Almennum borgurum leyfist auðvitað ekki hvað sem er, en
stjórnskipun okkar er ætlað að sjá til þess að valdhöfum leyfist það
ekki heldur.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Hver og einn maður þarf daglega að svara því hvernig lífi hann vill lifa. Á vettvangi stjórnmálanna leitum við sameiginlega að svari við því hvernig samfélag við viljum búa til og verja. Flest það sem dýrmætast er, þ.m.t. mannleg reisn, grundvallast á því að við getum verið frjáls. Í því felst að við getum tekið ábyrgð á okkar eigin frelsi. Það gerum við með því að vinna með öðrum og leita jafnvægis, t.d. með því að nálgast viðfangsefnin með opnum huga, hlusta á aðra, efast um eigin niðurstöður, standa gegn þrúgandi kennivaldi, blindri kreddu og hvers kyns ofríki. Við hljótum að vilja búa í samfélagi sem lýtur ekki ströngum reglum tilbúinnar hugmyndafræði, heldur leyfir fólki að efast og rökræða, krefur ekki alla um undanbragðalausa hlýðni og stjórnast ekki af heraga, heldur treystir borgurunum til að stýra eigin lífi út frá eigin innsæi, reynslu og skynsemi. Góðir stjórnendur virða lexíur mannkynssögunnar og siðferðilegar undirstöður vestrænnar stjórnskipunar- og lagahefðar, þar sem einstaklingurinn fremur en hópur eða heild er grunneining samfélagsins og þar sem lögin leitast við að viðurkenna og vernda dýrmæta sérstöðu hvers manns.
Torkennileg undiralda
Allt þetta rifjast upp daglega á þessum undarlegu tímum þegar stjórnvöld gerast sífellt ágengari gagnvart daglegu lífi borgaranna með vísan til kórónuveirunnar (C19). Gefnar eru út almennar fyrirskipanir, án tillits til einstaklingsbundins heilsufars eða persónulegs ástands hvers og eins. Almenn grímuskylda er eitt dæmi. Annað dæmi er sú ráðagerð að sprauta ungmenni og jafnvel börn, sem eru þó í lítilli hættu vegna C19, með lyfjum sem enn eru á tilraunastigi. Getur verið að læknisfræðin hafi í kófi síðustu missera villst af leið og læknar misst sjónar á því grunnviðmiði að meðferð eigi sér ekki aðeins vísindalega stoð heldur gagnist einstaklingnum sem hún beinist að?
Lesa meira




