Leitin að skapandi jafnvægi

Arnar Þór Jónsson skrifar um lýðræðið í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Við lifur á háskalegum tímum. Með því er ég ekki að vísa sérstaklega til kórónuveirunnar (C-19) sem allt hefur snúist um síðustu misseri, heldur annars konar háska sem vegur að undirstöðum lýðfrjálsra samfélaga. Ótti og hjarðhegðun hafa valdið því að margar grunnforsendur daglegs athafnafrelsis eru í uppnámi og mörgum ekki jafn ljósar og áður. Í stað þess að ákvæði stjórnarskrár ákvarði heimildir til sóttvarna eru sóttvarnir orðnar ákvarðandi viðmið fyrir borgaralegt frelsi. Þegar heilbrigðisráðherra reynist hafa gengið of langt í reglusetningu er athyglinni ekki beint að ábyrgð ráðherra og ábyrgð dómstóla gagnvart stjórnarskrá, heldur að ábyrgð dómstóla gagnvart sóttvörnum. Þetta hefur gerst á aðeins rúmlega einu ári, en í smáum skrefum og í beinni útsendingu.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan C-19 kom fram hefur verið þrengt svo að gagnrýninni hugsun og tjáningarfrelsi að jafnvel stjórnlyndustu menn hljóta að viðurkenna að frjálslynd lýðræðishefð þoli ekki slíka þróun til langframa. Nú er svo komið að erfitt er að greina mikinn mun á stefnu stjórnmálaflokkanna. Hægri og vinstri flokkar hafa þjappað sér saman um stefnumál þannig að öll nauðsynleg breidd er horfin.

Skýringarnar eru vafalaust margar: Eitruð umræðumenning á samfélagsmiðlum gæti verið ein skýring. Einsleitar skoðanir háskólamanna, fjölmiðlamanna, menningarvita, embættismanna o.fl. gæti verið önnur. En þegar ofan á slíkt bætast þöggun, ritskoðunartilburðir, útilokun o.fl. blasir við óheilbrigt ástand. Sú slagsíða sem hér um ræðir veldur hættu á efnahagslegu og pólitísku tjóni. Með því að nýta ekki tjáningarfrelsið eins og kostur er veikja menn lýðræðið, því einsleit tjáning framkallar einsleita umræðu, fábreytni í hugsun og gagnrýnisleysi, sem í verstu mynd þróast út í yfirlæti, hroka og valdbeitingu.

Lestu meira

Rykið dustað af ESB-draumnum

Hvort flokkar og frambjóðendur sem eru fastir í viðjum vantrúar á flest það sem íslenskt er muni heilla kjósendur í komandi kosningum kemur í ljós.

Óli Björn Kárason

Það er alltaf gott þegar stjórnmálaflokkar hafa skýra stefnu, ekki síst í aðdraganda kosninga. Með því verða kostirnir sem kjósendur standa frammi fyrir skýrari. Það er ekki endilega verra að draga gömul baráttumál út úr skápnum, dusta af þeim rykið og pakka þeim inn að nýju. Slíkt sýnir kannski ekki mikla hugmyndaauðgi en ákveðna íhaldssemi og þráa. Á sama tíma og Samfylkingin virðist hafa gefist upp á sínu helsta baráttumáli – aðild Íslands að Evrópusambandinu – hefur Viðreisn ákveðið að blása að nýju, eftir nokkurt hlé, í lúðra Brussel-valdsins. Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktun þar sem ríkisstjórninni er falið „að hefja undirbúning að endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu“. Ekki er hægt að skilja greinargerð þingsályktunartillögunnar á annan hátt en að kórónuveirufaraldurinn hafi kveikt aftur vonir í ESBhjörtum Viðreisnar. Fullyrt er að afleiðingar faraldursins hafi „gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum“ og þess vegna þurfi Ísland „að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt“.

Lesið áfram-

Á hvaða leið eru flokkarnir?

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl

Stjórnmálaflokkarnir sem urðu til snemma á síðustu öld endurspegluðu það samfélag sem þá var. Samfélagið hefur tekið breytingum og flokkarnir líka en það þýðir ekki að þeir endurspegli samfélagið jafn vel nú og þá. Þvert á móti. Þetta á ekki sízt við um hina hefðbundnu vinstriflokka, VG og Samfylkingu. Þess sjást engin merki að þeir reyni að undirstrika fyrri tengsl við verkalýðshreyfinguna. Samfylkingin sérstaklega virðist sjá um hagsmunagæzlu fyrir háskólaborgara og hefur í leit að frambjóðendum engan áhuga á verkalýðshreyfingunni. Það eru einna helzt Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn sem leggja áherzlu á málefni fyrrverandi skjólstæðinga Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Sjálfstæðisflokkurinn var reyndar orðinn annar öflugasti launþegaflokkur landsins fyrir 60 árum en hefur misst áhugann á þeim kjósendahópi án þess að nokkrar skýringar hafi fengizt á því. Á sama tíma hafa umsvif hagsmunavarða aukizt mjög og þau ná líka til stjórnmálaflokkanna. Þeir vinna nú markvisst innan sumra flokkanna fyrir umbjóðendur sína en sérstaklega þó innan Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar gagnvart ráðamönnum flokksins og hins vegar að einhverju leyti innan flokksins í einstökum hópum þar. Kannski er þessi hagsmunavarzla skýringin á þeim breyttu áherzlum innan Sjálfstæðisflokksins sem nefndar voru hér að framan. Það er líklegt til árangurs þegar heilt hús við Borgartún puðar á hverjum degi. Einn eftirminnilegasti fundur sem greinarhöfundur sat á Viðreisnarárunum var þegar Bjarni heitinn Benediktsson, þá forsætisráðherra, skammaði kaupmenn fyrir kröfur þeirra þegar almenningur var að taka á sig byrðar. Síðan hefur slík ræða ekki verið flutt en það skortir ekki tilefni.

Lesið áfram….

Byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi

Eftir Óla Björn Kárason

“Sem sagt: Ríkisvæðing heilbrigðisþjónustunnar er í fullum gangi. Sjálfstæðir læknar eru settir út í kuldann en verst er að almenningur ber kostnaðinn.”

Óli Björn Kárason

Hægt en örugglega er að verða til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þannig er grafið undan sáttmálanum um að tryggja öllum jafnan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Drög að reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands er dæmi um hvernig jarðvegurinn er undirbúinn. Réttindi sjúkratryggðra eru lögð til hliðar og aukin ríkisvæðing boðuð. Afleiðingin verður þvert á yfirlýst markmið: Kostnaður mun aukast og þjónustan verður verri. Kerfi biðlista festist enn betur í sessi.

Þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðilækna byggist á gömlum grunni sem reistur var árið 1909 þegar fyrsta sjúkrasamlagið var stofnað. Samningur Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna tók gildi í byrjun árs 2014 en hann rann út árið 2018. Frá þeim tíma hafa samningar ekki tekist og sjálfsagt á hér við hið fornkveðna, að sjaldan veldur einn þegar tveir deila. Sjúkratryggðir – við öll – hljóta að gera þá kröfu jafnt til heilbrigðisyfirvalda og sérfræðilækna að margra ára þrasi verði lokið með samningum. Hafi aðilar ekki burði til að ná samningum virðist skynsamlegt að leggja deiluna fyrir sérstakan gerðardóm.

Þrátt fyrir samningsleysið hefur réttur sjúklinga til endurgreiðslu verið tryggður með reglugerð. Þessu ætla yfirvöld heilbrigðismála að breyta og í raun svipta ákveðna sjúklinga sjúkratryggingum, sem við öll höfum greitt fyrir með sköttum og gjöldum. Með reglugerðinni verður innleidd mismunun milli fólks eftir því til hvaða sérfræðinga það leitar eftir nauðsynlegri þjónustu. Þeir sem leita til sérfræðinga sem fella sig ekki við einhliða kröfur Sjúkratrygginga verða sviptir sjúkratryggingum – réttinum til endurgreiðslu hluta kostnaðar.

Lestu áfram

Sjálfstæði jafngildir ekki einangrun

Óskandi væri að umræða um stjórnmál, lagasetningu og lagaframkvæmd færðist inn á svið raunveruleikans

Arnar Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Núverandi og fyrrverandi formenn Viðreisnar skrifa greinar í Morgunblaðið 12. apríl sl. þar sem þau lýsa sýn sinni á alþjóðamálin og stöðu Íslands, auk þess að vísa bæði beint og óbeint til fyrri skrifa minna. Svo er að sjá sem þau vilji bæði vera málsvarar „frjálslyndis“ og „alþjóðasamvinnu“ og bæði vilja að Ísland gerist fullgildur aðili að ESB. Bæði hafa viljað gefa sig út fyrir að vera „nútímaleg“, væntanlega andstætt þeim sem eru „íhaldssamir“. Lausn þeirra á lýðræðisvanda Íslendinga gagnvart ESB er sú að Ísland gerist þar aðildarríki. Formaður Viðreisnar og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins gerir talsmönnum fullveldis Íslands upp „öfgaviðhorf“. Þegar horft er á þróun mála sl. áratugi á vettvangi ESB og sívaxandi þunga regluverks þess í íslenskum rétti blasir alls ekki við að ofangreindur málflutningur standist mælikvarða um „nútímaleg“ viðhorf, né heldur efnisleg viðmið frjálslyndis, lýðræðis eða alþjóðasamvinnu. Þétt regluverk, sérfræðingastjórn og skortur á lýðræði eru ekki einkenni frjálslynds stjórnarfars. Þungur straumur erlendra reglna, sem samdar eru af fulltrúum annarra þjóða án viðunandi temprunar af Íslands hálfu, er ekki merki um alþjóðlega „samvinnu“.

Lesið meira

Fjórði orkupakkinn og fullveldið

Ekki kemur til greina að gefa eftir fullveldi og yfirráð yfir mikilvægum orkuauðlindum íslensku þjóðarinnar.

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl

Ólafur Ísleifsson

Fjórða orkupakkanum er ýtt áfram af kvörnum kerfisins sem mala jafnt og þétt. Við sitjum uppi með pakkann og afsal fullveldis yfir orkuauðlindunum nema fast verði spyrnt á móti. Evrópuþingið og ráð ESB samþykkti í lok maí 2019 löggjafarpakka sem inniheldur fjórar reglugerðir og fjórar tilskipanir. Felst í þeim endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB. Hann er þó víðtækari en hinn þriðji með því að bætt er við ákvæðum um endurnýjanlega orku, orkunýtni og fleiri slíka þætti. Höggvið í sama knérunn Þrjár gerðir sem snúa að raforkumarkaði sæta sérstakri athugun. Hér ræðir um gamla kunningja því þessar gerðir eru endurskoðaðar útgáfur af gerðum sem hvað mestur styr stóð um í umræðum um þriðja orkupakkann. Ber sérstaklega að nefna reglugerð sem leysir af hólmi eldri reglugerð nr. 713/2009. Með henni var sett á laggirnar samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER. Þar er að finna ákvæði um lagalega stöðu stofnunarinnar, samsetningu og ákvarðanir hennar, m.a. gagnvart landsbundnum stjórnvöldum. Við afgreiðslu þriðja orkupakkans aflaði ríkisstjórnin sér álits ýmissa lögspekinga. Mesta athygli vakti lögfræðileg álitsgerð þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, verkefnisstjóra hjá Lagastofnun HÍ, og Stefáns Más Stefánssonar prófessors.

Lesa áfram

Undirlægjuháttur

Er ekki tími til kominn, að þjóðin endurheimti sjálfstæði sitt?

Haukur Ágústsson skrifar í Mbl.

Haukur Ágústsson

Alþjóða- og milliríkjasamningar eru töfraorð nútímastjórnmála og -samskipta. Í flestum tilfellum rýra þessir samningar sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt þeirra aðila – þjóða – sem innleiða þá; iðulega svo mjög, að samningarnir eru ekki til lengdar litið hagkvæmir ýmsum þeim, sem að þeim standa. Þetta getur stafað af breytingum, sem gerðar hafa verið og raska upphafsforsemdum þess, að gengist var undir samninginn. Þetta á við um til dæmis EESsamninginn, sem hefur breyst gífurlega frá því að Íslendingar gerðust aðilar að honum. Einnig geta samningar í raun úrelst, eins á við um til dæmis mannréttindasáttmála SÞ og ESB, en þeir voru gerðir um miðja síðustu öld og þá á tímum, sem eru allt aðrir en nú ríkja.

EES-samningurinn

Við gengumst undir ákvæði EES-samningsins árið 1993. Hann var okkur nokkuð hagkvæmur framan af á meðan hann snerist sem næst einungis um viðskipti. En í honum voru – og eru – ákvæði um fullgildingu viðbóta, sem viðsemjandinn, ESB, Evrópusambandið, getur sett á án nokkurs raunverulegs samráðs og sent okkur á hönd til upptöku í íslenska löggjöf. Reyndar er gert ráð fyrir því, að unnt sé að hafna slíkum boðum, en afar lítið, sem næst ekki neitt, er um það, að slíkt sé gert. Viðbæturnar renna í gegnum Alþingi, þar sem þingmennirnir; þeir, sem eiga að vera vörslumenn umbjóðenda sinna, þegna þjóðarinnar, hafa sætt sig við að vera aumlegir stimplarar á vegum erlendra ráðskara, sem leggja á kvaðir og skyldur, sem lítið hafa að gera með íslenska hagsmuni eða íslenskan raunveruleika. Eitt nýjasta og hrapallegasta dæmið er hinir svonefndu „orkupakkar“ númer 1, 2 og 3. Tveir hinir fyrstu runnu í gegn á þess að nokkur teljandi umræða ætti sér stað. Enginn vaknaði á meðal „stimplaranna“. Þeir bara bugtuðu sig og ýttu á já-hnappinn. Loks rumskuðu sumir, þegar kom að pakka 3. Andmælendur héldu uppi andófi og fengu lítt þvegnar skammir fyrir. Skoðanakannanir sýndu, að mikill meirihluti þjóðarinnar var andvígur innleiðingu pakkans. Þrátt fyrir andstæðan vilja umbjóðenda sinna, þegnanna, nýttu stimplararnir meirihluta sinn og hleyptu málinu í gegn sem „ályktun“, sem þurfti ekki undirskrift forseta, sem því hafði ekki tök að meta stöðuna í ljósi þjóðarviljans. Þeir gátu ekki annað, sögðu spekingar stimplaranna. Gátu ekki annað! Víst gátu þeir annað. Þeir gátu sýnt hug og dug. Þeir gátu metið hagkvæmni. Þeir gátu ígrundað það, hvaða erindi orkupakkinn – og orkupakkarnir – ættu inn í íslenskar kringumstæður. Þeir gátu tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir gátu nýtt sér höfnunarákvæðið. En ekkert af þessu gerðu þeir. Þeir „gátu ekki gert annað“ en að beygja sig bljúgir fyrir erlendu valdboði. Það er sannarlega hugumstórt – eða hitt þó heldur!

Lesið áfram….

Ímyndarvandi Sjálfstæðisflokks

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl:

Í kosningunum í haust þarf að kveða niður boðskap ESB-sinna sem vilja í raun gera Ísland að litlum áhrifalausum hreppi í Evrópu.

This image has an empty alt attribute; its file name is Styrmir.jpg

Í þá góðu gömlu daga töldum við Heimdellingar okkur vita að leiðtogi okkar, Bjarni heitinn Benediktsson, teldi að þýðing Morgunblaðsins fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri aðallega sú að blaðið hefði svo mikil áhrif á andrúmsloftið í samfélaginu. Jafnframt töldum við okkur vita hver mælistika hans væri á það andrúmsloft – þ.e. hve margir tækju ofan fyrir honum þegar hann gengi úr stjórnarráðshúsinu yfir í Alþingi. Þótt margt hafi breytzt og lítið sé um hatta, sem teknir eru ofan fyrir ráðamönnum á förnum vegi, er það þó góð aðferð að hlusta eftir því hvernig fólk talar til að átta sig á hvernig landið liggur í pólitíkinni og taka mark á því. Og sé það gert á Sjálfstæðisflokkurinn við ímyndarvanda að stríða.

Það er mjög útbreidd skoðun að fiskveiðikvótinn hafi leitt til stórvaxandi ójöfnuðar og Sjálfstæðisflokknum kennt um. Hann er talinn helzta vígi margvíslegra sérhagsmuna. Það er alrangt en því er aldrei mótmælt af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Veruleikinn er sá, að framsal kvótans var gefið frjálst af vinstristjórn Framsóknar, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags án þess að taka upp auðlindagjald um leið. Þetta var sennilega mesti tilflutningur eigna á Íslandi frá siðaskiptum. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki séð ástæðu til að leiðrétta þennan misskilning. Fleiri vísbendingar eru um erfiða stöðu Sjálfstæðisflokks í aðdraganda kosninga.

Lesið áfram

Frelsi og sjálfsábyrgð íslenskrar þjóðar

Sem sjálfstæð þjóð stöndum við nú veikum fótum. Ef svo heldur fram sem horfir er alls ekki víst að frjálslynd lýðræðishefð haldi hér velli.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl.

Arnar Þór Jónsson

Saga mannkyns sýnir að frelsið er dýrmætt og lýðræðið viðkvæmt. Dæmin sanna einnig að ótemprað vald er ógn við hvort tveggja. Stjórnarskrá okkar geymir mikilvæg ákvæði um temprun ríkisvaldsins. En hvaða varnir hefur íslensk þjóð gagnvart erlendu valdi þegar það seilist til áhrifa hérlendis og kallar eftir yfirráðum sem stjórnarskráin ætlar íslenskum yfirvöldum einum? Á síðustu árum hafa ytri og innri mál lýðveldisins þróast með þeim hætti að ekki verður lengur undan litið. Dynjandi óveðursskýin ættu nú að vera greinileg öllum þeim sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra.

Bönd lýðræðisins trosna

Tengslarofið milli almennings og valdhafa birtist í ýmsum myndum og skulu hér nefnd nokkur dæmi:

1. ESB hefur í framkvæmd tekið yfir hluta af valdsviði Alþingis með þeim hætti að aragrúi reglna streymir nú í gegnum þjóðþing Íslendinga á ári hverju án efnislegrar aðkomu, endurskoðunar eða breytinga af hálfu íslenskra þingmanna. Evrópureglur þessar hljóta lagagildi hér á landi án þess að fá hér lögformlega rétta meðferð í samræmi við stjórnarskrá og þingsköp. Í stað þriggja umræðna á Alþingi hljóta reglur þessar afgreiðslu sem þingsályktanir. Þetta er vafalaust þægilegra fyrir ESB, en hvað með íslenska þjóðarhagsmuni? Má una við það að þingsályktun sé veitt sama gildi og lögum sem hlotið hafa þinglega og stjórnskipulega rétta meðferð? Er ásættanlegt fyrir þjóð sem kallast vill sjálfstæð að við getum breytt öllum lögum sem eru í gildi hérlendis, nema þeim sem eiga stoð í EES-samningnum, vegna þess að við höfum engan aðgang að því valdi sem setur reglur á grundvelli EES?

2. Með innleiðingarferlinu hefur embætti forseta lýðveldisins verið gengisfellt, því framangreind „skemmri skírn“ rýrir ekki aðeins stjórnskipulega stöðu Alþingis heldur gerir synjunarvald forsetans óvirkt. Báðar þessar staðreyndir veikja þá lýðræðisvörn sem Alþingi og forseta er ætlað að veita almennum borgurum hér á landi samkvæmt stjórnarskrá.

Lesið áfram..

Útgangspunktar og forsendur til íhugunar

Lýðræðið grundvallast á því að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Lýðræðisbarátta – og sjálfstæðisbarátta – okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóða gagnvart ásælni erlends valds. Þetta verkefni snýst um að verja grunnstoðir velsældar og almannahags.  

Arnar Þór Jónsson hrl.

Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun. Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð.

Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem við á og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða.

ESB byggist ekki á grunni hefðbundins þjóðréttarlegs samstarfs, heldur gefur sig út fyrir að vera „sérstaks eðlis“ (sui generis). Reynslan hefur sýnt að smáþjóðir hafa þar lítil sem engin áhrif.

Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenska lýðveldisins.

Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi sem þeim hefur verið falið, ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar.

Allt vald þarf að tempra, embættisvaldið ekki síst.

Virða ber sérhvern mann og meta út frá orðum hans og athöfnum, en ekki á grundvelli útlitseinkenna, kynferðis, kynhneigðar o.fl.

„Merkimiðastjórnmál“ (e. identity politics) bjóða þeirri hættu heim að menn taki sér siðferðilegt vald yfir öðrum, brennimerki fólk eins og sauðfé, útiloki og dragi menn í dilka sem „seka“ og „saklausa“, þar sem sérvöldum einkennum er beitt til alhæfinga, ásakana og sakfellinga. (Saga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að varast fólk sem talar á síðastnefndum forsendum).

Lýðræðið grundvallast á því að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi.

Lýðræðið hvílir á þeirri forsendu að við verjum klassískt frjálslyndi, sem viðurkennir málfrelsi, fundafrelsi og frelsi til skoðanaskipta, þ.m.t. frelsi okkar og getu til að skipta um skoðanir.

Klassískt frjálslyndi ber að verja gagnvart ógn gervifrjálslyndis, sem misvirðir grundvöll vestræns lýðræðis. Gervifrjálslyndi virðir ekki einstaklinginn, heldur einblínir á hópa og ýtir þannig undir hjarðhegðun. Gervifrjálslyndi treystir ekki dómgreind einstaklingsins en vill að sérvalinn hópur stjórni, ritskoði og hafi eftirlit.

Klassískt frjálslyndi byggist á því að menn njóti frelsis en séu um leið kallaðir til ábyrgðar. Það byggir á því að menn hugsi sjálfstætt en láti ekki aðra hugsa fyrir sig – ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði.

Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi.

Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum.

Við eigum að virða – ekki misvirða – lýðræðislegan grunn íslenskra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Við eigum að virða – ekki misvirða – ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi.

Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum sem að framan eru nefndar. Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa.

Ef menn vilja veikja þær stoðir sjálfstæðis sem persónufrelsið, stjórnarskráin, almenn lög og aðild Íslands að alþjóðasáttmálum hvíla á er lágmarkskrafa að slíkt fari fram fyrir opnum tjöldum, en ekki í bakherbergjum.  

Meðan við viljum vera sjálfstæð þjóð verðum við að axla ábyrgð á eigin hagsmunum, tilveru okkar og frelsi.

Höfundur er héraðsdómari