Undirlægjuháttur

Er ekki tími til kominn, að þjóðin endurheimti sjálfstæði sitt?

Haukur Ágústsson skrifar í Mbl.

Haukur Ágústsson

Alþjóða- og milliríkjasamningar eru töfraorð nútímastjórnmála og -samskipta. Í flestum tilfellum rýra þessir samningar sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt þeirra aðila – þjóða – sem innleiða þá; iðulega svo mjög, að samningarnir eru ekki til lengdar litið hagkvæmir ýmsum þeim, sem að þeim standa. Þetta getur stafað af breytingum, sem gerðar hafa verið og raska upphafsforsemdum þess, að gengist var undir samninginn. Þetta á við um til dæmis EESsamninginn, sem hefur breyst gífurlega frá því að Íslendingar gerðust aðilar að honum. Einnig geta samningar í raun úrelst, eins á við um til dæmis mannréttindasáttmála SÞ og ESB, en þeir voru gerðir um miðja síðustu öld og þá á tímum, sem eru allt aðrir en nú ríkja.

EES-samningurinn

Við gengumst undir ákvæði EES-samningsins árið 1993. Hann var okkur nokkuð hagkvæmur framan af á meðan hann snerist sem næst einungis um viðskipti. En í honum voru – og eru – ákvæði um fullgildingu viðbóta, sem viðsemjandinn, ESB, Evrópusambandið, getur sett á án nokkurs raunverulegs samráðs og sent okkur á hönd til upptöku í íslenska löggjöf. Reyndar er gert ráð fyrir því, að unnt sé að hafna slíkum boðum, en afar lítið, sem næst ekki neitt, er um það, að slíkt sé gert. Viðbæturnar renna í gegnum Alþingi, þar sem þingmennirnir; þeir, sem eiga að vera vörslumenn umbjóðenda sinna, þegna þjóðarinnar, hafa sætt sig við að vera aumlegir stimplarar á vegum erlendra ráðskara, sem leggja á kvaðir og skyldur, sem lítið hafa að gera með íslenska hagsmuni eða íslenskan raunveruleika. Eitt nýjasta og hrapallegasta dæmið er hinir svonefndu „orkupakkar“ númer 1, 2 og 3. Tveir hinir fyrstu runnu í gegn á þess að nokkur teljandi umræða ætti sér stað. Enginn vaknaði á meðal „stimplaranna“. Þeir bara bugtuðu sig og ýttu á já-hnappinn. Loks rumskuðu sumir, þegar kom að pakka 3. Andmælendur héldu uppi andófi og fengu lítt þvegnar skammir fyrir. Skoðanakannanir sýndu, að mikill meirihluti þjóðarinnar var andvígur innleiðingu pakkans. Þrátt fyrir andstæðan vilja umbjóðenda sinna, þegnanna, nýttu stimplararnir meirihluta sinn og hleyptu málinu í gegn sem „ályktun“, sem þurfti ekki undirskrift forseta, sem því hafði ekki tök að meta stöðuna í ljósi þjóðarviljans. Þeir gátu ekki annað, sögðu spekingar stimplaranna. Gátu ekki annað! Víst gátu þeir annað. Þeir gátu sýnt hug og dug. Þeir gátu metið hagkvæmni. Þeir gátu ígrundað það, hvaða erindi orkupakkinn – og orkupakkarnir – ættu inn í íslenskar kringumstæður. Þeir gátu tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir gátu nýtt sér höfnunarákvæðið. En ekkert af þessu gerðu þeir. Þeir „gátu ekki gert annað“ en að beygja sig bljúgir fyrir erlendu valdboði. Það er sannarlega hugumstórt – eða hitt þó heldur!

Lesið áfram….

Ímyndarvandi Sjálfstæðisflokks

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl:

Í kosningunum í haust þarf að kveða niður boðskap ESB-sinna sem vilja í raun gera Ísland að litlum áhrifalausum hreppi í Evrópu.

This image has an empty alt attribute; its file name is Styrmir.jpg

Í þá góðu gömlu daga töldum við Heimdellingar okkur vita að leiðtogi okkar, Bjarni heitinn Benediktsson, teldi að þýðing Morgunblaðsins fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri aðallega sú að blaðið hefði svo mikil áhrif á andrúmsloftið í samfélaginu. Jafnframt töldum við okkur vita hver mælistika hans væri á það andrúmsloft – þ.e. hve margir tækju ofan fyrir honum þegar hann gengi úr stjórnarráðshúsinu yfir í Alþingi. Þótt margt hafi breytzt og lítið sé um hatta, sem teknir eru ofan fyrir ráðamönnum á förnum vegi, er það þó góð aðferð að hlusta eftir því hvernig fólk talar til að átta sig á hvernig landið liggur í pólitíkinni og taka mark á því. Og sé það gert á Sjálfstæðisflokkurinn við ímyndarvanda að stríða.

Það er mjög útbreidd skoðun að fiskveiðikvótinn hafi leitt til stórvaxandi ójöfnuðar og Sjálfstæðisflokknum kennt um. Hann er talinn helzta vígi margvíslegra sérhagsmuna. Það er alrangt en því er aldrei mótmælt af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Veruleikinn er sá, að framsal kvótans var gefið frjálst af vinstristjórn Framsóknar, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags án þess að taka upp auðlindagjald um leið. Þetta var sennilega mesti tilflutningur eigna á Íslandi frá siðaskiptum. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki séð ástæðu til að leiðrétta þennan misskilning. Fleiri vísbendingar eru um erfiða stöðu Sjálfstæðisflokks í aðdraganda kosninga.

Lesið áfram

Frelsi og sjálfsábyrgð íslenskrar þjóðar

Sem sjálfstæð þjóð stöndum við nú veikum fótum. Ef svo heldur fram sem horfir er alls ekki víst að frjálslynd lýðræðishefð haldi hér velli.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl.

Arnar Þór Jónsson

Saga mannkyns sýnir að frelsið er dýrmætt og lýðræðið viðkvæmt. Dæmin sanna einnig að ótemprað vald er ógn við hvort tveggja. Stjórnarskrá okkar geymir mikilvæg ákvæði um temprun ríkisvaldsins. En hvaða varnir hefur íslensk þjóð gagnvart erlendu valdi þegar það seilist til áhrifa hérlendis og kallar eftir yfirráðum sem stjórnarskráin ætlar íslenskum yfirvöldum einum? Á síðustu árum hafa ytri og innri mál lýðveldisins þróast með þeim hætti að ekki verður lengur undan litið. Dynjandi óveðursskýin ættu nú að vera greinileg öllum þeim sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra.

Bönd lýðræðisins trosna

Tengslarofið milli almennings og valdhafa birtist í ýmsum myndum og skulu hér nefnd nokkur dæmi:

1. ESB hefur í framkvæmd tekið yfir hluta af valdsviði Alþingis með þeim hætti að aragrúi reglna streymir nú í gegnum þjóðþing Íslendinga á ári hverju án efnislegrar aðkomu, endurskoðunar eða breytinga af hálfu íslenskra þingmanna. Evrópureglur þessar hljóta lagagildi hér á landi án þess að fá hér lögformlega rétta meðferð í samræmi við stjórnarskrá og þingsköp. Í stað þriggja umræðna á Alþingi hljóta reglur þessar afgreiðslu sem þingsályktanir. Þetta er vafalaust þægilegra fyrir ESB, en hvað með íslenska þjóðarhagsmuni? Má una við það að þingsályktun sé veitt sama gildi og lögum sem hlotið hafa þinglega og stjórnskipulega rétta meðferð? Er ásættanlegt fyrir þjóð sem kallast vill sjálfstæð að við getum breytt öllum lögum sem eru í gildi hérlendis, nema þeim sem eiga stoð í EES-samningnum, vegna þess að við höfum engan aðgang að því valdi sem setur reglur á grundvelli EES?

2. Með innleiðingarferlinu hefur embætti forseta lýðveldisins verið gengisfellt, því framangreind „skemmri skírn“ rýrir ekki aðeins stjórnskipulega stöðu Alþingis heldur gerir synjunarvald forsetans óvirkt. Báðar þessar staðreyndir veikja þá lýðræðisvörn sem Alþingi og forseta er ætlað að veita almennum borgurum hér á landi samkvæmt stjórnarskrá.

Lesið áfram..

Útgangspunktar og forsendur til íhugunar

Lýðræðið grundvallast á því að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Lýðræðisbarátta – og sjálfstæðisbarátta – okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóða gagnvart ásælni erlends valds. Þetta verkefni snýst um að verja grunnstoðir velsældar og almannahags.  

Arnar Þór Jónsson hrl.

Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun. Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð.

Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem við á og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða.

ESB byggist ekki á grunni hefðbundins þjóðréttarlegs samstarfs, heldur gefur sig út fyrir að vera „sérstaks eðlis“ (sui generis). Reynslan hefur sýnt að smáþjóðir hafa þar lítil sem engin áhrif.

Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenska lýðveldisins.

Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi sem þeim hefur verið falið, ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar.

Allt vald þarf að tempra, embættisvaldið ekki síst.

Virða ber sérhvern mann og meta út frá orðum hans og athöfnum, en ekki á grundvelli útlitseinkenna, kynferðis, kynhneigðar o.fl.

„Merkimiðastjórnmál“ (e. identity politics) bjóða þeirri hættu heim að menn taki sér siðferðilegt vald yfir öðrum, brennimerki fólk eins og sauðfé, útiloki og dragi menn í dilka sem „seka“ og „saklausa“, þar sem sérvöldum einkennum er beitt til alhæfinga, ásakana og sakfellinga. (Saga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að varast fólk sem talar á síðastnefndum forsendum).

Lýðræðið grundvallast á því að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi.

Lýðræðið hvílir á þeirri forsendu að við verjum klassískt frjálslyndi, sem viðurkennir málfrelsi, fundafrelsi og frelsi til skoðanaskipta, þ.m.t. frelsi okkar og getu til að skipta um skoðanir.

Klassískt frjálslyndi ber að verja gagnvart ógn gervifrjálslyndis, sem misvirðir grundvöll vestræns lýðræðis. Gervifrjálslyndi virðir ekki einstaklinginn, heldur einblínir á hópa og ýtir þannig undir hjarðhegðun. Gervifrjálslyndi treystir ekki dómgreind einstaklingsins en vill að sérvalinn hópur stjórni, ritskoði og hafi eftirlit.

Klassískt frjálslyndi byggist á því að menn njóti frelsis en séu um leið kallaðir til ábyrgðar. Það byggir á því að menn hugsi sjálfstætt en láti ekki aðra hugsa fyrir sig – ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði.

Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi.

Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum.

Við eigum að virða – ekki misvirða – lýðræðislegan grunn íslenskra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi.

Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum sem að framan eru nefndar. Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa.

Ef menn vilja veikja þær stoðir sjálfstæðis sem persónufrelsið, stjórnarskráin, almenn lög og aðild Íslands að alþjóðasáttmálum hvíla á er lágmarkskrafa að slíkt fari fram fyrir opnum tjöldum, en ekki í bakherbergjum.  

Meðan við viljum vera sjálfstæð þjóð verðum við að axla ábyrgð á eigin hagsmunum, tilveru okkar og frelsi.

Höfundur er héraðsdómari

Útvatnað heilbrigðiskerfi fyrir alla

Eini stöðugleikinn í þjóðfélaginu er stöðugur ótti hinna óttaslegnu

Loftur skrifar:

Hver er stefna ráðuneytisins?

Ein fyrsta og um leið einfaldasta efnafræðitilraunin sem nemendur í skólum landsins gera er að hella saman sýru og basa svo úr verður vatn. Vatnið er nauðsynlegt öllu lífi og er merkilegt fyrirbæri þar sem það getur leikið tveimur skjöldum og verkað bæði sem sýra og basi, er svokallaður „amfóter“. Vegna eiginleika sinna er vatnið gott þynningarefni því það er í eðli sínu mjög óstöðugt. Gæta þarf þó þess að ofnota það ekki t.d. við blöndun eðaldrykkja því þá verður til þunnt vatnsgutl. Það sama gildir um liti regnbogans; því fleiri fallegum litum sem hrúgað er saman, því óhrjálegri verður útkoman.

Í ríkisstjórn Íslands sitja nú þingmenn þriggja stjórnmálaflokka, sem kosnir voru til setu á Alþingi af fólki með ólíkar skoðanir, sumar basískar og bláar, aðrar súrar og rauðar og sumar skoðanalausar og grænar. Þegar öllu þessu er hrært saman verður útkoman hlutlaus vatnsþunn litahræra, sem er óðum að gufa upp. Eftir situr salt leðjubotnfall, sem borið er á borð fyrir kjósendur einkum þá sem veikir eru fyrir og ná ekki að forða sér. Ólík sjónarmið eru orðin að leiðinlegu miðjumoði og flest skynsamleg markmið hafa gufað upp og horfið sjónum, helför undir gunnfána „stöðugleika“ ræður förinni. En hvert er ferðinni heitið? Varla á vel búnar en mannlausar heilsugæslustöðvar úti á landi, varla á bráðadeild Landspítalans, varla á einkareknar skurðstofur sem geta m.a. framkvæmt ódýrar augn- og bæklunaraðgerðir. Á þessum stöðvum er ekkert að gerast.

Það sem ekki er gufað upp úr stefnuskrá stjórnarflokkanna er nú botnfrosið. Starfsmenn heilbrigðiskerfisins berjast um í ískaldri, þykkri botnleðjunni, sem dregur úr þeim allan þrótt og starfsvilja. Húsnæðisvandamál Landsspítalans mætti leysa með nýju sjúkrahúsi á nýjum stað undir nýrri stjórn ásamt því að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er nú bannorð í anda VG. Sjúklingar eru nú sendir í skurðaðgerðir á erlend sjúkrahús, sum reyndar einkarekin í nafni „stöðugleika“ þótt það óskiljanlega gerræði æri óstöðugan og sé margfalt dýrara og mun óhagkvæmara fyrir alla aðila ekki síst þá sjúku.  Varla samrýmist það stefnuskrá XD og varla eykur það á „stöðugleikann“ í þjóðfélaginu.  Hinir efnameiri þurfa þó ekki að fara lengra en í Ármúlann til að fá nýjan mjaðmalið eða nýtt hné. Hér á landi hefur því myndast tvöfalt heilbrigðiskerfi, „ameríska kerfið“. Varla samrýmist það stefnuskrá VG?

Lyfjamál landsmanna eru og hafa lengi verð í algjörum ólestri vegna skorts á yfirsýn, lélegrar stjórnunar og úrræðaleysis ráðamanna. í stefnuskrá VG segir orðrétt: „Lækka þarf lyfjakostnað með hagkvæmari innkaupum, hindra einokun og samþjöppun á lyfjamarkaði og kanna möguleika á því að setja aftur á stofn lyfjaframleiðslu á vegum hins opinbera.“  Já, sæll! Við bíðum spennt. Sjálfstæð hugsun nær ekki inn fyrir veggi heilbrigðisráðuneytisins. Þar er „stefna ráðuneytisins“ varðandi lyfjamál og bólusetningar að vera taglhnýtingur ESB með öllum þeim hörmungum sem nú dynja yfir landslýðinn með tilheyrandi áhrifum á þjóðarbúið og geðheilsu landsmanna.

Continue reading “Útvatnað heilbrigðiskerfi fyrir alla”

Geldingadalir tækifæri nýrra starfa á Suðurnesjum

Af hverju ekki að nýta krafta þessa fólks til eftirlits og aðstoðar ferðafólki á gosstöðvunum í Geldingadölum?

Ásmundur Friðriksson skrifar í Mbl:

Ásmundur Friðriksson

Allt útlit er fyrir að gosið í Geldingadölum standi yfir í lengri tíma. Bráðaaðgerðir viðbragðsaðila hafa verið vel skipulagðar og lögregla og björgunarfólk staðið sig frábærlega. Ef væntingar jarðfræðinga rætast gæti gosið í Geldingadölum staðið mánuðum, jafnvel árum saman. Ef það verður raunveruleikinn þarf að gera framtíðaráætlanir um gæslu á svæðinu. Ekki er hægt að láta sjálfboðaliða sem skipa björgunarsveitirnar standa vakt á svæðinu vikum og mánuðum saman. Fólk sem flest er bundið sínum atvinnurekendum og þarf að mæta til starfa, en nýtur velvildar á neyðarstund. Sú góða hugmynd að allir sem ganga á svæðið láti 1.000 kr. rakna til björgunarsveitanna ætti að vera öllum létt í hendi. Það sama gildir um lögregluna sem er bæði fáliðuð og verkefnin þar á bæ hverfa ekki. Þau kalla á allt lögregluliðið til að sinna daglegum skyldum við samfélagið en aðrir sjái um gossvæðið.

Tækifæri fyrir reynslumikið fólk

Á Suðurnesjum er mesta atvinnuleysi á landinu og margt þaulreynt fólk sem sinnt hefur eftirlits- og skoðunarstörfum á Keflavíkurflugvelli. Unnið við að leiðbeina fólki við komuna til landsins og er því þjálfað í að sinna og leiðbeina fólki. Flest af því talar fleira en eitt tungumál. Af hverju ekki að nýta krafta þessa fólks til eftirlits og aðstoðar ferðafólki á gosstöðvunum í Geldingadölum? Skipulag og stjórnun eftirlitsstarfsins getur að sönnu verið hjá lögreglu og viðbragðsaðilum en störfin sem þarf að sinna og krefjast viðveru gætu komið frá fólki sem hefur beðið eftir því að losna af atvinnuleysisskrá.

Continue reading “Geldingadalir tækifæri nýrra starfa á Suðurnesjum”

Íslensk ráðstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn verður að standa undir nafni, annars er ekki hægt að kjósa hann

Guðjón Smári Agnarsson skrifar í MBL:

Guðjón Smári Agnarsson

Það hefur verið vægast sagt undarlegt að fylgjast með aðgerðum flokksins sem ég byrjaði að kjósa rúmlega tvítugur og hélt því áfram fram að bankahruni með þeim undantekningum þó, að ég skilaði auðu þegar mér fannst líklegt að framsóknarmaðurinn í öðru sæti á lista sjálfstæðismanna í Austurlandskjördæmi kæmist inn með mínu atkvæði. Ég er að tala um aðgerðir flokksins í kreppunni sem Kínaveiran Covid-19 hefur valdið, óhemjumikla skuldsetningu ríkissjóðs og ótrúlegar takmarkanir á atvinnufrelsi fólks, umskipti á afstöðu flokksins gagnvart því að orkumál skuli vera utan við áhrifavald Evrópusambandsins en það var ein aðalforsenda þess að margir flokksmenn sættust á aðild að EES og loks það hvernig reyndum þingmönnum er haldið frá ráðherraembættum og þeim hreinlega ýtt út í horn og óreyndir þingmenn með ókunnar skoðanir eru hafnir til valda.

Continue reading “Íslensk ráðstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn”

Fullveldi Íslands og staðan í heilbrigðismálunum

Eigum við alfarið að framkvæma skurðaðgerðir í ESB-löndum?

Loftur skrifar:

Biðin eftir aðgerð lengis enn

Mikil og almenn umræða fer nú fram meðal Sjálfstæðismanna um fullveldismál. Er það ekki að ástæðulausu. Stefna flokksins er og hefur ávallt verið sjálfstæði og fullveldi handa Íslendingum. Því miður virðist þessi grundvallarhugsun ekki hafa náð til þeirra sem nú eru í forystusveit flokksins.

Þvert á stefnu flokksins og samþykktir Landsfunda er fullveldi landsins framselt til yfirþjóðlegs valds og sér ekki fyrir endann á þeim gjörningum. Innleiðing orkupakka ESB er gott dæmi um þetta.

Flokkurinn leggur nú blessun sína yfir miðstýringu og í raun hreinan kommúnisma hjá samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn sem fer með Heilbrigðisráðuneytið þvert á stefnu flokksins og þvert á alla heilbrigða skynsemi. Einkarekstur og einkaframtak í heilbrigðisgeiranum er því í útrýmingarhættu. Í stað þess að stytta biðlista fyrir bæklunaraðgerðir eru sjúklingar og fylgdarmenn sjúklinga sendir til útlanda (til ESB-lands að sjálfsögðu) þar sem kostnaðurinn við hverja aðgerð er tvöfaldur á við það sem er hér á landi!
Hér er hvorki staður né stund til að minnast á ruglið í Reykjavík þar sem yfirlýst stefna meirihlutans er að útrýma fjölskyldubílnum og eyða milljörðum í löngu úrelta Borgarlínu.  

Mál er að linni!

  • Hvaða stefnumál ætla sjálfstæðismenn að setja á oddinn í næstu kosningum?
  • Hvaða kosningaloforð ætla Sjálfstæðismenn að standa við eftir næstu kosningar?
  • Hvernig ætla menn að réttlæta meðferð fullveldisins gagnvart Sjálfstæðismönnum á næsta Landsfundi?

Kallað er eftir frambjóðendum Sjálfstæðismanna í öllum kjördæmum sem eru reiðubúnir að framfylgja grundvallarstefnu flokksins í fullveldismálum.

Skemmtilegt og fróðlegt viðtal við þingmann

Öfundaður fyrir dugnaðinn

Þann 27. mars 2021 birtist í Mbl afar fróðlegt og skemmtilegt viðtal við Ásmund Friðriksson þingmann, sem er nú genginn að fullu til liðs við Félag Sjálfstæðismanna um Fullveldismál (FSUF)þar sem hann situr í stjórn félagsins. Ási er einn af okkar ötulustu þingmönnum, dugmikill, kjarkaður og með afar sjálfstæðar skoðanir ekki síst varðandi í fullveldismál íslensku þjóðarinnar. Hann hefur verið gagnrýndur af öfundarmönnum sínum í öllum flokkum fyrir það eitt að vera duglegastur allra þingmanna í að heimsækja kjósendur sína. Hann tekur því að sjálfsögðu sem verðskulduðu hrósi. Hann hefur fluttt búferlum oftar en margir gera á lífsleiðinni og bíður nú eftir að

Í viðtalinu í Mbl segir hann m.a:

„Við hjónin höfum þurft að takast á við margskonar og fjölbreytilegar uppákomur í lífinu. Ein þeirra hefur verið sú að við höfum flutt alveg margoft. Mér hefur aldrei þótt það vera vandamál heldur lít ég svo á að þetta hafi verið dýrmæt reynsla en eitt af því sem ég get þakkað fyrir er hvað við höfum alltaf átt góða nágranna. Við höfum aldrei nokkurn tíma lent í neinum uppákomum hvað það varðar. Þegar við flytjum inn á nýjan stað þá erum við alltaf fljót að láta nágranna hafa aukalykla, enda vil ég meina að það sé fyrir öllu að byrja á því að treysta nágrönnum sínum.“

„Við bíðum ekki lengi með að bjóða fólki í grillpartí eða mat, en núna hefur Covid-faraldurinn auðvitað komið í veg fyrir að við gætum gert það hér á nýja staðnum. Ég hlakka til þegar af verður því hér býr alls konar fólk á öllum aldri og það er alltaf líf og fjör.“

Að lokum spurði Margrét Hugrún blaðamaður Ásmund hvort hann hafi upplifað einhverja sérstaka beina eða óbeina gagnrýni fyrir að vera svona flutningaglaður, en hann segir ekki. „Það hefur að minnsta kosti enginn fattað það enn þá að taka mig í bakaríið fyrir að vera alltaf að flytja. Það verður kannski allt brjálað þegar þetta kemst upp.“


Sjálfstæðisflokkurinn– Sjálfstæðisstefnan

Því miður hefur grunnstefnu flokksins ekki verið haldið nægilega á lofti undanfarna tvo Áratugi.

Gísli Ragnarsson skrifar í Mbl:

Gísli Ragnarsson

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929. Þeir menn sem stóðu að stofnun hans vildu beita sér fyrir umbótum í þessu hrjóstruga landi og leysa landkosti þess úr læðingi með rafvæðingu sveita og ýmsum öðrum verklegum framförum. Megináhersla var lögð á frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðernisvitund manna en ekki síður á frjálst framtak, frjálsa verslun og frelsi einstaklinganna. Í stefnuskránni var jafnframt lögð áhersla á að tryggja afkomu þeirra, sem áttu undir högg að sækja í lífinu. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt, þegar skilyrði væru til þess skv. sambandslögunum. Hins vegar sagði, í stefnuyfirlýsingunni frá 1929, að flokkurinn ætlaði: „Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ Þegar litið er til framangreindra stefnumiða og hugsjóna þeirra manna, sem stofnuðu flokkinn, er ljóst að menn hafa ekki lengi þurft að leita viðeigandi nafns fyrir hann. Annars vegar stefnir hann að fullu sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart öðrum eins fljótt og frekast var kostur og hins vegar er gert ráð fyrir að meginstefið í innanlandsstefnunni verði bundið við hlut einstaklingsins. Tryggja á sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga og þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi. Jafnframt á að gæta þess, að enginn komist á vonarvöl, þótt hann hitti fyrir sér ofjarl í sjúkdómum eða fátækt. Slíkum aðilum á að hjálpa til sjálfshjálpar og er það í anda þess hugarfars samhjálpar, sem verið hefur samofið þjóðareðlinu frá öndverðu.

Lesa áfram…

Continue reading “Sjálfstæðisflokkurinn– Sjálfstæðisstefnan”