“Samfélag okkar er ekki fullkomið en sú mynd, sem talsmenn sósíalisma úr ýmsum flokkum hafa haldið á lofti, er víðs fjarri raunveruleikanum.“
Birgir Ármannsson skrifar í Mbl
Baráttan vegna komandi kosninga er rétt að hefjast og ekki fyllilega komið fram hvaða málefni það verða, sem mesta athygli munu fá af hálfu flokkanna. Sumt er þó farið að skýrast, meðal annars það að allnokkrir flokkar og frambjóðendur á vinstri vængnum virðast telja það vænlegt til árangurs að staðsetja sig sem lengst til vinstri og kenna sig jafnvel við ómengaðan sósíalisma.
Málflutningur frá miðri síðustu öld
Að hluta til birtist þessi vinstri sveifla í stefnumálum viðkomandi flokka, en þó enn frekar í upphrópunum og orðavali, sem oft á tíðum ber meiri keim af stjórnmálaumræðu frá miðri síðustu öld heldur en þeim áherslum sem ríkjandi hafa verið í stjórnmálaumræðu á Vesturlöndum síðustu 30 árin eða svo. Málflutningurinn snýst um stéttabaráttu, öreiga og auðkýfinga, ofurríka fámenna yfirstétt sem mergsýgur snauða alþýðuna, andúð á atvinnurekstri í einkaeigu og ofurtrú á ríkislausnum og opinberum rekstri. Birtingarmyndirnar eru mismunandi en undirtónninn sá sami; til að bjarga almenningi úr heljargreipum kapítalismans þarf að umbreyta samfélaginu í anda sósíalískrar hugmyndafræði. Virðist þá litlu skipta, að allar tilraunir til að byggja þjóðskipulag á þeim grunni hafa endað með skelfingu. Flokkurinn, sem fremstur fer í þessum málflutningi, kennir sig feimnislaust við sósíalisma en fleiri leita á sömu mið. Sérstaklega hefur hraðferð Samfylkingarinnar til vinstri vakið athygli en augljóst er að sá flokkur lítur á Sósíalistaflokkinn sem harðvítugan samkeppnisaðila. Vinstri græn vilja svo auðvitað minna á sig í þessu sambandi og mun það sjálfsagt færast í aukana eftir því sem nær dregur kosningum.
Lesa meira