„Ég kýs að fylgja hjartanu“
Arnar Þór Jónsson gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi
Ég tel að mér sé skylt sem frjálsum einstaklingi að verja samviskufrelsi mitt og tjáningarfrelsi,“ segir Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en greint var frá því á dögunum að hann hefði sagt sig úr Dómarafélagi Íslands á síðasta ári. Arnar Þór hefur vakið athygli fyrir greinar sem hann hefur skrifað samhliða dómarastörfum sínum en hann segir að þeim hafi verið svarað með annaðhvort þögn eða þöggunartilburðum. Arnar Þór hefur því eftir nokkra íhugun ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í júní.
Mótandi námsdvöl vestanhafs
Arnar Þór Jónsson fæddist 2. maí 1971 og er því nýorðinn fimmtugur. Hann segir að hann hafi alist upp á heimili þar sem öll blöðin voru keypt, jafnt Þjóðviljinn sem Morgunblaðið, og hann hafi því ávallt fylgst vel með umræðunni. Ein helsta reynslan sem ýtti Arnari á braut lögfræðinnar var þó dvöl hans sem skiptinemi á menntaskólaárum í Bandaríkjunum, en þar kynntist hann m.a. þeirri hugsun sem liggur að baki vestrænni stjórnskipun. „Við lásum mikið um bandarísku stjórnarskrána og tilurð hennar, við lásum Kommúnistaávarpið, vorum í Biblíulestri og lásum Makbeð, Bjólfskviðu o.fl. Þetta var ótrúlega mótandi tími og ég fékk þar mikinn áhuga á pólitískum og lagalegum undirstöðum samfélagsins,“ segir Arnar Þór, en miðaldabókmenntir og saga hafa einnig verið mikil áhugamál hans, og segir hann þann grunn hafa nýst sér mjög vel. Eftir laganám starfaði hann fyrst sem dómarafulltrúi í Héraðsdómi Reykjaness og síðan í dómsmálaráðuneytinu, áður en hann varð aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands. „Það var mjög lærdómsríkur tími, ég starfaði þar með fólki sem ég leit mikið upp til og ber hlýhug til,“ segir Arnar Þór, en hann var fyrst settur héraðsdómari 2004-2005. Þaðan fór hann í bankakerfið. „Ég sá það fljótt að það hentaði mér ekki,“ segir Arnar Þór og ákvað hann þá um haustið 2005 að fara út í lögmennsku. Sem lögmaður rak hann lengst af lögmannsstofu ásamt Ragnari Aðalsteinssyni og fleirum.