Réttinn ber að virða

Réttur Íslands til að fullgilda ekki einstakar tilskipanir er ekki feimnismál

Ritstjórnargrein Mbl þ. 15. febrúar 2023:

Hin dálítið skrítna trú á manngert veður, sem er næsta nýtilkomin og menn hafa fundað um á nærri 30 loftslagsráðstefnum um heimsendi handan við hornið er smám saman að verða að raunverulegu vandamáli. Þá er ekki átt við hjalið um loftslagið, sem er ekki skaðlegra en umræður um álfa og tröll voru áður fyrr.

Halldór Laxness sagði í einni smásögu sinni af manni sem var svo vel undirbúinn að hann gekk með gerviauga í vasanum til að geta hrætt lítil börn, kæmi sú nauðsyn upp. Og auðvitað má hafa brúk í loftslagsmálum fyrir þá sem nærast á óttanum þótt undarlegur sé. En auðvitað þurfa burðugir fyrirsvarsmenn þjóða að ýta dellunni út í sitt horn, sé hún komin í ógöngur og að auki farin að skattleggja mannkynið til að standa undir aðgerðum sem engu breyta. Góð og vönduð umgengni við umhverfið er mál sem sérhver góður maður vill leggja lið. Fáir vilja muna óvitaganginn um ógnina miklu um ósonlagið þar sem „svitabrúsar“ höfðu gert atlögu að mannkyninu og með þeim ýtt heiminum út á ystu brún og lífi á jörðinni „í forbífarten“. Séðir menn þess tíma vildu ekki karpa við „vísindamennina“ sem höfðu lifað sig inn í ógnina og var því brúsum breytt í krem, og þeir fengu að halda í „sannleikann“ og eina ráðstefnu árlega í Kanada sem staðfesti að allt væri á réttri leið. Þær eru enn haldnar þótt engar fréttir berist frá þeim.

Enn hafa sárafáar þjóðir axlað ábyrgð á hinum nýju trúarsetningum, nema helst nokkur ríki í kjarna Evrópu. Almenningur í Bandaríkjunum setur „eyðingu mannkyns“ í 20. sæti yfir mál sem þarf að kíkja á af alvöru. Og það sýnir mikinn áhuga sé miðað við afgangsstærð heimsins, litlu fámennu löndin Kína, Rússland, Indland, Afríku sem heild, Suður-Ameríku, og miðríkin þar, og Indónesíu, Víetnam og Filippseyjar og Pakistan svo nokkur „smálönd“ séu nefnd af handahófi, sem gera ekkert með dánartilkynningu mannkyns á 27 árlegum ráðstefnum, sem sóttar eru af ríkisbubbunum á einkaþotunum og „samninganefndum“ frá þjóðunum. Þannig fór fjölmenn sendinefnd Reykjavíkur til Parísar og stundaði ráðstefnuhjal í tvær vikur! Ekki hefur verið birt hvað það ball kostaði.

Umburðarlyndið er enn mikið, þótt sífellt sé sótt meira fé í „gerviverkefni“ til að bjarga heiminum. Og eins gagnvart Íslendingum sem hafa fyrir löngu náð þeim „markmiðum“ sem aðrir bisa við að ná. Íslendingar náðu þeim markmiðum árið 1992 þegar vitleysan byrjaði og því voru engar áhyggjur hér. En á daginn kom að „embættismenn“ hér með stjórnmálamenn í taumi töldu sig ekki fá að gráta með hinum nema litið yrði fram hjá íslenskum staðreyndum. Þeir knúðu á um að árangur þjóða sem náðist fyrir 1992 teldist ekki með. Og íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki kjark, til að losa sig út úr lönguvitleysu.

Það kostar þjóðina sífellt meir, sem hefur nóg með yfirgengilegar ógöngur í „útlendingamálum“. Ný dæmi tengd „heimshlýnun“ birtast í sífellu. Bogi Nils Bogason benti nýlega á að það hefði slæm áhrif á samkeppnishæfi Keflavíkurflugvallar sem alþjóðlegrar tengimiðstöðvar, yrði kerfi ESB, fyrir viðskipti með heimildir til losunar á gróðurhúsalofttegundum, tekið upp í EES-samninginn án þess að Íslandi yrðu veittar undanþágur. „Vegna landfræðilegrar legu Íslands bitnar þetta, ef af verður, verr á tengimiðstöðinni í Keflavík en öðrum tengimiðstöðvum sem hún keppir við,“ segir Bogi Nils.

Rétt er því að krefjast undanþágu og fáist hún ekki, á Ísland ekki að fullgilda tilskipunina. Slíkur réttur var forsenda þess að Ísland samþykkti EES-samninginn. Án þess fyrirvara stenst EES-samningurinn ekki stjórnarskrá Íslands og sjálfgefið að fella hann úr gildi.

Sjálfstæðisflokkurinn má ekki jaðarsetja sín eigin grunngildi.

Arnar Þór Jónsson skrifar:

Ágætu félagsmenn.

Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) er stofnað til að standa vörð um þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á. Nafn flokksins og uppruni er til áminningar um nauðsyn þess að samfélag okkar hafi lýðræðislega stjórn á örlögum sínum. Um of langt skeið hefur þessi lýðræðisþráður trosnað undan ágangi yfirþjóðlegs valds, sérfræðingastjórnar og tækniveldis. Myndbirtingin er m.a. sú að vald hefur í of miklum mæli verið afhent fólki sem Íslendingar hafa ekki kosið. Slík þróun ber með sér háska, því sagan sýnir að valdhafar þurfa að svara til ábyrgðar gagnvart borgurunum ef ekki á illa að fara. Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna hefur aukið á þennan vanda.

Á síðari árum hefur verið þrengt mjög að frelsinu, bæði hérlendis og erlendis. Smám saman eru völdin að færast frá fólkinu sjálfu (og kjörnum fulltrúum þeirra) til sérfræðinga, tæknimanna, erlendra stofnana o.fl. Valdboðsstjórn er að leysa lýðræðið af hólmi. Tækniveldi er að verða til á meðan lýðveldið hverfur í skuggann. Í stað pólitískrar rökræðu og stefnumótunar á þeim grunni gefa menn út fyrirskipanir og auka eftirlit með þeim afleiðingum að borgaralegt frelsi eyðist smám saman. Valdboðsstjórn býður heim hættu á harðstjórn þeirra sem fara með mikil völd og peninga. Í stað þess að áhersla sé lögð á að halda valdinu í skefjum má nú víða sjá merki þess að valdhafar freisti þess að halda almenningi í skefjum.

FSF er vettvangur lýðræðislegrar umræðu þar sem rætt er um leiðir til að sporna við valdboði, skrifræði og stjórnlyndi. Það gerum við í anda klassísks frjálslyndis og á grunni þeirra gilda sem reynst hafa best. Ef Íslendingar standa ekki vörð um eigin hagsmuni gerir það enginn. Sú hagsmunagæsla verður að byggjast upp innan frá, á grunni klassískrar menntunar og gagnrýninnar hugsunar. Í þessum tilgangi ber okkur að hjálpa samborgurum okkar til að finna tilgang sinn og hlutverk, þannig að við getum verið þátttakendur í frjálsu samfélagi en ekki valdlausir áhorfendur. Fámennisstjórn og fyrirskipanir eru eitur í beinum sannra Sjálfstæðismanna.

Til að flokkurinn geti verið sú breiðfylking sem honum er ætlað að vera þarf hinn almenni flokksmaður að hafa rödd og áhrif. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki rísa undir þeirri ábyrgð sem á honum hvílir fyrr en hann slítur sig úr kæfandi faðmlagi við flokka sem stefna í aðra átt. Tími er kominn til þess að Sjálfstæðisflokkurinn marki sér stöðu þar sem honum er ætlað að standa, þ.e. að verja einstaklingsfrelsið gagnvart hvers kyns valdaásælni, verja fullveldi þjóðarinnar, mannlíf og atvinnulíf með því að tryggja valddreifingu, tjáningarfrelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Við eigum ekki að sætta okkur við að alþjóðlegar stofnanir grípi um stjórnartaumana hér á landi. Æðsta vald í málefnum Íslands á að vera í höndum kjörinna fulltrúa Íslendinga. Ákvarðanir um málefni íslensku þjóðarinnar á ekki að taka í fjarlægum borgum. Stöðva þarf stjórnlausa útþenslu ríkisins, ríkisvalds og ríkisstofnana, fækka opinberum störfum og draga úr skattheimtu. Verja á hagsmuni skattgreiðenda með því að krefjast ráðdeildar í ríkisrekstri og strangs aðhalds við ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði.

Ég hvet alla sem vilja leggja okkur lið í þessari baráttu að gerast virkir meðlimir í FSF og vinna þar með okkur að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar.

Með góðri kveðju,

Arnar Þór Jónsson, formaður FSF.

Hugur þinn og hjarta er þín eign, ekki ríkisins

Arnar Þór Jónsson:

Reynsla síðustu ára bendir til að vestrænar þjóðir kunni ekki að verjast valdhöfum sem undir yfirskyni umhyggju vilja skerða frelsi okkar. Þjóðfélögum okkar er í auknum mæli stjórnað af fólki sem gefur sig út fyrir að vera frjálslynt, fólki sem í orði kveðnu styður málfrelsið. Þegar þetta sama fólk kallar eftir ritskoðun til að vernda okkur er verið að bjóða falskt öryggi.

Tjáningarfrelsið er lífæð alls lýðfrelsis. Sú þjóð sem afhendir valdhöfum úrskurðarvald um hvað má segja og hvað ekki, afhendir ríkinu um leið alla umræðustjórn. Í slíku þjóðfélagi viðgengst engin lifandi umræða og fólk fer ósjálfrátt að ritskoða sjálft sig. Ef að er gáð má víða finna vísbendingar um það hvernig verið er að þrengja umræðuna, loka fyrir sjónarmið, banna gagnrýni, fela óþægilegar upplýsingar.

Frjálslynt stjórnarfar bannar fólki ekki að hafa óvinsælar skoðanir, heldur býr svo um hnútana að menn beri ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Frjálslynt fólk hefur trú á samborgurum sínum, er reiðubúið að hlusta á röksemdir og svara með rökum. Stjórnlynt fólk aðhyllist ritskoðun, styður slaufunarmenningu og umræðustjórn, en leggst gegn frjálsum fjölmiðlum.

Við búum nú í samfélagi þar sem ríkið vill í auknum mæli taka ábyrgðina af herðum okkar, en gerir á móti tilkall til þess að taka af okkur frelsið um leið. Slík skipti leiða okkur í átt til alræðis, þar sem allir eru steyptir í sama mót og aðeins ein ,,ríkisskoðun” leyfð.

Við erum hugsandi verur sem tjáum okkur með orðum og athöfnum. Verkefni hvers dags er að tjá sig fallega og af virðingu fyrir öðrum. Stundum tekst okkur það vel og stundum ekki eins vel. Með því að samþykkja einsleitni og ritskoðun myndum við skapa flatneskjulegt, taugaveiklað, óheiðarlegt og huglaust samfélag þar sem enginn þyrði að tjá eigin hug og hjarta. Með því værum við að svíkja okkar innsta kjarna, samvisku okkar og mannlega reisn. Við eigum ekki að setja ljós okkar undir mæliker.

Bloggsíða Arnars þórs á Mbl.is

Áleitnar spurningar um orkupakka

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl:

Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni. Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.

Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum

Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda. Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi. Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.

Áframhald af greininni

Vatn eða vindur?

Loftur skrifar:

Það blæs ekki byrlega fyrir flokksskútunni sem hvergi fer með himinskautum. Vegferð ríkisstjórnarinnar er að auki afar óljós enda hallærisstjórn með Maddömuna innanborðs og villuráfandi sósíalista í stafni. Hér fer ekki saman hljóð og mynd.
(gæti verið tilvitnun í frétt á RÚV).

Vandamál flokksins kristallast ekki í formanninum einum heldur frekar í forystu hans, sem gefur grunngildum og stefnu flokksins langt nef og virðir ályktanir Landsfundar að vettugi.

Flokkurinn er orðinn að ólýðræðislegum, Evrópusinnuðum neó-sósíalískum krataflokki þar sem grasrótin er hundsuð, peningum skattborgara dælt í flokkinn og stefnan tekin á Brussel og þangað skal teygja orkupakkaorminn langa í nafni „loftslagsmála og orkuskipta“. Skítt með almúgann sem vel hefur efni á að borga ESB-verð fyrir raforkuna eins og ríku frændur okkar í Noregi. Við verðum jú að bjarga heiminum (og fjárfestum).   

Yrði nýr formaður, sem vill koma upp vindtúrbínuþyrpingum á hverjum hól skárri valkostur en sá sem vill virkja hverja smásprænu? Allt í nafni Hvítbókar, Grænbókar, samkeppnisreglna og orkupakka ESB?

Hvort er skárra vatn eða vindur?  

Sverð á sal Alþingis

Loftur skrifar:

Viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ritar ágæta grein um sjálfstæði Íslands í orkumálum í Mbl. þ. 29. október 2022. Þar segir hún m.a.: „Sú staðreynd að raforkukerfi landsins er ekki tengt raforkukerfi Evrópu kemur sér sérstaklega vel í því árferði sem nú ríkir og bregður ljósi á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði í orkumálum. Það sjáum við til dæmis með því að líta á þróun raforkuverðs á hinum Norðurlöndunum sem hefur hækkað mikið…“

„Ísland hefur alla möguleika á að ná fullu sjálfstæði í orkumálum með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku til þess að standa undir rafvæðingu í samgöngum í lofti, láði og legi. Þrátt fyrir allt það frábæra samstarf í alþjóðamálum, sem við tölum þátt í, er það gæfuspor fyrir þjóðina að vera ekki í Evrópusambandinu.“

Svo mörg voru þau orð. Ráðherrann dregur einnig upp myndlíkingu þar sem sverð Damóklesar hangir yfir ESB m.a. vegna skorts á gasi frá Rússlandi. Svokölluð „gaslýsing“ (e.gaslighting) er reyndar algeng í viðtölum ráðherra við almúgann. Þeir svara stundum spurningum með lærðum frösum: „Þú verður að kynna þér málið!“ eða: „Þú hefur ekki lesið alla skýrsluna!“ o.s.frv. Spurning vaknar hvort ráðherrann hafi lesið alla söguna um hirðmanninn Damókles sem lofsöng hamingju Díonýsíosar konungs vegna auðs hans og valda. Konungur gerði hirðmanninn að eins konar umskiptingi þar sem þeir skiptu um hlutverk en á móti hengdi konungurinn sverð hans fyrir ofan hásætið og festi með einu hrosshári.

Slíkir umskiptingar eru algengir á Alþingi Íslendinga þar sem ráðamenn lofa og prísa EES-samninginn og sjálfstæði og fullveldi Íslands í skálaræðum á kvöldin en á daginn vinna þeir sleitulaust að því framselja yfirráðin yfir auðlindum landsins til ESB með grófri misnotkun á EES-samningnum og brjóta með því stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Mun ráðherrann t.d. samþykkja innleiðingu fjórða orkupakka ESB í íslensk lög eins og þann þriðja?

EES-samningurinn er orðinn að sverði Demóklesar sem nú hangir yfir ræðustóli Alþingis á þunnu hrosshári, líklega úr hálfdauðri blóðmeri.

Hvers vegna skiptir sjálfstæði máli fyrir ríki og þjóðir?

Kári skrifar:

Áfram Ísland!

– Fullveldi –

Sagan geymir mörg dæmi af átökum um landamæri, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Hægt er að fjalla um þessi mál út frá heimspeki, félagsfræði eða lögfræði eða jafnvel blöndu af þessu þrennu [þverfagleg umfjöllun]. Við stjórnun ríkja virðist tvennt koma til álita: að stjórnun þeirra sé á innlendum forsendum, og þau undir innlendri stjórn, [i] eða að stjórnunin sé á erlendum forsendum og ríkin lúti erlendri stjórn. Þetta má þrengja niður í eina spurningu: hverjir ráða?

Þessi mál hafa bæði „macro-vídd“ [ríki meðal ríkja] og „micro-vídd“ [þegnar ríkja]. Þegar rætt er um sjálfstæði ríkja (macro) er átt við rétt þeirra gagnvart öðrum ríkjum [stöðu í „alþjóðasamfélagi“]. En viðfangsefnið hlýtur einnig að snúast um stöðu þegnanna innan hvers ríkis (micro). Flestir líta svo á að einstaklingar eigi að njóta sjálfstæðis og geta tekið ákvarðanir sem þá sjálfa varða miklu. Það má kalla „einstaklingsbundið fullveldi“.

Fólk getur t.a.m. stundum valið um „trúleysi“ eða að rækta ákveðna trú [trúfrelsi], að leggja deilumál sín fyrir dómstóla, hvar það vill búa [eða flytja til annars ríkis] o.s.frv. Með öðrum orðum, fólk hefur þá, að minnsta kosti að nafninu til, mannréttindi [margir njóta þó engra mannréttinda].

Eðlilegt þykir að fólk beiti þessum réttindum sjálft enda ganga þekktar kenningar [náttúruréttur] í heimspeki út frá því að fólk fæðist með ákveðin réttindi sem ekki verði af því tekin. Greinarhöfundur þekkir engin dæmi þess að fólk vilji framselja mannréttindi sín til annarra og fela þeim, fyrir sína hönd, að ákveða trúarafstöðu, búsetu eða hvað annað. Flestir vilja ráða sínum málum sjálfir. En þegar kemur að ríkjum og stjórnun þeirra er hins vegar allt annað uppi á teningnum. Þá vilja sumir afsala sér innlendu valdi og fela erlendum stjórnvöldum, t.d. innan Evrópusambandsins, að stjórna eigin málum. Í því felst vissulega ákveðin þversögn.

Fullveldi ríkja og einstaklinga tvinnast saman. Ákvarðanir sem t.a.m. eru teknar innan Evrópusambandsins hafa síðan víðtæk áhrif á borgara ríkjanna sem í hlut eiga og kunna jafnvel að ógna mannréttindum borgaranna. Þar má t.d. nefna takmarkanir á tjáningarfrelsi [ritskoðun] og hvernig sífellt er reynt að stimpla skoðanir þeirra sem ekki fylgja valdinu sem „hatursorðræðu“ og „upplýsingaóreiðu“. Raunverulega óreiðan er hins vegar af völdum fólksins sem þannig talar. Dæmi um það er að miklu leyti sjálfsköpuð orkukreppa í Evrópu. Þar er mikil óreiða, mynduð af „óreiðufólki“ innan Evrópusambandsins [sérstaklega í framkvæmdastjórninni]. Rökrétt framhald af tali „óreiðufólksins“ um „hatursorðræðu“ væri að stofna sérstakan dómstól um „réttar“ og „rangar“ skoðanir sem áður yrðu útfærðar í reglugerðum og tilskipunum. Slíkur dómstóll yrði banabiti lýðræðisins sem þó er orðið mjög laskað fyrir. Tjáningarfrelsi, án ritskoðunar, er meginforsenda lýðræðis.

Áframhald af greininni

Ísland og Sjálfstæðisflokkurinn

Gísli Ragnarsson skrifar í Mbl

Sjálfstæði smáþjóðar er ekki sjálfsagt. Það þarf stöðugt að vera
á verði og gæta þess að ekkert sé gert sem stuðlar að valdaafsali.

Gísli Ragnarsson

Ljóðið hennar Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind), Hver á sér fegra föðurland, er okkur Íslendingum kært. Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð. Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð. Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð en lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf? Við heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ, hún uni grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf. Ó, Ísland, fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð. Hver dagur líti dáð á ný, hver draumur rætist verkum í, svo verði Íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð. Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð. Okkur sem erum fædd um miðja síðustu öld var kennt að elska Ísland og vinna því allt til heilla. Sjálfstæðishugsjónin í ljóði Huldu: „Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð“ var og er grundvallarhugsjón okkar. Í kosningum 1956 fylgdi ég ömmu og afa á kjörstað í Miðbæjarskólanum. Ég var stoppaður af við innganginn af lögreglumanni sem brosandi bað mig um að setja fálkann, merki Sjálfstæðisflokksins, aftan við kragann svo hann sæist ekki meðan ég væri inni á kjörstaðnum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 42,4% atkvæða í þessum kosningum og var Ragnhildur Helgadóttir yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri, 26 ára. Það var eitthvað svo sjálfsagt í mínum augum að styðja Sjálfstæðisflokkinn. Hans helsta stefnumál var að Íslands byggð yrði aldrei öðrum þjóðum háð. Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn að fá rúm 20% í kosningum. Í borgarstjórnarakosningunum 1990 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 60,4% atkvæða. Hvað veldur? Ég er viss um að sjálfstæðishugsjónin er flestum Íslendingum hugleikin. Að Íslands ástkær byggð verði ei öðrum þjóðum háð. Háværar raddir eru því miður uppi sem dásama erlend áhrif á Íslandi. Fólk sem vill að Ísland verði öðrum þjóðum háð. Þetta er ekkert nýtt. Það hafa alltaf verið til menn á Íslandi sem sjá tækifæri í að færa vald úr landi. Fyrst til Noregs, Danmerkur og nú til Brussel. Því miður er áróðri þeirra ekki svarað af nægilegri sannfæringu. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki andmælt slíkum áróðri á nægilega sannfærandi hátt.

Áframhald af greininni

AFSAL Á STJÓRNUN AUÐLINDA OG AUÐLINDUNUM SJÁLFUM – Orkupakkar ESB

Kári skrifar:

Nei við ACER!

Reglan um varanlegt fullveldi fólks og ríkja yfir náttúruauðlindum tók að festast í sessi, sem ný regla í alþjóðarétti, eftir lok seinni heimsstyrjaldar, eða eftir 1945.[i] Ályktanir og ákvarðanir eru formleg tjáning á skoðunum eða vilja innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Margs konar ályktanir um fjölbreytileg efni hafa verið samþykktar af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnunum þeirra frá stofnun árið 1945.[ii]

Almennt er litið svo á að ályktanir og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála þeirra, séu bindandi í samræmi við 25. grein sáttmálans. En fræðimenn greinir á um lagalegt gildi annara ályktana og samþykkta.[iii] Þá er eftirfylgni [enforcement] oft háð sömu annmörkum og margt annað í alþjóðakerfinu.

Árið 1962 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun 1803,[iv] um fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum sínum. Í 1. gr. ályktunarinnar segir: „Rétti fólks og þjóða til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðæfum sínum og auðlindum verður að beita í þágu innlendrar þróunar og velferðar almennings í hlutaðeigandi ríki.“[v]

Nú ber hins vegar svo við að íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir, ólmast við að koma íslensku fullveldi yfir auðlindum, og fullveldinu almennt, undir erlenda stjórn. Til þess hafa þeir m.a. keypt álit, frá misjafnlega vel jarðbundnu fólki, sem segir ekkert að óttast – að bæði sé hægt að gefa frá sér hlut en þó eiga hann áfram. Það má kalla lögfræðilega tvíhyggju. Mótsagnarlögmál rökfræðinnar gildir ekki hjá þeim álitsgjöfum sem þannig tala.

Fullveldisrétturinn

Sumir ráðherrar eru svo óforskammaðir að tala um það í eldhúsdagsumræðum að þjóðin hafi enn fulla stjórn á eigin auðlindum, enda þótt við blasi að sömu ráðherrar stóðu einmitt sjálfir að framsali stjórnunar þeirra úr landi með innleiðingu orkupakka þrjú. Slík er ósvífni og ófyrirleitni þessa fólks. Það lætur enn eins og ákvarðanir þess hafi engin áhrif, beitir sífelldum blekkingum og reynir að afvegaleiða kjósendur. Innleiðing orkupakka þrjú felur í sér afsal fullveldisréttar yfir íslenskum orkuauðlindum, einkum til ACER, orkustofnunar Evrópu, en þar liggur þó mun meira undir. Enn fyrirfinnst fólk sem annað hvort skilur ekki eða vill ekki skilja þetta. Það birtist svo í pontu Alþingis og talar þar eins og álfur út úr hól.

Áframhald af greininni

Höldum í heiðri fullveldi okkar í orkumálum Íslands. Hugsum sjálfstætt!

Elinóra Inga Sigurðardóttir:

Umsögn til Alþingis um 777. mál, þingsályktunartillaga, 149. löggjafarþings: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (25. apríl 2019)

„Játast aldrei undan því sem vér vitum að er réttur í þessu landi og réttur þessa lands:
Það er sjálfstæði.“

Halldór Laxness, 1. desember 1955 (ref.1)

Ágæti alþingismaður
Í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins stendur Alþingi Íslendinga frammi fyrir þeirri erfiðu
ákvörðun hvort afsala skuli yfirráðum landsmanna yfir einni helstu auðlind landsins, orkuauðlindinni og þeirri afurð sem er henni nátengd, raforkunni til erlends ríkjasambands.

Elinóra Inga Sigurðardóttir

Í ljósi 100 ára afmæli fullveldis Íslands er þetta illskiljanlegur harmleikur. Hvað rekur ráðamenn þjóðarinnar til að fremja slíkt spellvirki? Ljóst er, að vissir stjórnmálaflokkar hafa lengi barist fyrir innlimum Íslands í Evrópusambandið (ESB), sem er ríkjasamband 28 aðildarlanda, sem telja yfir 300 milljón manna. Þingmenn þessara flokka hafa róið að því öllum árum að innlima Ísland í ESB með öllum þeim fórnum sem því myndi fylgja. Það er því skiljanlegt út frá þeirra sjónarhorni að þeim þyki sjálfsagt að taka þátt í þeim fórnardansi, sem afsalar okkur yfirráðum yfir orkuauðlindinni, sem og öðrum auðlindum svo sem fiskimiðunum. ESB er ekki alþjóðleg stofnun og hefur ekkert með alþjóðasamvinnu að gera, eins og stundum er haldið ranglega fram.

Hitt er hins vegar algjörlega óskiljanlegt, hvers vegna það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú hafa frumkvæðið að slíku framsali. Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 undir merkjum nýs flokks, Sjálfstæðisflokksins, var kveðið á um tvö meginatriði sem flokkurinn skildi hafa að leiðarljósi. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt þegar skilyrði væru til þess samkvæmt sambandslögunum. Hins vegar sagði að flokkurinn ætlaði:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.”

Áframhald af greininni