Af hverju ekki að nýta krafta þessa fólks til eftirlits og aðstoðar ferðafólki á gosstöðvunum í Geldingadölum?
Ásmundur Friðriksson skrifar í Mbl:
Allt útlit er fyrir að gosið í Geldingadölum standi yfir í lengri tíma. Bráðaaðgerðir viðbragðsaðila hafa verið vel skipulagðar og lögregla og björgunarfólk staðið sig frábærlega. Ef væntingar jarðfræðinga rætast gæti gosið í Geldingadölum staðið mánuðum, jafnvel árum saman. Ef það verður raunveruleikinn þarf að gera framtíðaráætlanir um gæslu á svæðinu. Ekki er hægt að láta sjálfboðaliða sem skipa björgunarsveitirnar standa vakt á svæðinu vikum og mánuðum saman. Fólk sem flest er bundið sínum atvinnurekendum og þarf að mæta til starfa, en nýtur velvildar á neyðarstund. Sú góða hugmynd að allir sem ganga á svæðið láti 1.000 kr. rakna til björgunarsveitanna ætti að vera öllum létt í hendi. Það sama gildir um lögregluna sem er bæði fáliðuð og verkefnin þar á bæ hverfa ekki. Þau kalla á allt lögregluliðið til að sinna daglegum skyldum við samfélagið en aðrir sjái um gossvæðið.
Tækifæri fyrir reynslumikið fólk
Á Suðurnesjum er mesta atvinnuleysi á landinu og margt þaulreynt fólk sem sinnt hefur eftirlits- og skoðunarstörfum á Keflavíkurflugvelli. Unnið við að leiðbeina fólki við komuna til landsins og er því þjálfað í að sinna og leiðbeina fólki. Flest af því talar fleira en eitt tungumál. Af hverju ekki að nýta krafta þessa fólks til eftirlits og aðstoðar ferðafólki á gosstöðvunum í Geldingadölum? Skipulag og stjórnun eftirlitsstarfsins getur að sönnu verið hjá lögreglu og viðbragðsaðilum en störfin sem þarf að sinna og krefjast viðveru gætu komið frá fólki sem hefur beðið eftir því að losna af atvinnuleysisskrá.