Grínistar í Dómarafélagi Íslands

Skal þaggað niður í dómurum?

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar í Mbl

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.

Það hefur vakið athygli á undanförnum misserum að Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur oftsinnis skrifað blaðagreinar um viðhorf sín til hinnar lagalegu aðferðar sem og stundum um önnur þjóðfélagsmál sem til meðferðar hafa verið í þjóðfélaginu. Að baki greinum Arnars hefur ávallt legið djúp hugsun og málefnalegur heiðarleiki. Að þeim hefur verið mikill fengur fyrir almenning. Nú berast þau tíðindi að Arnar hafi sagt sig úr Dómarafélagi Íslands „vegna ágreinings um tjáningarfrelsi dómara og efni siðareglna félagsins“. Gegnum þetta má lesa að aðrir félagsmenn í DÍ hafi amast við skrifum Arnars og vilji meina dómurum að tjá sig um þjóðfélagsmálin. Þetta eru kostuleg tíðindi. Auðvitað njóta dómarar allra sömu mannréttinda og aðrir borgarar, þ.m.t. tjáningarfrelsis. Hafi þeir skoðanir á málefnum sem deilum valda í þjóðfélaginu, t.d. um innfluttar reglur um orkupakka, er auðvitað heppilegt að þeir tjái þær opinberlega. Vitneskja um slíkar skoðanir getur síðan valdið því að dómari sem tjáir sig geri sig vanhæfan til að sitja í dómi í máli þar sem kann að verða tekist á um málefnið sem um ræðir. Öllu réttlæti er þá fullnægt með því að málsaðilar geta gert kröfu um að dómarinn víki sæti ef á þetta reynir. Þeir hafa nefnilega fengið að vita um skoðanir dómarans í tíma. Nú skulu menn ekki telja eitt augnablik að starfandi dómarar í landinu hafi ekki skoðanir á margvíslegum ágreiningsefnum sem uppi eru í samfélaginu á hverjum tíma. Þær hafa þeir allir og oft getur verið mikill tilfinningahiti í sálum þeirra, þó að þeir hafi aldrei tjáð sig opinberlega um slíkar skoðanir sínar.

Lestu áfram

Að vera eða sýnast

Virkt tjáningarfrelsi er nauðsynleg forsenda þess að lýðræðið skili þeim árangri sem að er stefnt

Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið

Í Fréttablaðsgrein 29. apríl sl. víkur Sveinn Andri Sveinsson orðum að tjáningarfrelsi dómara, m.a. með þeim orðum að á dómurum hvíli „sú ríka skylda að gera ekkert sem orkað getur tví­mælis og er til þess fallið að draga ó­hlut­drægni þeirra í efa“. Í greininni er ég nafngreindur með vísan til niðurstöðu Landsréttar í máli þar sem talið var, að þótt orkað gæti tvímælis hvort tjáning mín væri samrýmanleg starfi mínu hefði hún ekki verið þess eðlis að draga mætti óhlutdrægni mína í efa.

Hér birtast glöggar andstæður. Annars vegar krafa um að dómarar geri ekkert sem orkað getur tvímælis og hins vegar sú mannlega reynsla að allt orki tvímælis þá gert er. Viðfangsefni okkar, sem erum af holdi og blóði, er að finna og feta milliveginn með skynsemina og samviskuna að leiðarljósi.

EES er ekki undanþegið gagnrýninni umræðu

Mér telst til að ég hafi á síðustu árum birt um 60 greinar um samhengi laga og samfélags, um tengsl lýðræðis og tjáningarfrelsis – og um dýrmæti þess að vera sjálfráða manneskja og sjálfstæð þjóð. Nánar felst í þessu að lög standa ekki undir nafni nema þau þjóni tilteknu samfélagi og að ekki er unnt að tala um samfélag fyrr en það hefur komið sér upp lögum í einhverri mynd. Íslenskur réttur – og vestræn stjórnskipun – byggir á því að lögin eigi sér lýðræðislegan grundvöll, þ.e. að allt vald komi frá þjóðinni, og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum. Virkt tjáningarfrelsi er nauðsynleg forsenda þess að lýðræðið skili þeim árangri sem að er stefnt, þ.e. samfélagi þar sem allir eiga þátt í að kjósa æðstu handhafa löggjafarvalds og framkvæmdavalds, þar sem lögin taka jafnt til allra og allir eru jafnir fyrir lögunum, enginn er m.ö.o. hafinn yfir lögin, valdið er temprað og valdhafar svara til ábyrgðar. Til að þetta geti gengið upp er nauðsynlegt að hver og einn borgari hugsi sjálfstætt, lesi, hlusti, tali, spyrji, myndi sér skoðun á óþvingaðan hátt – og geti skipt um skoðun þegar forsendur breytast eða þegar ný atvik kalla á nýja nálgun.

Lesa meira

Báknið burt?

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Styrmir Gunnarsson

Auglýsing hér í Morgunblaðinu frá Sjálfstæðisflokknum fyrir viku gæti bent til þess að flokkurinn ætli að heyja kosningabaráttuna á 50 ára gömlu baráttumáli ungra sjálfstæðismanna um báknið burt. Það er jákvætt enda löngu tímabært en ekki alveg einfalt. Frá því að uppreisnarmenn frjálshyggjunnar komust til valda í flokknum fyrir um fjórum áratugum hefur báknið þanizt út sem aldrei fyrr og Sjálfstæðisflokkurinn átt sinn hlut að því. Til þess að tekið verði mark á þessu markmiði nú þarf vilji til þess að sjást í verki fyrir kosningar. Og þar sem flokkurinn hefur fjármálaráðuneytið í sínum höndum ætti það að vera létt verk. Utanríkisráðuneytið er augljóst fyrsta verkefni. Þar er mesta tildrið og sýndarmennskan og hefur alltaf verið. Utanríkisþjónusta allra landa einkennist af því og þótt hún sé alls staðar hlægileg er hún hlægilegust hjá smáríkjunum. Snemma á þessari öld taldi ráðuneytið að það gæti haft milligöngu um frið milli Ísraela og Palestínumanna. Nú telur það sig geta miðlað málum á milli Bandaríkjamanna og Rússa. Slíkt ofmat á sjálfu sér kostaði óheyrilegt fé þegar utanríkisráðuneytið ætlaði að kaupa sér sæti með stóru strákunum. Til að skipta máli í þeim leik þarf fjölmennar þjóðir, mikla fjármuni og öflugan her. Við höfum ekkert af því. Jafnframt er kominn tími til að fækka sendiráðum bæði á Norðurlöndum og annars staðar. Þau hafa einfaldlega litlum verkefnum að sinna. Eitt sendiráð í Osló dugar fyrir Norðurlöndin öll. Ríkið getur sparað sér kostnað við sendiherrabústaði annars staðar, sem í sumum tilvikum geta kostað um 600 milljónir. Sendiráð í sumum öðrum löndum eru algerlega óþörf. Fyrsta verkefnið hér heima er að ríkið efni til námskeiðs fyrir starfsmenn sína til að upplýsa þá um hvert hlutverk þeirra er.

Lesið áfram

Leitin að skapandi jafnvægi

Arnar Þór Jónsson skrifar um lýðræðið í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Við lifur á háskalegum tímum. Með því er ég ekki að vísa sérstaklega til kórónuveirunnar (C-19) sem allt hefur snúist um síðustu misseri, heldur annars konar háska sem vegur að undirstöðum lýðfrjálsra samfélaga. Ótti og hjarðhegðun hafa valdið því að margar grunnforsendur daglegs athafnafrelsis eru í uppnámi og mörgum ekki jafn ljósar og áður. Í stað þess að ákvæði stjórnarskrár ákvarði heimildir til sóttvarna eru sóttvarnir orðnar ákvarðandi viðmið fyrir borgaralegt frelsi. Þegar heilbrigðisráðherra reynist hafa gengið of langt í reglusetningu er athyglinni ekki beint að ábyrgð ráðherra og ábyrgð dómstóla gagnvart stjórnarskrá, heldur að ábyrgð dómstóla gagnvart sóttvörnum. Þetta hefur gerst á aðeins rúmlega einu ári, en í smáum skrefum og í beinni útsendingu.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan C-19 kom fram hefur verið þrengt svo að gagnrýninni hugsun og tjáningarfrelsi að jafnvel stjórnlyndustu menn hljóta að viðurkenna að frjálslynd lýðræðishefð þoli ekki slíka þróun til langframa. Nú er svo komið að erfitt er að greina mikinn mun á stefnu stjórnmálaflokkanna. Hægri og vinstri flokkar hafa þjappað sér saman um stefnumál þannig að öll nauðsynleg breidd er horfin.

Skýringarnar eru vafalaust margar: Eitruð umræðumenning á samfélagsmiðlum gæti verið ein skýring. Einsleitar skoðanir háskólamanna, fjölmiðlamanna, menningarvita, embættismanna o.fl. gæti verið önnur. En þegar ofan á slíkt bætast þöggun, ritskoðunartilburðir, útilokun o.fl. blasir við óheilbrigt ástand. Sú slagsíða sem hér um ræðir veldur hættu á efnahagslegu og pólitísku tjóni. Með því að nýta ekki tjáningarfrelsið eins og kostur er veikja menn lýðræðið, því einsleit tjáning framkallar einsleita umræðu, fábreytni í hugsun og gagnrýnisleysi, sem í verstu mynd þróast út í yfirlæti, hroka og valdbeitingu.

Lestu meira

Rykið dustað af ESB-draumnum

Hvort flokkar og frambjóðendur sem eru fastir í viðjum vantrúar á flest það sem íslenskt er muni heilla kjósendur í komandi kosningum kemur í ljós.

Óli Björn Kárason

Það er alltaf gott þegar stjórnmálaflokkar hafa skýra stefnu, ekki síst í aðdraganda kosninga. Með því verða kostirnir sem kjósendur standa frammi fyrir skýrari. Það er ekki endilega verra að draga gömul baráttumál út úr skápnum, dusta af þeim rykið og pakka þeim inn að nýju. Slíkt sýnir kannski ekki mikla hugmyndaauðgi en ákveðna íhaldssemi og þráa. Á sama tíma og Samfylkingin virðist hafa gefist upp á sínu helsta baráttumáli – aðild Íslands að Evrópusambandinu – hefur Viðreisn ákveðið að blása að nýju, eftir nokkurt hlé, í lúðra Brussel-valdsins. Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktun þar sem ríkisstjórninni er falið „að hefja undirbúning að endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu“. Ekki er hægt að skilja greinargerð þingsályktunartillögunnar á annan hátt en að kórónuveirufaraldurinn hafi kveikt aftur vonir í ESBhjörtum Viðreisnar. Fullyrt er að afleiðingar faraldursins hafi „gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum“ og þess vegna þurfi Ísland „að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt“.

Lesið áfram-

Á hvaða leið eru flokkarnir?

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Stjórnmálaflokkarnir sem urðu til snemma á síðustu öld endurspegluðu það samfélag sem þá var. Samfélagið hefur tekið breytingum og flokkarnir líka en það þýðir ekki að þeir endurspegli samfélagið jafn vel nú og þá. Þvert á móti. Þetta á ekki sízt við um hina hefðbundnu vinstriflokka, VG og Samfylkingu. Þess sjást engin merki að þeir reyni að undirstrika fyrri tengsl við verkalýðshreyfinguna. Samfylkingin sérstaklega virðist sjá um hagsmunagæzlu fyrir háskólaborgara og hefur í leit að frambjóðendum engan áhuga á verkalýðshreyfingunni. Það eru einna helzt Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn sem leggja áherzlu á málefni fyrrverandi skjólstæðinga Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Sjálfstæðisflokkurinn var reyndar orðinn annar öflugasti launþegaflokkur landsins fyrir 60 árum en hefur misst áhugann á þeim kjósendahópi án þess að nokkrar skýringar hafi fengizt á því. Á sama tíma hafa umsvif hagsmunavarða aukizt mjög og þau ná líka til stjórnmálaflokkanna. Þeir vinna nú markvisst innan sumra flokkanna fyrir umbjóðendur sína en sérstaklega þó innan Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar gagnvart ráðamönnum flokksins og hins vegar að einhverju leyti innan flokksins í einstökum hópum þar. Kannski er þessi hagsmunavarzla skýringin á þeim breyttu áherzlum innan Sjálfstæðisflokksins sem nefndar voru hér að framan. Það er líklegt til árangurs þegar heilt hús við Borgartún puðar á hverjum degi. Einn eftirminnilegasti fundur sem greinarhöfundur sat á Viðreisnarárunum var þegar Bjarni heitinn Benediktsson, þá forsætisráðherra, skammaði kaupmenn fyrir kröfur þeirra þegar almenningur var að taka á sig byrðar. Síðan hefur slík ræða ekki verið flutt en það skortir ekki tilefni.

Lesið áfram….

Byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi

Eftir Óla Björn Kárason

“Sem sagt: Ríkisvæðing heilbrigðisþjónustunnar er í fullum gangi. Sjálfstæðir læknar eru settir út í kuldann en verst er að almenningur ber kostnaðinn.”

Óli Björn Kárason

Hægt en örugglega er að verða til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þannig er grafið undan sáttmálanum um að tryggja öllum jafnan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Drög að reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands er dæmi um hvernig jarðvegurinn er undirbúinn. Réttindi sjúkratryggðra eru lögð til hliðar og aukin ríkisvæðing boðuð. Afleiðingin verður þvert á yfirlýst markmið: Kostnaður mun aukast og þjónustan verður verri. Kerfi biðlista festist enn betur í sessi.

Þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðilækna byggist á gömlum grunni sem reistur var árið 1909 þegar fyrsta sjúkrasamlagið var stofnað. Samningur Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna tók gildi í byrjun árs 2014 en hann rann út árið 2018. Frá þeim tíma hafa samningar ekki tekist og sjálfsagt á hér við hið fornkveðna, að sjaldan veldur einn þegar tveir deila. Sjúkratryggðir – við öll – hljóta að gera þá kröfu jafnt til heilbrigðisyfirvalda og sérfræðilækna að margra ára þrasi verði lokið með samningum. Hafi aðilar ekki burði til að ná samningum virðist skynsamlegt að leggja deiluna fyrir sérstakan gerðardóm.

Þrátt fyrir samningsleysið hefur réttur sjúklinga til endurgreiðslu verið tryggður með reglugerð. Þessu ætla yfirvöld heilbrigðismála að breyta og í raun svipta ákveðna sjúklinga sjúkratryggingum, sem við öll höfum greitt fyrir með sköttum og gjöldum. Með reglugerðinni verður innleidd mismunun milli fólks eftir því til hvaða sérfræðinga það leitar eftir nauðsynlegri þjónustu. Þeir sem leita til sérfræðinga sem fella sig ekki við einhliða kröfur Sjúkratrygginga verða sviptir sjúkratryggingum – réttinum til endurgreiðslu hluta kostnaðar.

Lestu áfram

Sjálfstæði jafngildir ekki einangrun

Óskandi væri að umræða um stjórnmál, lagasetningu og lagaframkvæmd færðist inn á svið raunveruleikans

Arnar Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Núverandi og fyrrverandi formenn Viðreisnar skrifa greinar í Morgunblaðið 12. apríl sl. þar sem þau lýsa sýn sinni á alþjóðamálin og stöðu Íslands, auk þess að vísa bæði beint og óbeint til fyrri skrifa minna. Svo er að sjá sem þau vilji bæði vera málsvarar „frjálslyndis“ og „alþjóðasamvinnu“ og bæði vilja að Ísland gerist fullgildur aðili að ESB. Bæði hafa viljað gefa sig út fyrir að vera „nútímaleg“, væntanlega andstætt þeim sem eru „íhaldssamir“. Lausn þeirra á lýðræðisvanda Íslendinga gagnvart ESB er sú að Ísland gerist þar aðildarríki. Formaður Viðreisnar og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins gerir talsmönnum fullveldis Íslands upp „öfgaviðhorf“. Þegar horft er á þróun mála sl. áratugi á vettvangi ESB og sívaxandi þunga regluverks þess í íslenskum rétti blasir alls ekki við að ofangreindur málflutningur standist mælikvarða um „nútímaleg“ viðhorf, né heldur efnisleg viðmið frjálslyndis, lýðræðis eða alþjóðasamvinnu. Þétt regluverk, sérfræðingastjórn og skortur á lýðræði eru ekki einkenni frjálslynds stjórnarfars. Þungur straumur erlendra reglna, sem samdar eru af fulltrúum annarra þjóða án viðunandi temprunar af Íslands hálfu, er ekki merki um alþjóðlega „samvinnu“.

Lesið meira

Fjórði orkupakkinn og fullveldið

Ekki kemur til greina að gefa eftir fullveldi og yfirráð yfir mikilvægum orkuauðlindum íslensku þjóðarinnar.

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl

Ólafur Ísleifsson

Fjórða orkupakkanum er ýtt áfram af kvörnum kerfisins sem mala jafnt og þétt. Við sitjum uppi með pakkann og afsal fullveldis yfir orkuauðlindunum nema fast verði spyrnt á móti. Evrópuþingið og ráð ESB samþykkti í lok maí 2019 löggjafarpakka sem inniheldur fjórar reglugerðir og fjórar tilskipanir. Felst í þeim endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB. Hann er þó víðtækari en hinn þriðji með því að bætt er við ákvæðum um endurnýjanlega orku, orkunýtni og fleiri slíka þætti. Höggvið í sama knérunn Þrjár gerðir sem snúa að raforkumarkaði sæta sérstakri athugun. Hér ræðir um gamla kunningja því þessar gerðir eru endurskoðaðar útgáfur af gerðum sem hvað mestur styr stóð um í umræðum um þriðja orkupakkann. Ber sérstaklega að nefna reglugerð sem leysir af hólmi eldri reglugerð nr. 713/2009. Með henni var sett á laggirnar samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER. Þar er að finna ákvæði um lagalega stöðu stofnunarinnar, samsetningu og ákvarðanir hennar, m.a. gagnvart landsbundnum stjórnvöldum. Við afgreiðslu þriðja orkupakkans aflaði ríkisstjórnin sér álits ýmissa lögspekinga. Mesta athygli vakti lögfræðileg álitsgerð þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, verkefnisstjóra hjá Lagastofnun HÍ, og Stefáns Más Stefánssonar prófessors.

Lesa áfram

Undirlægjuháttur

Er ekki tími til kominn, að þjóðin endurheimti sjálfstæði sitt?

Haukur Ágústsson skrifar í Mbl.

Haukur Ágústsson

Alþjóða- og milliríkjasamningar eru töfraorð nútímastjórnmála og -samskipta. Í flestum tilfellum rýra þessir samningar sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt þeirra aðila – þjóða – sem innleiða þá; iðulega svo mjög, að samningarnir eru ekki til lengdar litið hagkvæmir ýmsum þeim, sem að þeim standa. Þetta getur stafað af breytingum, sem gerðar hafa verið og raska upphafsforsemdum þess, að gengist var undir samninginn. Þetta á við um til dæmis EESsamninginn, sem hefur breyst gífurlega frá því að Íslendingar gerðust aðilar að honum. Einnig geta samningar í raun úrelst, eins á við um til dæmis mannréttindasáttmála SÞ og ESB, en þeir voru gerðir um miðja síðustu öld og þá á tímum, sem eru allt aðrir en nú ríkja.

EES-samningurinn

Við gengumst undir ákvæði EES-samningsins árið 1993. Hann var okkur nokkuð hagkvæmur framan af á meðan hann snerist sem næst einungis um viðskipti. En í honum voru – og eru – ákvæði um fullgildingu viðbóta, sem viðsemjandinn, ESB, Evrópusambandið, getur sett á án nokkurs raunverulegs samráðs og sent okkur á hönd til upptöku í íslenska löggjöf. Reyndar er gert ráð fyrir því, að unnt sé að hafna slíkum boðum, en afar lítið, sem næst ekki neitt, er um það, að slíkt sé gert. Viðbæturnar renna í gegnum Alþingi, þar sem þingmennirnir; þeir, sem eiga að vera vörslumenn umbjóðenda sinna, þegna þjóðarinnar, hafa sætt sig við að vera aumlegir stimplarar á vegum erlendra ráðskara, sem leggja á kvaðir og skyldur, sem lítið hafa að gera með íslenska hagsmuni eða íslenskan raunveruleika. Eitt nýjasta og hrapallegasta dæmið er hinir svonefndu „orkupakkar“ númer 1, 2 og 3. Tveir hinir fyrstu runnu í gegn á þess að nokkur teljandi umræða ætti sér stað. Enginn vaknaði á meðal „stimplaranna“. Þeir bara bugtuðu sig og ýttu á já-hnappinn. Loks rumskuðu sumir, þegar kom að pakka 3. Andmælendur héldu uppi andófi og fengu lítt þvegnar skammir fyrir. Skoðanakannanir sýndu, að mikill meirihluti þjóðarinnar var andvígur innleiðingu pakkans. Þrátt fyrir andstæðan vilja umbjóðenda sinna, þegnanna, nýttu stimplararnir meirihluta sinn og hleyptu málinu í gegn sem „ályktun“, sem þurfti ekki undirskrift forseta, sem því hafði ekki tök að meta stöðuna í ljósi þjóðarviljans. Þeir gátu ekki annað, sögðu spekingar stimplaranna. Gátu ekki annað! Víst gátu þeir annað. Þeir gátu sýnt hug og dug. Þeir gátu metið hagkvæmni. Þeir gátu ígrundað það, hvaða erindi orkupakkinn – og orkupakkarnir – ættu inn í íslenskar kringumstæður. Þeir gátu tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir gátu nýtt sér höfnunarákvæðið. En ekkert af þessu gerðu þeir. Þeir „gátu ekki gert annað“ en að beygja sig bljúgir fyrir erlendu valdboði. Það er sannarlega hugumstórt – eða hitt þó heldur!

Lesið áfram….