Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021
Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.
Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.
Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“
Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild