Eini stöðugleikinn í þjóðfélaginu er stöðugur ótti hinna óttaslegnu
Loftur skrifar:

Ein fyrsta og um leið einfaldasta efnafræðitilraunin sem nemendur í skólum landsins gera er að hella saman sýru og basa svo úr verður vatn. Vatnið er nauðsynlegt öllu lífi og er merkilegt fyrirbæri þar sem það getur leikið tveimur skjöldum og verkað bæði sem sýra og basi, er svokallaður „amfóter“. Vegna eiginleika sinna er vatnið gott þynningarefni því það er í eðli sínu mjög óstöðugt. Gæta þarf þó þess að ofnota það ekki t.d. við blöndun eðaldrykkja því þá verður til þunnt vatnsgutl. Það sama gildir um liti regnbogans; því fleiri fallegum litum sem hrúgað er saman, því óhrjálegri verður útkoman.
Í ríkisstjórn Íslands sitja nú þingmenn þriggja stjórnmálaflokka, sem kosnir voru til setu á Alþingi af fólki með ólíkar skoðanir, sumar basískar og bláar, aðrar súrar og rauðar og sumar skoðanalausar og grænar. Þegar öllu þessu er hrært saman verður útkoman hlutlaus vatnsþunn litahræra, sem er óðum að gufa upp. Eftir situr salt leðjubotnfall, sem borið er á borð fyrir kjósendur einkum þá sem veikir eru fyrir og ná ekki að forða sér. Ólík sjónarmið eru orðin að leiðinlegu miðjumoði og flest skynsamleg markmið hafa gufað upp og horfið sjónum, helför undir gunnfána „stöðugleika“ ræður förinni. En hvert er ferðinni heitið? Varla á vel búnar en mannlausar heilsugæslustöðvar úti á landi, varla á bráðadeild Landspítalans, varla á einkareknar skurðstofur sem geta m.a. framkvæmt ódýrar augn- og bæklunaraðgerðir. Á þessum stöðvum er ekkert að gerast.
Það sem ekki er gufað upp úr stefnuskrá stjórnarflokkanna er nú botnfrosið. Starfsmenn heilbrigðiskerfisins berjast um í ískaldri, þykkri botnleðjunni, sem dregur úr þeim allan þrótt og starfsvilja. Húsnæðisvandamál Landsspítalans mætti leysa með nýju sjúkrahúsi á nýjum stað undir nýrri stjórn ásamt því að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er nú bannorð í anda VG. Sjúklingar eru nú sendir í skurðaðgerðir á erlend sjúkrahús, sum reyndar einkarekin í nafni „stöðugleika“ þótt það óskiljanlega gerræði æri óstöðugan og sé margfalt dýrara og mun óhagkvæmara fyrir alla aðila ekki síst þá sjúku. Varla samrýmist það stefnuskrá XD og varla eykur það á „stöðugleikann“ í þjóðfélaginu. Hinir efnameiri þurfa þó ekki að fara lengra en í Ármúlann til að fá nýjan mjaðmalið eða nýtt hné. Hér á landi hefur því myndast tvöfalt heilbrigðiskerfi, „ameríska kerfið“. Varla samrýmist það stefnuskrá VG?
Lyfjamál landsmanna eru og hafa lengi verð í algjörum ólestri vegna skorts á yfirsýn, lélegrar stjórnunar og úrræðaleysis ráðamanna. í stefnuskrá VG segir orðrétt: „Lækka þarf lyfjakostnað með hagkvæmari innkaupum, hindra einokun og samþjöppun á lyfjamarkaði og kanna möguleika á því að setja aftur á stofn lyfjaframleiðslu á vegum hins opinbera.“ Já, sæll! Við bíðum spennt. Sjálfstæð hugsun nær ekki inn fyrir veggi heilbrigðisráðuneytisins. Þar er „stefna ráðuneytisins“ varðandi lyfjamál og bólusetningar að vera taglhnýtingur ESB með öllum þeim hörmungum sem nú dynja yfir landslýðinn með tilheyrandi áhrifum á þjóðarbúið og geðheilsu landsmanna.








