Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti.
Eygló Egilsdóttir skrifar í Mbl

Um komandi helgi mun sjálfstæðisfólk ganga til prófkjörs í Suðvesturkjördæmi og velja fólk í forsvar til alþingiskosninga. Þar býður sig fram í 2.-3. sæti Arnar Þór Jónsson. Það má segja að hann sé nýr á vettvangi stjórnmála, en þó kemur framboð hans þeim ekki alfarið á óvart sem þekkja til hans. Undanfarin misseri hefur Arnar látið til sín taka í pólitískri umræðu, svo eftir hefur verið tekið. En hann hefur skrifað greinar og komið fram opinberlega til að fjalla um mál er varða réttindi allra Íslendinga, mál sem eru allt í senn: stór, flókin og umdeild. Málefni eins og þriðja orkupakkann og frelsi og réttindi fólks. Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti. Að mínu mati er það einmitt slíkt fólk sem þarf að velja til forystu nú. Fólk sem þorir að tjá sig umbúðalaust, fólk sem getur hlustað á mótrök og tekið heiðarlega afstöðu í erfiðum málum, þó sú afstaða sé ekki endilega vinsæl akkúrat í dag, en rétt til lengri tíma.








