Frá ritsjórn Mbl þ. 17. júlí 2021
Miðstýring afnemur lýðræðið og sameiginlega myntin klýfur
Því eru takmörk sett að líta megi svo á að Evrópusambandið sé stjórntækt og það er kominn tími til að skipta um kúrs og leggja áherslu á að draga úr miðstýringu og lárétt samstarf í stað þess að auka miðstýringuna og stigveldi þar sem valdboðið kemur að ofan. Þetta er niðurstaða þýska félagsfræðingsins Wolfgangs Streecks, sem í nýrri bók sinni, Milli alþjóðavæðingar og lýðræðis, segir að Evrópusambandið gangi ekki upp. Streeck, sem kemur af vinstri vængnum, er virtur í sínu fagi og stýrði um tíma samfélagsrannsóknum við Max Planck-stofnunina í Köln, er í viðtali í nýjasta tölublaði vikublaðsins Der Spiegel. Þar kallar hann ESB frjálslynt heimsveldi vegna þess að það þurfi að tryggja samstöðu innan þess án þess að beita hernaðarlegum meðulum. Það geri miklar kröfur til þeirra meðala, sem fyrir hendi séu, peninga og fallegra orða. Þá sé mikilvægasta stjórntækið í slíku heimsveldi að stýra valdastéttinni. Með því eigi hann við að tryggja að í aðildarríkjum ESB sé við völd pólitísk stétt, sem sé hlynnt miðstjórninni.
Streeck vísar því í viðtalinu á bug að ESB sé bandalag fullvalda ríkja. Þegar spyrillinn segist ekki þekkja neitt dæmi þess að í Brussel hafi verið reynt að sópa burt óvinveittri ríkisstjórn, spyr hann á móti hvort hann muni ekki hvernig komið var fram við Grikki í evrukreppunni eða hvernig Evrópusambandsríkin undir forystu Þjóðverja og Frakka komu Mario Monti til valda á Ítalíu. Þá sé augljóst að í Brussel sé verið að reyna að knýja fram stjórnarskipti í Póllandi og Ungverjalandi með því að hóta að stöðva eða takmarka fjárstuðning frá Evrópusambandinu.