Hættum að níðast á öldruðum

Ingibjörg H. Sverrisdóttir skrifar í Mbl

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Hér á landi búa margar kynslóðir með ýmsar þarfir sem hlúa þarf að með mismunandi hætti. Miklu skiptir við alþingiskosningar í haust, að vel takist til við val á þingmönnum og mikilvægustu hagsmunir og sjónarmið fólksins í landinu eigi sér málsvara á Alþingi. Á það hefur skort að eldra fólk ætti málsvara á Alþingi og sennilega er það þess vegna sem hagsmuna þess hefur ekki verið gætt eins vel og nauðsyn hefur borið til á þeim vettvangi. Eitt er þó víst að aldraðir eiga svo sannarlega inni þann rétt að vel sé hugsað fyrir þeirra þörfum svo þeir geti átt bærilegt ævikvöld. Flest stjórnmálasamtök taka þó undir slagorðið „að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“, en á það hefur verulega skort og að orð og efndir hafi farið saman.

Svívirðileg meðferð á öldruðum

Því miður er það svo að þegar aldraðir missa heilsuna, sem óhjákvæmilegt er fyrr eða síðar, þá skortir verulega á að þjónusta við þá sé í samræmi við þeirra þarfir. Langar biðraðir eru eftir einföldum læknisaðgerðum eins og liðskiptum sem valda viðkomandi hreyfihömlun og miklum þjáningum oft misserum saman. Í sumum tilfellum hefur þeim verið þvælt til útlanda í aðgerð sem unnt er að sinna á einkareknu sjúkrahúsi hér á landi með miklu minni kostnaði og fyrirhöfn, en einhver pólitísk hugmyndafræði er látin bitna á sjúklingunum. Svipaða sögu má segja um margar aðrar einfaldar en mjög lífsbætandi aðgerðir fyrir aldraða eins og t.d. skiptingu á augasteini sem þeir eru ekki taldir verðskulda fyrr en þeir eru orðnir hálfblindir. Þessi meðferð skrifast fyrst og fremst á reikning heilbrigðisráðherrans sem fær stuðning annarra ráðherra í ríkisstjórninni sem nú víkja, en hafa stutt til valda. Stuðningur við veikburða aldraða og hjúkrunarheimili er alveg sér kapítuli.

Lesa áfram

Flokkur og frambjóðendur

Jón Magnússon skrifar

Jón Magnússon

Ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum knúði á sínum tíma fram breytingar á reglum Flokksins um val á frambjóðendum. Í stað þess að sérvaldar kjörnefndir stilltu upp fólki, áttu flokksmenn og jafnvel allir kost á því að kjósa milli þeirra sem gáfu kost á sér.

Þó hvert kerfi hafi til síns ágætis nokkuð, þá verður öðru hverju að breyta til vegna þess að kerfi hafa tilhneigingu til að staðna. Þannig er það líka með prófkjörin.  Prófkjör gagnast vel þegar kosið er á milli einstaklinga, en síður þegar raða á upp á framboðslista. 

Verkefni kjörnefnda hér áður fyrr var að gæta þess, að fá stjórnmálafólk sem var forustufólk á sínu sviði og naut álits og vinsælda í framboð.

Á þeim tíma mátti jafnan sjá á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík forustufólk í viðskitpalífi, verkalýðshreyfingu og ýmsum félagssamtökum. Á þeim tíma naut  Sjálfstæðisflokkurinn iðulega ríflega 40% fylgis Reykvíkinga.  

Á það hefur skort undanfarna áratugi, að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík bæri gæfu til þess í gegnum prófkjör að fá framboðslista, sem spegla þann vilja að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur allra stétta og í húsi hans séu margar vistarverur eins og Jóhann Hafstein fyrrverandi formaður Flokksins orðaði það svo snilldarlega á sínum tíma einmitt þegar þörf var á.

Lesa meira

Aðhalds er þörf á þingi

Bjarni Jónsson skrifar

Persónukjör:

Bjarni Jónsson

Talsverð spurn hefur verið eftir því hérlendis, að kjósendur fengju í hendurnar raunhæfa möguleika á því að velja, hverjir setjast á þing fyrir stjórnmálaflokkana.  Þessi þörf kemur aðallega fram hjá kjósendum, sem búa við hlutfallskosningar, eins og t.d. Íslendingar og Þjóðverjar, en þýzku kosningareglurnar veita kjósendum þar möguleika á að kjósa bæði flokk og einstakling á þing.  Hérlendis hafa sumir stjórnmálaflokkanna komið til móts við kjósendur að þessu leyti með því að halda prófkjör, í seinni tíð bundin við þátttöku eigin flokksmanna.  Sjálfstæðisflokkurinn gengur fram með skýrustum hætti allra flokkanna á þessu vori vegna Alþingiskosninganna haustið 2021, því að hann býður flokksmönnum sínum að velja frambjóðendur í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi landsins.  Þar með valdeflast flokksmenn, og þeir verða lýðræðislega virkari en þeir, sem ekki njóta þessara réttinda. Ætla má, að kjósendum falli þessi lýðræðislega aðferð betur í geð en óskýr aðferðarfræði „flokkseigenda“ fyrir luktum dyrum. 

Lýðræðið:

Arnar Þór Jónsson, dómari, (AÞJ), hefur manna ötullegast gengið fram á undanförnum árum við að sýna okkur fram á útþynningu lýðræðisins á Íslandi vegna minnkandi áhrifa kjörinna fulltrúa almennings á mótun laganna.  Þetta stafar sumpart af lagafrumvörpum, sem í auknum mæli berast þingmönnum misvönduð frá ráðuneytunum, en verstur er þó flaumur tilskipana og reglugerða, sem stafar frá embættismönnum Evrópusambandsins, ESB, og samþykktar hafa verið af EFTA-ríkjunum þremur (EFTA-Fríverzlunarsamtök Evrópu), sem sæti eiga með fulltrúum ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni (EES-Evrópska efnahagssvæði ESB og EFTA utan Svisslands). 

Alþingi samþykkti EES-samninginn 1993, og hann gekk í gildi 1. janúar 1994.  Þar með tók s.k. fjórfrelsi Innri markaðar ESB með öllu sínu viðamikla regluverki gildi á Íslandi, þ.e. frjálst flæði vöru (þó ekki með algeru tollfrelsi fiskafurða), þjónustu, fólks og fjármagns.  Viðsemjandi EFTA-landanna, sem þá voru fleiri en nú, var í raun Efnahagsbandalag Evrópu (European Economic Community), en arftakinn, Evrópusambandið (European Union) hefur fengið sitt stjórnarskrárígildi (Lissabon-sáttmálann), aukin völd frá aðildarlöndunum og margar nýjar stofnanir undir stjórn Framkvæmdastjórnarinnar.  Um er að ræða ríkjasamband, sem virðist stefna á að verða Sambandsríki. 

Framkvæmdastjórn ESB ákveður, hvað af lagasetningum og reglum ESB, sem hún metur, að varði samræmingu ríkjanna, svo að Innri markaðurinn virki hnökralaust, hún leggur fyrir EFTA.  EFTA-ríkin móta síðan sameiginlega afstöðu, og ef þau telja sig ekki geta orðið við ósk ESB um innleiðingu, þá fer málið ekki fyrir Sameiginlegu EES-nefndina til afgreiðslu. Fáein dæmi eru um það vegna andstöðu norskra stjórnvalda og Stórþingsins.

Lesa áfram

Fyrst Brexit…svo Swexit?

Tengsl Sviss og ESB hafa trosnað

Úr leiðara Mbl 31. maí 2021

Sviss hefur óvenjulega stöðu í heiminum og hefur með ýmsu móti tekist að halda sér hlutlausu og friðsælu – og allvel vopnuðu – á meðan nágrannaþjóðirnar hafa borist á banaspjót. Sviss hefur þess vegna verið talið ákjósanlegur vettvangur margvíslegrar alþjóðlegrar samvinnu og samskipta. Nýleg tilkynning um fund Bidens og Pútíns í Sviss ber þessu vitni. Þessi staða Sviss og saga landsins á eflaust sinn þátt í að skýra óvenjulega stöðu þess gagnvart Evrópusambandinu. Staðan er ekki síst óvenjuleg þegar haft er í huga að Sviss er umlukið ríkjum Evrópusambandsins, fyrir utan að vísu stutt landamæri við EFTA-ríkið Liechtenstein, en það ágæta furstadæmi er mjög háð Sviss svo að þau landamæri eru ekki að öllu leyti greinileg. Líkt og Liechtenstein, Noregur og Íslands er Sviss í EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, en ólíkt hinum ríkjunum þremur hafnaði Sviss því á sínum tíma, árið 1992, að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Mjótt var á munum en það dugði til og varð einnig til þess að umsókn um aðild að ESB, sem ríkisstjórn Sviss hafði áður lagt inn, fór ofan í skúffu í Brussel. Þar lá hún lengi vel, eða allt þar til ákveðið var árið 2016 að draga hana til baka. Sú ákvörðun Sviss að draga umsóknina til baka eftir að hún hafði legið afskiptalaus í skúffu í nær aldarfjórðung sýnir vitaskuld að slík umsókn hefur þýðingu, líka sú sem liggur í skúffu. Af þessu mættu íslenskir stjórnmálamenn draga lærdóm. En það er fleira forvitnilegt í samskiptum Sviss og Evrópusambandsins.

Lesa áfram

Frelsum aldraða frá fátækt!

Tryggjum öldruðum mannsæmandi lífskjör í samræmi við nútímann
og frelsi til að bæta hag sinn.

Ingibjörg H. Sverrisdóttir skrifar í Mbl

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Ég býð mig fram til 4. sætis á framboðslista í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer 4. og 5. júní. Þetta geri ég af knýjandi nauðsyn. Mér finnst eins og svo mörgum öðrum að núverandi ríkisstjórn og Alþingi hafi hvorki skilning á aðstæðum eldra fólks né vilja til að bæta þær. Stór hópur eldra fólks í þessu landi er látinn búa við kröpp kjör. Það er sama hvaða gögnum er framvísað og rökum beitt til að benda á óréttlætið, öllum óskum um leiðréttingu hefur verið hafnað. Núverandi kjörtímabili er að ljúka og þrátt fyrir fjölmarga bænarfundi og fundarsetur undanfarin fjögur ár er tímabilinu að ljúka án þess að fráfarandi ríkisstjórn sýni nokkurn vilja til að rétta hlut þess hóps aldraðra sem verst er settur.

Aldraðir í efnahagslegri spennitreyju

Eldra fólk er fjölmennur hópur í samfélaginu. Í upphafi árs 2021 voru tæplega 47 þúsund manns 67 ára og eldri og um 75 þúsund voru 60 ára og eldri. Það búa ekki allir við sömu kjör. Sumir, sérstaklega þeir sem áður voru tekjuháir, hafa það alveg ágætt og þurfa ekki að kvarta. Þorri aldraðra býr hins vegar við kröpp kjör og miklar skerðingar og er verulega ósáttur við sitt hlutskipti. Þetta fólk hefur hörðum höndum skapað þau lífskjör í landinu sem við nú búum við.

Lesa áfram

Kosningabaráttan nálgast

Tveir stjórn­ar­menn í full­veld­is­fé­lag­inu eru í fram­boði í próf­kjöri flokks­ins í Reykja­vík, þau Ingi­björg Sverr­is­dótt­ir og Birg­ir Örn Stein­gríms­son, og Arn­ar Þór Jóns­son héraðsdóm­ari, sem vakið hef­ur mikla at­hygli fyr­ir grein­ar sín­ar hér í blaðinu, í Suðvest­ur­kjör­dæmi. Aðild þeirra þriggja að þing­flokkn­um mundi gjör­breyta stöðunni þar.

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Meðal kjós­enda er und­ir­liggj­andi gremja vegna óaf­greiddra mála.

Nú fer að stytt­ast í að kosn­inga­bar­átt­an hefj­ist af full­um krafti. Í dag hefjast fyrstu próf­kjör Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi og Norðaust­ur­kjör­dæmi og í fram­hald­inu í öðrum kjör­dæm­um. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er bú­inn að kynna fram­boðslista sína í Reykja­vík­ur­kjör­dæmun­um og aðrir flokk­ar eru komn­ir vel á veg.

Það verður ekki annað sagt en að nú­ver­andi stjórn­ar­sam­starf hafi reynzt vel og mörg­um finnst æski­leg­ast að það haldi áfram. Eins og við mátti bú­ast hef­ur þátt­taka VG verið um­deild á vinstri kant­in­um en Katrín Jak­obs­dótt­ir orðið afar vin­sæl sem for­sæt­is­ráðherra, sem skap­ar flokki henn­ar góða víg­stöðu í kosn­ing­un­um.

Inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins er vilji til að þessu sam­starfi verði haldið áfram. Það hjálp­ar hins veg­ar ekki til andstaða inn­an þing­flokks­ins við há­lend­isþjóðgarð og nei­kvæður tónn í garð Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra af því að hún hef­ur aðra af­stöðu til heil­brigðismála en þing­menn­irn­ir í þeim þing­flokki.

Allt á þetta eft­ir að skýr­ast í kosn­inga­bar­átt­unni en óráðlegt fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að ganga út frá því sem vísu að Fram­sókn og VG vilji halda sam­starf­inu áfram.

Lesa áfram

Aukið heilbrigði eða ríkisstyrkir

Það er sannfæring okkar félaga að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins

Óli Björn Kárason skrifar í Mbl

Óli Björn Kárason

Þegar þessi orð eru sett niður á blað er rúm klukkustund í að atkvæðagreiðslur hefjist í þingsal um nokkur frumvörp ríkisstjórnarinnar. Gangi allt eins og lagt er upp með verða fimm frumvörp orðin að lögum um það leyti sem margir fá sér síðdegiskaffi. Fæst hafa áhrif á daglegt líf okkar, en geta skipt máli til lengri eða skemmri tíma. Ég óttast hins vegar að eitt frumvarpið ýti samfélaginu inn á hættulegar brautir. Lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum er ætlað að stuðla að auknu heilbrigði fjármálamarkaða, efla fjárfestavernd og traust fjárfesta á fjármálamörkuðum. Framhaldi ferðagjafar er ætlað að vinna gegn neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið með breytingum á lögum um fiskeldi er að stuðla að betri nýtingu fjarða og hafsvæða til fiskeldis. Með breytingu á bráðabirgðaákvæði í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er framlengd heimild til að semja um rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir vegna þeirra starfsmanna sem veita þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Fimmta frumvarpið sem verður að lögum er beinn stuðningur ríkisins við starfsemi einkarekinna fjölmiðla. Með samþykkt þess er stigið fyrsta skrefið í að gera sjálfstæða fjölmiðla fjárhagslega háða ríkisvaldinu. Í stað þess að ráðast að rót vandans – sem er forréttindi ríkisrekinnar fjölmiðlunar – er leið ríkisstyrkja valin.

Fátt hættulegra

Ég hef lengi varað við að innleitt verði flókið kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Í júní 2018 skrifaði ég meðal annars: „Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera sem skammta úr hnefa fjármuni til að standa undir einstökum þáttum í rekstrinum. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði.“ Engum ætti því að koma á óvart að ég geti ekki stutt stjórnarfrumvarp um stuðning við fjölmiðla, jafnvel þótt meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi gert skynsamlegar breytingar á frumvarpinu. Þar skiptir mestu að stuðningurinn verður tímabundinn. Með samþykkt frumvarpsins eru þingmenn ekki að plægja jarðveginn fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla sem tryggir að réttar upplýsingar séu dregnar fram, að ólík sjónarmið fái að heyrast og nauðsynlegt aðhald sé að helstu stofnunum samfélagsins

Lesa meira

Evrópukratismi

Jónas Elíasson skrifar:

Jónas Elíasson

ESB er afsprengi evrópukratismans. Hann er undarlegt fyrirbrigði, ættaður frá Robert Schuman, sem var mjög þekktur ráðherra í nokkrum þekktum ríkisstjórnum Frakklands 1940 – 1953. Hann fékk þá hugljómun um 1940 að Evrópa skyldi halda frið með því að sameinast um að setja þungaiðnaðinn undir yfirþjóðlega stjórn innan sameiginlegra ytri tollamúra. Eftir heimstyrjöldina voru menn opnari fyrir þessum boðskap og Schuman kom því til leiðar að og Kola- og stálbandalagið var stofnar 1951. Það varð svo að EBE, síðan EB og síðast ESB.

Schuman var reyndar ekki krati í okkar skilningi, hans flokkur var Kristilegir Demókratar. En bæði þeir og sósíaldemókratar tóku boðskapnum fagnandi svo í dag er Evrópubandalagið trúaratriði hjá sósíaldemókrötum allrar Evrópu. Þangað vilja þeir fara og þar vilja þeir bera beinin. Þetta er evrópukratismi.

Lesa áfram

Ferskur vorblær í stjórnmálunum

Bjarni Jónsson skrifar :

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori.  Þetta er mikið fagnaðarefni þeim, sem sakna umræðna og afstöðu til grundvallar stjórnmálanna, einstaklingsfrelsis, hlutverks ríkisins og síðast, en ekki sízt, stöðu Íslands á meðal þjóðanna. 

Bjarni Jónsson

Áhugi á meðal almennings í þessa veru er ekki einsdæmi á Íslandi.  Hann er t.d. ríkur í Noregi, þar sem mikil umræða á sér stað um afstöðu Noregs til Evrópusambandsins (ESB), en eins og gildir um Ísland og Liechtenstein, fara samskipti Noregs við ESB í höfuðdráttum fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í Noregi og á Íslandi eru efasemdir á meðal leikra og lærðra, þ.e. löglærðra og hinna, um það, hvort innleiðing sumra gerða (tilskipana og reglugerða), þar sem framsal ríkisvalds til stofnana ESB á sér stað, brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna eða ekki.  Er deila um réttmæti afgreiðslu 3. orkupakka ESB (OP3) í Stórþinginu nú til úrlausnar í dómskerfi Noregs. 

Lesa áfram