Ingibjörg H. Sverrisdóttir skrifar í Mbl
Hér á landi búa margar kynslóðir með ýmsar þarfir sem hlúa þarf að með mismunandi hætti. Miklu skiptir við alþingiskosningar í haust, að vel takist til við val á þingmönnum og mikilvægustu hagsmunir og sjónarmið fólksins í landinu eigi sér málsvara á Alþingi. Á það hefur skort að eldra fólk ætti málsvara á Alþingi og sennilega er það þess vegna sem hagsmuna þess hefur ekki verið gætt eins vel og nauðsyn hefur borið til á þeim vettvangi. Eitt er þó víst að aldraðir eiga svo sannarlega inni þann rétt að vel sé hugsað fyrir þeirra þörfum svo þeir geti átt bærilegt ævikvöld. Flest stjórnmálasamtök taka þó undir slagorðið „að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“, en á það hefur verulega skort og að orð og efndir hafi farið saman.
Svívirðileg meðferð á öldruðum
Því miður er það svo að þegar aldraðir missa heilsuna, sem óhjákvæmilegt er fyrr eða síðar, þá skortir verulega á að þjónusta við þá sé í samræmi við þeirra þarfir. Langar biðraðir eru eftir einföldum læknisaðgerðum eins og liðskiptum sem valda viðkomandi hreyfihömlun og miklum þjáningum oft misserum saman. Í sumum tilfellum hefur þeim verið þvælt til útlanda í aðgerð sem unnt er að sinna á einkareknu sjúkrahúsi hér á landi með miklu minni kostnaði og fyrirhöfn, en einhver pólitísk hugmyndafræði er látin bitna á sjúklingunum. Svipaða sögu má segja um margar aðrar einfaldar en mjög lífsbætandi aðgerðir fyrir aldraða eins og t.d. skiptingu á augasteini sem þeir eru ekki taldir verðskulda fyrr en þeir eru orðnir hálfblindir. Þessi meðferð skrifast fyrst og fremst á reikning heilbrigðisráðherrans sem fær stuðning annarra ráðherra í ríkisstjórninni sem nú víkja, en hafa stutt til valda. Stuðningur við veikburða aldraða og hjúkrunarheimili er alveg sér kapítuli.