“Því er fráleitt að ætla að okkur yrði betur borgið í samfloti með evrulöndum, sem málsvarar Viðreisnar leggja nú kapp á að við tengjumst, þrátt fyrir þá skerðingu sjálfstæðis okkar sem það fæli í sér.”
Leiðarmerki til heimahafnar:
Það hefur verið dýrmæt reynsla að stíga inn á hinn pólitíska vettvang. Þessi reynsla hefur verið holl og góð að því leyti að ég hef kynnst fleira fólki og sjónarmiðum. Frammi fyrir þeim krafti, áræði, hjálpsemi og óeigingirni sem hefur mætt mér á þessari vegferð fyllist ég bjartsýni um framtíð Íslands og fólksins sem hér býr. Um leið verður þó að viðurkennast að ekki er allt til fyrirmyndar. Mér hefur t.d. þótt sérlega leitt hversu ómálefnalegur málflutningur forkólfa Viðreisnar hefur verið. Í Morgunblaðsgrein 28. ágúst sl. varaði ég lesendur við stjórnmálaflokkum sem tala tungum tveim. Upptalningin í þeirri grein hefði mátt vera lengri, sbr. endurtekin greinaskrif fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðið, sem kristalla öfugmælin í stefnu og hugmyndafræði Viðreisnar. Málflutning hans er ástæða til að gera að sérstöku umfjöllunarefni því öfugt við minni spámenn, sem augljóslega vita ekki hvað þeir gera, þá á þessi talsmaður, sem áður var í betri vist, að vita betur og því gæta betur að staðhæfingum sínum.
Með vísun til áðurnefndrar greinar minnar bæti ég af þessu tilefni við, að full ástæða er til að varast stjórnmálaflokka sem:
. tala fjálglega um virkt lýðræði en hafna prófkjöri við val á frambjóðendum sínum
. kenna pólitískan rétttrúnað og kreddur við „frjálslyndi“
. gera heilbrigðan efa og varfærni tortryggileg út frá einhvers konar EES-hreintrúarstefnu . vilja gleyma því að EES-samningnum var ætlað að vera sáttmáli jafnræðis og gagnkvæmni, eins og hvert gott hjónaband á að vera
. stilla klassísku frjálslyndi upp sem öfgahyggju og hallmæla tali um mikilvægi þess að þjóð okkar gæti fullveldis síns og réttarins til að ákveða hlutskipti sitt sem mest sjálf
. láta í það skína að ófrávíkjanleg og gagnrýnislaus hollusta við EES-samninginn jafngildi nýrri tegund frjálslyndis
. telja „hagstjórn“ Íslendinga best borgið með því að fela Seðlabanka ESB öll völd í þeim efnum
. kalla eftir því að íslensk þjóð afsali allri sjálfsábyrgð í hendur ólýðræðislegu, fjölþjóðlegu, miðstýrðu valdi á erlendri grund . halda af þrjósku áfram að ræða um ESB út frá ímynduðum glansmyndum (Pótemkíntjöldum) fremur en staðreyndum sem öllum mega vera sýnilegar
. gera engar athugasemdir við þróun ESB í átt til yfirþjóðlegs sambandsríkis þótt sú þróun byggist ekki á neinum lýðræðislegum grunni