Arnar Þór Jónsson skrifar um lýðræðið í Mbl

Við lifur á háskalegum tímum. Með því er ég ekki að vísa sérstaklega til kórónuveirunnar (C-19) sem allt hefur snúist um síðustu misseri, heldur annars konar háska sem vegur að undirstöðum lýðfrjálsra samfélaga. Ótti og hjarðhegðun hafa valdið því að margar grunnforsendur daglegs athafnafrelsis eru í uppnámi og mörgum ekki jafn ljósar og áður. Í stað þess að ákvæði stjórnarskrár ákvarði heimildir til sóttvarna eru sóttvarnir orðnar ákvarðandi viðmið fyrir borgaralegt frelsi. Þegar heilbrigðisráðherra reynist hafa gengið of langt í reglusetningu er athyglinni ekki beint að ábyrgð ráðherra og ábyrgð dómstóla gagnvart stjórnarskrá, heldur að ábyrgð dómstóla gagnvart sóttvörnum. Þetta hefur gerst á aðeins rúmlega einu ári, en í smáum skrefum og í beinni útsendingu.
Á þeim tíma sem liðinn er síðan C-19 kom fram hefur verið þrengt svo að gagnrýninni hugsun og tjáningarfrelsi að jafnvel stjórnlyndustu menn hljóta að viðurkenna að frjálslynd lýðræðishefð þoli ekki slíka þróun til langframa. Nú er svo komið að erfitt er að greina mikinn mun á stefnu stjórnmálaflokkanna. Hægri og vinstri flokkar hafa þjappað sér saman um stefnumál þannig að öll nauðsynleg breidd er horfin.
Skýringarnar eru vafalaust margar: Eitruð umræðumenning á samfélagsmiðlum gæti verið ein skýring. Einsleitar skoðanir háskólamanna, fjölmiðlamanna, menningarvita, embættismanna o.fl. gæti verið önnur. En þegar ofan á slíkt bætast þöggun, ritskoðunartilburðir, útilokun o.fl. blasir við óheilbrigt ástand. Sú slagsíða sem hér um ræðir veldur hættu á efnahagslegu og pólitísku tjóni. Með því að nýta ekki tjáningarfrelsið eins og kostur er veikja menn lýðræðið, því einsleit tjáning framkallar einsleita umræðu, fábreytni í hugsun og gagnrýnisleysi, sem í verstu mynd þróast út í yfirlæti, hroka og valdbeitingu.
Lestu meira


