Tveir stjórnarmenn í fullveldisfélaginu eru í framboði í prófkjöri flokksins í Reykjavík, þau Ingibjörg Sverrisdóttir og Birgir Örn Steingrímsson, og Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sem vakið hefur mikla athygli fyrir greinar sínar hér í blaðinu, í Suðvesturkjördæmi. Aðild þeirra þriggja að þingflokknum mundi gjörbreyta stöðunni þar.
Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl
Meðal kjósenda er undirliggjandi gremja vegna óafgreiddra mála.
Nú fer að styttast í að kosningabaráttan hefjist af fullum krafti. Í dag hefjast fyrstu prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi og í framhaldinu í öðrum kjördæmum. Framsóknarflokkurinn er búinn að kynna framboðslista sína í Reykjavíkurkjördæmunum og aðrir flokkar eru komnir vel á veg.
Það verður ekki annað sagt en að núverandi stjórnarsamstarf hafi reynzt vel og mörgum finnst æskilegast að það haldi áfram. Eins og við mátti búast hefur þátttaka VG verið umdeild á vinstri kantinum en Katrín Jakobsdóttir orðið afar vinsæl sem forsætisráðherra, sem skapar flokki hennar góða vígstöðu í kosningunum.
Innan Sjálfstæðisflokksins er vilji til að þessu samstarfi verði haldið áfram. Það hjálpar hins vegar ekki til andstaða innan þingflokksins við hálendisþjóðgarð og neikvæður tónn í garð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra af því að hún hefur aðra afstöðu til heilbrigðismála en þingmennirnir í þeim þingflokki.
Allt á þetta eftir að skýrast í kosningabaráttunni en óráðlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ganga út frá því sem vísu að Framsókn og VG vilji halda samstarfinu áfram.
Það er sannfæring okkar félaga að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins
Óli Björn Kárason skrifar í Mbl
Þegar þessi orð eru sett niður á blað er rúm klukkustund í að atkvæðagreiðslur hefjist í þingsal um nokkur frumvörp ríkisstjórnarinnar. Gangi allt eins og lagt er upp með verða fimm frumvörp orðin að lögum um það leyti sem margir fá sér síðdegiskaffi. Fæst hafa áhrif á daglegt líf okkar, en geta skipt máli til lengri eða skemmri tíma. Ég óttast hins vegar að eitt frumvarpið ýti samfélaginu inn á hættulegar brautir. Lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum er ætlað að stuðla að auknu heilbrigði fjármálamarkaða, efla fjárfestavernd og traust fjárfesta á fjármálamörkuðum. Framhaldi ferðagjafar er ætlað að vinna gegn neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið með breytingum á lögum um fiskeldi er að stuðla að betri nýtingu fjarða og hafsvæða til fiskeldis. Með breytingu á bráðabirgðaákvæði í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er framlengd heimild til að semja um rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir vegna þeirra starfsmanna sem veita þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Fimmta frumvarpið sem verður að lögum er beinn stuðningur ríkisins við starfsemi einkarekinna fjölmiðla. Með samþykkt þess er stigið fyrsta skrefið í að gera sjálfstæða fjölmiðla fjárhagslega háða ríkisvaldinu. Í stað þess að ráðast að rót vandans – sem er forréttindi ríkisrekinnar fjölmiðlunar – er leið ríkisstyrkja valin.
Fátt hættulegra
Ég hef lengi varað við að innleitt verði flókið kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Í júní 2018 skrifaði ég meðal annars: „Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera sem skammta úr hnefa fjármuni til að standa undir einstökum þáttum í rekstrinum. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði.“ Engum ætti því að koma á óvart að ég geti ekki stutt stjórnarfrumvarp um stuðning við fjölmiðla, jafnvel þótt meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi gert skynsamlegar breytingar á frumvarpinu. Þar skiptir mestu að stuðningurinn verður tímabundinn. Með samþykkt frumvarpsins eru þingmenn ekki að plægja jarðveginn fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla sem tryggir að réttar upplýsingar séu dregnar fram, að ólík sjónarmið fái að heyrast og nauðsynlegt aðhald sé að helstu stofnunum samfélagsins
ESB er afsprengi evrópukratismans. Hann er undarlegt fyrirbrigði, ættaður frá Robert Schuman, sem var mjög þekktur ráðherra í nokkrum þekktum ríkisstjórnum Frakklands 1940 – 1953. Hann fékk þá hugljómun um 1940 að Evrópa skyldi halda frið með því að sameinast um að setja þungaiðnaðinn undir yfirþjóðlega stjórn innan sameiginlegra ytri tollamúra. Eftir heimstyrjöldina voru menn opnari fyrir þessum boðskap og Schuman kom því til leiðar að og Kola- og stálbandalagið var stofnar 1951. Það varð svo að EBE, síðan EB og síðast ESB.
Schuman var reyndar ekki krati í okkar skilningi, hans flokkur var Kristilegir Demókratar. En bæði þeir og sósíaldemókratar tóku boðskapnum fagnandi svo í dag er Evrópubandalagið trúaratriði hjá sósíaldemókrötum allrar Evrópu. Þangað vilja þeir fara og þar vilja þeir bera beinin. Þetta er evrópukratismi.
Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori. Þetta er mikið fagnaðarefni þeim, sem sakna umræðna og afstöðu til grundvallar stjórnmálanna, einstaklingsfrelsis, hlutverks ríkisins og síðast, en ekki sízt, stöðu Íslands á meðal þjóðanna.
Áhugi á meðal almennings í þessa veru er ekki einsdæmi á Íslandi. Hann er t.d. ríkur í Noregi, þar sem mikil umræða á sér stað um afstöðu Noregs til Evrópusambandsins (ESB), en eins og gildir um Ísland og Liechtenstein, fara samskipti Noregs við ESB í höfuðdráttum fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í Noregi og á Íslandi eru efasemdir á meðal leikra og lærðra, þ.e. löglærðra og hinna, um það, hvort innleiðing sumra gerða (tilskipana og reglugerða), þar sem framsal ríkisvalds til stofnana ESB á sér stað, brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna eða ekki. Er deila um réttmæti afgreiðslu 3. orkupakka ESB (OP3) í Stórþinginu nú til úrlausnar í dómskerfi Noregs.
Fulveldissinnar og andstæðingar inngöngu Íslands í ESB geta nú glaðst því Ingibjörg Sverrisdóttir hefur gefið kost á sér í 4-5 sæti á framboðslista Sjálfstæðismanna í Reykjavík
Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB), gefur kost á sér í 4.-5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fyrir komandi prófkjör.
Prófkjörið fer fram dagana 4. og 5. júní næstkomandi.
„Formenn stærstu félaga eldri borgara, innan vébanda Landssambandsins, sendu frá sér áskorun til allra flokka sem sæti eiga á Alþingi í febrúarmánuði síðastliðinn. Þar skoruðum við á flokkana að tryggja eldra fólki sæti á framboðslistum þeirra enda verða á þessu ári um 75.000 manns á Íslandi, 60 ára og eldri, þar af verða um 45.000 67 ára og eldri. Þessi hópur þarf rödd í samfélaginu. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér enda brenn ég fyrir hagsmunum eldri borgara,“ segir Ingibjörg og bætir við: „Málefni og kjör eldra fólks eiga hug minn allan og ég mun ekki láta mitt eftir liggja í baráttunni fram undan fyrir bættum lífsgæðum eldra fólks,” segir Ingibjörg H. Sverrisdóttir í tilkynningu.
Á síðustu árum hef ég ritað tugi greina í blöð og tímarit um undirstöður laga og réttar, um lýðræði, valdtemprun og nauðsyn þess að valdhafar svari til ábyrgðar, um samhengi réttinda og skyldna, mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar o.m.fl. Framlag mitt má vissulega kallast þátttaka í „samfélagsumræðu“ en hún er þó fyrst og fremst innlegg í lagalega umræðu, því þetta tvennt verður í raun ekki aðgreint. Í skrifum mínum hef ég lagt áherslu á þessa staðreynd, þ.e. að lög og samfélag eru tvær hliðar á sama veruleika. Umræða um lög er því óhjákvæmilega jafnframt umfjöllun um samfélagsmál. Hér sem annars staðar þurfa menn að gæta þess að láta ekki hagsmuni og afflutning leiða sig á villigötur.
Greinar mínar hafa verið ritaðar til áminningar um tiltekna útgangspunkta og meginviðmið sem nauðsynlegt er að almenningur og valdhafar séu vakandi yfir:
Okkur ber ávallt að standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins og virða ákvæði hennar eins og þau standa.
Stjórnskipun Íslands ber að verja og forðast umbyltingar án vandaðrar umræðu.
Standa ber vörð um sjálfstæði Íslands, m.a. með því að virða ákvæði laga og fjölþjóðlegra samninga um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga.
Verja ber fullveldi Íslands, þ.e. það meginviðmið að Íslendingar eigi sjálfir síðasta orðið um innihald laga og þar með þann grunn sem dómstólar og framkvæmdavald starfa á.
Bæta verður hagsmunagæslu okkar á erlendum vettvangi, ekki síst í sameiginlegu EES nefndinni. Ef við sem þjóð sinnum ekki þessari hagsmunagæslu, þá gerir það enginn.
Lög sem gilda eiga á Íslandi skulu eiga sér lýðræðislega rót og vera sett að undangenginni umræðu hér á landi.
Innleiðing erlendra reglna má ekki vera hömlulaus.
Íslensk lög skulu taka mið af íslenskum aðstæðum.
Hagnýting náttúruauðlinda Íslands er ein af grunnstoðum hagsældarinnar og má ekki ganga okkur úr greipum.
Framsal ríkisvalds úr landi skal sæta þröngum skilyrðum, ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Í framkvæmd hefur EES samningurinn leitt til meira framsal ríkisvalds til erlendra stofnana en gert var ráð fyrir þegar Ísland gerðist aðili að samningnum 1992.
Sem löggjafarþing Íslendinga verður Alþingi að geta breytt eða endurskoðað þau lög sem ætlað er að gilda hérlendis.
Ákvarðanir um réttindi og skyldur Íslendinga skulu teknar sem næst vettvangi, ekki í erlendum borgum.
Gera ber athugasemdir við að erlendar stofnanir seilist ótilhlýðilega til valda og áhrifa hérlendis án skýrra lagaheimilda.
Lög eiga að vera fyrirsjáanleg, skiljanleg og skýr. Lagareglur eiga ekki að vera svo margar og svo flóknar að almennir borgarar sjái ekki út úr augum.
Kalla ber fólk til ábyrgðar. Ábyrgð er undirstaða frelsis.
Virkja ber þann kraft og þá hæfileika sem búa í hverjum manni, jafnt ungum sem öldnum
Ekki má rjúfa tengsl milli almennings og valdhafa.
Allt vald ber að tempra, embættisvaldið ekki síst.
Borgararnir hafa rétt og skyldu til tjáningar, til að setja fram málefnalega gagnrýni.
Í lýðfrjálsu ríki verður almennum borgurum ekki skipað að hlýða umyrðalaust, án andófs, án hugsunar.
Hinum svonefndu menningarþjóðum Evrópu tókst ótrúlega vel að búa til fallega sögu um framferði þeirra víða um heim fyrr á tíð þegar þær voru að koma sér upp því sem kallað var nýlendur. Samkvæmt þeirra frásögn voru þær að brjóta siðmenningunni leið inn í fátæk lönd, sem höfðu ekki komizt í tæri við hana fyrr. Og með þeim rökum var því haldið fram að nýlendutíminn væri glæstasti þáttur í sögu þeirra. Þessi sögutúlkun er enn við lýði þótt reglulega skjóti upp kollinum fréttir sem benda til þess að sú söguskoðun sé á undanhaldi. Raunveruleikinn er sá að hinar evrópsku menningarþjóðir fóru ránshendi um heiminn í krafti vopnavalds og urðu ríkar á því að hagnýta sér auðlindir annarra þjóða. Fiskveiðar Breta undir herskipavernd við Ísland eru glöggt dæmi um það. Fyrrverandi nýlendum Evrópuríkjanna er þetta vel ljóst. Sennilega er framferði Belga í Kongó ljótasta dæmið um þetta. Belgískum hermönnum var gert að koma með líkamshluta af drepnum fórnarlömbum til að sanna að þeir hefðu sinnt skyldum sínum. Belgar eru að byrja að átta sig. Þeir eru farnir að breyta nöfnum á byggingum, götum og torgum sem höfðu verið nefnd eftir hetjum fyrri tíðar.
Arnar Þór Jónsson gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi
Ég tel að mér sé skylt sem frjálsum einstaklingi að verja samviskufrelsi mitt og tjáningarfrelsi,“ segir Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en greint var frá því á dögunum að hann hefði sagt sig úr Dómarafélagi Íslands á síðasta ári. Arnar Þór hefur vakið athygli fyrir greinar sem hann hefur skrifað samhliða dómarastörfum sínum en hann segir að þeim hafi verið svarað með annaðhvort þögn eða þöggunartilburðum. Arnar Þór hefur því eftir nokkra íhugun ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í júní.
Mótandi námsdvöl vestanhafs
Arnar Þór Jónsson fæddist 2. maí 1971 og er því nýorðinn fimmtugur. Hann segir að hann hafi alist upp á heimili þar sem öll blöðin voru keypt, jafnt Þjóðviljinn sem Morgunblaðið, og hann hafi því ávallt fylgst vel með umræðunni. Ein helsta reynslan sem ýtti Arnari á braut lögfræðinnar var þó dvöl hans sem skiptinemi á menntaskólaárum í Bandaríkjunum, en þar kynntist hann m.a. þeirri hugsun sem liggur að baki vestrænni stjórnskipun. „Við lásum mikið um bandarísku stjórnarskrána og tilurð hennar, við lásum Kommúnistaávarpið, vorum í Biblíulestri og lásum Makbeð, Bjólfskviðu o.fl. Þetta var ótrúlega mótandi tími og ég fékk þar mikinn áhuga á pólitískum og lagalegum undirstöðum samfélagsins,“ segir Arnar Þór, en miðaldabókmenntir og saga hafa einnig verið mikil áhugamál hans, og segir hann þann grunn hafa nýst sér mjög vel. Eftir laganám starfaði hann fyrst sem dómarafulltrúi í Héraðsdómi Reykjaness og síðan í dómsmálaráðuneytinu, áður en hann varð aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands. „Það var mjög lærdómsríkur tími, ég starfaði þar með fólki sem ég leit mikið upp til og ber hlýhug til,“ segir Arnar Þór, en hann var fyrst settur héraðsdómari 2004-2005. Þaðan fór hann í bankakerfið. „Ég sá það fljótt að það hentaði mér ekki,“ segir Arnar Þór og ákvað hann þá um haustið 2005 að fara út í lögmennsku. Sem lögmaður rak hann lengst af lögmannsstofu ásamt Ragnari Aðalsteinssyni og fleirum.
Birgir Örn Steingrímsson hefur ritað eftirfarandi bréf til allra alþingismanna og ráðherra
Reykjavík, 14. apríl 2021
Varðandi frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á fjölmiðlalögum nr. 38/2011 vegna fyrirhugaðrar innleiðingar í landsrétt á tilskipun 2018/1808/ESB, frá 14. nóvember 2018, sem breytir tilskipun 2010/13/EB um hljóð- og myndmiðlun.
Menntamálaráðherra íhugar að leggja fram ofangreint frumvarp þar sem m.a. verður gerð krafa um að a.m.k 30% af öllu efni sem sýnt er á streymisveitum eins og t.d. Netflix og Disney+ verði „evrópskt“. Þetta á að vera gert að kröfu ESB og fellur undir Evróputilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Þegar haft er í huga að Evrópubúar eru tæplega 7% mannkyns og framleiða sennilega svipað hlutfall myndefnis má leiða líkum að því að um 80% af framleiddu efni, sem frumvarpið nær yfir, lokast fyrir áhorfendur á Íslandi eða erfiðara verður að nálgast það.
Þessi tilskipun er sérstaklega beint að bandarískum streymisveitum enda eru þær stærstar, en tilskipunin mun óhjákvæmilega hafa áhrif á aðrar streymisveitur, sem ætla að starfa innan ESB. Tryggja á forgang „evrópsks“ efnis. Eins og staðan er í dag fellur myndefni framleitt í Bretlandi undir skilgreiningu sem „evrópskt“, en ekki er víst að svo verði í framtíðinni eftir BREXIT. Ef svo færi gæti einnig orðið um verulega skerðingu á framboði af bresku efni hjá þeim streymisveitum sem falla undir þessa evróputilskipun.
Samkvæmt frumvarpinu er fjölmiðlanefnd gert að fylgjast með áhorfi landsmanna m.a. til að tryggja að a.m.k. 30% af efni sem er í boði hér sé í raun „evrópskt“. Skýrslur eiga að vera sendar reglulega til eftirlitsstofnunar EFTA, sem á m.a. að meta hvort framboð sé nægilegt af „evrópsku“ efni. Ef svo er ekki, geta evrópsk yfirvöld gripið til aðgerða gegn viðkomandi streymisfyrirtæki og krafist þess að lokað verði fyrir þjónustu fyrirtækisins á Íslandi.
Þetta frumvarp hringir mörgum viðvörunarbjöllum og nokkuð ljóst að það stenst engan veginn stjórnaskrá Íslands, en Í 73. grein hennar stendur m.a:
„Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningafrelsi má ALDREI Í LÖG LEIÐA“.
Með frumvarpinu er gerð hörð atlaga að tjáningafrelsi landsmanna. Innleiða á ógeðfellda ritskoðun sem yrði á forræði ESB, sem myndi ákveða hvaða efni væri nægilega „evrópskt“ samkvæmt einhverjum viðmiðunum og því við hæfi fyrir Íslendinga að horfa á. Næsta skrefið gæti orðið að settar verða hömlur á framboð bóka á netinu. Ef ESB ákvæði að fella niðurhal bóka undir þessa evróputilskipun og metið yrði svo að takmarka þyrfti framboð bóka sem væru ekki „evrópskar“. þá gæti orðið erfitt fyrir íbúa landsins, sem kaupa bækur af Amazon, að hala niður bókmenntaverkum eftir t.d. Ernest Hemingway, Mark Twain eða John Steinbeck. Þessir tveir miðlar, myndmál og ritamál, eru algerlega sambærilegir í nútímasamfélagi og hvortveggja mikilvægur hluti tjáningarfrelsis. Ef stjórnvöld hefja ritskoðun og takmarkanir á aðgengi borgaranna að myndmáli, er stutt í næsta skrefið. Sporin hræða og vegferðin sem ESB er að hefja með þessu eftirliti og takmörkunum á framboði myndefnis veit enginn hvert leiðir. Ísland á ekki að eiga þátt í henni.
Persónulega er ég áskrifandi að Netflix, Disney+ og Amazon Prime og tel fráleitt að eiga undir evrópskum embættismönnum hvaða efni er í boði fyrir mig og hvað ekki. Ekki er ósennilegt látið verða reyna á þessi ritskoðunarlög fyrir dómstólum ef það fer óbreytt í gegnum þingið.
Ég legg traust mitt á að þingið felli ofangreint frumvarp menntamálaráðherra ef það kemur fram, enda ber þingmanni að fara eftir og virða stjórnarskrá landsins og hafa ávallt hagsmuni landsmanna í huga.