Er ekki tími til kominn, að þjóðin endurheimti sjálfstæði sitt?
Haukur Ágústsson skrifar í Mbl.
Alþjóða- og milliríkjasamningar eru töfraorð nútímastjórnmála og -samskipta. Í flestum tilfellum rýra þessir samningar sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt þeirra aðila – þjóða – sem innleiða þá; iðulega svo mjög, að samningarnir eru ekki til lengdar litið hagkvæmir ýmsum þeim, sem að þeim standa. Þetta getur stafað af breytingum, sem gerðar hafa verið og raska upphafsforsemdum þess, að gengist var undir samninginn. Þetta á við um til dæmis EESsamninginn, sem hefur breyst gífurlega frá því að Íslendingar gerðust aðilar að honum. Einnig geta samningar í raun úrelst, eins á við um til dæmis mannréttindasáttmála SÞ og ESB, en þeir voru gerðir um miðja síðustu öld og þá á tímum, sem eru allt aðrir en nú ríkja.
EES-samningurinn
Við gengumst undir ákvæði EES-samningsins árið 1993. Hann var okkur nokkuð hagkvæmur framan af á meðan hann snerist sem næst einungis um viðskipti. En í honum voru – og eru – ákvæði um fullgildingu viðbóta, sem viðsemjandinn, ESB, Evrópusambandið, getur sett á án nokkurs raunverulegs samráðs og sent okkur á hönd til upptöku í íslenska löggjöf. Reyndar er gert ráð fyrir því, að unnt sé að hafna slíkum boðum, en afar lítið, sem næst ekki neitt, er um það, að slíkt sé gert. Viðbæturnar renna í gegnum Alþingi, þar sem þingmennirnir; þeir, sem eiga að vera vörslumenn umbjóðenda sinna, þegna þjóðarinnar, hafa sætt sig við að vera aumlegir stimplarar á vegum erlendra ráðskara, sem leggja á kvaðir og skyldur, sem lítið hafa að gera með íslenska hagsmuni eða íslenskan raunveruleika. Eitt nýjasta og hrapallegasta dæmið er hinir svonefndu „orkupakkar“ númer 1, 2 og 3. Tveir hinir fyrstu runnu í gegn á þess að nokkur teljandi umræða ætti sér stað. Enginn vaknaði á meðal „stimplaranna“. Þeir bara bugtuðu sig og ýttu á já-hnappinn. Loks rumskuðu sumir, þegar kom að pakka 3. Andmælendur héldu uppi andófi og fengu lítt þvegnar skammir fyrir. Skoðanakannanir sýndu, að mikill meirihluti þjóðarinnar var andvígur innleiðingu pakkans. Þrátt fyrir andstæðan vilja umbjóðenda sinna, þegnanna, nýttu stimplararnir meirihluta sinn og hleyptu málinu í gegn sem „ályktun“, sem þurfti ekki undirskrift forseta, sem því hafði ekki tök að meta stöðuna í ljósi þjóðarviljans. Þeir gátu ekki annað, sögðu spekingar stimplaranna. Gátu ekki annað! Víst gátu þeir annað. Þeir gátu sýnt hug og dug. Þeir gátu metið hagkvæmni. Þeir gátu ígrundað það, hvaða erindi orkupakkinn – og orkupakkarnir – ættu inn í íslenskar kringumstæður. Þeir gátu tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir gátu nýtt sér höfnunarákvæðið. En ekkert af þessu gerðu þeir. Þeir „gátu ekki gert annað“ en að beygja sig bljúgir fyrir erlendu valdboði. Það er sannarlega hugumstórt – eða hitt þó heldur!
Lesið áfram….