Ingibjörg Sverrisdóttir í framboð í Reykjavík

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Fulveldissinnar og andstæðingar inngöngu Íslands í ESB geta nú glaðst því Ingibjörg Sverrisdóttir hefur gefið kost á sér í 4-5 sæti á framboðslista Sjálfstæðismanna í Reykjavík

Ingi­björg H. Sverr­is­dótt­ir, formaður Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og ná­grenni (FEB), gef­ur kost á sér í 4.-5. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík, fyr­ir kom­andi próf­kjör.

Próf­kjörið fer fram dag­ana 4. og 5. júní næst­kom­andi.

„For­menn stærstu fé­laga eldri borg­ara, inn­an vé­banda Lands­sam­bands­ins, sendu frá sér áskor­un til allra flokka sem sæti eiga á Alþingi í fe­brú­ar­mánuði síðastliðinn. Þar skoruðum við á flokk­ana að tryggja eldra fólki sæti á fram­boðslist­um þeirra enda verða á þessu ári um 75.000 manns á Íslandi, 60 ára og eldri, þar af verða um 45.000 67 ára og eldri. Þessi hóp­ur þarf rödd í sam­fé­lag­inu. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér enda brenn ég fyr­ir hags­mun­um eldri borg­ara,“ seg­ir Ingi­björg og bæt­ir við: „Mál­efni og kjör eldra fólks eiga hug minn all­an og ég mun ekki láta mitt eft­ir liggja í bar­átt­unni fram und­an fyr­ir bætt­um lífs­gæðum eldra fólks,” seg­ir Ingi­björg H. Sverr­is­dótt­ir í til­kynn­ingu.

Frétt í Mbl.is 15. maí 2021

Hið ó­hjá­kvæmi­lega sam­hengi laga og sam­fé­lags

Arnar Þór Jónsson skrifar á VISIR.IS:

Arnar Þór Jónsson

Á síðustu árum hef ég ritað tugi greina í blöð og tímarit um undirstöður laga og réttar, um lýðræði, valdtemprun og nauðsyn þess að valdhafar svari til ábyrgðar, um samhengi réttinda og skyldna, mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar o.m.fl. Framlag mitt má vissulega kallast þátttaka í „samfélagsumræðu“ en hún er þó fyrst og fremst innlegg í lagalega umræðu, því þetta tvennt verður í raun ekki aðgreint. Í skrifum mínum hef ég lagt áherslu á þessa staðreynd, þ.e. að lög og samfélag eru tvær hliðar á sama veruleika. Umræða um lög er því óhjákvæmilega jafnframt umfjöllun um samfélagsmál. Hér sem annars staðar þurfa menn að gæta þess að láta ekki hagsmuni og afflutning leiða sig á villigötur.

Greinar mínar hafa verið ritaðar til áminningar um tiltekna útgangspunkta og meginviðmið sem nauðsynlegt er að almenningur og valdhafar séu vakandi yfir:

  • Okkur ber ávallt að standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins og virða ákvæði hennar eins og þau standa.
  • Stjórnskipun Íslands ber að verja og forðast umbyltingar án vandaðrar umræðu.
  • Standa ber vörð um sjálfstæði Íslands, m.a. með því að virða ákvæði laga og fjölþjóðlegra samninga um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga.
  • Verja ber fullveldi Íslands, þ.e. það meginviðmið að Íslendingar eigi sjálfir síðasta orðið um innihald laga og þar með þann grunn sem dómstólar og framkvæmdavald starfa á.
  • Bæta verður hagsmunagæslu okkar á erlendum vettvangi, ekki síst í sameiginlegu EES nefndinni. Ef við sem þjóð sinnum ekki þessari hagsmunagæslu, þá gerir það enginn.
  • Lög sem gilda eiga á Íslandi skulu eiga sér lýðræðislega rót og vera sett að undangenginni umræðu hér á landi.
  • Innleiðing erlendra reglna má ekki vera hömlulaus.
  • Íslensk lög skulu taka mið af íslenskum aðstæðum.
  • Hagnýting náttúruauðlinda Íslands er ein af grunnstoðum hagsældarinnar og má ekki ganga okkur úr greipum.
  • Framsal ríkisvalds úr landi skal sæta þröngum skilyrðum, ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Í framkvæmd hefur EES samningurinn leitt til meira framsal ríkisvalds til erlendra stofnana en gert var ráð fyrir þegar Ísland gerðist aðili að samningnum 1992.
  • Sem löggjafarþing Íslendinga verður Alþingi að geta breytt eða endurskoðað þau lög sem ætlað er að gilda hérlendis.
  • Ákvarðanir um réttindi og skyldur Íslendinga skulu teknar sem næst vettvangi, ekki í erlendum borgum.
  • Gera ber athugasemdir við að erlendar stofnanir seilist ótilhlýðilega til valda og áhrifa hérlendis án skýrra lagaheimilda.
  • Lög eiga að vera fyrirsjáanleg, skiljanleg og skýr. Lagareglur eiga ekki að vera svo margar og svo flóknar að almennir borgarar sjái ekki út úr augum.
  • Kalla ber fólk til ábyrgðar. Ábyrgð er undirstaða frelsis.
  • Virkja ber þann kraft og þá hæfileika sem búa í hverjum manni, jafnt ungum sem öldnum
  • Ekki má rjúfa tengsl milli almennings og valdhafa.
  • Allt vald ber að tempra, embættisvaldið ekki síst.
  • Borgararnir hafa rétt og skyldu til tjáningar, til að setja fram málefnalega gagnrýni.
  • Í lýðfrjálsu ríki verður almennum borgurum ekki skipað að hlýða umyrðalaust, án andófs, án hugsunar.
Lestu áfram

Endurmat sögunnar tímabært

Vel heppnuð sögufölsun

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Hinum svonefndu menningarþjóðum Evrópu tókst ótrúlega vel að búa til fallega sögu um framferði þeirra víða um heim fyrr á tíð þegar þær voru að koma sér upp því sem kallað var nýlendur. Samkvæmt þeirra frásögn voru þær að brjóta siðmenningunni leið inn í fátæk lönd, sem höfðu ekki komizt í tæri við hana fyrr. Og með þeim rökum var því haldið fram að nýlendutíminn væri glæstasti þáttur í sögu þeirra. Þessi sögutúlkun er enn við lýði þótt reglulega skjóti upp kollinum fréttir sem benda til þess að sú söguskoðun sé á undanhaldi. Raunveruleikinn er sá að hinar evrópsku menningarþjóðir fóru ránshendi um heiminn í krafti vopnavalds og urðu ríkar á því að hagnýta sér auðlindir annarra þjóða. Fiskveiðar Breta undir herskipavernd við Ísland eru glöggt dæmi um það. Fyrrverandi nýlendum Evrópuríkjanna er þetta vel ljóst. Sennilega er framferði Belga í Kongó ljótasta dæmið um þetta. Belgískum hermönnum var gert að koma með líkamshluta af drepnum fórnarlömbum til að sanna að þeir hefðu sinnt skyldum sínum. Belgar eru að byrja að átta sig. Þeir eru farnir að breyta nöfnum á byggingum, götum og torgum sem höfðu verið nefnd eftir hetjum fyrri tíðar.

Lestu meira

Viðtal við Arnar Þór Jónsson héraðsdómara í Mbl:

„Ég kýs að fylgja hjartanu“

Arnar Þór Jónsson gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi

Arnar Þór Jónsson

Ég tel að mér sé skylt sem frjálsum einstaklingi að verja samviskufrelsi mitt og tjáningarfrelsi,“ segir Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en greint var frá því á dögunum að hann hefði sagt sig úr Dómarafélagi Íslands á síðasta ári. Arnar Þór hefur vakið athygli fyrir greinar sem hann hefur skrifað samhliða dómarastörfum sínum en hann segir að þeim hafi verið svarað með annaðhvort þögn eða þöggunartilburðum. Arnar Þór hefur því eftir nokkra íhugun ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í júní.

Mótandi námsdvöl vestanhafs

Arnar Þór Jónsson fæddist 2. maí 1971 og er því nýorðinn fimmtugur. Hann segir að hann hafi alist upp á heimili þar sem öll blöðin voru keypt, jafnt Þjóðviljinn sem Morgunblaðið, og hann hafi því ávallt fylgst vel með umræðunni. Ein helsta reynslan sem ýtti Arnari á braut lögfræðinnar var þó dvöl hans sem skiptinemi á menntaskólaárum í Bandaríkjunum, en þar kynntist hann m.a. þeirri hugsun sem liggur að baki vestrænni stjórnskipun. „Við lásum mikið um bandarísku stjórnarskrána og tilurð hennar, við lásum Kommúnistaávarpið, vorum í Biblíulestri og lásum Makbeð, Bjólfskviðu o.fl. Þetta var ótrúlega mótandi tími og ég fékk þar mikinn áhuga á pólitískum og lagalegum undirstöðum samfélagsins,“ segir Arnar Þór, en miðaldabókmenntir og saga hafa einnig verið mikil áhugamál hans, og segir hann þann grunn hafa nýst sér mjög vel. Eftir laganám starfaði hann fyrst sem dómarafulltrúi í Héraðsdómi Reykjaness og síðan í dómsmálaráðuneytinu, áður en hann varð aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands. „Það var mjög lærdómsríkur tími, ég starfaði þar með fólki sem ég leit mikið upp til og ber hlýhug til,“ segir Arnar Þór, en hann var fyrst settur héraðsdómari 2004-2005. Þaðan fór hann í bankakerfið. „Ég sá það fljótt að það hentaði mér ekki,“ segir Arnar Þór og ákvað hann þá um haustið 2005 að fara út í lögmennsku. Sem lögmaður rak hann lengst af lögmannsstofu ásamt Ragnari Aðalsteinssyni og fleirum.

Lestu áfram

Fjölmiðlafrumvarpið – Bréf til Alþingis

Birgir Örn Steingrímsson hefur ritað eftirfarandi bréf til allra alþingismanna og ráðherra

Reykjavík, 14. apríl 2021

Birgir Örn Steingrímsson

Varðandi frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 vegna fyrirhugaðrar innleiðingar í landsrétt á tilskipun 2018/1808/ESB, frá 14. nóvember 2018, sem breytir tilskipun 2010/13/EB um hljóð- og myndmiðlun.

Menntamálaráðherra íhugar að leggja fram ofangreint frumvarp þar sem m.a. verður gerð krafa um að a.m.k 30% af öllu efni sem sýnt er á streymisveitum eins og t.d. Netflix og Disney+ verði „evrópskt“.  Þetta á að vera gert að kröfu ESB og fellur undir Evróputilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu.  Þegar haft er í huga að Evrópubúar eru tæplega 7% mannkyns og framleiða sennilega svipað hlutfall myndefnis má leiða líkum að því að um 80% af framleiddu efni, sem frumvarpið nær yfir, lokast fyrir áhorfendur á Íslandi eða erfiðara verður að nálgast það. 

Þessi tilskipun er sérstaklega beint að bandarískum streymisveitum enda eru þær stærstar, en tilskipunin mun óhjákvæmilega hafa áhrif á aðrar streymisveitur, sem ætla að starfa innan ESB. Tryggja á forgang „evrópsks“ efnis.  Eins og staðan er í dag fellur myndefni framleitt í Bretlandi undir skilgreiningu sem „evrópskt“, en ekki er víst að svo verði í framtíðinni eftir BREXIT.  Ef svo færi gæti einnig orðið um verulega skerðingu á framboði af bresku efni hjá þeim streymisveitum sem falla undir þessa evróputilskipun.

Samkvæmt frumvarpinu er fjölmiðlanefnd gert að fylgjast með áhorfi landsmanna m.a. til að tryggja að a.m.k. 30% af efni sem er í boði hér sé í raun „evrópskt“.  Skýrslur eiga að vera sendar reglulega til eftirlitsstofnunar EFTA, sem á m.a. að meta hvort framboð sé nægilegt af „evrópsku“ efni.  Ef svo er ekki, geta evrópsk yfirvöld gripið til aðgerða gegn viðkomandi streymisfyrirtæki og krafist þess að lokað verði fyrir þjónustu fyrirtækisins á Íslandi.

Þetta frumvarp hringir mörgum viðvörunarbjöllum og nokkuð ljóst að það stenst engan veginn stjórnaskrá Íslands, en Í 73. grein hennar stendur m.a:  

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningafrelsi má ALDREI Í LÖG LEIÐA“. 

Með frumvarpinu er gerð hörð atlaga að tjáningafrelsi landsmanna.  Innleiða á ógeðfellda ritskoðun sem yrði á forræði ESB, sem myndi ákveða hvaða efni væri nægilega „evrópskt“ samkvæmt einhverjum viðmiðunum og því við hæfi fyrir Íslendinga að horfa á.  Næsta skrefið gæti orðið að settar verða hömlur á framboð bóka á netinu.  Ef ESB ákvæði að fella niðurhal bóka undir þessa evróputilskipun og  metið yrði svo að takmarka þyrfti framboð bóka sem væru ekki „evrópskar“.  þá gæti orðið erfitt fyrir íbúa landsins, sem kaupa bækur af Amazon, að hala niður bókmenntaverkum eftir t.d. Ernest Hemingway, Mark Twain eða John Steinbeck.  Þessir tveir miðlar, myndmál og ritamál, eru algerlega sambærilegir í nútímasamfélagi og hvortveggja mikilvægur hluti tjáningarfrelsis.  Ef stjórnvöld hefja ritskoðun og takmarkanir á aðgengi borgaranna að myndmáli, er stutt í  næsta skrefið.  Sporin hræða og vegferðin sem ESB er að hefja með þessu eftirliti og takmörkunum á framboði myndefnis veit enginn hvert leiðir. Ísland á ekki að eiga þátt í henni.  

Persónulega er ég áskrifandi að Netflix, Disney+ og Amazon Prime og tel fráleitt að eiga undir evrópskum embættismönnum hvaða efni er í boði fyrir mig og hvað ekki.  Ekki er ósennilegt látið verða reyna á þessi ritskoðunarlög fyrir dómstólum ef það fer óbreytt í gegnum þingið. 

Ég legg traust mitt á að þingið felli ofangreint frumvarp menntamálaráðherra ef það kemur fram, enda ber þingmanni að fara eftir og virða stjórnarskrá landsins og hafa ávallt hagsmuni landsmanna í huga. 

Virðingarfyllst,                                                                                                  

Birgir Örn Steingrímsson

Grínistar í Dómarafélagi Íslands

Skal þaggað niður í dómurum?

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar í Mbl

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.

Það hefur vakið athygli á undanförnum misserum að Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur oftsinnis skrifað blaðagreinar um viðhorf sín til hinnar lagalegu aðferðar sem og stundum um önnur þjóðfélagsmál sem til meðferðar hafa verið í þjóðfélaginu. Að baki greinum Arnars hefur ávallt legið djúp hugsun og málefnalegur heiðarleiki. Að þeim hefur verið mikill fengur fyrir almenning. Nú berast þau tíðindi að Arnar hafi sagt sig úr Dómarafélagi Íslands „vegna ágreinings um tjáningarfrelsi dómara og efni siðareglna félagsins“. Gegnum þetta má lesa að aðrir félagsmenn í DÍ hafi amast við skrifum Arnars og vilji meina dómurum að tjá sig um þjóðfélagsmálin. Þetta eru kostuleg tíðindi. Auðvitað njóta dómarar allra sömu mannréttinda og aðrir borgarar, þ.m.t. tjáningarfrelsis. Hafi þeir skoðanir á málefnum sem deilum valda í þjóðfélaginu, t.d. um innfluttar reglur um orkupakka, er auðvitað heppilegt að þeir tjái þær opinberlega. Vitneskja um slíkar skoðanir getur síðan valdið því að dómari sem tjáir sig geri sig vanhæfan til að sitja í dómi í máli þar sem kann að verða tekist á um málefnið sem um ræðir. Öllu réttlæti er þá fullnægt með því að málsaðilar geta gert kröfu um að dómarinn víki sæti ef á þetta reynir. Þeir hafa nefnilega fengið að vita um skoðanir dómarans í tíma. Nú skulu menn ekki telja eitt augnablik að starfandi dómarar í landinu hafi ekki skoðanir á margvíslegum ágreiningsefnum sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma. Þær hafa þeir allir og oft getur verið mikill tilfinningahiti í sálum þeirra, þó að þeir hafi aldrei tjáð sig opinberlega um slíkar skoðanir sínar.

Lestu áfram

Að vera eða sýnast

Virkt tjáningarfrelsi er nauðsynleg forsenda þess að lýðræðið skili þeim árangri sem að er stefnt

Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið

Í Fréttablaðsgrein 29. apríl sl. víkur Sveinn Andri Sveinsson orðum að tjáningarfrelsi dómara, m.a. með þeim orðum að á dómurum hvíli „sú ríka skylda að gera ekkert sem orkað getur tví­mælis og er til þess fallið að draga ó­hlut­drægni þeirra í efa“. Í greininni er ég nafngreindur með vísan til niðurstöðu Landsréttar í máli þar sem talið var, að þótt orkað gæti tvímælis hvort tjáning mín væri samrýmanleg starfi mínu hefði hún ekki verið þess eðlis að draga mætti óhlutdrægni mína í efa.

Hér birtast glöggar andstæður. Annars vegar krafa um að dómarar geri ekkert sem orkað getur tvímælis og hins vegar sú mannlega reynsla að allt orki tvímælis þá gert er. Viðfangsefni okkar, sem erum af holdi og blóði, er að finna og feta milliveginn með skynsemina og samviskuna að leiðarljósi.

EES er ekki undanþegið gagnrýninni umræðu

Mér telst til að ég hafi á síðustu árum birt um 60 greinar um samhengi laga og samfélags, um tengsl lýðræðis og tjáningarfrelsis – og um dýrmæti þess að vera sjálfráða manneskja og sjálfstæð þjóð. Nánar felst í þessu að lög standa ekki undir nafni nema þau þjóni tilteknu samfélagi og að ekki er unnt að tala um samfélag fyrr en það hefur komið sér upp lögum í einhverri mynd. Íslenskur réttur – og vestræn stjórnskipun – byggir á því að lögin eigi sér lýðræðislegan grundvöll, þ.e. að allt vald komi frá þjóðinni, og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum. Virkt tjáningarfrelsi er nauðsynleg forsenda þess að lýðræðið skili þeim árangri sem að er stefnt, þ.e. samfélagi þar sem allir eiga þátt í að kjósa æðstu handhafa löggjafarvalds og framkvæmdavalds, þar sem lögin taka jafnt til allra og allir eru jafnir fyrir lögunum, enginn er m.ö.o. hafinn yfir lögin, valdið er temprað og valdhafar svara til ábyrgðar. Til að þetta geti gengið upp er nauðsynlegt að hver og einn borgari hugsi sjálfstætt, lesi, hlusti, tali, spyrji, myndi sér skoðun á óþvingaðan hátt – og geti skipt um skoðun þegar forsendur breytast eða þegar ný atvik kalla á nýja nálgun.

Lesa meira

Báknið burt?

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Styrmir Gunnarsson

Auglýsing hér í Morgunblaðinu frá Sjálfstæðisflokknum fyrir viku gæti bent til þess að flokkurinn ætli að heyja kosningabaráttuna á 50 ára gömlu baráttumáli ungra sjálfstæðismanna um báknið burt. Það er jákvætt enda löngu tímabært en ekki alveg einfalt. Frá því að uppreisnarmenn frjálshyggjunnar komust til valda í flokknum fyrir um fjórum áratugum hefur báknið þanizt út sem aldrei fyrr og Sjálfstæðisflokkurinn átt sinn hlut að því. Til þess að tekið verði mark á þessu markmiði nú þarf vilji til þess að sjást í verki fyrir kosningar. Og þar sem flokkurinn hefur fjármálaráðuneytið í sínum höndum ætti það að vera létt verk. Utanríkisráðuneytið er augljóst fyrsta verkefni. Þar er mesta tildrið og sýndarmennskan og hefur alltaf verið. Utanríkisþjónusta allra landa einkennist af því og þótt hún sé alls staðar hlægileg er hún hlægilegust hjá smáríkjunum. Snemma á þessari öld taldi ráðuneytið að það gæti haft milligöngu um frið milli Ísraela og Palestínumanna. Nú telur það sig geta miðlað málum á milli Bandaríkjamanna og Rússa. Slíkt ofmat á sjálfu sér kostaði óheyrilegt fé þegar utanríkisráðuneytið ætlaði að kaupa sér sæti með stóru strákunum. Til að skipta máli í þeim leik þarf fjölmennar þjóðir, mikla fjármuni og öflugan her. Við höfum ekkert af því. Jafnframt er kominn tími til að fækka sendiráðum bæði á Norðurlöndum og annars staðar. Þau hafa einfaldlega litlum verkefnum að sinna. Eitt sendiráð í Osló dugar fyrir Norðurlöndin öll. Ríkið getur sparað sér kostnað við sendiherrabústaði annars staðar, sem í sumum tilvikum geta kostað um 600 milljónir. Sendiráð í sumum öðrum löndum eru algerlega óþörf. Fyrsta verkefnið hér heima er að ríkið efni til námskeiðs fyrir starfsmenn sína til að upplýsa þá um hvert hlutverk þeirra er.

Lesið áfram

Leitin að skapandi jafnvægi

Arnar Þór Jónsson skrifar um lýðræðið í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Við lifur á háskalegum tímum. Með því er ég ekki að vísa sérstaklega til kórónuveirunnar (C-19) sem allt hefur snúist um síðustu misseri, heldur annars konar háska sem vegur að undirstöðum lýðfrjálsra samfélaga. Ótti og hjarðhegðun hafa valdið því að margar grunnforsendur daglegs athafnafrelsis eru í uppnámi og mörgum ekki jafn ljósar og áður. Í stað þess að ákvæði stjórnarskrár ákvarði heimildir til sóttvarna eru sóttvarnir orðnar ákvarðandi viðmið fyrir borgaralegt frelsi. Þegar heilbrigðisráðherra reynist hafa gengið of langt í reglusetningu er athyglinni ekki beint að ábyrgð ráðherra og ábyrgð dómstóla gagnvart stjórnarskrá, heldur að ábyrgð dómstóla gagnvart sóttvörnum. Þetta hefur gerst á aðeins rúmlega einu ári, en í smáum skrefum og í beinni útsendingu.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan C-19 kom fram hefur verið þrengt svo að gagnrýninni hugsun og tjáningarfrelsi að jafnvel stjórnlyndustu menn hljóta að viðurkenna að frjálslynd lýðræðishefð þoli ekki slíka þróun til langframa. Nú er svo komið að erfitt er að greina mikinn mun á stefnu stjórnmálaflokkanna. Hægri og vinstri flokkar hafa þjappað sér saman um stefnumál þannig að öll nauðsynleg breidd er horfin.

Skýringarnar eru vafalaust margar: Eitruð umræðumenning á samfélagsmiðlum gæti verið ein skýring. Einsleitar skoðanir háskólamanna, fjölmiðlamanna, menningarvita, embættismanna o.fl. gæti verið önnur. En þegar ofan á slíkt bætast þöggun, ritskoðunartilburðir, útilokun o.fl. blasir við óheilbrigt ástand. Sú slagsíða sem hér um ræðir veldur hættu á efnahagslegu og pólitísku tjóni. Með því að nýta ekki tjáningarfrelsið eins og kostur er veikja menn lýðræðið, því einsleit tjáning framkallar einsleita umræðu, fábreytni í hugsun og gagnrýnisleysi, sem í verstu mynd þróast út í yfirlæti, hroka og valdbeitingu.

Lestu meira