Skattgreiðendur í ESB borga brúsann

Þessir fjármunir hefðu getað nýst vel til uppbyggingar og aðstoðar í Evrópu, en sömu peningunum verður aldrei eytt tvisvar.

Jón Magnúson

Jón Magnússon skrifar í Mbl

Joe Biden klúðraði brottför úr Afganistan með ævintýralegum hætti og kom Bandaríkjunum í ógöngur og skildi svo eftir ógrynni nýlegra hergagna sem hvert Evrópuríki hefði mátt vera stolt af að ráða yfir.

Nú reynir ESB að klúðra líka, þótt það hafi verið víðs fjarri.

Ætla hefði mátt að vestræn ríki mundu bindast samtökum um að útiloka Afganistan frá samfélagi siðaðra þjóða meðan villimennska talibananna ræður þar ríkjum. Krafist þess, að lágmarksmannréttindi yrðu til staðar í landinu auk ýmiss annars annars yrði engin aðstoð í boði. En það er ekki gert.

Í gær ákvað Evrópusambandið að gefa talibanastjórninni 1000 milljónir evra eða 150 milljarða, sem heitir aðstoð. Skattgreiðendur í Evrópu hafa aldrei verið spurðir um þetta eða þeirra samþykkis leitað.

Þessir fjármunir hefðu getað nýst vel til uppbyggingar og aðstoðar í Evrópu, en sömu peningunum verður aldrei eytt tvisvar. Óneitanlega skýtur það skökku við, að valdstjórn Evrópusambandsins í Brussel skuli fyrst krefjast þess að lönd Evrópu taki við ómældum fjölda flóttamanna (um 90% þeirra eru ungir karlmenn) vegna ógnarstjórnarinnar í Afganistan og styrkja ógnarstjórnina síðan með gríðarlegum fjármunum.

Hvers eiga evrópskir skattgreiðendur eiginlega að gjalda.

Jón Magnússon er hæstaréttarlögmaður og fv. alþingismaður

Heimagerður orkuvandi

Sigríður Á. Andersen skrifar í Mbl
Evrópa glímir við orkuvanda um þessar mundir sem virðist að verulegu eða öllu leyti heimatilbúinn. Telegraph segir frá því að forystumenn í atvinnulífinu telji ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að skipta yfir í „grænna“ bensín, þ.e. bensín með hærra etanól-innihaldi, hafa haft mikið um bensínvandann þar að segja. Bensínskortur gerði breskum bílstjórum gramt í geði og verðið rauk upp.

Sigríður Á. Andersen

Evrópa glímir við orkuvanda um þessar mundir sem virðist að verulegu eða öllu leyti heimatilbúinn. Telegraph segir frá því að forystumenn í atvinnulífinu telji ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að skipta yfir í „grænna“ bensín, þ.e. bensín með hærra etanól-innihaldi, hafa haft mikið um bensínvandann þar að segja. Bensínskortur gerði breskum bílstjórum gramt í geði og verðið rauk upp.

Telegraph segir einnig að umdeilt sé hvort þetta hækkaða etanól-hlutfall sé betra fyrir umhverfið, en etanólið er framleitt úr korni, og ekki eru allir á eitt sáttir um að nýta land til etanól-framleiðslu fyrir bíla í stað matvælaframleiðslu.

Hér á landi er einnig notað lífeldsneyti á borð við etanól og lífdísil og Sigríður Á. Andersen spurði fjármálaráðherra út í það á þingi í sumar og fékk svar í liðnum mánuði. Sigríður fjallaði um svarið á vef sínum og sagði: „Ríkið hefur ekki hugmynd um hve mikið (eða hvort) losun CO² minnkar vegna margra milljarða króna sem það veitir árlega í skattaívilnanir til lífeldsneytis og rafbíla.“

Hún benti á að skattaívilnanirnar hefðu verið til staðar í áratug en samt vissi enginn hverju þær skiluðu. Milljarðar streymdu úr landi vegna þessa.

Við erum sem betur fer ekki í jafn slæmri stöðu og Bretar, en er verjandi að halda áfram að ýta undir notkun á óhagkvæmu eldsneyti ef árangurinn af aðgerðunum liggur ekki fyrir?

Höfundur er fyrr. þigmaður og ráðherra

Ályktun FSF vegna stjórnarmyndunarviðræðna

Frá Félagi Sjálfstæðismanna um Fullveldismál

Ný ríkisstjórn Íslands þarf að takast á við fjölþættan vanda ekki síst vegna þeirra víðtæku áhrifa og þess gríðarlega kostnaðar, sem Covid-19 faraldurinn hefur haft fyrir þjóðarbúið. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gæta þess í stjórnarmyndunarviðræðum og í starfi að hafa ætíð í heiðri ályktanir landsfunda Sjálfstæðisflokksins einkum hvað varðar frelsi einstaklingsins og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Í því sambandi er nauðsynlegt að taka EES samninginn til endurskoðunar á þessu kjörtímabili.

Til þess að Ísland verði raunverulegt land tækifæranna er grundvallaratriði, að borgararnir fái sem mest frelsi til arðsköpunar, skattar verði í lágmarki og auðlindir landsins verði nýttar til arðsköpunar í sátt við eðlileg verndarsjónarmið, þannig að ekki verði gengið á landsins gæði til tjóns fyrir komandi kynslóðir. 

Í stjórnarmyndunarviðræðum  nú er því nauðsynlegt að vikið verði af þeim vegi friðunar nánast allra staða sem bjóða upp á hefðbundna orkunýtingu og hefur leitt til þess að sumir landshlutar búa við ótryggt og óviðunandi ástand í orkumálum. 

Horfast verður í augu við það að aðgerðaráætlun ríkisins í loftslagsmálum stenst ekki og mun stofna til gagnslausra fjárfestinga, sem leggja óbærilegar byrðar á neytendur og atvinnulíf á komandi árum, þannig að ólíklegt er, að Ísland verði ”land tækifæranna” verði henni fylgt eftir. Ísland þarf að öðlast viðurkenningu á framlagi sínu til loftslagsmála, sem felst í málmbræðslu með hreinni orku. Eigi að kaupa losunarkvóta til áframhaldandi iðnaðar á þessu sviði eru orkulindir á Íslandi nánast verðlausar.

Taka verður skipulag heilbrigðismála til gagngerrar endurskoðunar og gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að nýta þjónustu verktaka og annan einkarekstur til að gera gott kerfi fjölbreyttara, öruggara og betra fyrir þá sem þurfa á þjónustu þess að halda. Hefjast skal strax handa við að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Stórbæta þarf aðgengi landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustunni. 

Nauðsynlegt er að við nýtum okkur sjávarútvegsauðlindina í meira mæli en gert hefur verið á undanförnum árum. Eftir rúmlega 40 ára ákveðnar friðunaraðgerðir sem hafa ekki skilað þeim árangri, sem til var ætlast er full ástæða til að skoða frekari markaðsvæðingu í sjávarútvegi,  rýmkun aflaheimilda sérstaklega á grunnslóð og aukinn sveigjanleika í úthlutun aflaheimilda.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að móta ákveðna stefnu í næstu ríkisstjórn um nauðsynlegar breytingar til að auðvelda ungu fólki að eignast eigin íbúð án þess að það þurfi að sæta félagslegu skömmtunar- og eða leigukerfi. Sú stefna Sjálfstæðisflokksins, sem var einn hornsteinn félagsmálastefnu flokksins um áratuga skeið, að auðvelda ungu fólki að verða eignafólk er mikilvæg og hana verður að endurvekja m.a. með því að frumkvæði og kraftur unga fólksins verði leystur úr læðingi og sé virkjaður með einstaklingsbundnum lóðaúthlutunum í stað þess að lóðaúthlutanir verði aðallega eða nánast eingöngu til stórra byggingaraðila.

Gæta verður þess, að innflutningur fólks verði ekki óhóflegur, til að komast hjá samfélagslegum óstöðugleika og þeirri hættu að þjóðfélagsgerð okkar raskist í grundvallaratriðum eins og raunin er í ýmsum nágrannalöndum okkar. Gera verður kröfu til þeirra, sem flytja búsetu sína til landsins, að þeir læri íslensku og fái fræðslu um sögu landsins og grundvallaratriði íslenskrar þjóðmenningar.

 Bregðast verður við óhóflegum áhuga erlendra auðmanna til að kaupa jarðnæði og auðlindir á Íslandi með því að skerpa á allri sýn, löggjöf og reglum, sem varða eignarhald á landi og auðlindum. Stjórnvöld þurfa að og að endurskoða lög um auðlindir í jörðu

Á sama tíma og gert verið átak til að tryggja ungu fólki farsæld og góða möguleika í lífinu þá verði brugðist við réttmætum og sanngjörnum kröfum eldri borgara til að  ná því grundvallarmarkmiði lýðræðisþjóðfélags, að sátt verði með kynslóðunum og velferð bæði æsku og elli tryggð með viðunandi hætti. Þá verði þess gætt, að framtak og vinnusemi fólks nýtist samfélaginu, en með því væri stigið skref til þess,  að Ísland verði land tækifæranna. 

Gera þarf stórátak í samgöngumálum, ekki síst á Stór-Reykjavíkursvæðinu og tryggja að íbúarnir hafi frjálst val um þá samgöngumáta sem hentar þeim best.

Tryggt verði að skipulagsákvarðanir og framkvæmdir einstakra sveitarfélaga tefji ekki samgöngur um þjóðvegakerfi landsins óhóflega með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur.

Nýsköpun, framsækni og dugnaður er forsenda velmegunar í samkeppnisþjóðfélagi eins og okkar og Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur íslenskra stjórnmála, sem ber skyldu til þess að einstaklingurinn fái jafnan að sýna það sem í honum býr og njóta eigin arðsköpunar.

Samþykkt á stjórnarfundi Félags sjálfstæðismenna um fullveldismál haldinn í Valhöll þ. 9. október 2021

Pólland kemur ESB í uppnám

Loftur skrifar

Það vekur athygli, eða ætti í það minnsta að vekja athygli, að þau atriði sem nú valda bæði lagalegri og pólitískri kreppu í Evrópu þ.e. kolvitlaus bólusetningaráætlun ESB svo og innrás ESB í fullveldi aðildarþjóðanna hafa hlotið sérstaka aðdáun íslenskra stórnvalda. Íslendinga ríkisstjórnin hlýtur að vera ein mest ESB-sinnaða ríkisstjórnin í Evrópu.

BREXIT

Bæði þýskir og pólskir dómstólar hafa nú úrskurðað að þarlend lög séu æðri lögum ESB. Þetta er auðvitað lagalega rangt því meginreglan er sú að þegar þú gengur í ESB fórnar þú fullveldi þíns lands og verður að hugsa og framkvæma í samræmi við álit Evrópudómstólsins.

Í ESB eru engar varanlegar undanþágur og því vekur furðu sá áhugi sem sumir hérlendir menn sýna inngöngu í það félag og um leið opinberar það fákunnáttu þeirra Íslendinga sem enn vilja fá að „kíkja í pakkann“ hjá ESB. Þeir hinir sömu hafa greinilega ekki lesið Lissabon-sáttmálann.

Þetta vissu Bretar. Til að ná aftur fullveldi sínu þurftu þeir yfirgefa ESB. Brexit var pólitískt og lýðræðislegt val bresku þjóðarinnar.

Því má ekki gleyma að ESB braut sín eigin lög með afar illa útfærðri bóluefnisáætlun sinni. Þessi hörmulega áætlun á sér þó furðumarga aðdáendur hér á landi m.a. í ráðuneyti heilbrigðismála en það kemur að sjálfu sér ekki á óvart.

Lesa meira

Um daginn og veginn

Davíð Gíslason læknir skrifar um heilbrigðiskerfið á dögum kommúnismans

Davíð Gíslason

Við lifum á undarlegum tímum. Kóvid hefur umturnað lífi margra okkar og þessi veiruskömm er óvinur þjóðarinnar nr. 1. Þegar ég var ungur læknanemi var sagt að inflúensan væri besti vinur gamla mannsins, því ef hún kæmi í heimsókn tækju allar áhyggjur skjótan enda nema áhyggjur ættingjanna sem þyrftu að sjá um útförina. Þetta viðhorf á nú líklega ekki marga talsmenn lengur. Sagt er að sá sem ekki óttast dauðann óttist ekkert, og það er kosturinn við að verða gamall að þá fækkar ástæðum óttans og margir nálgast þá aftur barndóminn og geta leyft sér að benda á nýju fötin keisarans.

Þökk sé kóvid hefur heilbrigðiskerfið verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Neyðaróp hafa heyrst frá Landspítalanum og sérstaklega frá bráðamóttökunni. Það er eins og eilíf vandamál Landspítalans séu náttúrulögmál, svona eins og aðdráttarsvið jarðar. Fyrir mörgum árum var einn af kennurum mínum spurður frétta af spítalanum. „Þar sést aldrei glaður maður,“ var svarið. Annar kollega taldi einsýnt að spítalinn hefði verið byggður á álagabletti. Þetta er auðvitað hótfyndni, en kannski með einhverju sannleikskorni.

En flest hefur sínar skýringar. Það líður engum vel í allt of þröngum fötum. Eftir að spítalarnir voru sameinaðir hefur rúmum fyrir bráðveika sjúklinga fækkað um nærri 40%, þjóðinni hefur fjölgað um þriðjung og hér iðar samfélagið af útlendingum. Því er spítalanum allt of þröngur stakkur skorinn, sem bitnar kannski harðast á bráðamóttökunni við að finna sjúklingunum pláss.

Það er kvartað yfir skorti á mannafla. Sérnámslæknar hafa ekki beinlínis verið hvattir til að koma heim eftir sérnám. Þeir hafa jafnvel átt í málaferlum við stjórnvöld til að fá að hefja hér störf þótt þörfin fyrir þá sé æpandi.

Lesa meira

Pólland sagt skrefi nær útgöngu úr ESB

RÓBERT JÓHANNSSONFréttastofa RÚV

Pólverjar virtust í gær taka stórt skref í áttina að því að segja sig úr Evrópusambandinu þegar stjórnlagadómstóll landsins úrskurðaði að nokkur lög ESB stangist á við pólsku stjórnarskrána. Í úrskurðinum segir að sumir sáttmálar ESB og dómar séu á skjön við æðstu lög Póllands. 

POLEXIT

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir Rene Repasi, prófessor í alþjóða- og Evrópulögum við Erasmus háskólann í Rotterdam, að þetta sé lagaleg bylting Pólverja. Þrátt fyrir að dómstóllinn sé umdeildur sé þetta stærsta skref sem nokkur ríkisdómstóll hefur tekið til að segja sig úr ESB. 

Lögmæti pólska stjórnlagadómstólsins er umdeilt eftir pólitísk afskipti við ráðningu dómara þangað. Stjórnarflokkur Laga og réttar, PiS, skipti um dómara í dómstólnum og réði þangað dómara hliðholla flokknum og stefnu hans. Stjórnvöld þvertaka þó fyrir það að hafa nokkur áhrif á úrskurði dómara. 

Eftir að Evrópusambandið gagnrýndi dómaraskiptin og sagði þau stangast á við reglur ESB taldi Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, nauðsynlegt að fá úr því skorið. Hann færði málið því til stjórnlagadómstólsins, og sagði máli sínu til stuðnings að yfirvöld ESB hafi engan rétt á því að skipta sér af dómskerfismálum aðildarríkja. Mannabreytingar í stjórnlagadómstólnum hafi verið nauðsynlegar til þess að losa Pólland við áhrif kommúnistatíðarinnar, að sögn Morawiecki.

Framkvæmdastjórn ESB var ekki par sátt við dóminn og lýsti verulegum áhyggjum sínum í gær. Framkvæmdastjórnin ítrekaði að lög ESB væru æðri lögum einstakra ríkja, þar á meðal ákvæðum stjórnarskráa þeirra. Þá bætti hún því við að úrskurðir Evrópudómstólsins væru bindandi gagnvart öllum aðildarríkjum, þar á meðal dómstólum þeirra. 

Stjórn Laga og réttar í Póllandi hefur ítrekað komist í kast við Framkvæmdastjórn ESB, þrátt fyrir mikinn stuðning almennings við aðild að sambandinu. Auk pólitískra breytinga á dómstólum hefur pólska stjórnin þrengt að fjölmiðlafrelsi í landinu og að réttindum hinsegin fólks.

Hallærisstjórn í burðarliðnum?

Loftur skrifar:

Framsókn vann Alþingiskosningarnar 2021, ekki ríkisstjórnin eins og RÚV hélt fram í Kastljósi. VG var hafnað af kjósendum, Sjálfstæðisflokkurinn fékk gula spjaldið því útkoman í Reykjavík, helsta vígi flokksins var sú alversta sem hann hefur fengið nokkurn tímann áður. Sjálfstæðismenn höfnuðu „frjálslyndum“ frambjóðendum flokksins, vel minnugir þess hverjir stóðu fyrir innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög.

Áframhaldandi stjórnarsamstarf með VG innanborðs yrði auðvitað algjör hallærisstjórn. Tveir af núverandi ráðherrum VG eru algjörlega vanhæfir. Heilbrigðisráðherra VG skilur ekki, að það að gera Ísland að Kúbu Norðursins í anda kommúnistanna í Norður-Kóreu, Nicaragua og Víetnam leysir ekki vanda heilbrigðiskerfisins, sem hún hefur lagt í rúst. Kjósendur höfnuðu Sósíalistaflokknum og þeir höfnuðu VG. Þetta skilja allir nema þeir sjálfir og RÚV. Ráherrann þarf auðvitað að víkja, því fyrr því betra og áður en hryðjuverkin verða fleiri. Vandamálið er að losna við frúna úr ríkisstjórninni, það verður ekki auðvelt verk fyrir BB. Kannski fær KJ það hlutverk, kominn tími til að hún geri eitthvað, því hún hefur náð gífurlegum vinsældum fyrir að gera aldrei neitt. Styggir aldrei neinn sem er afar áhugaverð pæling fyrir stjórnmálaskóla unga fólksins.    

Lesa meira

Rödd úr gras­rótinni

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar á Visir.is:

Kristinn Karl Brynjarsson

Þegar fráfarandi ríkisstjórn var mynduð fannst mér, gallhörðum sjálfstæðismanninum, hún vera illskásti kosturinn sem uppi var á þeim tíma. Tveir aðrir verri kostir voru í boði. Sá fyrri var að fólkið sem náðist á mynd í stofunni á Syðra Langholti 4 í Hrunamannahreppi næðist á mynd við ríkisráðsborðið á Bessastöðum.

Seinni kosturinn var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Miðflokks og Fólks fólksins. Sú ríkisstjórn hefði þó þurft að funda í gegnum fjarfundarbúnað vegna óvildar á milli forystufólks Framsóknar og Miðflokks, eftir uppgjörið mikla í Framsókn.

Ég setti hins vegar tvo fyrirvara við þá ríkisstjórn er tók við eða öllu heldur setti tvo ráðherra á skilorð. Mér fannst það alls ekki við hæfi að fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar yrði gerður að umhverfisráðherra. Það væri nánast eins og ef að forstjóri sjávarútvegsfyrirtækis yrði gerður að sjávarútvegsráðherra. Það hefur líka komið á daginn, að umhverfisráðherra hefur fyrst og fremst með embættisfærslum sínum, verið upptekinn af því að gera Landvernd til geðs, frekar en að huga að heildarhagsmunum þjóðarinnar. Frumvarp ráðherrans um hálendisþjóðgarð var þvert á tillögur starfshóps skipaðan fulltrúum allra flokka á þingi og hagsmunaaðila sem að með einum öðrum hætti nýta hálendið í leik og starfi. Frumvarpið líkist meira því að hafa verið skrifað á skrifstofu Landverndar en að ráðherrann hafi tekið tillit til tillagna starfshópsins. Afar umdeilt friðunaræði ráðherrans í undanfara kosninga í andstöðu við að minnsta kosti annan stjórnarflokkinn er svo annað dæmi um gerræðislega einræðistilburði ráðherrans.

Hinn ráðherrann sem ég setti á skilorð er heilbrigðisráðherra. Þegar núverandi heilbrigðisráðherra tók við, stóð heilbrigðiskerfið á krossgötum, eins og oft áður.

Lesa meira

Horfum fram á veginn

Einar S. Hálfdánarson skrifar í Mbl

Minnkun þjóðarframleiðslu mun færa lífskjörin annað, þ.m.t. góða heilbrigðisþjónustu.
Hægt er að viðhalda lífskjörunum og vernda umhverfið um leið.

Einar S. Hálfdánarson

Verður það hlutskipti barna okkar og barnabarna að lifa við versnandi lífskjör næstu áratugina? Frambjóðendur Samfylkingar og sumir aðrir boðuðu mikinn samdrátt í neyslu til að ná miklu meiri árangri en kveðið er á um í sameiginlegum markmiðum Evrópuríkja gagnvart Parísarsamningnum. Ég tel unnt að gera miklu betur hvað varðar loftslagsmál og mengun án þess að fórna lífskjörunum. Mjög hallar á Evrópuríkin í Parísarsamningnum en aðrir hafa frítt spil án fullnægjandi skýringa. Og Ísland á ekki að taka þátt í að færa framleiðslu úr landi til að líta betur út á blaði. Sameinuðu þjóðirnar hafa enda varað við slíkri sýndarmennsku. Evrópa hamast meðan aðrir auka losun af miklu kappi. En þannig er staðan nú einu sinni og við hana verður að lifa.

Þróunarhjálp til hjálpar gegn mengun

Með því að samþætta annars vegar loftslagsmál og mengunarvarnir og hins vegar þróunarhjálp getum við gert heiminum miklu meira gagn en með því að einblína á losun á Íslandi.

Lesa meira