Höldum vöku og sýn

Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið

Arnar Þór Jónsson

Blaða- og tímaritsgreinar sem ritaðar eru í góðri trú hljóta að hafa það að markmiði að sýna umfjöllunarefnið í nýju ljósi og vera þannig gagnlegt efnislegt framlag til málefnalegrar umræðu. Það eru því ávallt vonbrigði að rekast á greinar sem afvegaleiða, drepa málum á dreif og / eða varpa hulu yfir raunveruleikann fremur en að upplýsa og fjalla um staðreyndir.

Í Morgunblaðinu 10. júlí sýndi ég með rökum hversu klisju­kenndur og villandi málflutningur þeirra er sem vilja gera inngöngu Íslands í ESB að aðalstefnumáli sínu fyrir þingkosningarnar næstkomandi haust.

Lagði ég áherslu á að umfjöllun um slík alvörumál yrði að taka mið af raunsæi (d. realpolitik) en ekki hugarburði eða ímyndunum á borð við þær sem því miður einkenndu Fréttablaðsgrein Þorsteins Pálssonar 8. júlí síðastliðinn.

Í nýrri grein Þorsteins 15. júlí er sami tónn sleginn strax í upphafi þegar hann segir að oft sé „árangursríkara í pólitík að hræða fólk frá stefnu andstæðinganna en að fá það með rökum til að aðhyllast eigin málstað.“

Svo er að sjá sem hann beiti í þessum tilgangi afbökunum, ýkjum og rangfærslum. Ég hvet alla til að lesa áðurnefnda Morgunblaðsgrein mína og bera saman rökfærslur okkar Þorsteins til að meta hvor okkar byggir á traustari grunni.

Það er illa komið fyrir fyrrverandi formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins þegar þau hafa gengið í lið með þeim sem vilja grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar með staðlausum stöfum og hræðsluáróðri; með þeim sem vilja að Íslendingar gefi frá sér til útlanda aftur stjórn eigin mála sem þeir svo lengi börðust fyrir að fá inn í landið.

Lesa meira

Mikilvægi breytingarreglu stjórnarskrárinnar

Birgir Ármannsson skrifar í Mbl

Birgir Ármannsson

Að undanförnu hefur komið upp umræða um breytingarreglu stjórnarskrárinnar, annars vegar út frá sjónarmiðum um mikilvægi hennar í stjórnskipun landsins og hins vegar í tengslum við hugmyndir, sem fram hafa komið um hugsanlegar breytingar á núgildandi fyrirkomulagi.

1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar
Rétt er að rifja upp að samkvæmt núgildandi breytingarreglu, sem er að finna í 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, verður stjórnarskránni ekki breytt nema með eftirfarandi hætti: Þegar stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt á Alþingi á þegar í stað að rjúfa þing og boða til þingkosninga. Sé breytingin samþykkt óbreytt á nýju þingi öðlast hún gildi. Þannig hefur stjórnarskránni verið breytt átta sinnum frá stofnun lýðveldis, og raunar nokkrum sinnum fyrir þann tíma. Þetta er mikilvægt að hafa í huga vegna þess að oft heyrast þær raddir að núgildandi regla geri stjórnarskrárbreytingar óheyrilega erfiðar eða nánast ógerlegar.

Lesa meira

ESB gengur ekki upp

Frá ritsjórn Mbl þ. 17. júlí 2021

Miðstýring afnemur lýðræðið og sameiginlega myntin klýfur

Brexit

Því eru takmörk sett að líta megi svo á að Evrópusambandið sé stjórntækt og það er kominn tími til að skipta um kúrs og leggja áherslu á að draga úr miðstýringu og lárétt samstarf í stað þess að auka miðstýringuna og stigveldi þar sem valdboðið kemur að ofan. Þetta er niðurstaða þýska félagsfræðingsins Wolfgangs Streecks, sem í nýrri bók sinni, Milli alþjóðavæðingar og lýðræðis, segir að Evrópusambandið gangi ekki upp. Streeck, sem kemur af vinstri vængnum, er virtur í sínu fagi og stýrði um tíma samfélagsrannsóknum við Max Planck-stofnunina í Köln, er í viðtali í nýjasta tölublaði vikublaðsins Der Spiegel. Þar kallar hann ESB frjálslynt heimsveldi vegna þess að það þurfi að tryggja samstöðu innan þess án þess að beita hernaðarlegum meðulum. Það geri miklar kröfur til þeirra meðala, sem fyrir hendi séu, peninga og fallegra orða. Þá sé mikilvægasta stjórntækið í slíku heimsveldi að stýra valdastéttinni. Með því eigi hann við að tryggja að í aðildarríkjum ESB sé við völd pólitísk stétt, sem sé hlynnt miðstjórninni.

Streeck vísar því í viðtalinu á bug að ESB sé bandalag fullvalda ríkja. Þegar spyrillinn segist ekki þekkja neitt dæmi þess að í Brussel hafi verið reynt að sópa burt óvinveittri ríkisstjórn, spyr hann á móti hvort hann muni ekki hvernig komið var fram við Grikki í evrukreppunni eða hvernig Evrópusambandsríkin undir forystu Þjóðverja og Frakka komu Mario Monti til valda á Ítalíu. Þá sé augljóst að í Brussel sé verið að reyna að knýja fram stjórnarskipti í Póllandi og Ungverjalandi með því að hóta að stöðva eða takmarka fjárstuðning frá Evrópusambandinu.

Lestu áfram

Höfum það sem sannara reynist

Kjósendur hljóta að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Fróðlegt væri að vita hvort Þorsteinn Pálsson hafi verið ósammála grein sem Chris Patten, síðasti breski landstjórinn í Hong Kong, birti í Morgunblaðinu 6. júlí sl. um „einstefnu“ Kínverja í utanríkismálum. Helst hallast ég að því að Þorsteinn hafi ekki lesið grein Pattens, því annars hefði hann vart sent frá sér Fréttablaðsgrein 8. júlí sl., þar sem hann hann notar orð eins og „fjölþjóðasamvinnu“ og „evrópusamstarf“ í misheppnaðri viðleitni til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og mig. Í greininni segir Þorsteinn m.a.: „Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helsta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðalhugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann. Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.“ Tilvitnaðar línur – og grein Þorsteins í heild sinni – gefa tilefni til eftirfarandi athugasemda og leiðréttinga. Sú „ákvörðun“ sjálfstæðismanna sem Þorsteinn vísar þarna til er lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs þar sem alls 4.772 manns greiddu atkvæði, fleiri í þessu kjördæmi einu en í prófkjörum allra annarra íslenskra stjórnmálaflokka samtals á landsvísu. Flokkur Þorsteins valdi ólýðræðislega á framboðslista sína. Þorsteinn afflytur sjónarmið mín þegar hann kallar mig „andófsmann EESsamningsins“. Þvert á móti hef ég fram til þessa lagt aðaláherslu á að Íslendingar nýti ákvæði samningsins til sjálfsagðrar hagsmunagæslu gagnvart ESB og öðrum EES-þjóðum. Þorsteinn ýjar að því að ef Sjálfstæðisflokkurinn vinni umrætt sæti megi „reikna með fleiri uppákomum við innleiðingu reglna á grundvelli EES-samningsins“. Ef skilja má þetta svo að Þorsteinn telji rétt að líkja lágmarkskröfum um þinglega meðferð, hagsmunagæslu og lýðræðislega rót laga við einhvers konar „uppákomur“ þá ber það vott um stjórnlyndi og valdboðsstefnu annars vegar og þrælslund hins vegar, en ekki það „frjálslyndi og lýðræði“ sem flokkur Þorsteins vill þó kenna sig við í orði kveðnu.

Lesa meira

Samkeppnismálin eru líka fullveldismál

Löggjöfin evrópska er miðuð við stóra, virka markaði. Þessum lögum er beitt hugsunarlaust á okkar örsmáu, ófullkomnu markaði.

Ragnar Önundarson skrifar í Mbl:

Ragnar Önundarson

Það er hringavitleysa að lífeyrissparnaður þjóðarinnar skuli ávaxtaður í fákeppnisfélögum, sem taka sér þá álagningu sem þeim sýnist af neytendum, sem líka eru nefndir sjóðfélagar. Við inngönguna í EES fengu útflutningsfyrirtækin betri kjör á mörkuðum, sem nýtast eigendum þeirra vel. Stærstu útgerðarfélögin kaupa upp fyrirtæki í öðrum greinum, fákeppnisfélög auðvitað og „safna auð með augun rauð“. Stóru vonbrigðin með EES fá litla athygli, en allir lepja upp, hver eftir öðrum, að „þjóðin hafi hagnast mikið“ á inngöngunni fyrir 30 árum. Það er rétt, þjóðarbúið hefur hagnast, en ávinningnum er misskipt.

Hugmyndafræði og skynsemi

Fákeppni innflutningsfyrirtækjanna er vandamálið. Við setjum allt traust okkar á markaðsbúskap. Allir flokkar viðurkenna nú að áætlunarbúskapur er ekki leiðin. Kosningar fara í hönd og frambjóðendur flagga sinni hugmyndafræði. Að loknum kosningum neyðast þeir sem ná kjöri til að leggja þessi prinsipp til hliðar, gera málamiðlanir, mynda samsteypustjórn og gera það sem er skynsamlegt. Hvernig væri nú að beina umræðunni að því sem miður fer í EES og hvernig gera megi almenningi gagn hvað framfærslukostnað varðar, en hann er tvöfaldur m.v. mörg önnur Evrópulönd? Nennir enginn frambjóðandi að hugsa sjálfstætt? Nýleg skýrsla lögfræðinganefndar um þetta viðskiptafræðilega vandamál reyndist vitaskuld gagnslaus.

Milliliðir

Þótt allir vilji markaðsbúskap og samkeppni vill gleymast að huga að forsendunni, sem er að alvöru, virkir markaðir séu til staðar. Þetta hef ég margoft rætt. Lykilatriðið sem huga þarf að er, að á markaði skipta milliliðirnir milli framleiðenda og neytenda öllu máli. Þeir eru þarna til að hagnast, eins og aðrir, og því er mikilvægt að stuðla að hagkvæmni í þeirra rekstri. Það sem fólk veit almennt ekki er það, að allur hagnaður er tekinn vegna ófullkomleika markaða, sem oft er nefndur „skekkjur“.

Lesa áfram

Uppruninn og sjálfstæðisstefnan

Hornsteinn íslensks samfélags er lýðveldið okkar sem við endurreistum á þessum allra helgasta degi Íslendinga þann 17. júní 1944.

Viðar Guðjohnsen skrifar í Mbl

Viðar Guðjohnsen

Þegar Íslands fyrsti faðir nam hér land var eyjan okkar mannlaus og af engum að taka nema hinni miklu móður. Ekkert stjórnvald og engin landslög. Landnámsmennirnir þurftu því engum að svara. Einungis hyggjuvitinu og fornum venjum. Í heimahögum hafði orðið stjórnarbylting undir forystu Haraldar hárfagra. Hollustan við sjálfstæðið og sjálfsvirðinguna fleytti hinum útsjónarsömu forfeðrum okkar yfir hafið kalda með hjálp Njarðar. Sannir sjálfstæðismenn voru þeir allir. Um hálfri öld síðar, þegar Alþingi var stofnað, varð Ísland formlega að ríki. Þá hafði heil kynslóð, hin fyrsta íslenska kynslóð, vaxið úr grasi. Á kjördag árið 1953 gerði Sjálfstæðisflokkurinn þessum mikilvæga uppruna okkar skil í fallegum hvatningarorðum. Segir í þeim meðal annars: „Sem faðir þjóðarinnar reisti hann hér bú í óbyggðu landi, er hann hafði flúið ættland sitt undan ofríki, kúgun og gaf þjóð sinni í vöggugjöf trú á mátt og helgi frelsisins. Frelsisþrá sína, framtak og djörfung tók þjóðin hans að erfðum.“ Á þessum grunni var Ísland okkar reist og það er hægt að færa gild rök fyrir því að stjórnarform þjóðveldisins, hins fyrsta íslenska lýðveldis, hafi vegna þessa verið mótað á lítt ræddum en þó mikilvægum grunni lýðræðis og laga.

Lesa áfram

Til þjónustu

Allt stendur og fellur með því að okkur takist sem samfélagi, foreldrum og vinum, að vinna að réttu og heilnæmu marki.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl:

Arnar Þór Jónsson

Í dag lýkur prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Kjósendum gefst tækifæri til að nýta lýðræðislegan rétt sinn og velja fólk til að skipa sigurstranglegan framboðslista í alþingiskosningunum nk. haust. Með framboði mínu vil ég vekja athygli á nauðsyn þess að Íslendingar virki það lýðræðislega afl sem í þeim býr og gerist virkari þátttakendur í lýðræðislegri umræðu. Með því móti styrkist hin nauðsynlega gagnvirkni lýðræðis og löggjafar. Ein helsta áskorun Alþingis og íslenskra stjórnmála nú er að snúa af braut valdaframsals, þannig að íslenskir kjósendur og kjörnir fulltrúar þeirra á Alþingi ráði þeim lögum sem hér gilda. Doði og andvaraleysi má ekki verða til þess að staða Íslands veikist í bráð og lengd. Láti menn sig dreyma um einhvers konar sjálfvirkt stjórnarfar, þar sem lög og réttur verða til sjálfkrafa og umræðulaust, jafnvel með póstsendingum að utan, verða menn að gera sér grein fyrir því gjaldi sem slíkt þátttöku- og gagnrýnisleysi hefur í för með sér. Hér stöndum við frammi fyrir alvarlegum álitaefnum: Hvernig fer fyrir þjóð sem fær litlu eða engu ráðið um hvernig málum hennar er stjórnað? Hvers vegna ætti slík þjóð að sýna stjórnmálum og lýðræði nokkurn áhuga? Hvernig getur þjóð, sem ekki stjórnar eigin málum, tryggt það að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart henni? Og hvernig getur þjóð í þeirri stöðu tryggt að lögin taki jafnt til allra og að menn séu ekki sviptir mannréttindum ef þau réttindi eru talin ógna hagsmunum ráðandi afla? Hvernig getur valdalaus þjóð varið hagsmuni sína, tilveru og réttindi?

Lesa áfram

Hvað kveikir í kosningabaráttunni?

Alþingi hefur brugðizt þjóðinni í þrjátíu ár

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl:

Silfur RÚV fyrir tveimur vikum með formönnum þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi var tíðindalaust framan af en vaknaði til lífsins þegar skæruliðadeild Samherja kom til umræðu. Þá var hægt að sjá fyrir sér hvert yrði mesta deilumál kosninganna. Það mat breyttist svo snögglega þegar fréttir bárust af því að fyrirtækið hefði beðist afsökunar á framgöngu skæruliðanna. Eftir þá afsökunarbeiðni getur málið tæpast orðið hitamál í kosningum. Ef það hins vegar gerðist að héraðssaksóknari birti niðurstöður á rannsókn sinni á málum Samherja fyrir kosningar gæti málið komist á dagskrá aftur. Ef það gerðist er líklegt að það yrði erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, einfaldlega vegna þess að það er sterk tilhneiging til að gera hann ábyrgan fyrir hugsanlegum misgjörðum atvinnulífsins. Annað mál sem er að koma upp um þessar mundir er samstarf Dana og Bandaríkjanna um njósnir um bandalagsþjóðir og leiðtoga þeirra. Það er heldur ólíklegt að þær njósnir hafi náð til Íslands og íslenzkra stjórnmálamanna. Til hvers? Þeir skipta nákvæmlega engu máli í hinni stóru mynd. Öðru máli gegnir um kalda stríðið. Þá þótti okkur öllum sjálfsagt mín megin í því að finna út með öllum ráðum hvað kommarnir væru að gera, eins og við kölluðum andstæðinga okkar í kalda stríðinu Fyrir nokkrum árum fékk eiginkona mín, sem nú er látin, bréf frá opinberum aðilum þess efnis að síminn á heimili foreldra hennar hefði verið hleraður. Faðir hennar, Finnbogi Rútur Valdimarsson, sem var þingmaður fyrir Sósíalistaflokkinn og síðar Alþýðubandalagið, þóttist reyndar vita það. Þeir töluðu töluvert saman í síma, hann og Ólafur Thors, og þegar klikk heyrðist í símanum sagði Ólafur: jæja nú eru þeir byrjaðir að hlera. Meira leyndarmál var þetta nú ekki þeirra í milli.

Lesa áfram

Arnar Þór í forystusveit

Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti.

Eygló Egilsdóttir skrifar í Mbl

Eygló Egilsdóttir

Um komandi helgi mun sjálfstæðisfólk ganga til prófkjörs í Suðvesturkjördæmi og velja fólk í forsvar til alþingiskosninga. Þar býður sig fram í 2.-3. sæti Arnar Þór Jónsson. Það má segja að hann sé nýr á vettvangi stjórnmála, en þó kemur framboð hans þeim ekki alfarið á óvart sem þekkja til hans. Undanfarin misseri hefur Arnar látið til sín taka í pólitískri umræðu, svo eftir hefur verið tekið. En hann hefur skrifað greinar og komið fram opinberlega til að fjalla um mál er varða réttindi allra Íslendinga, mál sem eru allt í senn: stór, flókin og umdeild. Málefni eins og þriðja orkupakkann og frelsi og réttindi fólks. Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti. Að mínu mati er það einmitt slíkt fólk sem þarf að velja til forystu nú. Fólk sem þorir að tjá sig umbúðalaust, fólk sem getur hlustað á mótrök og tekið heiðarlega afstöðu í erfiðum málum, þó sú afstaða sé ekki endilega vinsæl akkúrat í dag, en rétt til lengri tíma.

Lesa áfram