnrýninni hugsun. Umræða um íslenska hagsmuni, ESB o.fl. þarf að byggjast á raunsæi og staðreyndum, ekki draumsýn eða ímyndunum. Í því sem hér fer á eftir ætla ég ekki að elta ólar við ómálefnalega framsetningu þessara manna því greinar þeirra bera vott um að þeir séu inni í bergmálshelli og hafi því ekki aðeins einangrað sig frá samfélaginu í heild, heldur einnig frá raunveruleikanum sem slíkum. Við lifum á tímum þar sem stöðugt er þrengt að frjálsri hugsun.

Lesa áfram

Staðnaðir flokkar

Þurfa fleiri að hugsa sinn gang?

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Vel skipulagðir stjórnmálaflokkar eru lykilþáttur í lýðræðisríkjum. Með sama hætti er skipulagsleysi á flokkum líklegt til að valda vandræðum í lýðræðislegum stjórnarháttum. Það stefnir í það nú vegna öngþveitis í flokkakerfinu. Annars vegar vegna þess að til hafa orðið nýir flokkar sem standa ekki undir nafni og hins vegar vegna þess að gömlu flokkarnir hafa staðnað. Nýju flokkarnir eru nafnið tómt og á bak við þá eru fámennir hópar fólks. Gömlu flokkarnir eiga sér lengri sögu og sumir þeirra eru með þúsundir og jafnvel tugþúsundir flokksmanna. En þeirra vandamál er stöðnun. Þeim hefur ekki tekizt að laga sig að breyttu samfélagi og eru hræddir við nýjar hugmyndir eða aðrar skoðanir en þær sem eru ríkjandi hverju sinni. Þó má benda á að þær miklu umræður sem urðu um orkupakka þrjú kviknuðu á opnum fundi í Valhöll fyrir troðfullu húsi.

Lesa áfram

Þungbærasta tegund ofríkis er mögulega sú sem beitir fyrir sig umhyggju

Er það draumur þinn, lesandi góður, að láta aðra hafa vit fyrir þér frá vöggu til grafar?
Eða viltu fá að lifa sjálfstætt, á þínum forsendum, og læra með því að prófa þig áfram – og gera mistök?

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl:

Arnar Þór Jónsson

Fyrirsögnin hér að ofan er óbein þýðing á aðvörunarorðum C.S. Lewis um „velviljað alræði“. Önnur ummæli sem urðu mér hvatning til að setja þessar línur á blað féllu fyrir stuttu í fésbókarhópnum Heildarmyndinni. Þau voru sett fram af manni sem kvaðst vera hræddari við aðgerðir stjórnvalda gagnvart kórónuveirunni en veiruna sjálfa. Þessar tvær setningar hafa ásótt mig síðustu daga, því mér finnst sérstakt til þess að hugsa að veira sem 99,9% Íslendinga undir sjötugu lifa af – og veldur nú engum eða vægum einkennum hjá 97% smitaðra – skuli verið búin að umturna öllu daglegu lífi okkar, ekki aðeins hérlendis, heldur víðs vegar um heim. Í þessu ljósi má velta því fyrir sér hvort veiran sé í raun stærsta vandamálið eða hvort vandinn liggi mögulega annars staðar, t.d. í undirmönnun í heilbrigðiskerfinu eða að forvörnum sé ábótavant. Þótt grímur komi að litlu ef nokkru gagni við útbreiðslu kórónuveirunnar hafa þær verið gerðar að hluta daglegs lífs og að skilyrði fyrir aðgengi að verslunum, veitingastöðum o.fl. Gagnsemi þeirra er hugsanlega mest fyrir þá sem vilja deila og drottna, því grímurnar eru stöðug áminning um það að við séum heilsufarsógn hvert við annað. Tækniveldi í stað lýðveldis? Þetta ástand grefur undan trausti í samfélagi okkar.

Lesa áfram

Utanríkismál of lítið rædd

Áhugaleysi á Alþingi

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Frá 1951 til loka kalda stríðsins voru utanríkis- og varnarmál kjarninn í öllum pólitískum umræðum hér á landi. Nú eru þau varla nefnd. Þótt kalda stríðinu sé lokið er það veruleiki að norðurslóðir hafa öðlast nýja þýðingu eins og sjá má af því að tvö stórveldi, Kína og Rússland, sækjast stíft eftir auknum áhrifum í þessum heimshluta. Augljóst er að sú ásókn hefur áhrif á stöðu Íslands. Samt er lítið um umræður um utanríkismál á Alþingi. Það verður að breytast og við hæfi að sú breyting hefjist í aðdraganda þingkosninga. Staðan í alþjóðamálum er sú, að nýtt kalt stríð er að brjótast út á milli Bandaríkjanna og Kína. Fyrr í þessari viku voru bandarískir embættismenn í Kína. Þar var þeim sagt að uppgangur Kína yrði ekki stöðvaður og það er áreiðanlega mikið til í því, bæði vegna þess að Kínverjar eru langfjölmennasta þjóð í heimi og það er fyrirsjáanlegt að fyrir lok þessa áratugar verði þeir orðnir mesta efnahagsveldi heims. Auk þess sögðu Kínverjar að Bandaríkjamenn væru að gera úr þeim, Kínverjum, ímyndaðan óvin.

Lesa áfram