Arnar Þór Jónsson skrifar í tímaritið Þjóðmál
Á síðustu misserum hefur atburðarás á vettvangi EES og Mannréttindadómstóls Evrópu kallað gjörningaveður yfir íslenskan rétt. Þetta hefur leitt til þess að lögfræðingar virðast margir hverjir hafa tapað áttum og misst sjónar á grunnviðmiðum íslensks réttar um lýðræði, fullveldi, valdtemprun o.fl.
Þegar íslenska ríkið gerðist aðili að EES-samningnum og Mannréttindasáttmála Evrópu voru settir skýrir fyrirvarar af hálfu Íslendinga um neitunarvald að EES-rétti samkvæmt 102. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, og skýrt lagaákvæði þess efnis að úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu væru ekki bindandi að íslenskum landsrétti, sbr. 2. gr. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu.
Á undanförnum árum, einkum 2019 og 2020, hafa mál þróast með þeim hætti að ætla mætti að lagalegir fyrirvarar Íslands við samninga þá sem hér um ræðir hefðu verið settir til hliðar. Samhliða því hefur almennri umræðu verið hagað eins og ekkert sé athugavert við að erlendir embættismenn geti sýnt íslenskum stjórnvöldum ráðríki og farið sínu fram án þess að æðstu stofnanir lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnarskrána nr. 33/1944, fái rönd við reist. Hefur þetta m.a. birst í því að þingheimur hefur í seinni tíð ekki sýnt vilja til að veita tilhlýðilegt viðnám á grundvelli gildandi samnings- og lagaákvæða, þótt Alþingi hafi heldur aldrei formlega vikið frá skýrum forsendum umræddra ákvæða og aldrei samþykkt að veita alþjóðlegum stofnunum vald til að binda hendur íslenskra yfirvalda. Með vísan til þeirra atburða sem hér um ræðir getur hvorki þing né þjóð flotið sofandi að feigðarósi í þessum efnum án þess að bjóða heim raunverulegri hættu á ofríki.
Continue reading “Staða lýðveldis og fullveldis á Íslandi”